Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 944. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1438  —  944. mál.




Skýrsla



samgönguráðherra um störf rannsóknarnefndar sjóslysa fyrir árið 2003.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



    Samgönguráðherra skipar rannsóknarnefnd sjóslysa í samræmi við lög um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000.
    Nefndin var í byrjun árs þannig skipuð:
    Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður, formaður nefndarinnar,
    Emil Ragnarsson skipaverkfræðingur,
    Hilmar Snorrason, skipstjóri og skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna,
    Pétur Ágústsson skipstjóri,
    Pálmi K. Jónsson vélfræðingur.
    Frá og með 1. nóvember 2003 var Agnar Erlingsson skipaverkfræðingur skipaður aðalmaður í rannsóknarnefnd sjóslysa til 31. ágúst 2004 í stað Emils Ragnarssonar sem fékk lausn frá störfum að eigin ósk.
    Starfsmenn eru Jón A. Ingólfsson, sem er framkvæmdastjóri nefndarinnar, og Guðmundur Lárusson fulltrúi.
    Fjárveiting til nefndarinnar í fjárlögum ársins 2003 var 30,3 millj. kr. Á árunum 1994– 2003 var kostnaður við starfsemi nefndarinnar sem hér segir – tölur eru á verðlagi hvers árs en sambærilegar þar eð á árinu 2002 hefur verið tekið tillit til óreglulegs 8,4 millj. kr. kostnaðar vegna flutnings á starfsemi nefndarinnar út á land:

1994 7.705.328 kr.
1995 8.707.209 kr.
1996 8.756.513 kr.
1997 11.555.170 kr.
1998 16.204.272 kr.
1999 14.914.467 kr.
2000 17.659.880 kr.
2001 20.662.317 kr.
2002 24.791.935 kr.
2003 32.367.836 kr.

    Á árinu 2003 var vinnu haldið áfram við uppsetningu á vef nefndarinnar sem reyndist meiri vinna en áætlað var. Í lok ársins var lokið við að setja skýrslur nefndarinnar fyrir árið 2000, 2001 og 2002 inn á vefinn. Áætlað er að allar skýrslur verði komnar inn á vefinn í lok maí 2004 og vefurinn verður þá formlega opnaður. Gert er ráð fyrir að hann verði öflugur þáttur í starfi nefndarinnar í framtíðinni þar sem lokaskýrslur hennar birtast þá jafnóðum og þær eru afgreiddar.
    Árið 2003 bárust 134 mál til nefndarinnar og voru það heldur fleiri mál en undanfarin tíu ár en hafði þó fækkað frá árinu 2002 um 15. Þó má segja að um 20–30 mál sem bárust nefndinni séu tilkomin vegna vinnu nefndarinnar við að fá aðila til að sinna tilkynningum um slys til nefndarinnar betur en áður. Að því undanskildu má segja að um meðalár hafi verið að ræða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og fram kemur í töflu I fækkar málum sem koma til kasta nefndarinnar milli áranna 2002 og 2003 úr 149 í 136, um 9%. Tvö dauðaslys eru skráð á árinu, annað þar sem skipverji fór á milli skips og bryggju og hitt er óskýrt mannslát starfsmanns á þangskurðarpramma í Breiðafirði.
    Árið 2003 voru haldnir 11 nefndarfundir og í árslok var búið að afgreiða 84 mál frá því ári, 63 lokaskýrslur og 21 drög að lokaskýrslu, sem send voru út til umsagnar í desember. Einnig var lokið við að afgreiða mál frá árinu 2002 (72 af 149 málum). Samanlagt var því fjallað um og lokið við að afgreiða 156 mál á árinu. Um áramót voru 50 mál óafgreidd frá árinu 2003 og eitt mál frá 2002.
    Á árinu fóru starfsmenn og nefndarmenn á þrjá staði úti á landi til kynningar á nefndinni og störfum hennar. Kynningarfundir voru á Eskifirði í janúar, Akureyri í mars og á Ísafirði í maí. Efni fundanna var: a) Upplýsingar um nefndina almennt, nýtt lagaumhverfi og ný vinnubrögð. b) Framtíðarsýn rannsóknarnefndar sjóslysa. c) Sjóslys og rannsóknir. d) Minni fiskibátar farast, 1969–2000. e) Fyrirspurnir og umræða.
    Í þessum ferðum voru einnig heimsótt sýslumanns- og lögregluembætti á Eskifirði, Akureyri, Ólafsfirði, Ísafirði og Bolungarvík. Hjá þessum aðilum var sagt frá tilgangi nefndarinnar og farið yfir lög um hana, ásamt því að kynnt var mikilvægi lögreglunnar sem grunnupplýsingagjafa fyrir nefndina. Jafnframt var tilgangur þessara heimsókna að efla samstarf nefndarinnar við þá aðila sem hún á mikið samstarf við um rannsóknir mála, aðallega vettvangsrannsóknir.
    Nefndin notaði einnig þessar ferðir til hefðbundinna nefndarstarfa og er fyrirhugað að halda slíkum ferðum áfram á árinu 2004 og hugsanlega á árinu 2005. Ekki liggur fyrir nákvæm áætlun þar um.
    Á árinu var lokið viðamikilli rannsókn á björgunarferli sjóslyss sem varð í desember 2001 og var það fyrsta rannsókn nefndarinnar af því tagi. Þetta var gert samkvæmt sérstakri ósk frá samgönguráðuneytinu.
    Eins og á undanförnum árum kemur aðeins hluti mála til nefndarinnar, þ.e. af þeim málum sem nefndin ætti að fá til umfjöllunar lögum samkvæmt. Tafla II sýnir fjölda bótaskyldra slysa samkvæmt tilkynningum til Tryggingastofnunar ríkisins frá árinu 1994 til 2003. Eins og þar kemur fram varð fækkun á tilkynningum frá árinu á undan, úr 413 í 379 eða um 9%.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.