Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 785. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1527  —  785. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Óskar Pál Óskarsson og Inga Val Jóhannsson frá félagsmálaráðuneyti, Hall Magnússon, Einar Jónsson og Jóhann Jóhannsson frá Íbúðalánasjóði, Árna Pál Árnason lögmann, Pál Gunnar Pálsson frá Fjármálaeftirlitinu, Magnús Harðarson og Svönu Huld Linnet frá Kauphöll Íslands, Guðjón Rúnarsson, Eggert Þ. Kristófersson Íslandsbanka og Ingólf Guðmundsson Landsbanka frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Gísla Tryggvason frá BHM, Gylfa Arnbjörnsson frá ASÍ, Eyjólf Bjarnason frá Samtökum iðnaðarins, Þorstein Þorsteinsson frá Húseigendafélaginu, Sjöfn Ingólfsdóttur og Ragnar Ingimundarson frá BSRB, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands, Garðar Sverrisson frá Öryrkjabandalagi Íslands, Tómas Örn Kristinsson frá Seðlabanka Íslands, Axel Hall og Tryggva Herbertsson frá Hagfræðistofnun, Karl Georg Sigurbjörnsson frá Félagi fasteignasala, Hrafn Magnússon frá Landssambandi lífeyrissjóða og Hauk Hafsteinsson frá LSR.
    Nefndinni barst fjöldi skriflegra umsagna sem nýttist henni vel við umfjöllun um málið. Umsagnir voru almennt jákvæðar um þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Í frumvarpinu er lögð til breyting á verðbréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs og þess vænst að hún geti bætt hag sjóðsins en þó ekki síður hag lántakenda. Verði frumvarpið að lögum eins og meiri hlutinn leggur til verður sú meginbreyting á útlánastarfsemi Íbúðalánasjóðs að hann fer úr skuldabréfaskiptakerfi yfir í peningalánakerfi. Sjóðurinn mun þá gefa út eina tegund verðbréfa, svokölluð ÍLS-veðbréf, í stað tveggja tegunda nú, sem eru húsbréf og húsnæðisbréf. Einföldun á skuldabréfaútgáfu sjóðsins og aðlögun skilmála skuldabréfanna að því sem almennt tíðkast á markaði er líklegt til að auka enn frá því sem nú er áhuga fjárfesta á skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði.
    Meginmarkmið breytinganna sem lagðar eru til á starfsemi Íbúðalánasjóðs er að gera sjóðnum kleift að bjóða hagstæðari lánakjör til viðskiptavina sinna og bæta þannig hag almennings í landinu. Vextir útlána sjóðsins munu verða mismunandi á milli tímabila þar sem þeir verða ákvarðaðir á grundvelli vaxtakjara sem ráðast í útboðum sjóðsins og fjármagnskjara vegna uppgreiðslu lána sjóðsins. Þannig má gera ráð fyrir að aukinn áhugi og eftirspurn fjárfesta eftir skuldabréfum Íbúðalánasjóðs skili sér í hagstæðari vöxtum til lántakenda.
    Fram hefur komið við meðferð málsins að í 2. efnismálsl. 13. gr. frumvarpsins felst einungis að stjórn Íbúðalánasjóðs gerir tillögu til félagsmálaráðherra um frumákvörðun vaxta í hverjum flokki íbúðabréfa. Bréfin þurfa að bera ákveðna fasta vexti líkt og húsnæðisbréf gera, en þau bera 2,7% vexti. Flokkar íbúðabréfa verða stórir og standa lengi opnir og mun


Prentað upp á ný.

verðmyndun bréfanna ráðast af aðstæðum á markaði, þrátt fyrir orðalag greinarinnar. Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa er mismunandi á milli útboða og mun ávöxtunarkrafa hverju sinni verða grundvöllur vaxtaákvörðunar í útlánum sjóðsins, sbr. 10. gr. frumvarpsins.
    Í umsögn um málið fagnar Fjármálaeftirlitið þeirri breytingu að Íbúðalánasjóður sé gerður að eftirlitsskyldum aðila en samkvæmt gildandi lögum er aðeins húsbréfadeild eftirlitsskyld.
Meiri hlutinn tekur undir þetta og mælist til þess að þegar verði hafin vinna við að setja niður nánari reglur um hvað það er sem hafa skal eftirlit með í starfsemi sjóðsins. Meiri hlutinn telur æskilegt að slíkar reglur verði settar í lög frekar en að aðeins sé mælt fyrir um slíkt með stjórnvaldsfyrirmælum og má þá hafa hliðsjón af þeim lagareglum sem gilda um eftirlit með öðrum fjármálafyrirtækjum á markaði.
    Mikilvægt er að vel takist til og telur meiri hlutinn að með þeim reglum sem lagðar eru til í frumvarpinu verði regluverkið þannig úr garði gert að engin ástæða sé til að óttast að þær væntingar sem frumvarpið byggist að hluta á, sem m.a. eru væntingar um aukinn áhuga fjárfesta, gangi ekki eftir. Eins og kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu hefur við gerð þess verið litið til reynslu annarra þjóða og reynt að draga lærdóm af henni og þannig byggt á bæði innlendri og erlendri reynslu.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að á 5. gr. verði gerð breyting sem miðar að því að Íbúðalánasjóður semji við aðila á fjármálamarkaði, svo sem lánastofnanir eða aðra aðila, um afgreiðslu og innheimtu lána eða einstakra flokka þeirra.
     2.      Gerð er tillaga um að ákvæði um upphafsdag vaxta í 10. gr. taki mið af því að ávallt tekur nokkra daga að afla undirskrifta á ÍLS-veðbréf og fá því þinglýst. Eðlilegt þykir að miða við að þetta ferli taki að jafnaði fimm virka daga og að fyrsti vaxtadagur miðist við lok þess tíma.
     3.      Lagt er til að dagsetningu í ákvæði til bráðabirgða I verði breytt og hún færð nær þeim degi þegar telja má líklegt að tekist hafi að birta frumvarpið sem lög verði það samþykkt.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 26. apríl 2004.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


varaform., frsm.


Birkir J. Jónsson.


Pétur H. Blöndal.



Ísólfur Gylfi Pálmason.


Guðjón Hjörleifsson.