Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 971. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1522  —  971. mál.




Skýrsla



samgönguráðherra um framkvæmd langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda fyrir árin 2001–2003.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



I. Langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda.
    Hinn 19. maí 2001 var samþykkt á Alþingi tillaga til þingsályktunar um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda sem samgönguráðherra lagði fram á Alþingi, en hún hefur verið birt í A-deild Stjórnartíðinda, nr. 99/2001. Í þingsályktuninni segir að samgönguráðherra skuli fyrir 1. apríl hvers árs, fyrst árið 2002, leggja fyrir Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar og hvernig henni miðar í átt að settu marki.

II. Aðdragandi.
    Í byrjun ársins 2000 ákvað samgönguráðherra að hefja vinnu við að gera langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda. Skipuð var sérstök verkefnisstjórn 16. febrúar 2000 til að halda utan um verkið og var hún skipuð eftirfarandi fulltrúum, aðalmönnum og varamönnum: Frá samtökum sjómanna Guðjón Ármann Einarsson og Halldór A. Guðmundsson, frá samtökum útgerðarmanna Guðfinnur Johnsen og Örn Pálsson, frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg Hilmar Snorrason og Gunnar Tómasson, frá Siglingastofnun Íslands Jón Bernódusson og Ari Guðmundsson og frá samgönguráðuneyti Helgi Jóhannesson formaður og Jósef H. Þorgeirsson varaformaður.
    Langtímaáætlunin var unnin í samráði við hagsmunaaðila og kynnt á fundum siglingaráðs. Undirbúningur verksins fór fram innan Siglingastofnunar Íslands sem réð til sín tímabundið Ingimund Valgeirsson verkfræðing til að vinna að verkefninu. Á heimasíðu Siglingastofnunar Íslands, www.sigling.is/oryggi2000, var kynning á verkefninu og var öllum sem láta sig öryggismál sjómanna varða gefinn kostur á að koma eigin sjónarmiðum að. Til að geta betur metið leiðir sem þarf að fara til að bæta öryggi sjófarenda almennt var óskað eftir athugasemdum og tillögum frá sjómönnum, útgerðum og öllum sem málið varðar. Tekin voru saman ýmis sjónarmið sem fram hafa komið í skýrslum og almennri umræðu, svo sem í blöðum, tímaritum og á ráðstefnum. Sérsniðnar spurningar um öryggismál voru sendar til útgerðarfyrirtækja og sjómanna. Svör bárust frá um 120 starfandi sjómönnum og auk þess komu fram ýmsar aðrar skriflegar og munnlegar athugasemdir. Teknar voru saman upplýsingar úr þeim tilkynningum um slys á sjómönnum sem bárust Tryggingastofnun ríkisins árið 1999. Skoðaðar voru nýlegar sjóslysaskýrslur og rætt var við ýmsa aðila sem hafa góða þekkingu á ákveðnum sviðum öryggismálanna.
    Þegar athugasemdir og tillögur lágu fyrir kom í ljós að af ýmsu var að taka. Nauðsynlegt var að meta athugasemdir og velja úr og forgangsraða verkefnum eftir mikilvægi og umfangi. Í sumum athugasemdunum fólst talsverð gagnrýni á ákveðna aðila og sjálfsagt er hægt að grafast fyrir um hvort hún er á rökum reist en varast þarf að dæma heildina út frá einstaka tilvikum innan hvers málaflokks. Þegar áðurnefnd atriði höfðu verið skoðuð og metin dró verkefnisstjórn út atriði varðandi öryggismálin og tengd málefni sem skoða ætti sérstaklega.

III. Tilgangur og markmið.
    Tilgangur með þingsályktun um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda er að hrinda af stað átaki í öryggismálum sjófarenda og að unnið verði eftir sérstakri áætlun í þeim málum á árunum 2001 til og með 2003. Markmið áætlunarinnar er að treysta öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra, sem og farþega á íslenskum skipum og skipum sem sigla í íslenskri efnahagslögsögu. Stefnt er að því að skilgreina hlutverk þeirra sem vinna að öryggismálum sjófarenda og að slysum til sjós fækki um að minnsta kosti þriðjung fram til ársins 2004.
    Á árinu 2004 verður lagt mat á hvort markmið um fækkun slysa hafi gengið eftir.

IV. Fjármögnun.
    Í þingsályktun Alþingis um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda er gert ráð fyrir að veittar verði til hennar 10 millj. kr. á árinu 2001, 15 millj. kr. á árinu 2002 og 20 millj. kr. á árinu 2003, alls 45 millj. kr. á tímabilinu öllu.
    Í fjárlögum fyrir árið 2001 var ekki kveðið á um sérstaka fjárveitingu til áætlunarinnar á árinu 2001. Í ákvæði til bráðabirgða með lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, sem samþykkt voru á Alþingi 20. maí 2001 kom eftirfarandi fram: „Undanþágusjóður, sem starfar skv. 3. mgr. 21. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum, og 3. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984, með síðari breytingum, skal lagður niður. Andvirði sjóðsins skal notað til að standa straum af kostnaði við langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda.“
    Vegna þessa ákvæðis skrifaði samgönguráðuneytið bréf, dags. 15. maí 2001, til undanþágunefndar sem starfar samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum laga um atvinnuréttindi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna og vakti athygli nefndarinnar á nefndu ákvæði til bráðabirgða. Í bréfi ráðuneytisins kom þetta m.a. fram: „Í ljósi þessara breytinga telur ráðuneytið rétt að engar greiðslur eigi sér stað úr sjóðnum fram til 1. júlí nk. og að innheimt verði gjald fyrir veittar undanþágur til og með 30. júní nk. Svo fljótt sem verða má eftir þann tíma skal ganga frá uppgjöri sjóðsins og andvirði hans afhent Siglingastofnun Íslands til að standa straum af kostnaði við langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda.“ Undanþágunefnd lauk uppgjöri undanþágusjóðs með bréfi til samgönguráðuneytis, dags. 23. nóvember 2001. Andvirði sjóðsins 1. júlí 2001 þegar hann var lagður niður reyndist vera 6.086.234 kr. og barst sú fjárveiting Siglingastofnun í desember 2001. Það sem upp á vantaði að 10 millj. kr. fjárveitingu væri náð til verkefnisins ráðstafaði samgönguráðuneytið af fjárlagaliðnum 10.190.1.22 Fræðsluefni um öryggismál sjómanna.
    Fjárveiting til áætlunarinnar árið 2002, 15 millj. kr., var ákveðin í fjárlögum fyrir það ár.
    Fjárveiting fyrir árið 2003 var 15 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2003 sem er lækkun um 5 millj. kr. frá því sem kveðið var á um í samþykkt áætlunarinnar á Alþingi 19. maí 2001, þ.e. 15 millj. kr. í stað 20 millj. kr.
V.     Framkvæmd áætlunarinnar.
    Samgönguráðuneytið fól Siglingastofnun Íslands með bréfi dags. 25. maí 2001 að annast framkvæmd áætlunarinnar, en í bréfinu segir m.a.:
    „Ráðuneytið felur Siglingastofnun hér með að fara með framkvæmd langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda, sem samþykkt var á Alþingi 19. maí sl. Ráðuneytið leggur áherslu á að nú þegar verði hafist handa við að koma verkefnum samkvæmt áætluninni í framkvæmd. Sérstök athygli er vakin á því að samgönguráðherra skal fyrir 1. apríl hvers árs, fyrst árið 2002, leggja fyrir Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar og hvernig henni miði í átt að settu marki.
    Ráðuneytið telur rétt að verkefnisstjórn sem vann að málinu komi jafnframt að framkvæmd hennar til að stéttarfélög sjómanna, útgerðir og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafi þar aðkomu og ábyrgð og verði hlutverk hennar að hafa ákveðið eftirlit með framgangi áætlunarinnar og stuðla að samstarfi þeirra aðila sem að málinu þurfa að koma.“
    Eins og áður er komið fram skipaði samgönguráðherra verkefnisstjórn 16. febrúar 2000 til að undirbúa og gera tillögur að langtímaáætlun. Verkefnisstjórn skilaði tillögum sínum til samgönguráðherra með bréfi dags. 19. desember 2000, sem urðu grunnur að tillögu til þingsályktunar um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda sem samgönguráðherra lagði fram á Alþingi í byrjun árs 2001.
    Siglingastofnun Íslands hefur, í samvinnu við verkefnisstjórn, gert sérstaka framkvæmdaáætlun um að koma einstökum verkefnum samkvæmt áætluninni í framkvæmd. Með bréfi dags. 21. desember 2001 óskaði Siglingastofnun Íslands eftir staðfestingu samgönguráðherra á þeirri framkvæmdaáætlun og staðfesti samgönguráðherra hana með bréfi dags. 19. febrúar 2002. Vegna þeirra tafa sem urðu við fjármögnun áætlunarinnar fyrir árið 2001 dróst að setja sum verkefni af stað, en reynt var að vinna upp þá seinkun á árunum 2002 og 2003. Meðfylgjandi er staðfest framkvæmdaáætlun sem hefur að geyma yfirlit um einstök verkefni áætlunarinnar, markmið þeirra, stöðu mála, ábyrgð og umsjón, fjármögnun, tímaramma, forgangsröðun og framvindu hvers verkefnis miðað við 15. mars 2004.
    Í maí 2003 var skipuð ný verkefnisstjórn og hagsmunaaðilar eiga nú hver sinn fulltrúa, auk þess sem Landhelgisgæsla á nú þar fulltrúa. Í verkefnisstjórn eru Unnur Sverrisdóttir, deildarstjóri í samgönguráðuneytinu, sem jafnframt er formaður, Hilmar Snorrason frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Sigurður Steinar Ketilsson frá Landhelgisgæslu, Guðjón Ármann Einarsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Halldór A. Guðmundsson frá Vélstjórafélagi Íslands, Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Guðfinnur G. Johnsen frá Landssambandi íslenskra útgerðarmanna og Eyþór H. Ólafsson frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða.

VI. Samgönguáætlun 2003–2014.
    Í tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003–2006 sem samþykkt var á Alþingi 13. mars 2003 og birt í A-deild Stjórnartíðinda 93/2003 er kveðið á um að unnið verði áfram samkvæmt sérstakri áætlun um öryggi sjófarenda og að öryggismál sjófarenda verði hluti af samgönguáætlun samkvæmt lögum um samgönguáætlun, nr. 71/2002, og að byggt verði áfram á þeim hugmyndum sem lágu að baki langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda fyrir árin 2001–2003.
    Lagt er til að á tímabilinu 2003–2006 verði varið 75 millj. kr. til framkvæmdar áætlunarinnar, þ.e. 15 millj. kr. árið 2003, 20 millj. kr. á ári á árunum 2004, 2005 og 2006. Í fjárlögum fyrir árið 2004 er miðað við að 15 millj. kr. verði varið til langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda á því ári.
    Miðað er við að framkvæmd þessarar áætlunar verði með sama hætti og framkvæmd langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda 2001–2003, þ.e. að Siglingastofnun annist framkvæmd áætlunarinnar samkvæmt sérstakri framkvæmdaáætlun og að verkefnisstjórn komi að málinu með sama hætti og áður.

Útgjöld til langtímaáætlunar um öryggismál sjófarenda.

Verkefni 2003 2004 2005 2006
millj. kr. millj. kr. millj. kr. millj. kr.
Menntun og þjálfun sjómanna verði efld með ýmsum hætti 1,5 3,0 3,0 3,0
Átak í öryggismálum farþegaskipa og farþegabáta 1,0 2,5 3,0 3,5
Átaksverkefni í fræðslu og áróðri 3,0 4,0 4,0 4,0
Gerð fræðsluefnis og leiðbeininga 4,5 3,0 3,0 3,0
Söfnun og miðlun upplýsinga milli sjómanna og aðila í landi 1,0 0,5 0,5 0,5
Úrbætur í stöðugleikamálum skipa og báta 1,0 1,0 1,0 1,0
Verkefni tengd innleiðingu öryggis- og gæðastjórnunarkerfa 0,7 0,5 0,5 0,5
Kynning á lögum og reglum um öryggisatriði og aukið eftirlit 0,5 0,5 0,5 0,5
Rannsóknir, úttektir á sviði öryggismála og öryggismál almennt 1,8 5,0 4,5 4,0
Samtals 15,0 20,0 20,0 20,0

Framkvæmdaáætlun í öryggismálum sjófarenda 2001–2003.

1.1        Samræming sjómannamenntunar og aðlögun að alþjóðasamþykktum STCW og STCW-F
1.2        Endurmenntun skipstjórnarmanna
1.8        Ýmislegt fjarnám verði eflt og notað í eins miklum mæli og hægt er
Markmið
Að nám í íslenskum sjómannaskólum sé samræmt kröfum alþjóðasamþykkta. Að nám, þjálfun og endurmenntun skipstjórnar- og vélstjórnarmanna sé skipulagt þannig að það skili viðkomandi einstaklingi sem mestu, bæði í sjómannsstarfinu og í mati á náminu/þekkingunni innan almenna skólakerfisins og til annarra starfa í þjóðfélaginu. Að auka möguleika sjómanna á að afla sér menntunar samhliða starfi sínu.
Staða mála
Starfsgreinaráð um sjávarútvegsgreinar hefur unnið að endurskoðun námskráa fyrir skipstjórnar- og vélstjórnarmenntun. Vorið 2001 voru sett lög nr. 76/2001, um áhafnir farþega- og flutningaskipa, sem grundvallast á STCW-samþykktinni. Þingsályktun um fullgildingu á STCW-F var samþykkt á Alþingi 24. apríl 2002, en það er alþjóðasamningur um menntun og þjálfun, vaktstöður og skírteini áhafna á fiskiskipum (STCW-F). Ísland fullgilti samninginn 28. maí 2002. Til að flýta fyrir gildistöku samningsins stendur Alþjóðasiglingamálastofnunin nú fyrir kynningu á þessari samþykkt um sjómenn á fiskiskipum meðal aðildarríkja sinna og leitaði stofnunin til Siglingastofnunar Íslands um að útbúa kynningarefni fyrir sérstök námskeið um þetta efni. Slíkt námskeið var haldið í Suður-Kóreu í desember 2002 og í Tanzaníu í mars 2003 og þar var starfsmaður Siglingastofnunar einn fyrirlesara.
    Stýrimannaskólinn, Endurmenntun vélstjóra, LHS Fossvogi og Slysavarnaskóli sjómanna hafa í boði ýmis námskeið og endurmenntun fyrir sjómenn og aðila sem þjónusta þá. Lög nr. 76/2001 gera kröfu um að þeir yfirmenn sem ekki hafa farið á sjó í fimm ár fari á endurmenntunarnámskeið vegna endurnýjunar atvinnuréttinda.
    Framboð á fjarnámi í ýmsum skólum hefur aukist síðustu ár og hafa sjómenn átt þess kost að stunda þannig nám. Notkun gervihnattasambands og farsíma gerir þetta mögulegt fyrir sjómenn sem eru á sjó en kostnaður við gagnaflutning er mjög hár við þessar aðstæður. Mikilvægt er að sjómenn hafi kost á fjarnámi á sem flestum sviðum og að kostnaði þeirra við það sé haldið í lágmarki.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun fer með ábyrgð og umsjón málsins.
    Sjómannaskólar hafi yfirumsjón með öllu skipulögðu námi, þjálfun og endurmenntun sjómanna, og stuðli að fjarnámi fyrir sjómenn á sem flestum sviðum.
Samstarfsaðilar
Menntamálaráðuneyti, starfsgreinaráð, sjómannaskólar, samgönguráðuneyti, hagsmunasamtök sjómanna.
Áætluð fjármögnun
Vinna að þessum verkefnum sé fjármögnuð af menntamálaráðuneyti og viðkomandi stofnunum.
Langtímaáætlun styrki fjarnám sjómanna um:
    0,4 millj. kr. árið 2001,
    1,0 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
Samstarfsaðilar vinni að útfærslu þessara mála og Siglingastofnun Íslands verði virkari í skipulagningu sjómannamenntunar.
    Námskrár sjómannaskóla þurfa að vera endurskoðaðar reglulega með tilliti til tækniframfara og alþjóðasamþykkta. Jafnframt skal stuðla að öflugri verklegri þjálfun og símenntun allra sjómanna.
    Áætlanir verði gerðar um fjarnám sérstaklega ætlað sjómönnum.
Tímasetningar
Þess er vænst að sjómannamenntun sé metin og endurskoðuð reglulega í framtíðinni. Jafnframt sé þörf fyrir endurmenntun metin árlega og í boði séu viðeigandi námskeið og þjálfun fyrir sjómenn.
Lög og reglugerðir
Lög um áhafnir íslenskra farþega- og flutningaskipa, nr. 76/2001, 3. og 5. gr.
Reglugerð um nám til skipstjórnarréttinda á skipi sem er 30 brúttótonn eða minna, nr. 531/2001.
Lög um framhaldsskóla, nr. 80/1996.
Lög um slysavarnaskóla sjómanna, nr. 33/1991.
Reglugerð um lögskráningu sjómanna, nr. 880/2001, með síðari breytingum.
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 8, 9, 14, 15, 18, 20 og 21.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Lagt hefur verið fram frumvarp um breytingu á lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, sem miðar að því að víkka gildissvið laganna og láta þau taka til allra skipa. Með frumvarpinu eru leidd í lög nauðsynleg ákvæði vegna alþjóðasamþykktar um menntun og þjálfun, vaktstöður og skírteini sjómanna á fiskiskipum, þ.e. STCW-F. Í frumvarpinu eru m.a. ákvæði um endurmenntun skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna vegna alþjóðasamþykktarinnar. Samhliða frumvarpinu mun utanríkisráðherra leggja fram tillögu til þingsályktunar um fullgildingu á alþjóðasamþykktinni (STCW-F).
    Siglingastofnun er að yfirfara námskrár sjómannaskóla með tilliti til alþjóðlegra krafna STCW og hefur lokið því fyrir Stýrimannaskólann í Reykjavík og Vélskóla Íslands.
    Siglingastofnun er einnig að yfirfara námskrár sjómannaskóla með tilliti til endurmenntunarnámskeiða samkvæmt STCW, sjá ákvæði 5. gr. laga nr. 76/2001. Stýrimannaskólinn, Endurmenntun vélstjóra, LHS Fossvogi og Slysavarnaskóli sjómanna hafa í boði ýmis námskeið og endurmenntun fyrir sjómenn og aðila sem þjónusta þá.
    Siglingastofnun Íslands mun leita eftir tillögum sjómannaskóla um fjarnám fyrir sjómenn.
Mars 2003.
Siglingastofnun hefur farið yfir námskrár fyrir Stýrimannaskólann í Reykjavík, Vélskóla Íslands og Slysavarnaskóla sjómanna með tilliti til alþjóðlegra krafna STCW og komu í ljós nokkrir minni háttar ágallar sem hafa verið lagfærðir.
     Sjómannaskólarnir hafa jafnframt útbúið námskrár fyrir endurmenntunarnámskeið sem Siglingastofnun hefur tekið út með tilliti til alþjóðasamninga um það efni. Samkvæmt ákvæðum alþjóðasamninganna þurfa skólarnir jafnframt að búa sig undir gæðavottun sem á að eiga sér stað fyrir 1. ágúst 2004.
Mars 2004.
Samkvæmt lögum nr. 76/2001 eiga nám og kennsla í sjómannaskólum og útgáfa Siglingastofnunar á STCW alþjóðlegum atvinnuskírteinum að vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi og er það í samræmi við STCW-alþjóðasamþykktina sem gerir jafnframt kröfu um úttektir óháðra aðila til að staðreyna að svo sé. Nú er unnið að slíkri gæðavottun. Tilkynna á til IMO um niðurstöður þessara úttekta og stefnir IMO að því að tilkynna vorið 2005 um niðurstöður þeirra á fundi MSC (Maritime Safety Committee).
1.2        Fræðsla og þjálfun í stöðugleika
3.1        Stöðugleikamál skipa og báta, hættur samfara ofhleðslu
Markmið
Að námskeið og fræðsla um stöðugleika smábáta séu sem aðgengilegust fyrir sjómenn um land allt og boðið verði upp á fjarnám á þeim vettvangi.
Staða mála
Samkvæmt rannsóknarnefnd sjóslysa hafa sjóslys oft verið rakin til ófullnægjandi þekkingar skipstjórnarmanna á stöðugleika eigin skipa (á einkum við um smábáta). Siglingastofnun hefur gert fræðsluefni og staðið fyrir átaksverkefnum í fræðslu um stöðugleika skipa, einnig eru í boði í Stýrimannaskólanum í Reykjavík sérstök námskeið í stöðugleika smábáta. Talin er þörf á að efla þessa fræðslu til muna.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun fer með ábyrgð og umsjón málsins.
Samstarfsaðilar
Stýrimannaskóli, Slysavarnaskóli sjómanna, Landssamband smábátaeigenda og tryggingafélög.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun kosti gerð fræðsluefnis og styrki námskeiðahald:
    1,0 millj. kr. árið 2001,
    1,5 millj. kr. árið 2002,
    1,0 millj. kr. árið 2003.
Jafnframt verði aflað viðbótarfjármagns hjá styrktaraðilum, svo sem með auglýsingum.
Framkvæmd
Gert verði fræðsluefni á myndbandi og DVD og bæklingur sem dreift verði til smábátasjómanna. Jafnframt verði haldið uppi áróðri í fjölmiðlum, svo sem fréttabréfum og boðið verði upp á verkleg námskeið í stöðugleika sem víðast. Samstarfsaðilar skilgreina og skipuleggja þetta verkefni nánar.
Tímasetningar
Gerð fræðsluefnis verði lokið fyrir ágúst 2002. Í framhaldi af því verði hafin áróðursherferð sem standi yfir í um tvo mánuði og verði síðan endurtekin að vori 2003. Námskeið verði í boði meðan áróðursherferðir standa yfir.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 7, 11, 13, 14 og 18.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Ákveðið hefur verið að fræðsluefni um stöðugleika verði útbúið og er undirbúningur þeirrar vinnu hafinn (tengist lið 4.1).
Mars 2003.
Á árinu 2002 var unnið að endurgerð bæklings um kynningu á stöðugleika fiskiskipa sem Siglingamálastofnun ríkisins gaf út árið 1988. Mikil eftirspurn hefur verið eftir honum og hann mikið notaður, einkum af nemendum sjómannaskóla og á smábátanámskeiðum. Hann verður væntanlega gefinn út vorið 2003 og dreift endurgjaldslaust í öll skip á íslenskri skipaskrá og stefnt er að því að hann verði aðgengilegur á heimasíðu um öryggismál.
     Fullbúið er fræðslumyndband um stöðugleika fiskiskipa sem Siglingastofnun hefur þýtt og endurútgefið með leyfi frá samtökum útgerðarmanna við Norður-Kyrrahaf (NPFVOA). Myndbandið getur komið að góðum notum við kennslu í stöðugleika fiskiskipa. Ákveðið er að fjölfalda myndbandið á DVD og dreifa því um borð í öll íslensk skip og jafnframt hafa það aðgengilegt á heimasíðu um öryggismál sjómanna.
     Siglingastofnun hefur útbúið rannsóknaráætlun í tengslum við tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003 2006 sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Þar eru verkefni sem tengjast stöðugleika skipa:
     „Áhættumat minni fiskiskipa í hættulegum öldum. Ákvörðun um sjósókn er háð ýmsum þáttum. Veður og sjólag skiptir auðvitað miklu og þá getur aðgangur að nýjum upplýsingum skipt höfuðmáli. Til að varast að fiskiskip verði fyrir áföllum eða hvolfi er brýnt að þekkja tengslin milli stöðugleika skipsins og hæfni þess til að bregðast við áhrifum frá umhverfinu. Beiting slíkrar þekkingar gæti fallið undir áhættustjórnun. Fyrsta skrefið í slíkri áhættustjórnun er að íhuga ásættanlegt áhættustig. Að mati Siglingastofnunar ber að veita sjómönnum á fiskiskipum leiðbeiningar sem ættu að minnsta kosti að fela í sér ráðgjöf svo að halda megi áhættunni innan marka. Í leiðbeiningunum ætti einnig að benda á vænlegustu úrræðin til að draga úr hættu á að skipi hvolfi. Enn sem komið er hefur tengslunum milli stöðugleika skips og hæfni þess til að standast áhrif frá umhverfinu verið gefinn lítill gaumur. Áhersla hefur verið lögð á löggjöf um lágmarksstöðugleika án þess að taka mið af áhrifum frá umhverfinu. Þetta hefur í mörgum tilvikum leitt til þess að sjómenn treysta um of á sjóhæfni skipa sinna, stundum með hörmulegum afleiðingum. Rannsóknir Siglingastofnunar Íslands á hreyfistöðugleika skipa í samvinnu við innlendar verkfræðistofur og erlenda aðila hafa leitt til einfaldari útfærslu á stöðugleikagögnum fyrir fiskiskip og þróuð hafa verið tengsl milli hreyfistöðugleika skipa og áhættumats á brotöldum sem fyrir liggur í upplýsingakerfi stofnunarinnar. Til að gera vinnu um borð í fiskiskipum öruggari er grundvallaratriði að draga úr veltingi eins og hægt er. Þetta er gert m.a. með andveltigeymi og í þróun er búnaður til að hámarka nýtingu andveltigeyma með samhæfingu við hleðslu- og stöðugleikaforrit og stöðugleikamæli (RT-stöðugleikavakt) sem þegar er í notkun í nokkrum skipum.
     Siglingastofnun mun, í samvinnu við verkfræðistofur, gera hleðslu- og stöðugleikagögn og gögn um vöktun á stöðugleika aðgengileg og notendavæn svo að upplýsingar um stöðugleika skips liggi ljósar fyrir stjórnanda þess á hverjum tíma. Þessi búnaður mun geta hámarkað nýtingu andveltigeyma. Siglingastofnun mun halda áfram að þróa upplýsingakerfi um veður og sjólag og vinna m.a. að ölduspám fyrir hafnir, grunnsævi og rastir og viðvörunarkerfi fyrir aftakaveður og sjávarflóð.“
Mars 2004.
Í júní 2003 gaf Siglingastofnun Íslands út fræðslurit um stöðugleika fiskiskipa. Á árinu 1988 kom út fyrsta útgáfa ritsins og birtist það nú í þriðja sinn. Ritið hefur notið vinsælda meðal sjómanna og annarra sem láta sig varða öryggismál fiskiskipa. Endurskoðun ritsins hefur verið unnin í samráði við Stýrimannaskólann í Reykjavík. Efni ritsins hefur verið aukið lítils háttar og samræmt breytingum sem hafa verið gerðar á reglum um stöðugleika þilfarsfiskiskipa. Jafnframt hefur hugtökum og skammstöfunum verið breytt til samræmis við fyrirmynd Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Ritinu var dreift ókeypis um borð í öll íslensk skip. Auk þess má nálgast ritið hjá Siglingastofnun Íslands, á heimasíðu stofnunarinnar og á sérstökum vef um öryggismál sjómanna.
     Í lok ársins 2002 komu út 2 DVD-diskar, en á þeim var m.a. fræðslumyndband um stöðugleika fiskiskipa sem útbúið var með leyfi frá samtökum útgerðarmanna við Norður-Kyrrahaf (NPFVOA). Myndbandið getur komið að góðum notum við kennslu í stöðugleika fiskiskipa. Þessari mynd hefur verið dreift um borð í öll íslensk skip.
     Í vinnslu er gerð stöðugleikaforrits sem aðgengilegt verður á netinu og kennsluefnis um notkun þess. Ákveðið er að fjarnám í stöðugleikafræðum verði í boði.
1.4        Verk- og öryggisstjórnunarfræðsla fyrir yfirmenn á skipum
Markmið
Að þekking yfirmanna í skipum um verkstjórn og vinnuhagræðingu sé almennt góð í öllum íslenska skipaflotanum. Að sem flestir yfirmenn í skipum sæki endurmenntun á námskeiðum í verkstjórn og öryggisstjórnun.
Staða mála
Nú er verkstjórnarfræðsla hluti af námi stýrimannsefna í Stýrimannaskólanum í Reykjavík en mikilvægt er að þeir sem luku námi áður en verkstjórnarfræðslan var tekin upp fái endurmenntun í þeim fræðum. Til að sjómenn og verkstjórnendur í skipum komi á slík námskeið þarf að vera fyrir hendi hvati þannig að eftirsóknarvert sé að fá slíka menntun.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Sjómannaskólar skipuleggi endurmenntunarnámskeið yfirmanna í þessum fræðum.
Samstarfsaðilar
Siglingastofnun Íslands.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun veiti styrk til námskeiðahalds um 0,5 millj. kr. árið 2002 og annar kostnaður greiðist af þátttakendum á námskeiðum.
Framkvæmd
Unnið verði fræðsluefni fyrir þátttakendur námskeiða í byrjun árs 2002 og verði námskeið síðan auglýst sem víðast.
Tímasetningar
Í boði verði nokkur námskeið á ári frá og með árinu 2002.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 8 og 15.
Framvinda verkefnis
Mars 2002, 2003 og 2004.
Slysavarnaskóli sjómanna býður upp á námskeið í öryggisstjórnun/verkstjórn í samvinnu við Endurmenntun vélstjóra og Öryggiskeðjuna.
1.5        Öryggisfræðsla sjómanna á fimm ára fresti
Markmið
Að sjómenn sæki öryggisfræðslunámskeið eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.
Staða mála
Í Slysavarnaskóla sjómanna eru haldin námskeið í öryggisfræðslu sjómanna sem standa í fimm daga vegna STCW-krafna en voru þau einungis fjórir dagar áður. Fræðsla og þjálfun skiptir miklu í öryggismálum og því nauðsynlegt að standa vel að þeim málum gagnvart sjómönnum. Það er staðreynd að ekki dugir að koma einu sinni á námskeið því fræðin sem kennd eru vilja falla í gleymsku og jafnframt er þróun öryggisbúnaðar í skipum sem betur fer nokkur og því þörf á að notkun nýrra tækja, búnaðar og aðferða sé kennd.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Samgönguráðuneyti setji kröfur um endurmenntun í öryggisfræðslu.
Samstarfsaðilar
Siglingastofnun og Slysavarnaskóli sjómanna.
Áætluð fjármögnun
Kostnaður fjármagnast af þátttakendagjöldum á endurmenntunarnámskeiðum.
Framkvæmd
Sett verði reglugerð sem kveði á um þau skilyrði fyrir lögskráningu að skipverji sæki öryggisfræðslunámskeið eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.
    Slysavarnaskóla sjómanna verði falið að skipuleggja og halda endurmenntunarnámskeið í öryggisfræðslu. Siglingastofnun samþykki umfang og námsefni endurmenntunarnámskeiða.
Tímasetningar
Á árinu 2002 verði haldin endurmenntunarnámskeið í öryggisfræðslu sjómanna.
Lög og reglugerðir
Lög nr. 43/1987, um lögskráningu sjómanna.
Reglugerð um lögskráningu sjómanna, nr. 880/2001, með síðari breytingum.
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 15.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Reglugerð um lögskráningu sjómanna, nr. 880/2001, gerir kröfu um endurmenntun á öryggisfræðslu sjómanna á fimm ára fresti, sjá 2. mgr. 4. gr. Skipverjar sem gengust undir námskeið í öryggisfræðslu hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila á árinu 1997 eða fyrr hafa frest til að gangast undir slíkt námskeið til 1. janúar 2005.
Mars 2003.
Í reglugerð um lögskráningu sjómanna, nr. 880/2001, felst að ákvæði um að skipverjar skuli endurnýja öryggisfræðslu sína á fimm ára fresti kemur að fullu til framkvæmda 1. janúar 2005 og að eftir þann tíma verður þessi krafa skilyrði fyrir lögskráningu skipverjans. Slysavarnaskóli sjómanna heldur þessi námskeið og mun leggja sérstaka áherslu á þau á árinu 2003 og 2004.
     Áformað er að endurgera gamalt myndband um öryggisfræðslu sjómanna (21 mín.) frá 1994 og fjölfalda og dreifa ásamt öðrum fræðslumyndum um öryggismál sjómanna.
Mars 2004.
Árið 2003 hélt Slysavarnaskóli sjómanna endurmenntunarnámskeið á 15 stöðum umhverfis landið og sóttu þau fjöldi sjómanna. Skólinn mun einnig fara víða með endurmenntunarnámskeiðin sumarið 2004.
    Mynd um öryggisfræðslu sjómanna var dreift með öðrum myndum á DVD diskum um borð í öll íslensk skip í ársbyrjun 2004.
1.6        Námskeið í notkun og meðhöndlun búnaðar til hífinga (tengist 4.3)
Markmið
Í menntun sjómanna verði lögð aukin áhersla á þjálfun þeirra í stjórnun krana og vindu. Gerð verði krafa um sérstök réttindi þeirra sem sjá um stjórnbúnað krana eða vindu.
Staða mála
Í landi er þess krafist að stjórnendur krana sæki sérstök námskeið til að öðlast réttindi á þá, en í skipum er ekki gerð nein krafa um þjálfun eða réttindi þeirra sem hafa með höndum stjórnun krana eða vindu þrátt fyrir að stjórnun krana í skipum sé mun erfiðari en krana í landi vegna hreyfingar skips. Mikilvægt er að gera áætlun um fræðslu og þjálfun sjómanna í notkun krana og vindu.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Slysavarnaskóla sjómanna verði falið að gera tillögu að fyrirkomulagi námskeiða og að semja samræmt námsefni fyrir stjórnun krana og vindu í skipum.
Samstarfsaðilar
Samtök útgerða og stéttarfélaga sjómanna, Siglingastofnun, skipafélög og Vinnueftirlit ríkisins komi að þessu verkefni.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrki gerð samræmds fræðsluefnis um:
    0,2 millj. kr. árið 2001,
    0,3 millj. kr. árið 2002,
    0,3 millj. árið 2003.
Aðrir kostnaðarliðir leggist á útgerðir viðkomandi skipa.
Framkvæmd
Samið verði sérstakt samræmt fræðsluefni um hífingar fyrir áhafnir skipa og haldin verði námskeið sem veiti þátttakendum réttindi til að stjórna krönum og vindum um borð í skipum.
    Hjá Vinnueftirliti ríkisins hafa verið í boði námskeið í notkun krana og mikilvægt er að gott samstarf náist við starfsmenn þess.
Tímasetningar
Gerð fræðsluefnis ljúki fyrri hluta ársins 2002 og frá júlí 2002 verði haldin nokkur námskeið á ári í stjórnun krana og vindu í skipum.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 8, 13 og 15.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Unnið er að gerð fræðsluefnis um hífingar sem ætlunin er að ljúka á fyrri hluta ársins 2002.
Mars 2003.
Gefinn var út fræðslubæklingur um hífingar, þar sem fjallað er um forvarnir, hættur, styrkleika búnaðar, slys við hífingar og sýndar staðlaðar bendingar við hífingar. Upplag bæklingsins var 20.000 stk. Búið er að dreifa um 13.000 eintökum af honum, t.d. til allra skipa á íslenskri skipaskrá með fréttablaði Siglingastofnunar. Auk þess var hann sendur út með fréttablöðum samtaka útgerða og sjómannasamtaka. Hægt er að nálgast bæklinginn hjá samtökum útgerðarmanna og sjómanna, sjómannaskólum, tryggingafélögum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landhelgisgæslu Íslands, Siglingastofnun Íslands og samgönguráðuneytinu. Bæklingurinn er hluti af þjálfunarhandbók sem á að vera um borð í öllum fiskiskipum lengri en 15 metrar að mestu lengd. Á vefsíðu um öryggismál sjómanna verður jafnframt hægt að nálgast þetta efni.
    Gerð var stuttmynd (6,30 mín.) um öryggi við hífingar. Myndbandið er til upplýsingar um öll öryggisatriði sem hafa ber í huga við hífingar. Ákveðið er að fjölfalda myndbandið á DVD og dreifa því um borð í öll íslensk skip og jafnframt hafa það aðgengilegt á heimasíðu um öryggismál sjómanna.
Mars 2004.
Námskeið í stjórnun vinnuvéla um borð í skipum og bátum, þ.m.t. krana og vinda, eru í boði hjá endurmenntun Menntafélagsins.
1.7        Námskeið fyrir leiðsögumenn/hafnsögumenn
Markmið
Að treysta öryggi íslenskra sem erlendra skipa á siglingu við land og inn á hafnir landsins.
Staða mála
Vandamál hafa komið upp varðandi leiðsögn skipa hér við land vegna misskilnings í samskiptum þar sem staðlað orðaval samkvæmt samþykkt IMO er ekki notað. Æskilegt er að leiðsögumenn/hafnsögumenn sæki sérstök námskeið og fái viðeigandi starfsþjálfun.
    Sérstök námskeið fyrir hafnsögumenn hafa verið í boði hjá Stýrimannaskólanum í Reykjavík.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Samgönguráðuneyti og Siglingastofnun skilgreini kröfur til hafnsögumanna/leiðsögumanna.
Samstarfsaðilar
Stýrimannaskóli, hafnir og hafnasamlög.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrki námskeiðahald um 0,2 millj. kr. árið 2001.
Framkvæmd
Stýrimannaskóli skipuleggi og haldi námskeið fyrir leiðsögumenn/hafnsögumenn.
Tímasetningar
Haldin verði námskeið eftir þörfum hvert ár.
Lög og reglugerðir
Lög um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003.
Reglugerð um leiðsögu skipa, nr. 320/1998.
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 16.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Verið er að vinna að frumvarpi til laga um öryggi siglinga og fjarskiptaþjónustu við skip þar sem m.a. verður fjallað um leiðsögu skipa og menntun og þjálfun leiðsögumanna.
    Siglingastofnun mun, í samstarfi við Stýrimannaskólann, fjalla um námskeið fyrir starfsmenn hafna.
Mars 2003.
Í frumvarpi til laga um vaktstöð siglinga er m.a. fjallað um leiðsögu skipa og menntun og þjálfun leiðsögumanna og munu þau lög leysa af hólmi lög um leiðsögu skipa, nr. 34/1993, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er m.a. verið að innleiða tilskipun EB 2002/59 sem fjallar m.a. um eftirlit með skipaumferð og leiðarstjórnun skipa sem ætlað er að draga úr hættu á slysum og skyldu skipa yfir 300 brúttótonnum til að vera búin sjálfvirku auðkenniskerfi (AIS) og siglingaritakerfi (VDR). Miðað er við að hvert aðildarríki hafi stjórnstöð sem geti fylgst með ferðum skipa með sjálfvirkum hætti, þar sem m.a. komi fram stefna og hraði skips. Í framhaldi af þessu er líklegt að hlutverk leiðsögumanna skipa muni breytast.
Mars 2004.
Námskeið fyrir leiðsögumenn og hafnsögumenn eru í boði hjá Stýrimannaskólanum og unnið er að því að setja á fót vaktstöð siglinga á grundvelli nýrra laga þar um.
2.1        Áhættumat á siglingaleiðum farþegaskipa
Markmið
Að auka öryggi við siglingu skipa sem flytja farþega við landið. Að hættulegar siglingaleiðir séu kortlagðar og að sigling farþegaskipa verði takmörkuð við öruggar siglingaleiðir. Jafnframt að gerð sé áætlun fyrir viðbragðsaðila ef neyðarástand verður um borð í innlendu eða erlendu farþegaskipi við landið.
Staða mála
Siglingar með farþega í skemmti- og skoðunarferðum hafa aukist mikið hér við land síðustu ár og einungis hluti skipanna fellur undir ströngustu öryggiskröfur laga og reglugerða varðandi farþegaskip og farþegabáta. Samkvæmt skýrslum rannsóknarnefndar sjóslysa hafa orðið óhöpp hjá farþegaskipum vegna vanhugsaðra siglinga í slæmu veðri á ókortlögðu svæði og þegar siglt er of nærri landi.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Hafnasvið og skipasvið Siglingastofnunar hafi forgöngu um að áhættumat sé gert.
Samstarfsaðilar
Útgerðir farþegaskipa, Landhelgisgæsla, Almannavarnir og björgunarsveitir.
Aðilar sem eru sérhæfðir í áhættugreiningu sambærilegra verkefna.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrki verkefnið um:
    0,7 millj. kr. árið 2001,
    1,2 millj. kr. árið 2002,
    0,7 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
Skipaður verði starfshópur sem vinni að áhættumati og tillögum til úrbóta. Helstu siglingaleiðir farþegaskipa og farþegabáta verði metnar með hliðsjón af farsviði hvers skips og ákvarðað hvort þörf sé á að takmarka eða banna siglingu þeirra á tilteknum svæðum og/eða árstímum. Starfshópurinn geri viðbragðsáætlanir vegna mismunandi neyðaraðstæðna hjá farþegaskipum á siglingaleiðum þeirra við landið.
Tímasetningar
Verkefninu verði lokið á árinu 2003.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 13.
Framvinda verkefnis
Mars 2003.
Undirbúningur að áhættumati á siglingaleiðum er hafinn hjá Siglingastofnun.
    Siglingastofnun hefur útbúið rannsóknaráætlun í tengslum við tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003–2006 sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Þar eru verkefni sem tengjast siglingaleiðum skipa:
    „Siglingaleiðir. Stefnt verður að mælingum á stöðugleika skipa á siglingaleiðum. Unnin verður skýrsla um siglingaöryggi mismunandi skipa og samanburður gerður við núverandi leiðir. Þessi skýrsla verður unnin í samvinnu við þá aðila sem starfað hafa með Siglingastofnun að þróun upplýsingakerfis um hættulegar öldur og stöðugleika minni fiskiskipa, auk þeirra aðila sem unnið hafa að reiknilíkani um sjávarföll. Jafnframt verður unnið að setningu reglna um takmörkun siglinga um líffræðilega mikilvæg hafsvæði.
    Unnið er að könnun á hugsanlegum ferjusiglingum milli Vestmannaeyja og lands með ferjulægi við Bakkafjöru. Gerðir hafa verið öldufarsreikningar á siglingaleiðinni og samið hefur verið við Vestmannaeyjahöfn um reglulegar dýptarmælingar við Bakkafjöru til að fylgjast með botnbreytingum. Gert er ráð fyrir að mælingarnar fari fram yfir sumar, haust, vetur og á vorin á tímabilinu 2002–2006.“
Mars 2004.
Ákveðið er að starfshópur verði skipaður til að fjalla sérstaklega um áhættumat í tengslum við siglingu farþegaskipa og farþegabáta við landið o.fl.
2.2        Námskeið í stjórnun farþega á neyðarstundu
Markmið
Þekkingu og þjálfun áhafna farþegaskipa og farþegabáta sé viðhaldið til að tryggja eins og unnt er öryggi við siglingu með farþega á íslenskum skipum.
Staða mála
Í lögum nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, er kveðið á um að áhafnir farþegaskipa sæki námskeið um farþegaflutninga á skipum og stjórnun mannfjölda á neyðarstundu sem skipulagt sé af sjómannaskóla í samráði við Siglingastofnun.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Sjómannaskólar skipuleggi námskeið samkvæmt kröfum laga og reglugerða um slíkt nám.
Samstarfsaðilar
Útgerðir farþegaskipa og Siglingastofnun.
Áætluð fjármögnun
Námskeiðahald verði fjármagnað með þátttakendagjöldum.
Framkvæmd
Áhafnir allra farþegaskipa og farþegabáta skulu hafa sótt námskeið í stjórnun mannfjölda á neyðarstundu eigi síðar en 1. júní 2002 og síðan verði haldin slík námskeið að vori hvers árs fyrir nýja áhafnarmeðlimi og sem símenntun áhafna farþegaskipa.
Tímasetningar
Námskeið verði haldin í þeim mæli að unnt sé að uppfylla kröfur laga nr. 76/2001.
Lög og reglugerðir
Lög nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, 3. mgr. 9. gr. og ákvæði til bráðabirgða.
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 14.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Slysavarnaskóli sjómanna hefur fengið viðurkenningu Siglingastofnunar á námskrá fyrir námskeið í „neyðarstjórnun“ og „hópstjórnun“ og hafa slík námskeið þegar verið haldin. Námskeið verða haldin í þeim mæli að unnt sé að uppfylla kröfur laga nr. 76/2001.
Mars 2003.
Slysavarnaskóli sjómanna og Stýrimannaskólinn í Reykjavík hafa fengið viðurkenningu Siglingastofnunar til að halda slík námskeið. Slysavarnaskóli sjómanna hefur haldið námskeið í neyðarstjórnun og hópstjórnun á helstu útgerðarstöðum farþegabáta og má gera ráð fyrir að flestir í áhöfn farþegaskipa og farþegabáta hafi sótt slík námskeið. Við framkvæmd lögskráningar á farþegaskip verður gengið úr skugga um að allir í áhöfn skipsins uppfylli þá lagaskyldu að hafa sótt námskeið í stjórnun mannfjölda á neyðarstundu.
Mars 2004.
Námskeið í neyðarstjórnun og hópstjórnun eru í boði hjá Slysavarnaskóla sjómanna.
2.3        Úrbótatillögur vinnuhóps framkvæmdar o.fl.
Markmið
Að bæta öryggi farþegaskipa og farþegabáta með því að koma á og viðhalda skipulögðu fyrirkomulagi í öryggismálum þeirra.
Staða mála
Vinnuhópur starfsmanna Siglingastofnunar og Slysavarnaskóla sjómanna gerði úttekt á öryggismálum í skipum með leyfi til farþegaflutnings og kynnti tillögur til úrbóta í byrjun árs 2000 þar sem staða mála var ekki í nægilega góðum farvegi. Þörf er á að taka öryggismál farþegaskipa föstum tökum.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun skipuleggur aðgerðir sem stuðla að bættu fyrirkomulagi öryggismála farþegaskipa.
Samstarfsaðilar
Sjómannaskólar, útgerðir farþegaskipa, LHG, lögregla og lögskráningarstjórar.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrki verkefni um:
    0,6 millj. kr. árið 2001,
    0,8 millj. kr. árið 2002,
    0,8 millj. kr. árið 2003.
Umframkostnaður greiðist af Siglingastofnun og útgerðum farþegaskipa.
Framkvæmd
     1.      Eftirlit Siglingastofnunar með skipum og búnaði verði aukið, t.d. tvær skoðanir á ári.
     2.      Öryggisbúnaður farþegaskipa verði skoðaður og metinn sérstaklega.
     3.      Áhafnamál séu metin og mönnun skoðuð með tilliti til öryggisþátta.
     4.      Markvisst verði unnið að eflingu sjálfshjálpar meðal farþega.
     5.      Farþegaskip og farþegabátar vinni samkvæmt gæðastaðli.
     6.      Í farþegaskipum haldi áhafnir æfingar með farþegum einu sinni eða oftar á sumri.
     7.      Öryggisplani sé viðhaldið og neyðaráætlun sé stöðugt uppfærð miðað við áhöfn hverju sinni.
     8.      Lýsandi merkingum við útgönguleiðir sé komið upp og þeim sé haldið við.
     9.      Í farþegaskipum sé fjórblöðungur um öryggismál viðkomandi skips.
Tímasetningar
Atriði í 5. tölul. verði lögleitt fyrir 2003 og vinna að öðrum atriðum hefjist í lok ársins 2001.
Lög og reglugerðir
Reglugerð nr. 463/1998, um leyfi til farþegaflutninga með skipum.
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 14.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Hluta þessara verkefna verður framfylgt samhliða lögum nr. 76/2001 sem fjalla m.a. um menntun og þjálfun áhafnar, öryggismönnun og vaktstöður á farþegaskipum. Sett hefur verið reglugerð á grundvelli þeirra laga um vaktstöður um borð í íslenskum farþegaskipum og flutningaskipum nr. 599/2001 og gerðar hafa verið kröfur um að allir í áhöfnum farþegaskipa sæki námskeið um farþegaflutninga með skipum og stjórnun mannfjölda á neyðarstundu, sbr. verkefni 2.2.
    Í reglugerð nr. 666/2001 eru ítarleg ákvæði um smíði og búnað farþegaskipa í innanlandssiglingum sem taka til allra nýrra farþegaskipa og gamalla farþegaskipa sem eru 24 metrar að lengd og lengri.
    Siglingastofnun mun efla þennan þátt eftirlits í aðalskoðunum og skipulagi skyndiskoðana.
    Siglingastofnun mun gera drög að bæklingi fyrir farþega um öryggi farþegaskipa sem útgerðir skipanna gætu nýtt sér við gerð eigin bæklings.
Mars 2003.
Siglingastofnun lagði sérstaka áherslu á skyndiskoðanir á farþegaskipum á árinu 2002.
    Gerðar hafa verið auknar kröfur um menntun og þjálfun áhafna farþegaskipa í framhaldi af alþjóðasamningi (STCW) þar um, þ.e. námskeið í stjórnun mannfjölda á neyðarstundu.
    Siglingastofnun stendur fyrir rannsóknum um siglingaleiðir skipa, þ.m.t. farþegaskipa.
    Siglingastofnun og verkefnisstjórn langtímaáætlunar vinnur að gerð bæklings fyrir farþega um öryggi farþegaskipa í samvinnu við Ferðamálaráð og Samtök ferðaþjónustunnar. Stefnt er að útgáfu bæklingsins vorið 2003.
    Hafinn er undirbúningur að gerð fræðslumyndbands um móttöku farþega í farþegaskipum sem unnið verður að í samvinnu við Ferðamálaráð og Samtök ferðaþjónustunnar. Stefnt er að útgáfu þess síðari hluta ársins 2003.
    Sérstök áhersla hefur verið lögð á æfingar um borð í skipum, sjá nánar 3.11.
    Siglingastofnun hefur gert samantekt um lög og reglur sem varða rekstur farþegaskips og birt á heimasíðu sinni. Er það einkum gert til fróðleiks fyrir rekstraraðila slíkra skipa en gagnrýni hefur komið fram að lagaumhverfið sé flókið í þeim efnum. Jafnframt kemur samantektin að notum fyrir starfsmenn eftirlitsaðila, svo sem Siglingastofnun, Landhelgisgæslu, lögreglu og embætti sýslumanna og tollstjórans í Reykjavík í tengslum við lögskráningu sjómanna og útgáfu atvinnuskírteina skipstjórnar- og vélstjórnarmanna.
Mars 2004.
Gerður var fræðslupési um öryggi farþega í skipum á íslensku, dönsku, ensku og þýsku. Honum var dreift til allra farþegaskipa sem hafa farþegaleyfi Siglingastofnunar til að annast farþegaflutninga í atvinnuskyni með skipum og lögð áhersla á að þeir liggi þar frammi til upplýsingar fyrir farþega.
    Gerður var samningur við Lífsmynd um gerð fræðslumyndar sem ber heitið: „Móttaka, fræðsla og stjórnun farþega í skipum“. Stefnt er að því að gerð myndarinnar verði lokið vorið 2004.
3.2        Átak til að nýliðafræðslu sé betur sinnt
3.10    Frágangur og umgengni á neyðarbúnaði skipa
3.11    Mikilvægi skipulagðra æfinga og þjálfunar í skipum
Markmið
Að fækka slysum sem tengjast þekkingarleysi starfsmanna sem eru að hefja störf eða sinna nýju starfi um borð í skipi.
    Að tryggja gott ástand neyðarbúnaðar og að rétt sé brugðist við ef neyðarástand verður í skipi.
Staða mála
Nýliðafræðsla er lögbundin skv. 8. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, en samkvæmt heimildum er brotalöm á að þetta ákvæði sé virt í íslenskum skipum. Sama má segja um björgunar- og eldvarnaæfingar, þ.e. að reglur eru til en almennt er ekki farið eftir þeim. Frágangur og umgengni um neyðarbúnað skipa eru stundum gagnrýnd. Stuðla þarf að því að rétt sé gengið frá búnaðinum í skipum.
    Það er fullyrt að góð starfsþjálfun og nýliðafræðsla sé ein árangursríkasta leiðin til að fækka vinnuslysum til sjós og æfingar eru grundvöllur þess að rétt sé brugðist við raunverulegum neyðaraðstæðum og því mikilvægt að taka á þessum málum.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Slysavarnaskóla sjómanna verði falið að gera kynningarefni og halda uppi áróðri.
Siglingastofnun skipuleggi aðgerðir varðandi fyrirkomulag eftirlits.
Samstarfsaðilar
LÍU, SÍK, LHG og Slysavarnaskóli sjómanna.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun ráðstafi fé til að gera kynningarefni og til áróðurs og auglýsingar:
    0,5 millj. kr. árið 2001,
    0,5 millj. kr. árið 2002,
    0,5 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
Gert verði sérstakt kynningarefni og átaki komið af stað til þess að:
          nýliðafræðslu sé sinnt betur,
          neyðarbúnaður sé rétt settur upp í skipum,
          umgengni um neyðarbúnað skipa sé ávallt góð,
          æfingar og þjálfun í skipum séu skipulagðar og haldnar samkvæmt kröfum.
    Átakið feli í sér áróður sem beint verði til skipstjórnarmanna og áhafna. Jafnframt verði eftirlit Siglingastofnunar og Landhelgisgæslu aukið með þessum þáttum öryggismálanna.
Tímasetningar
Átaksverkefni fari fram á árunum 2001–2003.
Lög og reglugerðir
Sjómannalög, nr. 35/1985, 8. gr.
Reglur nr. 189/1994, um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa, með síðari breytingum.
Reglugerð nr. 122/2004, um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar að lengd eða lengri að mestu lengd.
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 6, 7, 8 og 15.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Unnið er að gerð fræðslubæklinga um ýmsa þætti öryggismála sem dreift verður til útgerða og sjómanna.
    Unnið er að því að auka eftirlit Siglingastofnunar og Landhelgisgæslu með þessum þáttum öryggismála, sbr. verkefni 13.2 og 13.5.
Mars 2003.
Nýliðafræðsla:
    Gefinn var út fræðslubæklingur um nýliðafræðslu þar sem fjallað er um ákvæði laga og reglna um nýliðafræðslu, hvernig standa eigi að nýliðafræðslu og útbúinn sérstakur gátlisti í því efni. Upplag bæklingsins var 20.000 stk. Búið er að dreifa um 13.000 eintökum af honum, t.d. til allra skipa á íslenskri skipaskrá með fréttablaði Siglingastofnunar. Auk þess var hann sendur út með fréttablöðum samtaka útgerða og sjómannasamtaka. Hann má nálgast hjá samtökum útgerðarmanna og sjómanna, sjómannaskólum, tryggingafélögum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landhelgisgæslu Íslands, Siglingastofnun Íslands og samgönguráðuneytinu. Bæklingurinn er hluti af þjálfunarhandbók sem á að vera um borð í öllum fiskiskipum stærri en 24 metrar. Á vefsíðu um öryggismál sjómanna verður jafnframt hægt að nálgast bæklinginn og aðrar upplýsingar um nýliðafræðslu.
    Áformað er að endurgera gamalt myndband um nýliðafræðslu (21 mín.) frá 1993 og fjölfalda og dreifa ásamt öðrum fræðslumyndum um öryggismál sjómanna.
    Frágangur og umgengni á neyðarbúnaði skipa:
    Gerðar voru stuttmyndir um léttbátinn (5,39 mín.), frágang gúmmíbjörgunarbáta (7,52 mín.) og notkun línubyssu (9,28 mín.). Myndirnar eru m.a. til upplýsingar um frágang og umgengni við þennan neyðarbúnað. Ákveðið er að fjölfalda myndirnar á DVD og dreifa þeim um borð í öll íslensk skip og jafnframt hafa þær aðgengilegar á heimasíðu um öryggismál sjómanna.
    Æfingar um borð:
    Gefinn var út fræðslubæklingur um æfingar um borð í skipum þar sem fjallað er um ákvæði laga og reglna um æfingar, tilgang og undirbúning æfinga, æfingaáætlun fyrir hvert ár, gátlisti yfir það sem á að gera á hverri æfingu, hvernig meta eigi árangur æfinga og frágang búnaðar að æfingu lokinni. Upplag bæklingsins var 20.000 stk. Búið er að dreifa um 13.000 eintökum af honum með sama hætti og bæklingi um nýliðafræðslu sem getið er að ofan.
    Útbúið var eyðublað um áætlun um æfingar fyrir hvert ár ásamt gátlista fyrir bátaæfingu og brunaæfingu. Dæmi um æfingar er þegar skip er yfirgefið, eldur um borð, léttbátar, maður fyrir borð, flutningur slasaðra, móttaka þyrlu, árekstur, strand, eiturefnaleki og mengun. Þessu eyðublaði var dreift um borð í öll skip fyrir öryggisviku sjómanna sem haldinn var af öllum hagsmunaaðilum vikuna 26. september–3. október 2002, en meginþema vikunnar voru æfingar um borð í skipum. Í vikunni hélt Slysavarnaskóli sjómanna fræðslu, á ýmsum stöðum vítt og breitt um landið, fyrir sjómenn um æfingar og þann 1. október var mælst til þess að allir íslenskir sjómenn tækju höndum saman um að halda björgunaræfingar um borð í skipum sínum hvar sem þau væru stödd.
    Gerð var stuttmynd um æfingar um borð í skipum (8 mín.) og er henni ætlað að vera til upplýsingar um alla þætti er varða æfingar um borð í skipum. Ákveðið er að fjölfalda myndina á DVD og dreifa um borð í öll íslensk skip og jafnframt hafa hana aðgengilega á heimasíðu um öryggismál sjómanna.
    Í framhaldi af aukinni áherslu og kynningu á mikilvægi æfinga um borð mun Siglingastofnun leggja aukna áherslu á eftirlit með að farið sé eftir ákvæðum laga og reglna um að æfingar séu haldnar.
Mars 2004.
Mynd um nýliðafræðslu var dreift með öðrum myndum um öryggismál sjómanna á tveimur DVD-diskum um borð í öll íslensk skip í ársbyrjun 2004.
3.3        Leiðbeiningar fyrir öryggisfulltrúa
12.        Stuðla þarf að því að öryggistrúnaðarmannakerfi verði tekið upp til reynslu í fiskiskipum
13.4    Öryggisfulltrúar útgerða og áhafna séu skipaðir
Markmið
Að útgerðarmenn og áhöfn beri sameiginlega ábyrgð á því að fyrirkomulag öryggismála í skipum sé í góðu horfi. Að áhafnir skipa axli ábyrgð gagnvart öryggi og heilsu og verði virkari í mótun öryggismála og vinnuumhverfis í eigin skipum.
Staða mála
Í fyrirtækjum á landi hefur það tíðkast um langt skeið að sérstakir öryggisfulltrúar séu skipaðir og hafa þeir samstarf við Vinnueftirlitið sem gerir fræðsluefni og heldur námskeið fyrir þá. Slíkt fyrirkomulag hefur ekki tíðkast í skipum, en vert væri að stuðla að því. Í reglugerð nr. 786/1998, um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna í skipum, er meðal annars ákvæði um tilnefningu öryggis- og heilbrigðisfulltrúa. Gera þarf átak til að kynna reglugerðina og fylgja þarf eftir að unnið sé eftir kröfum hennar.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun Íslands.
Samstarfsaðilar
Útgerðir, LÍÚ, SÍK, SÍ, Slysavarnaskóli sjómanna, Vinnueftirlitið og samtök sjómanna.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrki gerð fræðsluefnis og ráðgjöf fyrir öryggisfulltrúa um 1,0 millj. kr. á árinu 2002.
Framkvæmd
Útbúa þarf fræðslu- og leiðbeiningarefni fyrir öryggis- og heilbrigðisfulltrúa þar sem ábyrgð og verksvið þeirra er skilgreint. Til hliðsjónar væri hægt að hafa fyrirkomulag Vinnueftirlitsins eða það sem notað er hjá nágrannaþjóðum, svo sem í dönskum skipum.
    Skipaðir öryggis- og heilbrigðisfulltrúar í skipum skulu tilkynntir til Siglingastofnunar.
    Huga þarf að því hvort þörf sé á að hafa í boði sérstök námskeið fyrir öryggis- og heilbrigðisfulltrúa.
    Meta þarf notagildi öryggistrúnaðarmannakerfis og hugsanlega taka upp slíkt kerfi til reynslu í íslenskum skipum.
Tímasetningar
Fræðsluefni verði útbúið á árinu 2002 og dreift til útgerða og skipaðra öryggisfulltrúa, t.d. á netinu.
Lög og reglugerðir
Reglugerð nr. 786/1998, um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna í skipum.
Forgangsröð: B.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 9, 12 og 15.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Unnið er að samningu fræðslurits fyrir öryggisfulltrúa í skipum. Eftirlit með skipan öryggisfulltrúa verður hjá Siglingastofnun.
Mars 2003.
Lokið er gerð fræðslurits fyrir öryggisfulltrúa í skipum, sem verður prentað og dreift innan tíðar og birt á vefsíðu um öryggismál sjómanna. Í framhaldi af því mun Siglingastofnun ganga eftir því að öryggisfulltrúar verði skipaðir.
Mars 2004.
Áætlað er að þema öryggisviku sjómanna 2004, sem væntanlega verður haldin í september, verði um öryggisfulltrúa í skipum og í framhaldi af henni verði boðið upp á námskeið fyrir öryggisfulltrúa.
3.4        Skipulegt eftirlit áhafna með öryggisþáttum, svo sem búnaði
(3.5    Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn eldsvoða)
3.6        Kostir öryggisstjórnunarkerfa fyrir útgerðir og áhafnir
11.        Stuðla þarf að því að öryggis- og gæðastjórnunarkerfi séu notuð á sem flestum sviðum
Markmið
Útgerðarmenn og áhöfn beri sameiginlega ábyrgð á því að fyrirkomulag öryggismála í skipum sé í góðu horfi. Að hvetja útgerðir og áhafnir til að vinna saman að reglulegu og virku eftirliti með öryggisþáttum í skipum.
Staða mála
Vegna alþjóðakrafna eru útgerðir kaupskipa að innleiða öryggisstjórnunarkerfi samkvæmt ISM-staðli í skipum sínum. Vænlegt er að huga að sambærilegum leiðum varðandi öryggismál annarra skipa og sérstaklega fiskiskipa. Ljóst er að bæta má öryggismál í fiskiskipum með því að skipuleggja fyrirbyggjandi aðgerðir, fræðslu og þjálfun fyrir áhöfn og eftirlit með búnaði skipa. Hinn 21. apríl 1998 staðfestu fulltrúar FFSÍ, LÍÚ, SSÍ, VSFÍ og SVFÍ samþykkt um að æskilegt væri að skipuleggja samræmt öryggiskerfi fyrir sæfarendur og hefur SVFÍ í samvinnu við áhafnir nokkurra fiskiskipa unnið drög að slíku kerfi.
    Í nýjustu reglugerðum er varða öryggismál fiskiskipa eru ákvæði um skipulagt forvarnastarf, reglubundið eftirlit með búnaði og að notaðir séu gátlistar við eftirlit. Slíkar kröfur eru í samræmi við kröfur öryggisstjórnunarkerfa.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun setji fram kröfur til öryggisstjórnunarkerfa sem stofnunin mundi viðurkenna. Útgerðir sem velja að nota öryggisstjórnunarkerfi skipuleggi þau í samræmi við kröfur Siglingastofnunar.
    Slysavarnaskóla sjómanna verði falið að gera kynningarefni um öryggisstjórnunarkerfi.
Samstarfsaðilar
Útgerðir, LÍÚ, SSÍ, FFSÍ, VSFÍ og Slysavarnaskóli sjómanna.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrki gerð kynningarefnis, áróður og ráðgjöf um:
    0,2 millj. kr. árið 2001,
    0,5 millj. kr. árið 2002,
    0,5 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
Unnið verði kynningarefni um öryggisstjórnunarkerfi sem samræmast kröfum Siglingastofnunar til slíkra kerfa sem yrðu viðurkennd af stofnuninni eða öðrum aðilum sem stofnunin viðurkennir.
    Velja þyrfti aðila sem tækju að sér að aðstoða útgerðarfélög við gerð öryggisstjórnunarkerfa og að koma þeim formlega á.
    Huga þyrfti að leiðum til að hvetja útgerðir til að taka upp öryggisstjórnunarkerfi og til að tryggja að áhafnir vinni eftir skipulagi þess.
Tímasetningar
Kröfur til öryggistjórnunarkerfa verði skilgreindar fyrri hluta ársins 2002 og kynning fari fram seinni hluta þess.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 6, 7, 15 og 20.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Hjá Slysavarnaskóla sjómanna er verið að þróa öryggisstjórnunarkerfi fyrir fiskiskip og gætu útgerðir hugsanlega aflað fanga þar. Kynningarefni um öryggisstjórnunarkerfi almennt verður gert á árinu 2002.
Mars 2003.
Kynningarefnið ásamt íslenskri þýðingu á ISM-kóðanum verður sett á vefsíðu um öryggismál sjómanna um mitt ár 2003.
Mars 2004.
Unnið er að því að hafnir útbúi öryggishandbækur og í framhaldi af því fari fram úttektir af hálfu Siglingastofnunar. Gerð er krafa um gæðastjórnun og faggildingu hjá skoðunarstofum skipa og búnaðar, sem tóku við hlutverki Siglingastofnunar við skipaskoðun frá 1. mars. 2004.
    Siglingastofnun þýddi og birti á heimasíðu sinni ISM-kóðann, sem er alþjóðaöryggisstjórnunarkerfi fyrir öll farþegaskip í millilandasiglingum og búlkaskip og tankskip sem eru 500 brúttótonn eða stærri, en hann gekk í gildi 1. júlí 1998. Frá og með júlí 2003 tóku reglurnar einnig til allra annarra flutningaskipa. Samkvæmt Evrópureglum tóku ákvæði kóðans gildi fyrir ekjufarþegaskip í innanlandssiglingum, þar á meðal fyrir farþegaskipin Baldur og Herjólf, þann 1. júlí 1996.
3.5        Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn eldsvoða
3.8        Kynna að til sé margvíslegur öryggisbúnaður auk skyldubúnaðar
3.9        Kynning á öryggisbúnaði fyrir smábáta
3.13    Varnir gegn fallhættu
Markmið
Að sjómenn öðlist meiri vitneskju um áhættuþætti og fái betri upplýsingar um aðferðir og búnað sem hægt er að beita til að minnka áhættuna.
Staða mála
Oft er viðhorf áhafna skipa slíkt að ekki þurfi að huga að öryggismálum þar sem skipið sé skoðað einu sinni á ári af skoðunarmönnum í landi og því hljóti öll öryggisatriði að vera í góðu lagi á gildistíma haffærisskírteinis. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að skoðunarvottorð segir eingöngu til um hvernig ástand skips var á þeim degi þegar skoðað var og að lögbundinn öryggisbúnaður hafi verið um borð þann dag. Þess vegna þarf að leggja áherslu á að hvetja áhafnir til að viðhalda góðu ástandi skips og búnaðar milli skoðana og að hægt sé að gera betur í öryggismálum en eingöngu að uppfylla þær lágmarkskröfur sem tilgreindar eru í lögum og reglugerðum.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Slysavarnaskóla sjómanna verði falið að útbúa kynningarefni og halda uppi áróðri um áhættu og varnir.
Samstarfsaðilar
Útgerðir, SÍ og Slysavarnaskóli sjómanna.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun ráðstafi fé til að gera kynningarefni og til áróðurs:
    1,0 millj. kr. árið 2001,
    1,0 millj. kr. árið 2002,
    1,0 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
Samið verði sérstakt kynningarefni og hafið átak til þess að:
          kynna fyrirbyggjandi aðgerðir gegn eldsvoða, svo sem viðhald búnaðar, hreinlæti og umgengni,
          vekja áhafnir skipa til umhugsunar um fallhættu og varnir gegn henni,
          kynna ýmsar leiðir til að bæta öryggi um borð í skipum,
          kynna öryggisbúnað fyrir smábáta, svo sem líflínur, bárufleyg, öryggisslár.
    Átakið feli í sér áróður sem beint verði til útgerða og áhafna.
Tímasetningar
Átaksverkefni fari fram á árunum 2001–2003.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 7, 10, 11,12, 13 og 15.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Unnið er að samningu fræðslubæklinga um ýmsa þætti öryggismála sem dreift verður til útgerða og sjómanna.
Mars 2003.
Eldvarnir:
    Gefinn var út fræðslubæklingur um eldvarnir í skipum þar sem fjallað er um forvarnir, grunnþekkingu skipverja, fyrstu viðbrögð, flótta, slökkvistörf og björgun manna. Samband íslenskra tryggingafélaga styrkti útgáfu hans. Upplag bæklingsins var 20.000 stk. Búið er að dreifa um 13.000 eintökum af honum, t.d. til allra skipa á íslenskri skipaskrá með fréttablaði Siglingastofnunar. Auk þess var hann sendur út með fréttablöðum samtaka útgerða og sjómannasamtaka. Hann má nálgast hjá samtökum útgerðarmanna og sjómanna, sjómannaskólum, tryggingafélögum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landhelgisgæslu Íslands, Siglingastofnun Íslands og samgönguráðuneytinu. Bæklingurinn er hluti af þjálfunarhandbók sem á að vera um borð í öllum fiskiskipum stærri en 24 metrar. Á vefsíðu um öryggismál sjómanna verður jafnframt hægt að nálgast bæklinginn og aðrar upplýsingar um eldvarnir í skipum.
    Unnið er að endurskoðun sérrits Siglingamálastofnunar ríkisins „Eldur um borð“ sem gefið var út árið 1990.
    Áformað er að endurútgefa fræðslumyndbandið „Eldur um borð“ frá árinu 1994 (17 mín.) og fjölfalda á DVD ásamt öðrum fræðslumyndum um öryggismál sjómanna og dreifa um borð í öll íslensk skip og jafnframt hafa hana aðgengilega á heimasíðu um öryggismál sjómanna.
    Fallhætta:
    Gefinn var út fræðslubæklingur um fallhættu í skipum, þar sem fjallað er um forvarnir, orsakir fallslysa, slysahættu og öryggisráðstafanir. Upplag bæklingsins var 20.000 stk. Búið er að dreifa um 13.000 eintökum af honum með sama hætti og bæklingi um eldvarnir í skipum sem fyrr er getið.
    Gerð var stuttmynd um fallhættu í skipum (5 mín.) og er henni ætlað að vera til upplýsingar um allt sem tengist fallhættu. Ákveðið er að fjölfalda myndina á DVD ásamt öðrum stuttmyndum og dreifa um borð í öll íslensk skip og jafnframt hafa hana aðgengilega á heimasíðu um öryggismál sjómanna.
Mars 2004.
Á árinu 2003 var gefinn út fræðslupési um öryggi smábáta á veiðum og var upplag hans 10.000 eintök. Búið er að dreifa honum til allra minni skipa á íslenskri skipaskrá með fréttablaði Siglingastofnunar og til félagsmanna Landssambands smábátaeigenda. Á vefsíðu um öryggismál sjómanna er jafnframt hægt að nálgast pésann og aðrar upplýsingar um öryggismál sjómanna.
    Í byrjun árs 2004 var lokið gerð myndarinnar „Öryggi smábáta á fiskveiðum“. Myndin er fyrsta fræðslumyndin þar sem öryggismál smábáta eru tekin sérstaklega til umfjöllunar. Myndin er gerð af Lífsmynd og er 26 mínútur að lengd. Hún verður fjölfölduð innan tíðar og send um borð í alla smábáta sem skráðir eru á íslenska skipaskrá ásamt myndum sem nú eru í undirbúningi og fjalla um hið sjálfvirka tilkynningarkerfi skipa (STK) og um sjóstýrðan losunarbúnað.
3.7        Kynning á lögum og reglum sem taka gildi
13.3    Fræða þarf útgerðarmenn og áhafnir um tilgang laga og reglna
Markmið
Að útgerðir og áhafnir skipa fái ávallt vitneskju um lög og reglugerðir sem taka gildi.
Staða mála
Lög og reglugerðir sem taka gildi eru birt í Stjórnartíðindum og oft hefur Siglingastofnun kynnt þau í fréttabréfi sínu „Til sjávar“. Komið hefur fyrir að Siglingastofnun haldi sérstaka kynningu um reglugerðir fyrir málsaðila. Í sjómannaalmanaki eru jafnframt lög og reglugerðir sem tengjast öryggi sjófarenda. Þrátt fyrir það virðist sem áhafnir skipa hafi almennt litla þekkingu eða vitneskju um mörg lög og reglur sem varða öryggismál þeirra. Finna þarf leiðir til að bæta þekkingu þeirra á lögum og reglum og tilgangi þeirra.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun Íslands.
Samstarfsaðilar
Samgönguráðuneyti.
Fjármögnun
Framkvæmd
Siglingastofnun skipuleggi og komi á formlegu fyrirkomulagi kynninga á lögum og reglugerðum og kynni þau mikilvægustu sem víðast.
    Lög og reglugerðir um öryggismál sjómanna séu aðgengileg á heimasíðu Siglingastofnunar.
Tímasetningar
Lög og reglugerðir séu kynnt þeim er málið varðar við gildistöku þeirra.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: B.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 12, 15, 18, 21, 22 og 23.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Innan Siglingastofnunar er unnið að því að einfalda og samhæfa laga- og reglugerðarumhverfi öryggismála og verða þau aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar.
Mars 2003.
    Með opnun nýrrar heimasíðu Siglingastofnunar eiga öll lög og reglur sem varða siglingamál og öryggismál sjómanna að vera aðgengileg á rafrænu formi. Á heimasíðunni eru m.a. birtar fréttir um ný lög og reglugerðir og innihald og markmið þeirra.
    Siglingastofnun hefur gert samantekt um lög og reglur sem varða rekstur farþegaskips og um skemmtibáta og birt á heimasíðu sinni. Er það einkum gert til fróðleiks fyrir rekstraraðila slíkra skipa en gagnrýni hefur komið fram um að lagaumhverfið sé flókið í þeim efnum. Jafnframt kemur samantektin að notum fyrir starfsmenn eftirlitsaðila, svo sem Siglingastofnun, Landhelgisgæslu, lögreglu og embætti sýslumanna og tollstjórans í Reykjavík í tengslum við lögskráningu sjómanna og útgáfu atvinnuskírteina skipstjórnar- og vélstjórnarmanna. Unnið er að gerð fleiri slíkra samantekta, t.d. um rekstur fiskiskipa.
Mars 2004.
Siglingastofnun kynnir ný lög og reglur á heimasíðu sinni.
    Unnið að því að einfalda og samhæfa laga- og reglugerðarumhverfi öryggismála. Með reglugerð um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd, nr. 122/2004, var sett heildarreglugerð um það efni og ákvæði 10 annarra reglugerða felld brott.
3.12    Greining áhættu í vinnuumhverfi sjómanna
Markmið
Að áhafnir skipa séu hæfar til að vinna skipulega að greiningu áhættu í eigin vinnuumhverfi og að vinna markvisst að forvörnum gegn slysum, óhöppum og heilsutjóni.
Staða mála
Á grundvelli tilskipunar Evrópuráðsins nr. 89/391/EBE var sett reglugerð nr. 786/1998 um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum. Í reglugerðinni er ákvæði um forvarnavinnu gegn áhættu í skipum sem felur m.a. í sér að framkvæmt sé hættumat varðandi öryggi og heilsu á vinnustað.
    Í mörgum löndum Evrópusambandsins er þetta ákvæði tekið alvarlega og hafa stofnanir lagt metnað í að aðstoða áhafnir við gerð áhættumats í skipum, enda er tekið hart á þeim sem virða ekki þetta ákvæði. Mikilvægt er að stuðlað sé að því að áhættumat sé gert í íslenskum skipum samkvæmt reglugerðinni.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun ber ábyrgð á gerð áhættumats.
Samstarfsaðilar
Útgerðir, LÍÚ, SÍK og Slysavarnaskóli sjómanna.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrki gerð fræðsluefnis og ráðgjöf fyrir áhafnir um:
    1,0 millj. kr. árið 2002,
    1,3 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
Útfærsla og umfang áhættumats sé skilgreint af Siglingastofnun, ásamt kröfum um upplýsingaskyldu til stjórnvalda og söfnun staðfestinga á að áhættumat hafi verið gert.
    Gerðar verði leiðbeiningar fyrir áhafnir um áhættumat og forvarnir.
    Kröfur reglugerðarinnar séu kynntar og því fylgt eftir að þær séu virtar í öllum viðkomandi skipum.
Tímasetningar
Áhættumat í skipum verði skilgreint og fræðsluefni gert á árinu 2002. Áhafnir skipa ljúki áhættumati um borð í eigin skipum á árinu 2003.
Lög og reglugerðir
Reglugerð nr. 786/1998, um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum.
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 9, 12, 13 og 15.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Árin 1998 og 1999 gerði SVFÍ tilraun með notkun viðurkenndrar áhættugreiningaraðferðar í samstarfi við áhafnir nokkurra fiskiskipa. Mögulega væri hægt að nýta reynslu sem fékkst við þá vinnu.
    Leiðbeiningar um áhættumat verða gerðar aðgengilegar fyrir útgerðir og áhafnir á árinu 2002.
Mars 2003.
Leiðbeiningar um áhættumat verða settar á vefsíðu um öryggismál sjómanna um mitt árið 2003.
Mars 2004.
Á heimasíðu um öryggismál sjófarenda má nálgast leiðbeiningar um gerð áhættumats í fiskiskipum.     Íslensk stjórnvöld gera kröfu um að öll starfsemi um borð í hverju skipi sé skipulögð og fari þannig fram að fullnægjandi öryggi og góð heilsa starfsmanna sé tryggð. Samkvæmt reglugerð nr. 786/1998 skal framkvæmd hættumats sérhvers skips tilkynnt til Siglingastofnunar. Hún á að fylgja því eftir að hættumat sé gert og að unnið sé að forvörnum gegn slysum og heilsutjóni um borð í skipum. Skoðunaraðilar sem Siglingastofnun Íslands hefur viðurkennt hafa eftirlit með að hættumat hafi verið gert samkvæmt kröfum, s.s. að skráningar séu fullnægjandi, áhöfn hafi tekið þátt, unnið sé að úrbótum og að niðurstöður hættumats séu aðgengilegar skipverjum. Í skyndiskoðunum Siglingastofnunar Íslands eða Landhelgisgæslu Íslands er einnig haft eftirlit með framkvæmd hættumats í skipum. Verði slys um borð í skipi getur rannsóknarnefnd sjóslysa óskað eftir afriti af hættumati viðkomandi skips.
4.1                Handbækur, bæklingar eða myndbönd um öryggismál
4.2–4.5    Fræðsluefni um æfingar, hífingarbúnað, frágang neyðarbúnaðar, vinnuöryggi o.fl.
Markmið
Að stuðla að auknum forvörnum gegn slysum og óhöppum til sjós. Að fræðsluefni og leiðbeiningar um öryggismál sjófarenda sé til á íslensku og sé aðgengilegt sjómönnum um borð í eigin skipum, þannig að skipuleg fræðsla geti farið fram um borð til að viðhalda og efla þekkingu sjómanna á öryggismálum þeirra.
Staða mála
Ýmislegt fræðsluefni hefur verið gert, en mikið af því er komið til ára sinna, er úrelt eða ekki hæft til fjölföldunar og dreifingar. Jafnframt hafa verið gerð drög að margs konar fræðsluefni sem ekki hefur tekist að klára vegna skorts á fjármagni o.fl. Myndbanki sjómanna hefur verið óvirkur um árabil og þyrfti að huga að breytingum á fyrirkomulagi hans og styrkja sem víðast gerð, útgáfu og dreifingu fræðsluefnis um öryggismál sjófarenda.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun felur aðilum að vinna eða semja um ákveðna verkhluta.
Samstarfsaðilar
SÍK, LÍÚ, LS, FFSÍ, VSFÍ, SSÍ, Slysavarnaskóli sjómanna, Stýrimannaskóli, Vélskóli, Myndbanki sjómanna, Endurmenntun vélstjóra, Vinnueftirlitið.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrkir gerð og útgáfu fræðsluefnis um:
    3,0 millj. kr. árið 2001,
    4,0 millj. kr. árið 2002,
    4,0 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
          Gerð verði samantekt á fræðsluefni sem gefið hefur verið út um öryggismál sjófarenda.
          Tekið verði saman hvaða efni er hæft til dreifingar og hvaða efni þyrfti að útbúa.
          Ákvarða skal hvaða nýtt fræðsluefni skuli gert og hverjir skuli vinna handrit og semja um útgáfu.
          Koma þyrfti sem mestu af góðu fræðsluefni, myndböndum og prentuðu máli, á tölvutækt form til dreifingar á tölvudiskum og á netinu.
          Semja þyrfti við erlenda framleiðendur fyrsta flokks fræðsluefnis um þýðingu efnis á íslensku og dreifingu þess hér á landi.
          Semja þarf við íslenska framleiðendur fræðsluefnis um söfnun, fjölföldun og dreifingu á efni frá þeim.
Tímasetningar
Ákvörðun um fræðsluefni sem á að vinna skal liggja fyrir í lok janúar 2002. Vinna að gerð fræðsluefnis og dreifing fari fram árin 2002 og 2003.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 6, 7, 8, 9, 15, 20 og 22.
Fundargerðir verkefnisstjórnar 2. og 3. fundur 2001.
Listi Siglingastofnunar um útgefið fræðsluefni.
Listi Slysavarnaskóla sjómanna um aðgengilegt og æskilegt fræðsluefni.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Ákveðið hefur verið að endurgera ýmislegt eldra fræðsluefni. Jafnframt hefur verið tekin ákvörðun um að útbúa margvíslegt nýtt fræðsluefni um öryggismál sjófarenda. Þetta efni verður aðgengilegt á sérstakri heimasíðu um öryggismál sjófarenda og verður jafnframt dreift til útgerða og sjómanna.
Mars 2003.
Fræðslubæklingar:
    Búið er að gefa út fimm fræðslubæklinga, þ.e. æfingar um borð í skipum, eldvarnir í skipum, nýliðafræðsla í skipum, öryggi við hífingar og fallhætta í skipum. Samband íslenskra tryggingafélaga styrkti útgáfu bæklings um eldvarnir í skipum. Upplag hvers um sig var 20.000 stk. Búið er að dreifa um 13.000 eintökum af hverjum þeirra, t.d. til allra skipa á íslenskri skipaskrá með fréttablaði Siglingastofnunar. Auk þess voru þeir sendir út með fréttablöðum samtaka útgerða og sjómannasamtaka. Þá má nálgast hjá samtökum útgerðarmanna og sjómanna, sjómannaskólum, tryggingafélögum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landhelgisgæslu Íslands, Siglingastofnun Íslands og samgönguráðuneytinu. Þeir eru hluti af þjálfunarhandbók sem á að vera um borð í öllum fiskiskipum stærri en 24 metrar. Á vefsíðu um öryggismál sjómanna verður jafnframt hægt að nálgast þá og aðrar upplýsingar um öryggismál sjómanna.     Unnið er að gerð bæklinga um öryggi í höfnum, öryggi farþega í farþegaskipum, öryggi smábáta, vinnuvistfræði sjómanna, sjálfvirkt tilkynningarkerfi skipa (STK). Jafnframt hafa komið fram hugmyndir um að útbúa fræðsluefni um vinnuöryggi í fiskiskipum, vinnuöryggi í flutningaskipum, öryggi kafara, öryggi skemmtibáta og áhættumat í fiskiskipum.

Endurgerð sérrita Siglingamálastofnunar ríkisins:
    Í kringum 1990 voru gefin út rit á vegum Siglingamálastofnunar ríkisins um öryggismál sjómanna. Þar sem upplag margra þessara rita er uppurið og efni þeirra þarfnast endurskoðunar er nú unnið að því að endurskoða efni þeirra og gefa þau út á nýjan leik. Stefnt er að því að þessi rit verði send til allra skipa á íslenskri skipaskrá og birt á vefsíðu um öryggismál sjómanna. Þessi rit eru:
     1.      Notkun gúmmíbjörgunarbáta, gefið út 1981.
     2.      Lækningabók fyrir sjófarendur, gefin út 1982.
    Siglingastofnun Íslands hefur fengið heimild systurstofnunar sinnar í Danmörku til að þýða bók sem hún gaf út í Danmörku um þetta efni. Lokið er þýðingu hennar og er stefnt að því að prentun hennar verði lokið um miðjan apríl 2003. Miðað er við að bókin verði seld á kostnaðarverði.
     3.      Kynning á stöðugleika skipa, gefið út 1988, sjá umfjöllun um 1.3.
     4.      Eldur um borð, gefið út 1990.
     5.      Björgun úr köldum sjó, gefið út 1986.

Fræðslumyndir.
Stuttmyndir frá 1993:
Lokið er við að gera 11 stuttmyndir um eftirtalin efni:
Léttbáturinn          5,39 mín.
Frágangur gúmmíbjörgunarbáta     7,52 mín.
Móttaka þyrlu          6,28 mín.
Notkun línabyssa          9,28 mín.
Æfingar um borð          8,00 mín.
Öryggi skips og áhafnar          8,00 mín.
Hættuleg efni um borð          7,27 mín.
Vinnuöryggi á vinnsluþilfari          7,40 mín.
Vinnuöryggi við fiskveiðar          15,30 mín.
Fallhætta á skipum          5,02 mín.
Öryggi við hífingar          6,30 mín.
    Áformað er að fjölfalda þessar stuttmyndir á DVD og dreifa um borð í öll íslensk skip og jafnframt hafa þær aðgengilega á heimasíðu um öryggismál sjómanna. Tryggingafélög styrktu gerð stuttmyndar um öryggi skips og áhafnar.

Endurgerð eldri myndbanda:
    Áformað er að endurgera gömul myndbönd og fjölfalda og dreifa með sama hætti og nýjum stuttmyndum sem fyrr er getið, en þessar myndir eru:
Nýliðafræðsla               21 mín 1993
Eldur um borð               17 mín. 1994
Öryggisfræðsla sjómanna     21 mín.1994
Skyndihjálp – endurlífgun     5 mín. 2001
Skyndihjálp – aðskotahlutur í hálsi     5 mín. 2001
Sæstrengir við Ísland     3 mín. 2001
Sæstrengir við Reykjavík     3 mín. 2001
Í köldum sjó                    21 mín. 1991
Öryggi og heilbrigði vélstjóra     14 mín. 1991
Átök gegn slysum til sjós (9 stuttmyndir)     23 mín. 1992
Um björgunarbúninga og gúmmíbáta     26 mín. 1995
Á sama báti I               30 mín. 1997
Á sama báti II               33 mín. 1997
Björgun með þyrlu     25 mín. 1997
Stöðugleiki fiskiskipa     25 mín. 2003
    Ný myndbönd: Áformað er að gera nýjar fræðslumyndir og fjölfalda og dreifa með sama hætti og öðrum myndum sem fyrr er getið. Ákveðið hefur verið að gera fræðslumynd um öryggismál smábáta og móttöku farþega í farþegaskipum.
Mars 2004.
Fræðslumyndir:
    Myndirnar sem vitnað er til að framan voru fjölfaldaðar á DVD-diska og voru þeir sendir til allra íslenskra skipa. Myndirnar eru 26, bæði stuttmyndir frá árinu 2002 og eldri myndir sem settar hafa verið á stafrænt form að fengnu leyfi útgefanda. Myndirnar eru á tveimur geisladiskum og er lengd myndanna samtals tæpar 6 klst. Í byrjun árs 2004 var lokið gerð myndarinnar „Öryggi smábáta á fiskveiðum“. Myndin er fyrsta fræðslumyndin þar sem öryggismál smábáta eru tekin sérstaklega til umfjöllunar. Myndin er gerð af Lífsmynd og er 26 mínútur að lengd. Hún verður fjölfölduð innan tíðar og send um borð í alla smábáta sem skráðir eru á íslenska skipaskrá ásamt myndum sem nú eru í undirbúningi og fjalla um hið sjálfvirka tilkynningarkerfi skipa (STK) og um sjóstýrðan losunarbúnað.

Lækningabók sjófarenda:
    Í maí 2003 kom út Lækningabók sjófarenda. Bókin er hin fjórða af sínu tagi sem gefin er út hérlendis, en fyrri bækur voru: Farmannabók. Lækningakver fyrir farmenn og aðra sjómenn sem landlæknisembættið og Þórður Þórðarson læknir stóðu að árið 1938, Lækningabók handa sjómönnum sem læknarnir Benedikt Tómasson og Ólafur Jóhannsson sömdu og gefin var út að tilhlutan landlæknisembættisins árið 1967 og að síðustu Lækningabók fyrir sjófarendur sem Siglingamálastofnun ríkisins gaf út árið 1982 í samvinnu við landlæknisembættið og var hún að verulegu leyti sniðin eftir bókinni frá 1967. Bókin er þýðing á Søfartsstyrelsens lægebog sem siglingastofnun Dana gaf út og er einnig notuð við kennslu í slysahjálp og lækningum í dönsku sjómannaskólunum. Bókin er samin af læknum með sérþekkingu á heilbrigðismálum sjómanna og víðtækt samráð var haft við helstu hagsmunaaðila í dönskum sjávarútvegi og starfandi sjómenn, bæði í fiski- og kaupskipaflota. Samgönguráðuneytið hefur gefið út reglugerð nr. 931/2003 sem kveður á um að í lyfjakistu allra íslenskra skipa sem eru 15 metrar eða lengri skuli vera Lækningabók sjófarenda. Bókin er til sölu hjá Siglingastofnun og kostar kr. 4.500.

Fræðslupésar:
Á árinu 2003 voru gefnir út þrír fræðslupésar, þ.e. um öryggi í höfnum, öryggi farþega í skipum og öryggi smábáta á veiðum. Upplag hvers um sig var 20.000 eintök. Búið er að dreifa þeim til allra skipa á íslenskri skipaskrá með fréttablaði Siglingastofnunar. Auk þess voru þeir sendir út með fréttablöðum samtaka útgerða og sjómannasamtaka. Þá má nálgast hjá samtökum útgerðarmanna og sjómanna, sjómannaskólum, tryggingafélögum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landhelgisgæslu Íslands, Siglingastofnun Íslands og samgönguráðuneytinu. Þeir eru hluti af þjálfunarhandbók sem á að vera um borð í öllum fiskiskipum 15 metrar eða lengri að mestu lengd. Á vefsíðu um öryggismál sjómanna er jafnframt hægt að nálgast þá og aðrar upplýsingar um öryggismál sjómanna.
    Unnið er að gerð fræðslupésa um sjálfvirkt tilkynningarkerfi skipa (STK), vinnuöryggi í fiskiskipum, vinnuöryggi í flutningaskipum, öryggi kafara, öryggi skemmtibáta og áhættumat í fiskiskipum.

Vinnuvistfræði sjómanna:
Unnið er að gerð fræðslurits um vinnuvistfræði sjómanna og er stefnt að því að það komi út vorið 2004 og því verði dreift endurgjaldslaust til allra sjómanna.

Málfundir um öryggismál sjómanna út um land:
Málfundir um öryggismál sjómanna voru haldnir á árinu 2003 í Grindavík, Ólafsvík, Ísafirði, Akureyri, Reyðarfirði, Vestmannaeyjum og Reykjavík undir yfirskriftinni „Öryggismál sjómanna. Hver er staðan í dag?“ Sjómenn, útgerðarmenn og aðrir sem láta sig öryggi sjómanna varða voru hvattir til að mæta og koma sjónarmiðum sínum að. Dagskrá fundanna var með sama hætti alls staðar og í lok fundanna talaði staðkunnugur sjómaður á hverjum stað og fjallaði um öryggismál sjómanna. Efni erindanna má nálgast á heimasíðu Siglingastofnunar. Á fundunum var gert ráð fyrir tíma í fyrirspurnir og umræður. Þeir voru fjölsóttir og komu þar ýmsar hugmyndir og tillögur um öryggismál sjómanna. Siglingastofnun hefur unnið úr þessum tillögum og hefur í framhaldi af því gert tillögur til siglingaráðs um ýmsar aðgerðir í framhaldi af þessum fundum, þar á meðal um ýmsar reglugerðarbreytingar sem gerðar verða á árinu 2004.
4.6        Merkingar á hættusvæðum í skipum
4.7        Viðvörunarspjöld og leiðbeiningar
Markmið
Að auka öryggi í skipum með betri merkingum/viðvörunum um áhættu og betri aðgangi að leiðbeiningum um öryggistæki og öryggisráðstafanir.
Staða mála
Víða í skipum leynast hættur sem nauðsynlegt er að merkja og/eða benda á til að vekja athygli skipverja á hættunni. Mikilvægt er að merkja vel öll hættusvæði í skipum.
    Kröfur um leiðbeiningar um notkun öryggisbúnaðar í skipum eru ekki uppfylltar í öllum tilvikum og þrýsta þarf á seljendur búnaðar og útgerðir um að leiðbeiningarnar séu aðgengilegar fyrir áhafnir skipa.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun hafi forgöngu um að hættusvæði í skipum séu merkt, að útbúin séu viðeigandi viðvörunarspjöld og að leiðbeiningar um meðferð öryggistækja séu aðgengilegar um borð í skipum.
Samstarfsaðilar
Útgerðir, stéttarfélög sjómanna, LHG, Slysavarnaskóli sjómanna, Vinnueftirlitið, söluaðilar öryggisbúnaðar.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrki þessi verkefni um 2 millj. kr. af fjárframlagi ársins 2003.
Framkvæmd
Siglingastofnun skipuleggi aðgerðir til að bæta úr merkingum og aðgengi áhafna skipa að leiðbeiningum, og sér til þess í samvinnu við málsaðila að merkingar og leiðbeiningar sem vantar séu gerðar og settar upp í skipum. Merkingar verða að þola það álag sem þær verða fyrir á hverju svæði þar sem þær eru settar upp, t.d. það að límmiðar endast stutt á vinnusvæðum í skipum.
Tímasetningar
Verkefnum ljúki á árinu 2003.
Lög og reglugerðir
Reglugerð nr. 786/1998, um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum.
Reglur nr. 707/1995, um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum.
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 8, 9, 11, 14 og 20.
Listi Slysavarnaskóla sjómanna um aðgengilegt og æskilegt fræðsluefni.
Framvinda verkefnis
Mars 2002, 2003 og 2004.
Gerð hefur verið tillaga að leiðbeiningum, viðvörunarspjöldum og merkingum sem þyrftu að vera til.
5.1        Slysa- og óhappaskráning í skipum
5.2        Sérstakt eyðublað í skip fyrir athugasemdir um öryggismál sjófarenda
5.5        Skráningarkerfi fyrir „næstum því slys og óhöpp“
Markmið
Að auka þekkingu á orsökum slysa og óhappa í íslenskum skipum og stuðla að bættri vitneskju um ástand öryggismála sjófarenda hverju sinni þannig að unnt sé að vinna markvisst að úrbótum.
Staða mála
Slysaskráningu hefur verið ábótavant og hingað til hafa upplýsingar um slys og orsakir þeirra ekki verið nægilega aðgengilegar þannig að óljóst hefur verið hvernig skuli standa að úrbótum í öryggismálum sjófarenda hér við land. Áhafnir mættu standa betur að skráningu slysa og óhappa í eigin skipum þannig að útgerðum gefist kostur á að bæta úr þeim atriðum sem aflaga hafa farið. Ábendingar sjófarenda um atriði sem þarfnast lagfæringar hafa ekki fengið formlega meðhöndlun hjá opinberum aðilum og því oft „týnst í kerfinu“. Nauðsynlegt er að bæta úr þessum atriðum og stuðla að meiri upplýsingasöfnun um þessi mál.
    Virkja ber sjófarendur í að benda á það sem betur má fara víðs vegar við landið.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Rannsóknarnefnd sjóslysa hafi forgöngu um að fyrirkomulag slysa- og óhappaskráningar sé skilgreint. Siglingastofnun skilgreini fyrirkomulag vegna athugasemda um öryggismál sjófarenda.
Samstarfsaðilar
Siglingastofnun, rannsóknarnefnd sjóslysa, Tryggingastofnun, landlæknisembættið, Slysaskrá Íslands, tryggingafélög, útgerðir og stéttarfélög sjómanna.
Áætluð fjármögnun
Verkefnið verði kostað af fjárveitingum rannsóknarnefndar sjóslysa.
Framkvæmd
Komið verði upp gagnagrunni þar sem unnt verði að skrá öll slys og óhöpp sem verða á íslenskum skipum og þegar þörf er á verði upplýsingum miðlað aftur til útgerða og áhafna skipa, svo sem þegar alvarleg slys eða mörg sambærileg hafa orðið. Samhliða verði sendar út tillögur að úrbótum ef unnt er.
    Fyrirkomulag vegna ábendinga sjófarenda um atriði sem bæta þarf úr verði skipulagt, skráningu athugasemda verði komið á og meðhöndlun upplýsinga verði með formlegum hætti.
    Stuðlað verði að því að slysa- og óhappaskráning sé tekin upp í öllum skipum, úrbætur séu gerðar af áhöfnum og útgerðum og að upplýsingum sé miðlað til annarra sambærilegra skipa.
    Leggja þarf áherslu á að slys og óhöpp séu skráð í skipsbækur.
Tímasetningar
Fyrirkomulag skráninga verði ákvarðað 2002 og unnið verði samkvæmt skipulagi eftir að það liggur fyrir.
Lög og reglugerðir
Lög nr. 68/2000, um rannsókn sjóslysa.
Reglugerð nr. 133/2001, um rannsókn sjóslysa.
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 9, 10, 16, 19 og 21.
Framvinda verkefnis
Mars 2002, 2003 og 2004.
Rannsóknarnefnd sjóslysa vinnur að gerð eyðublaðs fyrir slysa- og óhappaskráningu í skipum sem skal útfylla og senda til nefndarinnar þegar slys eða atvik verða.
5.3        Endurnýjuð sjókort séu gefin út og þau séu aðgengileg sem víðast
5.4        Ákvörðun þarf að taka um siglingaleiðir olíuskipa
Markmið
Að treysta öryggi skipa sem sigla í íslenskri efnahagslögsögu. Að minnka líkur á mengunarslysum við strendur Íslands.
Staða mála
Í nýjum mælingum hafa verulegar skekkjur komið fram í sumum sjókortum sem gerð voru eftir gömlum handlóðsmælingum. Mikilvægt er að siglingaleiðir við landið séu kortlagðar og úrelt kort séu endurnýjuð og gefin út.
    Nefnd sem skipuð var til að móta reglur um tilkynningarskyldu og afmörkun siglingaleiða olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning inn í íslenska efnahagslögsögu skilaði skýrslu í byrjun árs 2001. Mikilvægt er að ákvarðanir séu teknar um siglingaleiðir olíuskipa þannig að öryggi þeirra sé tryggt á siglingu við landið og komið sé í veg fyrir mengunarslys.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Landhelgisgæsla og Siglingastofnun geri áætlun um mælingar og útgáfu sjó- og hafnarkorta. Hollustuvernd ríkisins hafi frumkvæði að áhættugreiningu vegna siglinga skipa er flytja hættulegan farm.
Samstarfsaðilar
Siglingastofnun, Landhelgisgæsla, Sjómælingar, Hollustuvernd ríkisins, kaupskipaútgerðir, samgönguráðuneyti, umhverfisráðuneyti.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrki þessi verkefni um 0,6 millj. kr. árið 2002 og 0,8 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
Verkefni verði skipulögð af ábyrgðar-/umsjónaraðilum og viðkomandi samstarfsaðilum. Kostnaður vegna framkvæmda verði kynntur fyrir ráðuneytum sem gætu óskað fjármagns í næstu fjárlagafrumvörpum.
Tímasetningar
Verkefni verði skipulögð árið 2002 og síðan unnin samkvæmt gerðu skipulagi.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 17.
Skýrsla um niðurstöður nefndar um takmörkun siglinga við suðvesturströnd Íslands, janúar 2001.
Ráðstafanir til leiðarstjórnunar skipa við suðvesturströnd Íslands, skýrsla byggð á skýrslu DNV, febrúar 2001.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Unnið er að frumvarpi um öryggi siglinga og öryggisþjónustu við skip. Umhverfisráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um verndun hafs og stranda.
    Siglingastofnun Íslands á tiltæk kort með dýptarmælingum við hafnir vegna framkvæmda við þær. Unnið er að því að setja þessi kort á netið.
    Undirbúningur að áhættumati á siglingaleiðum er hafinn hjá Siglingastofnun.
Mars 2003.
Á Alþingi er til umfjöllunar frumvarp til laga um vaktstöð siglinga, en með því er m.a. verið að innleiða tilskipun EB 2002/59 sem fjallar m.a. um leiðarstjórnunarkerfi og siglingaleiðir.
    Siglingastofnun hefur útbúið rannsóknaráætlun í tengslum við tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003–2006 sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Þar eru verkefni sem tengjast siglingaleiðum skipa:
    „Siglingaleiðir. Stefnt verður að mælingum á stöðugleika skipa á siglingaleiðum. Unnin verður skýrsla um siglingaöryggi mismunandi skipa og samanburður gerður við núverandi leiðir. Þessi skýrsla verður unnin í samvinnu við þá aðila sem starfað hafa með Siglingastofnun að þróun upplýsingakerfis um hættulegar öldur og stöðugleika minni fiskiskipa, auk þeirra aðila sem unnið hafa að reiknilíkani um sjávarföll. Jafnframt verður unnið að setningu reglna um takmörkun siglinga um líffræðilega mikilvæg hafsvæði.
    Unnið er að könnun á hugsanlegum ferjusiglingum milli Vestmannaeyja og lands með ferjulægi við Bakkafjöru. Gerðir hafa verið öldufarsreikningar á siglingaleiðinni og samið hefur verið við Vestmannaeyjahöfn um reglulegar dýptarmælingar við Bakkafjöru til að fylgjast með botnbreytingum. Gert er ráð fyrir að mælingarnar fari fram yfir sumar, haust, vetur og á vorin á tímabilinu 2002–2006.“
Mars 2004.
Lög um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, tóku gildi 3. apríl 2003.
Á heimasíðu Siglingastofnunar eru tiltæk kort með dýptarmælingum við hafnir.
5.6        Aðgengi skipverja að upplýsingum um ástand skips
5.7        Sérstök heimasíða um öryggismál sjómanna
5.8        Upplýsingum dreift á netinu, með WAP-tækni og textavarpi
Markmið
Að allt aðgengi sjómanna að nauðsynlegum upplýsingum sem tengjast öryggi þeirra á sjó sé aukið.
Staða mála
Upplýsingar um ástand skipa, stöðugleika, athugasemdir skoðunarmanna, réttindamál áhafna o.s.frv. hafa ekki verið sérlega aðgengilegar fyrir áhafnir viðkomandi skipa. Nauðsynlegt er að þessar upplýsingar verði mun aðgengilegri en nú fyrir útgerðir, áhafnir og eftirlitsaðila, og jafnvel ætti að vera hægt að skoða þær á netinu.
    Upplýsingar um öryggismál sjómanna almennt þyrftu að vera aðgengilegar á netinu og þar þyrfti að vera hægt að sækja og fylla út sem flest eyðublöð er varða sjófarendur.
    Upplýsingakerfi SÍ um veður og sjólag er til bóta fyrir sjófarendur og skoða þarf möguleika á dreifingu upplýsinga sem víðast, svo sem í textavarpi sjónvarps og með nettengingu farsíma.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun hafi forgöngu um þessi mál.
Samstarfsaðilar
Siglingastofnun, Veðurstofa, Póst- og fjarskiptastofnun, Ríkisútvarpið o.fl.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrki þessi verkefni um:
    0,7 millj. kr. árið 2001,
    0,4 millj. kr. árið 2002,
    1,0 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
Siglingastofnun skipuleggi þessa vinnu í samráði við viðkomandi samstarfsaðila.
Tímasetningar
Unnið verði að þessum verkefnum árin 2001–2003.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: A/B.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 10 og 18.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Ákveðið hefur verið að setja upp sérstaka heimasíðu um öryggismál sjófarenda. Útbúin hafa verið drög að veftré fyrir síðuna og verður hún opnuð síðar á árinu 2002.
    Unnið er að gerð nýrrar skipaskrár og er stefnt að því að upplýsingar um ástand skips verði aðgengilegar.
Mars 2003.
Unnið er að því að setja inn efni á heimasíðu um öryggismál sjófarenda og hefur það verk tafist en nú er stefnt að því að hún verði opnuð formlega um mitt ár. Siglingastofnun hefur tekið í notkun nýtt tölvukerfi fyrir skipaskrá og er verið að uppfæra það kerfi í ljósi þeirrar reynslu sem komin er og í framhaldi af því verður skoðað að hvaða marki hún verður opnuð og gerð aðgengileg með rafrænum hætti.
Mars 2004.
Búið er að opna heimasíðu um öryggismál sjómanna (www.sigling.is/oryggismal).
5.9        Úrbætur séu gerðar á farsímasambandi við land.
5.10    Skilgreind verði neyðarsímsvörun í 112 fyrir sjómenn
Markmið
Að öryggi skipa og báta á siglingu við landið verði aukið.
Staða mála
Víða nærri landi er farsímasamband lélegt og bæta þarf úr því á þeim svæðum þar sem það er mest aðkallandi með tilliti til öryggis sjófarenda.
    Smábátasjómenn nota oft farsíma til að láta vita ef hætta steðjar að og því þyrfti að athuga hvort skilgreina ætti símanúmerið 112 þannig að sú neyðarsímsvörun gæti tekið við neyðarhringingum frá sjómönnum.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun og Póst- og fjarskiptastofnun hafi forgöngu um þessi mál.
Samstarfsaðilar
Landhelgisgæsla, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Landssíminn, Gufunes, Neyðarlínan, lögregla.
Áætluð fjármögnun
Verður fjármagnað af fjárlögum hverju sinni.
Framkvæmd
Vitasvið Siglingastofnunar og Póst- og fjarskiptastofnun skipuleggi þessa vinnu í samráði við samstarfsaðila.
Tímasetningar
Unnið verði að þessum verkefnum árin 2002 og 2003.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 17.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Unnið er að gerð frumvarps til laga um öryggi siglinga og fjarskiptaþjónustu við skip.
Mars 2003.
Fjarskiptaþjónusta við skip er til umfjöllunar með frumvarpi til laga um vaktstöð siglinga á Alþingi.
Mars 2004.
Lög um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, tóku gildi 3. apríl 2003.
5.11    Veðurstöðvum sé fjölgað við land
5.12    Úrbætur vegna NAVTEX-sendinga
Markmið
Að bæta upplýsingasöfnun um veður við landið og bæta upplýsingastreymi um veður til skipa á hafsvæðum umhverfis allt land.
Staða mála
Veðurstöðvar þurfa að vera sem víðast við land og forgangsraða þarf uppsetningu þeirra eftir óskum sjófarenda.
    Mikilvægt er að úrbætur séu gerðar á skilyrðum fyrir NAVTEX-sendingar norður og austur af landinu.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Hafnasvið og vitasvið Siglingastofnunar og Póst- og fjarskiptastofnun geri áætlun um nauðsynlegar úrbætur vegna veðurupplýsinga til skipa á siglingu hér við land.
Samstarfsaðilar
Veðurstofa Íslands, Landssíminn, samgönguráðuneyti, umhverfisráðuneyti.
Áætluð fjármögnun
Lagt er til að fjár til þessara verka verði óskað sérstaklega í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2003 og síðari ára.
Framkvæmd
Verkefni verði skipulögð af ábyrgðar-/umsjónaraðilum og samstarfsaðilum. Kostnaður vegna framkvæmda verði kynntur fyrir viðkomandi ráðuneytum sem gætu óskað eftir fjármagni í næstu fjárlagafrumvörpum.
Tímasetningar
Verkefni verði skipulögð árið 2002 og síðan unnin samkvæmt gerðu skipulagi.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: A/B.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 18.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Unnið er að frumvarpi til laga um öryggi siglinga og fjarskiptaþjónustu við skip þar sem m.a. verður fjallað um NAVTEX-sendingar.
Mars 2003.
Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp til laga um vaktstöð siglinga, þar sem m.a. er fjallað um Navtex-þjónustu við skip. Brýnt er orðið að taka í notkun langbylgjusendi fyrir Navtex svo hægt verði að þjónusta hafsvæðið fyrir austan land.
Mars 2004.
Tekið hafa gildi lög um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003.
7.1        Gögn/ábendingar um stöðugleika séu á íslensku og stöðluð
7.2        Sérstakt leiðbeiningarspjald um hleðslu smábáta (sbr. 4.7 og 14.1)
7.3        Merkingar á dyrum og lúgum sem eiga að vera lokaðar á rúmsjó (sbr. 4.7)
7.4        Könnun á stöðugleika opinna báta (sbr. 14.3)
Skipuleggja þyrfti öryggisviku í kringum alþjóðasiglingadaginn í september.
Markmið
Að upplýsingar um stöðugleika allra íslenskra skipa og báta séu til og að þær séu aðgengilegar og augljósar skipstjórnarmönnum viðkomandi skipa.
Staða mála
Siglingastofnun varðveitir stöðugleikagögn fyrir öll íslensk þilfarsskip og vinnur að uppfærslu þeirra. Mikilvægt er að nákvæmar upplýsingar um stöðugleika liggi fyrir á hverjum tíma, svo sem vegna breytinga á skipum. Siglingastofnun og rannsóknarnefnd sjóslysa hafa lagt til ýmsar tillögur til úrbóta í stöðugleikamálum íslenskra skipa og þörf er á að hrinda mörgum þeirra í framkvæmd.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun tryggi að stöðugleiki skipa sé þekktur og stuðli að því að áhafnir þeirra viti hvaða annmarkar eru á stöðugleika eigin skips.
Samstarfsaðilar
Útgerðir.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrki úrbætur í stöðugleika skipa og báta um:
    0,3 millj. kr. árið 2001,
    0,6 millj. kr. árið 2002,
    1,0 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
Siglingastofnun skipuleggi framkvæmd úrbóta þannig að unnt sé að ljúka öllum nauðsynlegum verkefnum fyrir árslok 2003. Dæmi um atriði sem þarf að skoða:
          Reglur um hallaprófun allra skipa sem gerð eru út í atvinnuskyni.
          Reglur um hvernig gengið sé frá stöðugleikagögnum.
          Reglur um vatnsþétta niðurhólfun skips neðan og ofan aðalþilfars.
          Gögn/ábendingar um stöðugleika skipa séu á íslensku og stöðluð.
          Stöðugleikagögn fyrir smábáta – sérstakt leiðbeiningarspjald um hleðslu (sbr. 4.7 og 14.1).
          Reglur um stöðugleikaprófun opinna báta.
          Dyr og lúgur sem ekki má opna á rúmsjó á að merkja sérstaklega (sbr. 4.7).
          Könnun á stöðugleika opinna báta (sbr. 14.3).
          Hleðslumerki á bátum með mestu lengd allt að 15 metrum (sbr. 13).
          (Ábyrgð vélaverkstæða, skipasmiðja og dráttarbrauta vegna breytinga á skipum.)
Tímasetningar
Öllum nauðsynlegum verkefnum verði lokið á árinu 2003.
Lög og reglugerðir
Reglugerð nr. 26/2000, um öryggi fiskiskipa sem eru 24 metrar að lengd eða lengri.
Reglur um stöðugleika báta með mestu lengd allt að 15 metrum.
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 7, 8, 11 og 23.
Framvinda verkefnis
Mars 2002, 2003.
Innan Siglingastofnunar er verið að vinna að breytingum á reglugerð nr. 26/2000 um öryggi fiskiskipa sem felur það í sér að gildissvið reglugerðarinnar verður rýmkað í skip 15 metrar og lengri og taki einnig til gamalla skipa.
    Unnið er að gerð fræðsluefnis um stöðugleikamál.
    Hjá Siglingastofnun er verið að þróa stöðugleikagögn skipa með það að markmiði að gera þau einfaldari í notkun fyrir skipstjórnarmenn. Jafnframt er stefnt að því að tengja þau upplýsingakerfi stofnunarinnar um veður og sjólag og verða þau aðgengileg skipstjórnarmönnum þar.
Mars 2004.
Nýlega tók gildi reglugerð um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd, nr. 122/2004, sem tekur til allra nýrra og gamalla fiskiskipa yfir þessum stærðarmörkum.
    Siglingastofnun Íslands hefur gefið út fræðslurit um stöðugleika fiskiskipa. Á árinu 1988 kom út fyrsta útgáfa ritsins og birtist það nú í þriðja sinn. Ritið hefur notið vinsælda meðal sjómanna og annarra sem láta sig varða öryggismál fiskiskipa. Endurskoðun ritsins hefur verið unnin í samráði við Stýrimannaskólann í Reykjavík. Efni ritsins hefur verið aukið lítils háttar og samræmt breytingum sem hafa verið gerðar á reglum um stöðugleika þilfarsfiskiskipa. Jafnframt hefur hugtökum og skammstöfunum verið breytt til samræmis við fyrirmynd Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Ritinu var dreift ókeypis um borð í öll íslensk skip. Auk þess má nálgast ritið hjá Siglingastofnun Íslands, á heimasíðu stofnunarinnar og á sérstökum vef um öryggismál sjómanna.
    Ekki er enn lokið þróun stöðugleikagagna skipa með það að markmiði að gera þau einfaldari í notkun fyrir skipstjórnarmenn. Jafnframt er stefnt að því að tengja þau upplýsingakerfi stofnunarinnar um veður og sjólag og verða þau aðgengileg skipstjórnarmönnum þar. Stefnt er að því að koma þessu verkefni í framkvæmd á árinu 2004.
11.1                    Gæðastjórnunarkerfi séu notuð við skoðanir og eftirlit með skipum.
11.2–11.4    Öryggisstjórnunarkerfi séu notuð í öllum farþegaskipum og farþegabátum, við eftirlit með öryggi í höfnum, séu tekin upp í öllum íslenskum fiskiskipum o.fl.
Markmið
Að bæta skilvirkni og einsleitni opinbers eftirlits, sem og eftirlit einkaaðila með öryggisatriðum á stöðum sem þeir bera ábyrgð á.
Staða mála
Siglingastofnun hefur undanfarin ár unnið að gæðastjórnunarkerfi fyrir stofnunina sem stuðla á meðal annars að einsleitari skoðun eftirlits í öllum umdæmum. Mikilvægt er að þeirri vinnu miði vel áfram. Öryggisstjórnunarkerfi hafa verið að sanna gildi sitt við notkun á mörgum sviðum og því ætti að reyna notkun þeirra á öllum sviðum öryggismála sjófarenda.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun hafi forgöngu um að skilgreina kröfur til öryggisstjórnunarkerfa.
Samstarfsaðilar
Útgerðir farþegaskipa, SÍK, LÍÚ, hafnir og hafnasamlög og Slysavarnaskóli sjómanna.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrki vinnu að gerð öryggisstjórnunarkerfa á ýmsum sviðum um:
    0,1 millj. kr. árið 2001,
    0,2 millj. kr. árið 2002,
    1,2 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
Siglingastofnun ljúki vinnu við gerð gæðastjórnunarkerfis sem nær yfir starfsemi stofnunarinnar og skoðanir allra gerða skipa fyrir árslok 2003.
    Siglingastofnun skilgreini kröfur til öryggisstjórnunarkerfa í skipum og höfnum á árinu 2002 og 2003.
Tímasetningar
Sjá framkvæmd.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: A.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 7, 14, 16, 19 og 20.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Unnið er að gerð gæðastjórnunarkerfa innan sjómannaskóla samkvæmt lögum nr. 76/2001. Siglingastofnun mun hafa eftirlit með að nám og kennsla í sjómannaskólum uppfylli kröfur alþjóðasamþykkta, þar á meðal kröfur um gæðastjórnunarkerfi.
    Siglingastofnun er að leggja lokahönd á gerð gæðastjórnunarkerfis fyrir stofnunina sem m.a. á að leiða til einsleitari skipaskoðana og unnið er að öryggishandbók fyrir hafnir.
Mars 2003.
Unnið er að því að breyta reglugerð um öryggi fiskiskipa, nr. 26/2000, þannig að hún nái til gamalla og nýrra skipa yfir 15 m að lengd. Með því næst heildstæð mynd á reglugerðarumhverfið tengt fiskiskipum. Þetta hefur leitt til þess að unnið er nú að því að endurskoða skoðunarskýrslur og handbækur samkvæmt þessum breytingum og einnig er unnið að nýsmíðaskýrslum og handbókum. Jafnframt er þetta til skoðunar í tengslum við væntanlega gildistöku nýrra laga um eftirlit með skipum sem taka eiga gildi 1. janúar 2004 en þar er m.a. annars kveðið á um breytta tíðni skoðana.
    Siglingastofnun hefur nú fjárfest í Focal-gæðahandbókarkerfi og er nú t.d. mun auðveldara að halda utan um skoðunarhandbækur og skoðunarskýrslur. Einnig var fjárfest í innri og ytri úttektarkerfum og kvartanakerfi sem er liður í gæðastjórnunarkerfum.
Mars 2004.
Nýlega tók gildi reglugerð um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd, nr. 122/2004. Reglugerðin leysir af hólmi reglugerð um öryggi fiskiskipa sem eru 24 metrar að lengd eða lengri, nr. 26/2000, en hún var sett með hliðsjón af tilskipun ráðsins 97/70/EB frá 11. desember 1997 um að setja samræmdar reglur um öryggi fiskiskipa sem eru 24 metrar að lengd og lengri, með síðari breytingum. Ávinningur með útgáfu þessarar nýju reglugerðar er m.a. sá að nú verða í fyrsta sinn til heildstæðar reglur um smíði og búnað allra fiskiskipa, nýrra sem gamalla, sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd. Með því móti verður regluumhverfið einfaldað og féllu 8 reglugerðir úr gildi frá sama tíma. Helsta breytingin sem felst í nýju reglugerðinni er sú að gildissviðið er aukið og gildir hún fyrir öll ný og gömul fiskiskip sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd en eldri reglugerð (26/2000) tók aðallega til nýrra fiskiskipa sem eru 24 metrar eða lengri að skráningarlengd. Við samningu reglugerðarinnar var höfð hliðsjón af eldri reglugerðum um smíði og búnað gamalla fiskiskipa og reynt að tryggja að kröfurnar til gamalla fiskiskipa séu sambærilegar þeim sem gerðar hafa verið til gamalla skipa.
    Hinn 1. mars 2004 var fyrirkomulagi skipaskoðunar breytt þegar skipaskoðun Siglingastofnunar var flutt til einkarekinna skoðunarstofa skipa og búnaðar, sem nú annast skoðun skipa ásamt flokkunarfélögum. Með setningu nýrra laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, var Siglingastofnun Íslands heimilað að fela aðilum á almennum markaði framkvæmd skipaskoðunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og kom sú breyting til framkvæmda 1. mars eins og áður sagði. Með þessu nýja fyrirkomulagi verða stjórnvaldslegar aðgerðir aðskildar frá tæknilegu eftirliti og er markmið breytinganna m.a. að ná fram hagkvæmni, betra og árangursríkara eftirliti og einfaldari þjónustu. Tæknilegt eftirlit með skipum verður framvegis í höndum viðurkenndra skoðunarstofa og flokkunarfélaga sem starfa í samræmi við reglugerðir nr. 94/2004 og 142/2004.
    Hlutverk Siglingastofnunar Íslands verður að annast útgáfu skipsskírteina, hafa eftirlit með starfsemi skoðunarstofa skipa og búnaðar og vinna að samstarfsverkefnum með skoðunarstofum, meðhöndla og skrá ágreiningsmál sem upp kunna að koma, hafa eftirlit með flokkunarfélögum, hafa eftirlit með starfsleyfum fyrir hvers konar atvinnustarfsemi, hafa markaðseftirlit með skemmtibátum, framkvæma skyndiskoðanir (átaksverkefni) og gera úttektir á öryggisstjórnun (ISM-úttektir). Auk þess mun stofnunin hafa með höndum lokaúttekt á allri nýsmíði, eftirlit með nýsmíði fiskiskipa 15–24 metrar, eftirlit með innflutningi á skipum og flutningi á hættulegum varningi, sinna hafnarríkiseftirliti og sjá um útgáfu allra skírteina sem varða skipið.
    Í tengslum við breytt fyrirkomulag skipaskoðunar sem tók gildi 1. mars 2003 hefur samgönguráðuneytið staðfest og gefið út Skoðunarhandbók skipa og báta, sbr. auglýsingu nr. 200/2004. Í handbókinni greinir nánar frá framkvæmd skoðunar á skipum og bátum og búnaði þeirra. Við útgáfu starfsleyfis til skoðunarstofa skipa og búnaðar er þeim afhent eintak af bókinni. Siglingastofnun Íslands annast fjölföldun, dreifingu og endurskoðun bókarinnar.
13.1    Efla þarf skilvirkni og samstarf eftirlitsaðila
13.2    Skipuleggja þarf fyrirkomulag skyndiskoðana í íslenskum skipum
13.5    Reglubundnar athuganir á æfingahaldi og starfsþjálfun í skipum
13.6    Reglum um öryggisráðstafanir við hífingar sé betur fylgt eftir
13.7    Skilvirkara eftirlit með aðbúnaði í skipum
Markmið
Að stuðla að því að samstarf eftirlitsaðila sé eflt þannig að skilvirkni og hagkvæmni í eftirliti aukist og að meiri áhersla verði lögð á eftirfylgni með að lög og reglur séu virt.
Staða mála
Eftirlit um borð í skipum er á höndum margra aðila, SÍ, LHG, flokkunarfélaga, Póst- og fjarskipta-stofnunar, Hollustuverndar, Fiskistofu og einkaaðila. Mikilvægt er að allt eftirlit sé metið með tilliti til möguleika á aukinni samvinnu eftirlitsaðila þannig að hagkvæmni eftirlits og þjónusta við útgerðir skipa verði bætt. Eftirlit með öryggisatriðum þarf að bæta og fylgja þarf betur eftir að ástand skipa, búnaðar og áhafna sé samkvæmt lögum og reglum.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun skipuleggi aðgerðir er stuðla að bættu eftirliti og virðingu fyrir lögum og reglugerðum.
Samstarfsaðilar
SÍ, LHG, flokkunarfélög, Póst- og fjarskiptastofnun, Hollustuvernd, Fiskistofa, Vinnueftirlitið.
Áætluð fjármögnun
Verkefni verði kostuð af eftirlitsaðilum en langtímaáætlun styrki þau um:
    0,3 millj. kr. árið 2001,
    0,5 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
Siglingastofnun hafi forgöngu um að eftirlitsaðilar geri samkomulag um samstarf sem stuðli að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í eftirliti með búnaði og áhöfnum skipa. Samstarfsaðilar skipuleggi fyrirkomulag eftirlits og skyndiskoðana í skipum og við þá vinnu sé stuðst við ábendingar í þingsályktunartillögu um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda og ábendingar rannsóknarnefndar sjóslysa. Dæmi um atriði sem fylgja þarf eftir:
          Æfingahald og starfsþjálfun í skipum sé samkvæmt reglum.
          Öryggisráðstafanir við hífingar séu í samræmi við reglur.
          Aðbúnaður áhafna sé samkvæmt kröfum, svo sem loftræsting, hávaði, titringur.
          Skráning í skipsbækur sé samkvæmt lögum.
          Hleðslumerki séu á öllum fiskiskipum með mestu lengd allt að 15 metrum.
          Unnið sé samkvæmt þeim reglum sem gilda um vinnuöryggi almennt um borð í skipum.
          Frágangur stiga í lestum og landganga sé samkvæmt reglum.
          Öryggisatriði í höfnum séu samkvæmt reglum.
          Sigling, sjóbúnaður og viðhald skipa sé samkvæmt reglum þar að lútandi.
Tímasetningar
Vinna að þessum atriðum hefjist í byrjun árs 2002 og verði viðhaldið á komandi árum. Samkomulag um samstarf eftirlitsaðila liggi fyrir í lok ársins 2002.
Lög og reglugerðir
Öll lög og reglugerðir er varða öryggi sjófarenda.
Forgangsröð: A.
Framvinda verkefnis
Mars 2002, 2003.
Gert er ráð fyrir að með notkun gæðastjórnunarkerfis Siglingastofnunar við eftirlit með skipum verði bætt úr flestum þessara atriða.



14.1    Auka þarf og festa í sessi samstarf Íslendinga og nágrannaþjóða í rannsóknar- og þróunarverkefnum sem tengjast öryggismálum sjómanna
14.2    Upplýsingum um ýmsar rannsóknir sem verið er að vinna að eða hafa verið gerðar ætti að safna saman á einn stað þannig að aðilar viti hver af öðrum
14.4    Rannsóknir á stjórnun stöðugleika fiskiskipa
Markmið
Að efla rannsóknir, þróun og hönnun á ráðstöfunum er aukið gætu öryggi sjómanna og stuðla að samstarfi sem víðast á þeim vettvangi. Að stuðla að því að upplýsingum um rannsóknir sé miðlað milli rannsóknaraðila til að efla samstarf og koma í veg fyrir tvíverknað.
Staða mála
Oft koma upp hugmyndir að lausnum er gætu stuðlað að auknu öryggi sjómanna, en oft vilja þær falla í dvala vegna tíma- eða fjárskorts. Einnig hafa verið unnar margar rannsóknir er tengjast öryggismálum sjómanna víða um heim, en talsvert vantar að upplýsingar um þessar rannsóknir séu aðgengilegar þannig að hætta er á að verið sé að endurtaka sömu hlutina margoft. Með því að safna saman og miðla upplýsingum um rannsóknir ásamt því að styrkja þær fjárhagslega er hægt að efla rannsóknarstarf til muna.
    Siglingastofnun hefur unnið að rannsóknum á hreyfistöðugleika skipa í samvinnu við innlendar verkfræðistofur og erlenda aðila. Ágætt væri að þessir aðilar héldu áfram með rannsóknirnar.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun meti tillögur að samstarfsverkefnum og fjármagni vænleg verkefni.
Samstarfsaðilar
Allir sem að öryggismálum sjófarenda koma:
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun ráðstafi fé til upplýsingasöfnunar og samstarfsverkefna:
    0,9 millj. kr. árið 2002,
    1,4 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
Siglingastofnun meti tillögur að samstarfsverkefnum í rannsóknum, þróun og hönnun og samþykki styrkveitingu til vænlegra verkefna. Auglýsa mætti þennan styrk til að hvetja hugvitsmenn til að koma með tillögur að úrlausnum í öryggismálum sjómanna. Dæmi um verkefni:
          Stöðugleikagögn fyrir smábáta.
          Vaktafyrirkomulag í skipum.
          Öryggisbúnaður við línuveiðar smábáta.
          Öryggi vegna vinnu við toghlera og á togþilförum.
          Landgangar fyrir minni tvíþilja fiskiskip.
          Fjarlækningabúnaður og lækningatæki.
    Upplýsingum um rannsóknar- og þróunarverkefni sem varða öryggismál sjómanna verði safnað saman á heimasíðu Siglingastofnunar. Auglýsa þarf þessa söfnun sem víðast.
Tímasetningar
Ákvörðun um ráðstöfun fjár til verkefna skal liggja fyrir á fyrri hluta ársins 2002.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: B.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 7, 8, 10, 11, 13, 21 og 23.
Framvinda verkefnis
Mars 2002.
Borist hafa eftirfarandi erindi um rannsóknarverkefni:
     1.      Rannsókn á svefni, svefnmynstri og heilsu sjómanna.
     2.      Undirbúningur að verkefni um áhættu- og nertigreiningu.
     3.      Stöðugleikaforrit fyrir skip og báta.
Mars 2003.
Langtímaáætlun hefur styrkt rannsókn á svefngæðum og álagstíðni sjómanna.
    Siglingastofnun hefur útbúið rannsóknaráætlun í tengslum við tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003–2006 sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Kostnaður við rannsóknir og þróun árið 2003 er áætlaður 40 millj. kr., en 50 millj. kr. á ári 2004–2006. Í þingsályktunartillögunni er gerð ítarleg grein fyrir fyrirhuguðum rannsóknum á sviði Siglingastofnunar.
    Þar kemur fram að með rannsóknum er átt við öflun ýmissa grunnupplýsinga, mælingar og rannsóknir sem stuðla að öryggi sjófarenda og réttum ákvörðunum við val á lausnum við mannvirkjagerð. Unnið verður að frumáætlunum vegna endurbóta á höfnum og innsiglingum samkvæmt verkefnum á samgönguáætlun. Helstu rannsóknarverkefni sem ráðgerð eru á árunum 2003–2006 eru:

Hafnar- og strandrannsóknir.
    Öldufarsrannsóknir við hafnir.
    Öldufarsrannsóknir við suðurströndina. Nú er unnið að rannsóknum á öldufari og straumum og áhrifum þess á siglingaöryggi mismunandi tegunda skipa á siglingaleiðum við Suðvesturland.
    Siglingaleiðir. Stefnt verður að mælingum á stöðugleika skipa á siglingaleiðum. Unnin verður skýrsla um siglingaöryggi mismunandi skipa og samanburður gerður við núverandi leiðir.
    Áhættumat minni fiskiskipa í hættulegum öldum, sjá 1.2. og 3.1.
    Sjávarföll og sjávarflóð.

    Rannsóknir sem tengjast öryggi sjófarenda. Árlegur kostnaður fyrsta árið er áætlaður 5 millj. kr. en síðar 10 millj. kr. á ári. Á síðari tímabilum áætlunarinnar verður aukin áhersla lögð á að vinna úr niðurstöðum rannsókna á sjóslysum og kappkostað að lærdómur, sem af þeim má draga, skili sér inn í reglur um öryggi skipa og áhafna. Helstu verkefni eru:
    Vatnsþéttleiki skipa
          Vatnsþétt niðurhólfun skipa.
          Loftræsting og loftskipti milli lokaðra rýma skipsins.
          Stöðugleiki skips í löskuðu ástandi – lekastöðugleiki.
          Hönnunarforsendur á lokunarbúnaði opa á vatnsþéttum þiljum.
Hleðsla og ofhleðsla smábáta.
Loftflæði til aðalvéla skipa.
Hávaðarannsóknir.

Mars 2004.
Í byrjun árs 2003 hafði fyrirtækið Varðeldur samband við Siglingastofnun Íslands og lagði fram hugmyndir að svokölluðum fangalínulosara sem er tæki sem sett er á fangalínu og losar hana frá gúmmíbjörgunarbátum með tveimur handtökum, annars vegar er hlíf tekin af tækinu og hins vegar er togað í handfang undir hlífinni sem losar gúmmíbjörgunarbátinn frá fangalínunni. Siglingastofnun, að fenginni umsögn verkefnisstjórnar langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda, ákvað að styrkja fyrirtækið til að fullgera fangalínulosarann og lagði fyrirtækið fram lokaskýrslu sína til verkefnisstjórnarinnar í lok ágúst 2003. Í framhaldi á verkefninu um fangalínulosarann kom Varðeldur einnig fram með hugmyndir af uppblásturskerfi fyrir gúmmíbjörgunarbáta í framhaldi af sjóslysi þar sem skipsmenn áttu í erfiðleikum með að opna gúmmíbjörgunarbátinn.

Rannsóknir Siglingastofnunar Íslands:
Á vegum Siglingastofnunar var unnið að rannsóknum á sviði hafna, líkantilrauna og grunnkorta fyrir 11,0 millj. kr. Með rannsóknum er átt við gerð grunnkorta af höfnum, líkantilraunir og rannsóknir sem tengjast beint ákveðnum framkvæmdum í höfnum. Unnið var áfram við í líkanið af Þorlákshöfn og að frumathugunum og frumtillögum fyrir höfn í Arnarfirði fyrir kalkþörungaverksmiðju.
    Lögð var sérstök áhersla á verkefni sem tengjast suðurströnd Íslands og var við það miðað að framlög til rannsókna yrðu aukin um 10 millj. kr. á ári þess vegna. Unnið var að öldufarsrannsóknum við suðurströndina, einkum í tengslum við öldufar á mögulegum siglingaleiðum frá Vestmannaeyjum upp á Bakkafjöru. Unnið var að öldufarsreikningum vegna leiðastjórnunarverkefnis, sem miðar að afmörkun á siglingaleiðum olíu- og flutningaskipa, með kortlagningu á öldu á siglingaleiðum fyrir Suðvesturlandi. Einnig var hafinn undirbúningur að öldufarsreikningum fyrir Hornafjarðarós og Breiðamerkursand, en síðara verkefnið er unnið í samvinnu við Vegagerðina.
    Í skýrslu starfshóps samgönguráðherra um samgöngur við Vestmannaeyjar sem lokið var við í mars 2003 voru unnar rannsóknir og tillögur um hugsanlegt ferjulægi á Bakkafjöru ásamt frumkostnaðarmati og tillögum að frekari rannsóknum.
    Í tengslum við rannsóknir á öryggi skipa á siglingaleiðum var á árinu 2003 þróaður búnaður sem getur mælt krafta vegna hröðunar þriggja grunnhreyfinga skipa á rúmsjó. Þessar hreyfingar eru velta, dýpa og lyfting. Þessum búnaði var komið fyrir í tveimur skipum, gámaflutningaskipinu ms Arnarfelli sem siglir reglulega fyrir Suðvesturland og varðskipinu Ægi sem mun sigla um Reykjaneshrygg til að hægt verði að gera samanburð á kröftum á skip og hreyfingum skipa eftir siglingaleiðum fyrir Reykjanes.
    Haldið var áfram að fylgjast með og kanna botnbreytingar á Grynnslunum framan við Hornafjarðarós, haldið áfram vinnu við stafrænan gagnagrunn um sjávardýpi í Breiðafirði, uppsetningu sjávarfallalíkans og þróun reklíkans fyrir olíu og rek hluta, hreyfistöðugleika skipa og framsetningu stöðugleikagagna og smíði og þróun andveltugeyma skipa, vatnsþéttleika skipa sem tekur mið af niðurhólfum skipa, loftræstingu milli vatnsþéttra hólfa og vinnusvæða svo og ástandsgreiningu nokkurra flokka valinna fiskiskipa og hafinn var undirbúningur að alþjóðlegri ráðstefnu um hafið, náttúruöflin og glímu mannanna við þessi öfl sem haldin verður á Höfn.
    Í tengslum við lokaskýrslu starfshóps samgönguráðherra um samgöngur við Vestmannaeyjar var unnin rannsóknaskýrsla um tillögur að ferjulægi á Bakkafjöru sem birt var með þeirri skýrslu. Á árinu var birt grein á vegum innlendra og erlendra aðila á alþjóðaráðstefnunni Coastal Structures 2003 í Portland í Oregon sem haldin var á vegum ameríska verkfræðingafélagsins ASCE, „Sirevåg Berm Breakwater, design, construction and experience after design storm“. Á árinu kom út skýrsla alþjóðlegrar vinnunefndar um bermugarða á vegum PIANC. Siglingastofnun tók virkan þátt í vinnu nefndarinnar. Skýrslan heitir „State-of-the-art of designing and constructing berm breakwaters“. Forsíðu skýrslunnar prýðir mynd af bermugarðinum í Sirevåg í Noregi sem hannaður var af starfsmönnum Siglingastofnunar.
14.3    Nauðsynlegt er að gerðar séu reglulega kannanir, úttektir og prófanir á ástandi og fyrirkomulagi öryggisbúnaðar í skipum og í höfnum
Markmið
Að stuðla að því að fyrirkomulag og ástand öryggisbúnaðar sé eins gott og mögulegt er hverju sinni.
Staða mála
Mörg atriði varðandi staðsetningu og frágang björgunar- og öryggisbúnaðar í skipum og í höfnum þarfnast skoðunar. Nauðsynlegt er að gera reglulega kannanir, úttektir og prófanir á ástandi og fyrirkomulagi öryggisbúnaðar og kynna fyrir málsaðilum niðurstöður og úrbótatillögur.
Ábyrgð og umsjón með framkvæmd
Siglingastofnun hafi forgöngu um að kannanir, úttektir og prófanir fari fram.
Samstarfsaðilar
Allir sem að öryggismálum sjófarenda koma.
Áætluð fjármögnun
Langtímaáætlun styrki þetta verkefni um:
    0,5 millj. kr. árið 2002 (af fjárframlögum 2001),
    1,0 millj. kr. árið 2003.
Framkvæmd
Setja þarf ákvæði í reglur þannig að hægt sé að standa vel að öllum könnunum, úttektum og prófunum, ásamt ákvæðum ef þörf er á að krefjast breytinga á fyrirkomulagi öryggisbúnaðar. Dæmi um atriði sem þarfnast skoðunar:
          Staðsetning björgunarbáta með losunar- og sjósetningarbúnaði.
          Frágangur gúmmíbjörgunarbáta í skipum.
          Staðsetning neyðarhandtalstöðva.
          Stærðir og gerð björgunarbúninga sem valdir eru í einstök skip.
          Staðsetning björgunarvesta og björgunarbúninga.
          Gerð, staðsetning, uppfærsla og kynning neyðaráætlana og öryggisplana.
          Fyrirkomulag neyðarútganga í skipum.
          Staðsetning og fyrirkomulag handslökkvitækja í skipum.
          Stöðugleiki opinna báta.
          Hálkuvarnir í skipum og á bryggjum og skóbúnaður sjómanna.
          Vinnuaðstæður við toghlera, í rennum, við frystitæki og í lestum.
          Aðstæður við landgöngu úr skipum.
          Öryggisbúnaður og aðstæður almennt í höfnum.
Tímasetningar
Verkefni verði unnin eftir því sem fjárhagur leyfir árin 2002 og 2003.
Lög og reglugerðir
Forgangsröð: A/B.
Tilvísanir
Þingsályktunartillaga um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, bls. 6, 7, 11, 12, 13 og 16.
Framvinda verkefnis
Mars 2003.
Úttektir í höfnum.
Unnið hefur verið að því að kortleggja þær kröfur sem gerðar er til hafna, t.d. með reglum um slysavarnir í höfnum, nr. 247/2000, með síðari breytingum. Búið er að setja upp skoðunarskýrslu og skoðunarhandbók fyrir úttektarmenn Siglingastofnunar og einnig geta þær hafnir sem þess óska notað þau gögn fyrir innri úttektir hafnanna sjálfra.
    Í samvinnu við Grundarfjarðarhöfn og fleiri hafnir er unnið að öryggishandbók sem á að vera fyrsti vísir að gæðahandbók hafnarinnar. Þar er að finna, skipurit innra eftirlits, reglugerðir, lýsingu á björgunar- og öryggisbúnaði, upplýsingar um starfsfólk, neyðaráætlun, öryggisplan, skoðunarskýrslu og skoðunarhandbók, endurmenntun og aðrar upplýsingar.
    Siglingastofnun hefur tekið út tvær hafnir með tilliti til öryggis þeirra, þ.e. Grundarfjarðarhöfn og Reykjavíkurhöfn, og er stefnt að því að búið verði að taka út allar hafnir í árslok 2004.
Mars 2004.
Fræðslupési.
Í mars 2003 var gefinn út fræðslupésinn „Öryggi í höfnum“, sem fjallar um öryggismál í höfnum, forvarnir og fyrstu viðbrögð við slysum. Búið er að dreifa honum til allra skipa á íslenskri skipaskrá með fréttablaði Siglingastofnunar. Auk þess var hann sendur öllum höfnum landsins og liggur þar frammi. Pésinn er hluti af þjálfunarhandbók sem á að vera um borð í öllum fiskiskipum 15 metrar eða lengri að mestu lengd. Á vefsíðu um öryggismál sjómanna er jafnframt hægt að nálgast hann og aðrar upplýsingar um öryggismál sjómanna.
    Í samvinnu við Siglingastofnun Íslands hefur fyrirtækið Merking ehf. hafið framleiðslu á varúðarskiltum fyrir hafnir. Um er að ræða stöðluð skilti með upplýsingum um þær öryggisráðstafanir sem gerðar hafa verið í viðkomandi höfn. Siglingastofnun hefur gert úttektir á höfnum með tilliti til öryggis þeirra og er stefnt að því að búið verði að taka út allar hafnir í árslok 2004.