Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 655. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1444  —  655. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, Helga Hjörvars og Valdimars L. Friðrikssonar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hefur forsætisráðuneytið hrundið í framkvæmd aðgerðum til að ná fram jafnrétti kynjanna, sbr. 1. tölul. III. kafla þingsályktunar um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 1998? Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir hverju verkefni fyrir sig og hve miklu fé hefur verið varið til aðgerðanna.

1.1. Endurskoðun á kjördæmaskipan og kosningareglum.
    Forsætisráðherra skipaði í september 1997 nefnd til að endurskoða kjördæmaskipun og tilhögun kosninga til Alþingis. Nefndin lauk störfum í október 1998 og í framhaldi af því lagði forsætisráðherra fram skýrslu um endurskoðun á kjördæmaskipun og tilhögun kosninga til Alþingis á 123. löggjafarþingi (þskj. 141, 141. mál). Í skýrslu þessari er m.a. að finna álit Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands undir yfirskriftinni: Jafn réttur karla og kvenna til að kjósa og vera kjörin til þjóðþinga og héraðsstjórna (merkt fylgiskjal 7).
     Kostnaður.
    Kostnaður vegna úttektar Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands var 100.000 kr.

1.2. Þróun upplýsingasamfélagsins.
    Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið hefur um nokkurra ára skeið aflað tölfræðilegra upplýsinga um þróun upplýsingasamfélagsins og eru þær upplýsingar m.a. greindar eftir kyni. Nú hefur Hagstofan tekið að sér að afla reglubundið þessara upplýsinga um þróun upplýsingasamfélagsins. Árið 2000 skipulagði verkefnisstjórnin, í samvinnu við ýmsa aðila, fjölsótta ráðstefnu um konur og upplýsingatækni. Yfirmarkmið ráðstefnunnar var að stuðla að fjölgun kvenna í störfum í upplýsingaiðnaði og aukinni þátttöku kvenna í mótun upplýsingasamfélagsins. Í september 2003 skipaði forsætisráðherra nefnd til að vinna að endurskoðun stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið og koma með nýjar tillögur. Með nefndinni vann samráðshópur með fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila í samfélaginu og samráðsnefnd í málefnum upplýsingasamfélagsins sem skipuð er fulltrúum allra ráðuneyta. Stefnumótunarnefndin leitaði einnig eftir sjónarmiðum fjölmargra annarra aðila. Farið var yfir tölfræðilegar upplýsingar sem fyrir lágu og fjallað um þróun upplýsingasamfélagsins með tilliti til mismunandi stöðu kvenna og karla. Niðurstaða nefndarinnar var að hin stafræna gjá væri ekki á milli kynjanna, heldur á milli kynslóða. Helsti kynjamunurinn er greinanlegur í því að karlar sækja frekar en konur í nám sem tengist upplýsingasamfélaginu. Menntamálaráðuneytið hefur unnið að því að hvetja stúlkur til að sækja meira inn á námsbrautir sem tengjast þessu efni, en það er ekki talið heyra undir forsætisráðuneytið að sinna því. Því var ekki talið nauðsynlegt að þróa frekar stefnu um upplýsingasamfélagið á grundvelli kynjasjónarmiða. Hagstofan heldur þó áfram að safna upplýsingum og birta þær.
     Kostnaður.
    Kostnaður vegna ráðstefnunnar Konur og upplýsingasamfélagið hinn 14. apríl 2000 var 223.000 kr.
    Vinna við öflun tölfræðilegra upplýsinga var partur af annarri starfsemi upplýsingasamfélagsins og því var kostnaður við þá vinnu ekki sértilgreindur.
    Varðandi kostnað Hagstofunnar við öflun tölfræðilegra upplýsinga um þróun upplýsingasamfélagsins vísast í svar ráðherra Hagstofu Íslands á þskj. 1159, 659. mál.

1.3. Staða kvenna á landsbyggðinni.
    Að beiðni forsætisráðuneytisins vann Þjóðhagsstofnun skýrslu um könnun á áhrifum atvinnu- og þjóðfélagsbreytinga á stöðu kvenna á landsbyggðinni. Skýrslan var gefin út af félagsmálaráðuneytinu og ber titilinn „Athugun á stöðu kvenna á landsbyggðinni“.
    Skýrsluna má nálgast á vef félagsmálaráðuneytisins á slóðinni: www.felagsmalaraduneyti.is/media/acrobat-skjol/Jafnretti.pdf.
     Kostnaður.
    Þegar Þjóðhagsstofnun vann skýrslur sem þessa fyrir ráðuneytin var ekki innheimt sérstaklega fyrir slíka vinnu heldur litið svo á að skýrslugerð af þessu tagi væri eðlilegur hluti af starfsemi stofnunarinnar. Þar af leiðandi liggur ekki fyrir sértilgreindur kostnaður í bókhaldi Þjóðhagsstofnunar við gerð skýrslunnar.

1.4. Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Þegar skipað er í nefndir, stjórnir og ráð á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er. Hinn 1. ágúst 2003 voru konur 30% fulltrúa í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ráðuneytisins. Í allflestum tilvikum er svo staðið að skipun í nefndir, stjórnir og ráð að flestir hljóta skipun samkvæmt tilnefningu þriðja aðila eða eru kosnir til slíkrar setu. Því er stefnt að því að þegar ráðuneytið óskar eftir tilnefningum frá öðrum skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli, og þannig tryggt að hlutfall kynja verði sem jafnast.
     Kostnaður.
    Enginn sértilgreindur kostnaður hefur verið hjá ráðuneytinu vegna vinnu við að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum.

1.5. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um jafnrétti eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.
    Unnið er að því að koma á tengiliðum jafnréttismála í öllum undirstofnun ráðuneytisins. Þess má þó geta að í Seðlabanka Íslands hefur verið starfandi jafnréttisnefnd um nokkurra ára skeið. Flestar undirstofnanir ráðuneytisins eru það smáar í sniðum (færri en 25 starfsmenn) að þeim ber ekki skylda til samkvæmt jafnréttislögum að setja sér jafnréttisáætlanir.
    Jafnréttisnefnd forsætisráðuneytisins var skipuð 1. mars 2003 og sitja í henni þrír fulltrúar ráðuneytisins. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er jafnframt formaður nefndarinnar. Jafnréttisnefndin skal ásamt jafnréttisfulltrúa leggja áherslu á það að framfylgja ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, innan ráðuneytisins. Auk þess skal nefndin vinna með jafnréttisfulltrúa að þeim verkefnum sem skilgreind hafa verið sem hlutverk jafnréttisfulltrúa.
    Forsætisráðuneytið hefur ekki lokið við að semja eigin jafnréttisáætlun en starfar samkvæmt starfsmannastefnu og jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins. Í árslok 2003 stóðu jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna fyrir skoðanakönnun um viðhorf starfsmanna Stjórnarráðs Íslands til jafnréttismála. Könnunin var liður í gerð jafnréttisáætlana og markmiðasetningar í jafnréttismálum ráðuneyta. IMG Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar í samvinnu við jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Umfjöllun um niðurstöður könnunarinnar er að finna í fréttatilkynningu á vef forsætisráðuneytisins: www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/1271.
     Kostnaður.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins sinnir því starfi samhliða öðrum daglegum störfum og því enginn kostnaður sérgreindur vegna starfa hans. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins er ólaunuð. Kostnaður vegna þeirra ráðstefna og námskeiða sem jafnréttisfulltrúi hefur sótt er talinn eðlilegur hluti af endurmenntun starfsmanns samkvæmt starfsmannastefnu og því ekki sértilgreindur.
    Heildarkostnaður af sameiginlegri könnun um stöðu jafnréttismála meðal starfsmanna stjórnarráðsins var um 1,3 millj. kr. og var hlutur forsætisráðuneytisins 70.625 kr.
    
    Sé óskað ítarlegri skýringa við hvert verkefni er vakin athygli á skýrslum félagsmálaráðherra um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna sem lagðar hafa verið fram á Alþingi:
    126. löggjafarþing, þskj. 1433, 745. mál,
    127. löggjafarþing, þskj. 1290, 732. mál,
    130. löggjafarþing, þskj. 1332, 874. mál.