Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 816. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1244  —  816. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Í stað „2.752 kr.“ í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: 4.096 kr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Atvinnuleysisbætur skulu greiddar í samræmi við 1. gr. frá og með 1. mars 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þann 7. mars 2004 undirrituðu Starfsgreinasambandið og Flóabandalagið kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins. Í 3. tölul. yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar vegna þessara kjarasamninga frá sama degi segir svo:
                 „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að atvinnuleysisbætur hækki og verði frá 1. mars 2004 kr. 88.767 en hækki síðan um 3% 1. janúar 2005, 2,5% 1. janúar 2006 og um 2,25% 1. janúar 2007.“
    Í 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, með síðari breytingum, er meðal annars kveðið á um hámarksbætur atvinnuleysistrygginga. Í núgildandi ákvæði segir að hámarksbætur atvinnuleysistrygginga skuli nema 2.752 kr. á dag. Fjárhæð hámarksbóta kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Félagsmálaráðherra er þó heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta bótafjárhæð ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.
    Breytingar hafa verið gerðar á hámarksbótum með auglýsingum félagsmálaráðherra sem tóku gildi
1. janúar 1999 2.862 kr.
1. janúar 2000 2.965 kr.
1. janúar 2001 3.075 kr.
1. febrúar 2001 3.137 kr.
1. janúar 2002 3.404 kr.
1. janúar 2003 3.574 kr.
1. janúar 2004 3.681 kr.
    Í ljósi þess að fyrrgreind yfirlýsing ríkisstjórnarinnar felur í sér 11,3% hækkun á hámarksbótum atvinnuleysistrygginga er frumvarp þetta lagt fram.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að hámarksbætur atvinnuleysistrygginga verði 4.096 kr. á dag. Samsvarar sú hækkun fyrrgreindri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Um 2. gr.

    Gert er ráð fyrir að hækkun atvinnuleysisbóta taki gildi á sama tíma og umræddir kjarasamningar, þ.e. frá 1. mars 2004.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar,
nr. 12/1997, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að hámarksbætur atvinnuleysistrygginga skuli nema 4.096 kr. á dag frá og með 1. mars 2004. Er það í samræmi við 3. tölul. yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins sem undirritaðir voru 7. mars sl. Þar segir, að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að atvinnuleysisbætur hækki og verði frá 1. mars 2004 kr. 88.767, en hækki síðan um 3% 1. janúar 2005, 2,5% 1. janúar 2006 og um 2,25% 1. janúar 2007.
    Framangreind hækkun felur í sér 11,3% hækkun á hámarksbótum atvinnuleysistrygginga og eykur útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs um 330 m.kr. á árinu 2004, en um 400 m.kr. miðað við heilt ár.