Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 203. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1265  —  203. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um Evrópufélög.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands, Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Elínu S. Jónsdóttur frá dómstólaráði, Ragnar Þ. Jónasson frá Kauphöll Íslands og Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins. Þá barst nefndinni nokkur fjöldi umsagna um málið sem segja má að hafi allar verið jákvæðar hvað varðar meginefni frumvarpsins þó svo að einstaka umsagnaraðili hefði kosið breytingar á tilteknum ákvæðum þess.
    Meginefni frumvarpsins eru reglur er varða stofnun og stjórnun Evrópufélaga. Fylgiskjal við frumvarpið er íslensk þýðing reglugerðar ráðsins (EB) nr. 2157/2001, um samþykktir fyrir Evrópufélög (SE). Verði frumvarpið að lögum munu ákvæði reglugerðarinnar hafa lagagildi hér á landi. Með reglugerðinni er félögum er starfa í meira en einu ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins gefinn sá valkostur að stofna eitt félag samkvæmt ákveðnum reglum þannig að það geti starfað á grundvelli einna reglna um stjórn o.fl. í stað þess að þurfa að starfa á grundvelli reglna í mismunandi löndum þar sem félögin hafa útibú. Félög sem velja þetta rekstrarform munu kallast Evrópufélög og verður þeim skylt að hafa skammstöfunina SE í heiti sínu. Evrópufélagsreglugerðin á að öðlast gildi 8. október 2004 og skulu öll aðildarríkin hafa innleitt hana í rétt sinn á þeim degi.
    Verði frumvarpið að lögum verður aðild starfsmanna að málum og ákvörðunum sem snerta starfsemi Evrópufélags lögbundin sem er nokkuð frábrugðið því fyrirkomulagi sem venjulegt er hér á landi. Um aðild starfsmanna að Evrópufélögum gilda ákvæði tilskipunar 2001/86/EB. Félagsmálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um aðild starfsmanna að Evrópufélögum sem byggist á tilskipuninni og er nátengt þessu frumvarpi.
    Í IV. og VI. kafla frumvarpsins eru dómstólum landsins falin ákveðin verkefni. Dómstólaráð sem fékk málið til umsagnar mótmælti því ekki að dómstólum væru fengin þessi nýju verkefni en fór fram á í umsögn sinni að lagt yrði mat á fjölda mála sem búast mætti við að kæmu til dómstóla ef frumvarpið yrði að lögum og þann kostnaðarauka í rekstri héraðsdómstólanna sem því fylgdi. Þetta ræddi nefndin sérstaklega. Það var niðurstaða nefndarinnar að samþykkt frumvarpsins mundi hafa óveruleg eða engin áhrif á verkefni dómstóla á yfirstandandi fjárlagaári enda ekki hægt að koma Evrópufélagi á laggirnar fyrr en eftir 8. október 2004 þegar reglugerðin tekur gildi. Erfiðara er að spá lengra fram í tímann þar sem ekki er við neina reynslu að styðjast. Það er þó mat nefndarinnar að litlar líkur séu á að um mörg mál verði að ræða fyrstu árin þar sem þetta form á eftir að sanna sig, að öllum líkindum mun það helst henta stærri fyrirtækjum og óvíst er hve spennandi kostur Evrópufélag er fyrir athafnalífið á meðan ekki hefur tekist að samræma ýmsa aðra þætti félagaréttar og skattaréttar innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Frumvarpið og reglugerðin um Evrópufélög eru liður í framþróun félagaréttar á Evrópska efnahagssvæðinu sem Ísland verður að taka þátt í. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
     1.      Lagt er til að síðari málsliður 3. mgr. 6. gr. falli brott þar sem upptalningin þar er óþörf og fellur ekki vel að fyrri hluta málsgreinarinnar. Þá er lagt til að leiðrétt verði tilvísun sem er í 4. mgr. þannig að þar sem í frumvarpinu stendur „4. mgr.“ komi: 3. mgr.
     2.      Lagt er til að í stað orðanna „á ákveðnum degi“ í 2. mgr. 13. gr. komi „tveimur vikum eftir birtingu flutningstillögu í Lögbirtingablaði“ og þannig skerpt hvenær kröfuhafar verða að hafa tilkynnt að þeir leggist gegn flutningi Evrópufélags. Það að frestur kröfuhafa til að mótmæla sé festur í ákvæðinu á þennan hátt á að auðvelda félögum að undirbúa flutning og uppgjör skulda og trygginga.
     3.      Lagt er til að sá tími sem eftirlitsstjórnarmaður í Evrópufélagi má gegna starfi framkvæmdastjórnarmanns verði lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá til að auka svigrúm félaga við þær sérstöku aðstæður sem ákvæðinu er ætlað að taka til.
     4.      Lagt er til að kröfu í 1. mgr. 20. gr. um að fæst fimm menn sitji í eftirlitsstjórn Evrópufélags með tvíþætt stjórnkerfi verði breytt þannig að krafist verði þriggja manna þar sem nefndin telur að í mörgum félögum eigi þriggja manna eftirlitsstjórn að geta sinnt vel þeim verkum sem eftirlitsstjórn er ætlað að sinna.
    Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Gunnar Örlygsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 29. mars 2004.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Birgir Ármannsson.Dagný Jónsdóttir.


Gunnar Birgisson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.Jóhanna Sigurðardóttir.


Ögmundur Jónasson.