Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 534. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1189  —  534. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um viðmiðunarreglur menntamálaráðuneytisins (normtölur) fyrir byggingar framhaldsskóla.

     1.      Hvenær voru viðmiðunarreglur (normkostnaður) ráðuneytisins fyrir byggingar framhaldsskóla fyrst settar og hvað lá að baki þeim?
     2.      Hvernig voru þessar normtölur í upphafi?

     3.      Hvernig og á hvaða árum hafa þær breyst?
     4.      Hverjar hafa leiðréttingarnar verið, skipt eftir árum?

    Hinn 30. ágúst 1978 gaf menntamálaráðuneytið út reglugerð um stofnkostnað skólamannvirkja. Var hún sett með vísan til laga nr. 63/1974, um grunnskóla, og laga nr. 49/1967, um skólakostnað. Á þessum tíma voru í gildi mjög ítarlegar reglur (norm) um stærð og alla gerð og búnað grunnskólabygginga. Um gerð framhaldsskólahúsa giltu hins vegar ekki fastar reglur, en gert var ráð fyrir að viðmiðunarfjárhæðir tækju mið af grunnskólanormum.
    Á árunum um og upp úr 1970 hafði verið safnað miklum gögnum um kostnað við nokkrar grunnskólabyggingar sem þá voru í smíðum og voru þær upplýsingar lagðar til grundvallar þegar ákvörðuð var sérstök normtala fyrir skólabyggingar. Forsendur þeirrar tölu eru því að ýmsu leyti aðrar heldur en þeirra bygginga sem miðað er við í útreikningi Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins á þróun byggingarvísitölu.
    Í 6. mgr. 11. gr. fyrrnefndrar reglugerðar segir: „Beinn byggingarkostnaður er áætlaður kr. 70.000 á hvern vergan (brúttó) fermetra gólfflatar. Er þá miðað við vísitölu byggingarkostnaðar 100 stig samkvæmt lögum nr. 93/1975 og breytist sú tala í hlutfalli við breytingar vísitölunnar...“. Hafa þarf í huga að 1. janúar 1981 var gengi íslensku krónunnar breytt og verðgildi hennar hundraðfaldað með lögum nr. 35/1979. Viðmiðunarkostnaður á vergan fermetra skólahúsnæðis breyttist því úr kr. 70.000 kr. í 700 kr.
    Í 7. mgr. sömu greinar er heimilað að reikna allt að 5% álag á grunntölu beins byggingarkostnaðar vegna flutnings á efni og byggingarmönnum, eftir því sem fjarlægðir segja til um, og allt að 7% álag vegna kostnaðar við mötuneyti og dvalaraðstöðu, eða allt að 12% alls. Þessi viðbótarálög eru háð því að fyrir liggi nákvæm og sundurliðuð áætlun sveitarstjórna um flutningskostnað og kostnað við mötuneyti og dvalaraðstöðu. Heimilt var einnig að semja um annars konar álag á grunntölu stofnkostnaðar þar sem sérstakar aðstæður voru fyrir hendi.
    Sá kostnaður sem hér um ræðir er vegna hönnunar, útboðs og eftirlits auk verktakakostnaðar. Samkvæmt lögum leggja þau sveitarfélög sem hlut eiga að máli til byggingarhæfa lóð á sinn kostnað. Jafnan er samið sérstaklega um kostnað vegna lóðarfrágangs og kaupa á lausum búnaði, og er sá kostnaður utan við svonefndan normkostnað. Oftast hefur þó verið miðað við byggingarkostnað skólahússins sjálfs og kostnaður við búnað og lóð ákvarðaður sem tiltekið hlutfall þar til viðbótar. Þetta hlutfall er allbreytilegt og háð gerð skólalóðar og tegund skóla.
    Fyrrnefnd reglugerð mun hafa gilt óbreytt til ársins 1996. Á árunum eftir 1980 eru gerðir allmargir stofnsamningar um framhaldsskólabyggingar. Þar er tekið með ýmsu móti á ákvörðun stofnkostnaðar. Sem dæmi má taka að í þremur samningum sem gerðir voru árið 1983 er að finna viðauka á grunntölu vegna stjórnunar, veitu- og heimæða, og fæðis- og flutningskostnaðar.
    Þessar álagstölur hækkuðu eftir því sem leið á áratuginn og á árunum 1985–90 er álagstalan oft 16% en í einstökum tilvikum 18%. Síðar vann starfshópur sveitarstjórnarmanna og starfsmanna ráðuneytisins að undirbúningi að setningu reglugerðar um stofnkostnað og búnað framhaldsskóla. Ekkert varð þó af setningu þeirrar reglugerðar, fyrst og fremst vegna þess að í viðræðum um málið varð fljótlega ljóst að framhaldsskólarnir væru svo ólíkir innbyrðis að slíkar reglur mundu ekki koma að gagni.
    Þótt ekki yrði af setningu nýrrar reglugerðar var sú ákvörðun tekin í framhaldi af nefndarstarfinu árið 1989 að í staðinn fyrir að semja sérstaklega um álag á grunntölu fyrir hverja einstaka byggingu skyldi bætt 20% ofan á 700 kr. frá 1975. Frá og með árinu 1991 voru síðan gerðar breytingar á fjárhæðum vegna tilkomu virðisaukaskatts. Hækkaði viðmiðunarkostnaðurinn þá um 8,25%.
    Loks var ákveðið í lok ársins 2003 að bæta enn við 5%, m.a. vegna aukinna kvaða um eldvarnir.

     5.      Hvernig er normtala á fermetra skólahúsnæðis samsett eftir einstökum verkhlutum:
               a.      við upphafsár,
               b.      við leiðréttingar,
               c.      í árslok 2003?

    Normkostnaður á fermetra skólahúsnæðis er almennt ekki sundurliðaður á verkhluta.

     6.      Hver hefur þróun normtölunnar verið frá upphafi miðað við byggingarvísitölu?
    Byggingarvísitalan sem sett var 100 stig árið 1975 stendur nú (febrúar 2004) í 13.678 stigum. Því má segja að vísitalan hafi margfaldast með 136,78.
    Grunntala stofnkostnaðar skólabygginga var talin 700 kr. á fermetra m.v. árið 1975. Samsvarandi tala byggingarkostnaðar á fermetra er nú 130.593 kr. Sú tala er án kostnaðar við lóðarfrágang og lausabúnað, sem kemur til skipta í sömu hlutföllum og annar stofnkostnaður. Ætla má að sá kostnaður nemi að jafnaði um 27–30%, sem þýðir að viðmiðunarkostnaður fullbúins skóla getur numið um 165–169 þús. kr.
    Samkvæmt því hefur normkrónan margfaldast með 186,56 eða 36,4% umfram byggingarvísitöluna.