Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 857. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1314  —  857. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun skaðabótalaga, nr. 50/1993, með síðari breytingum.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að gangast fyrir endurskoðun á skaðabótalögum nr. 50/1993, með síðari breytingum. Sérstaklega verði hugað að endurskoðun á þeim ákvæðum laganna sem snúa að bótum til eftirlifandi maka eða sambúðarmaka vegna missis framfæranda. Endurskoðuninni verði lokið og frumvarp til breytinga lagt fyrir Alþingi eigi síðar en 1. nóvember 2004.

Greinargerð.


    Tillagan miðar að endurskoðun skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum. Sérstaklega miðar hún að því að þau ákvæði laganna sem snúa að bótum til eftirlifandi maka eða sambúðarmaka vegna missis framfæranda verði endurskoðuð. Í 13. gr. laganna er nú kveðið á um að bætur fyrir missi framfæranda til maka eða sambúðarmaka skuli vera 30% af þeim bótum sem ætla megi að hinn látni mundi hafa átt rétt á fyrir algera (100%) örorku, sbr. ákvæði 5. 8. gr. laganna. Bætur skulu þó ekki nema lægri fjárhæð en 3.000.000 kr. nema sérstaklega standi á. Skv. 4. mgr. 5. gr. laganna dragast frá greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum, bætur frá slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum og bætur frá sams konar slysatryggingu manns sem slasast sem farþegi í eigin ökutæki. Þá dragast greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega frá skaðabótakröfu hans á hendur þeim vinnuveitanda sem keypti slysatrygginguna. Bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu skal einnig draga frá skaðabótakröfu og jafnframt skal draga frá henni 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal við útreikninginn miðað við 4,5% ársafvöxtun.
    Flutningsmaður telur að þessu fyrirkomulagi eigi að breyta og telur það ósanngjarnt að miða bætur fyrir missi fullfrísks maka við örorku og að draga frá fjárhæðinni þær bætur sem viðkomandi látinn einstaklingur hefði fengið frá Tryggingastofnun ríkisins, úr slysatryggingum og sem örorkulífeyri frá lífeyrissjóði.



Fylgiskjal.


Ásta Kristín Siggadóttir:

Með lögum skal land byggja, en ólögum eyða.
Hugleiðingar og áskorun eftir nýfallinn hæstaréttardóm
í kjölfar vinnuslyss í Straumsvík 2001.

(Morgunblaðið 5. mars 2004.)


    Hvers virði er mannslífið samkvæmt íslenskum lögum þegar til þess kemur að meta það í krónum og aurum?
    Hver ber ábyrgð þegar vinnuslys gerast? Forðast menn jafnvel að taka á slíkum málum vegna þess að það er óþægilegt? Eða eru ef til vill einhverjar aðrar skýringar?
    Fyrir tæpum 3 árum varð undirrituð fyrir því mikla áfalli að missa eiginmann og fyrirvinnu fjölskyldunnar í hörmulegu vinnuslysi í Álverinu í Straumsvík. Sú sára reynsla og sorg hefur markað sín spor á líf okkar síðan og er skemmst frá því að segja að veröldin fór gjörsamlega á hvolf. Þegar slys verða, ástvinur er numinn á brott og fótunum kippt undan manni, er nokkur huggun fólgin í því að vita að til sé réttarkerfi manni til halds og trausts. Að vita að til sé kerfi sem hægt er að leita til svo lífið megi að einhverju leyti færast í viðunandi horf.
    Það hjálpar einnig að stéttarfélög séu tilbúin að styðja mann í því að ná fram þeim rétti sem maður á, samkvæmt lögum.
    Nú kann einhver að hugsa sem svo, að það þurfi varla að hafa mikið fyrir því, að fá því framgengt sem maður á rétt á. Raunveruleikinn er nú samt allt annar. Það er engin sjálfvirkni í kerfinu, þar þarf að berjast fyrir hverju smáatriði. Til þess að ná fram rétti sínum þarf sérmenntaðan einstakling, lögfræðing, sem þekkir lagaumhverfið og sér um að málin gangi rétta leið, meðal annars fyrir dómstólum.
    Nú er það svo, að í raun og veru er aldrei hægt að meta mannslíf til peningaupphæðar og er það heldur ekki gert í lögunum, heldur er kveðið á um að það sé aflahæfi manna sem metið sé til bóta. Sá sem missir framfæranda ber skaða af því sem hinn látni hefði aflað honum til handa um ókomin ár. Þann skaða ber að bæta samkvæmt skaðabótalögum. Í lögum er kveðið á um að sá sem verði fyrir tjóni, skuli fá tjón sitt að fullu bætt.
    Það er staðreynd að ég og börnin misstum fullfrískan heimilisföður, hann var heill heilsu áður en slysið henti hann. En þegar til þess kemur að fá bæturnar greiddar eru þær miðaðar við örorku. Við þessa aðferðafræði skaðabótalaganna er ég mjög ósátt, við misstum fullfrískan mann og teljum sanngjarnt að fá bætur reiknaðar út frá því sem hann aflaði sem slíkur. En löggjafinn lætur ekki þar við sitja, þegar búið er að reikna út bæturnar samkvæmt örorku, dregur hann frá þær bætur sem viðkomandi látinn einstaklingur hefði fengið frá tryggingastofnun og lífeyrissjóði ef hann hefði lifað sem 100% öryrki. Þetta eru útreiknaðar upphæðir sem aldrei komu til greiðslu í þessu jarðlífi, en eru engu að síður dregnar frá sem um raunverulegar greiðslur hefði verið að ræða. Þetta eru mikil vísindi, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
    Svo farið sé hratt yfir sögu þá stóðu eftir 1,6 milljón króna sem skaðabætur þegar búið var að framkvæma allan þennan pappírslega örorkugjörning. Þetta er niðurstaða íslenskrar lagasetningar eftir að hafa farið í gegn um æðsta dómsvald landsins, Hæstarétt. En löggjafinn er dálítið góðhjartaður inn við beinið, þó hann sé langt því frá að vera langlundaður eins og sumir. Lögin kveða á um lágmarksbætur, að eigi skuli heimillt að greiða minni upphæð en 3 milljónir króna. En eftir stendur sú sára staðreynd, að aflahæfi 45 ára gamals fullfrísks einstaklings sem greitt hefur skatta og skyldur til þjóðfélagsins og hefði gert það áfram næstu 22 árin sé miðað við 67 ára starfsævi, er einungis metinn á 1,6 milljón króna til skaðabóta samkvæmt íslenskum lögum, þvílík ofrausn.
    Mál þetta er tvíþætt, annars vegar snýst það um útreikning bóta og hins vegar um ábyrgð, öryggi á vinnustað og hvort þar hafi átt sér stað ákveðið kæruleysi, jafnvel vanræksla. Vanræksla getur skapað refsiábyrgð og var mér fljótlega eftir útkomu lögregluskýrslu tjáð að sá þáttur yrði sendur af ákæruvaldinu til sýslumannsins í Hafnarfirði til umsagnar og mats. Hjá því ágæta embætti hefur hins vegar gengið mjög treglega að fá þessar niðurstöður. Þar á bæ báru menn ekki meiri virðingu fyrir sjálfum sér né verkefninu en svo, að ætlun þeirra var að afgreiða það símleiðis nú á dögunum, að rannsókn málsins hefði verið hætt í október 2001 um það leyti sem lögregluskýrslan kom út. Þeir höfðu ekki einu sinni fyrir því að tilkynna nánasta aðstandanda um að svo væri málum komið. Við þetta var ekki unað, bréf sent og farið fram á skriflegar rökstuddar niðurstöður. Og viti menn, nýlega hefur bréf borist frá Hafnarfirði. Það mun vera í allri lengd sinni um það bil 9 línur og kveður á um að ekki hafi verið um refsivert athæfi að ræða, enginn rökstuðningur fylgir. Það hlýtur að vera mjög alvarleg staðreynd en jafnframt upplýsandi fyrir hinn almenna launþega þessa lands, sérstaklega fyrir þá sem vinna áhættusöm störf, að fá að vita að á vinnustöðum geti þeir verið sendir til að sinna háskalegum störfum, án þess að vinnustaðurinn beri á því nokkra ábyrgð ef illa fer. Það hlýtur einnig að fá blóðið til að þjóta í æðum verkalýðsforingja, að vita hvernig allt er í pottinn búið.
    Er þetta virkilega réttarríkið Ísland, mér er spurn?
    Á því leikur enginn vafi og um það vitnar lögregluskýrslan svo ekki verður um villst, að ekki var gætt þess öryggis sem tilhlýðilegt mátti teljast þann 22. júní 2001. Dagskipunin hljóðaði upp á verk sem mátti í fyrsta lagi vinna einum sólarhring síðar.
    Um það vitna einnig hinar umfangsmiklu breytingar sem urðu á starfsumhverfinu í Straumsvík í kjölfarið á slysinu. Starfsmönnum bar einnig saman um að þeir hefðu til langs tíma litið verið undir óhóflegu álagi á vinnustaðnum og að slys sem þetta hefði einungis verið spurning um tíma, það hefði komið að því fyrr eða síðar.
    Að lokum er hér áskorun til löggjafarvaldsins, Alþingis Íslendinga, um að það beiti sér fyrir því að kveðið verði skýrt á um það í lögum, hvernig beri að reikna út bætur eftir fullfrískan einstakling, svo ekki verði hægt að fremja þar neinn örorkugjörning.
    Það að draga frá skaðabótum ógreiddar bætur sem fullfrískur einstaklingur hefði fengið ef hann hefði lifað sem 100% öryrki, og leggja sig niður við þá útreikninga er hrein vanvirða, það væri álíka rökrétt að draga frá útreikninga fyrir húsaleigu á himnum fyrir hinn látna. Að mínu viti eiga lögin að vera þannig úr garði gerð, að þar gæti sanngirni og að þau veki hjá manni traust og virðingu fyrir löggjafarvaldinu.