Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 855. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1519  —  855. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, og l. nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, o.fl.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurjón Örn Þórsson, aðstoðarmann félagsmálaráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, aðstoðarmann fjármálaráðherra, Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Ingólf V. Gíslason frá Jafnréttisstofu, Sigríði Lillý Baldursdóttur og Hallveigu Thordarson frá Tryggingastofnun ríkisins, Gissur Pétursson og Sigurð P. Sigmundsson frá Vinnumálastofnun, Gísla Tryggvason frá BHM, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Gylfa Arnbjörnsson frá ASÍ, Ragnar Ingimundarson og Jens Andrésson frá BSRB, Friðbert Traustason frá Sambandi íslenskra bankamanna, Garðar Sverrisson frá Öryrkjabandalagi Íslands, Ingimund Svein Pétursson frá Félagi einstæðra foreldra og Baldvin Ólafsson frá Félagsstofnun stúdenta.
    Nefndinni barst fjöldi skriflegra umsagna, þar á meðal frá flestum framangreindum aðilum og komu þær allar að gagni við umfjöllun nefndarinnar um málið.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, auk breytinga á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, og lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Megintilgangur frumvarpsins er að styrkja stöðu Fæðingarorlofssjóðs. Lagðar eru til breytingar á fjármögnun sjóðsins sem felast í hækkun þess hluta tryggingagjalds sem rennur í sjóðinn, tengingu við tekjuárið og að sett er þak við 480.000 kr. á mánuði á þær greiðslur sem hver einstaklingur getur fengið greiddar úr sjóðnum.
    Meiri hlutinn telur eðlilegt að helstu ákvæði laga nr. 95/2000 komi til endurskoðunar nú þegar nokkur reynsla er komin á framkvæmd þeirra. Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafa verið meiri en ráð var fyrir gert við gildistöku laganna og því miður hafa reglurnar reynst of opnar í einstaka tilfellum sem hefur torveldað framkvæmd og auðveldað einstaklingum að krefja sjóðinn um hærri greiðslur en að var stefnt með lögunum.
    Hin mikla ásókn í sjóðinn er jákvæð og þá sérstaklega hvað varðar fjölda feðra sem á grundvelli laganna hafa valið að taka fæðingarorlof. Það er þó því miður þannig að aukin ásókn þýðir aukin útlát hjá sjóðnum og nú eru greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði meiri en hann getur staðið undir til langs tíma. Við því verður að bregðast á ábyrgan hátt þannig að gætt sé að fjárhagslegri stöðu sjóðsins en jafnframt að ekki sé raskað um of því markmiði laganna að tryggja barni samveru við báða foreldra á fyrstu mánuðum ævinnar. Þessu telur meiri hlutinn að verði náð með þeim tillögum sem gerðar eru í frumvarpinu um hámark mánaðarlegra greiðslna úr sjóðnum sem sett er tiltölulega hátt, skýrari reglum en nú eru í lögunum um hvernig leiðrétta megi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, bættri upplýsingaöflun og auknu eftirliti, sbr. 5. og 6. gr. frumvarpsins, auk hækkunar þess hlutfalls sem renna skal í Fæðingarorlofssjóð af almennu tryggingagjaldi, sbr. 12. gr. frumvarpsins.
    Sú tenging sem lögð er til í frumvarpinu milli greiðslu fæðingarorlofs og skattkerfisins er jákvæð að mati meiri hlutans. Auðveldara verður fyrir einstaklinga að gera sér grein fyrir rétti sínum og um leið eru takmarkaðir þeir möguleikar sem einstaklingar geta haft til að gefa upp í umsókn til Fæðingarorlofssjóðs annað en raunverulegar tekjur. Meiri hlutinn fellst á að lenging viðmiðunartímabilsins úr 12 mánuðum í tvö tekjuár muni leiða til aukins jafnvægis milli inn- og útstreymis úr Fæðingarorlofssjóði. Erfiðara verður fyrir einstaklinga að stjórna þeim tekjum sem þeir sýna til viðmiðunar á greiðslum úr sjóðnum og tengingin við tekjuárið leiðir einnig til þess að allar upplýsingar verða skýrari.
    Í 7. mgr. 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um hvernig hámarksgreiðslur og lágmarksgreiðslur geta tekið breytingum á milli ára eftir þróun launa, verðlags og efnahagsmála auk þess sem ráðherra er veitt heimild til að breyta fjárhæðunum til hækkunar við ákveðnar aðstæður. Með þessu er tryggt að fjárhæðir sem settar eru niður í frumvarpinu standi ekki í stað óháð breytingum á vinnumarkaði.
    Meiri hlutinn gerir ekki aðrar athugasemdir við II. og III. kafla frumvarpsins en þær sem þegar er sagt frá.
    Meiri hlutinn telur að með því að mæla svo fyrir að lögin öðlist ekki gildi fyrr en 1. janúar 2005 sé þess gætt að skerða ekki rétt einstaklinga til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á afturvirkan hátt.
    Meiri hlutinn leggur til þá breytingu á 1. efnismgr. 4. gr. frumvarpsins að réttur til fæðingarorlofs verði miðaður við raunverulegan fæðingardag barns í stað áætlaðs fæðingardags.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 4. gr. Í stað orðanna „áætlaðan fæðingardag“ í 1. málsl. og lokamálslið 1. efnismgr. komi: fæðingardag.

    Pétur H. Blöndal skrifar undir álitið með fyrirvara er varðar 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins.

Alþingi, 21. apríl 2004.Guðlaugur Þór Þórðarson,


varaform., frsm.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Birkir J. Jónsson.Birgir Ármannsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.