Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 341. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1537  —  341. mál.
Breytingartillögurvið frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar


(JBjart, DrH, PHB, SAÞ, DJ).


     1.      Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                  2. gr. laganna orðast svo:
                  Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fer með yfirstjórn almannatrygginga, sbr. 1. gr., og Tryggingastofnunar ríkisins. Tryggingastofnun annast framkvæmd almannatrygginga samkvæmt lögum þessum.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
                  3. gr. laganna orðast svo:
                  Ráðherra skipar fimm menn í stjórn Tryggingastofnunar ríkisins eftir hverjar alþingiskosningar og skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður. Skipaðir skulu jafnmargir menn til vara. Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim og situr forstjóri fundi stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétti. Ráðherra setur stjórninni starfsreglur og ákveður þóknun til stjórnarmanna sem skal greidd af rekstrarfé stofnunarinnar.
     3.      Við 3. gr. Greinin orðist svo:
                  4. gr. laganna orðast svo:    
                  Stjórn Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 3. gr., skal staðfesta skipulag stofnunarinnar, árlega starfsáætlun og fjárhagsáætlun og marka stofnuninni langtímastefnu. Skal stjórnin hafa eftirlit með starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins og að rekstur stofnunarinnar sé innan ramma fjárlaga á hverjum tíma. Þá skal stjórnin tilnefna fulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins í samninganefnd samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, sbr. 39. gr., og fulltrúa í nefnd skv. 35. gr.
                  Formaður stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins skal reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og gera honum viðvart ef starfsemi og þjónusta er ekki í samræmi við ákvæði laga og ef rekstur stofnunarinnar er ekki í samræmi við fjárlög.
     4.      Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  5. gr. laganna orðast svo:
                  Ráðherra skipar forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar stofnunarinnar.
     5.      Við 4. gr. Greinin orðist svo:
                  6. gr. laganna orðast svo:
                  Forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar.

Prentað upp.

                  Ráðherra setur forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins erindisbréf þar sem tilgreind skulu helstu markmið í rekstri stofnunarinnar og verkefni hennar, bæði til lengri og skemmri tíma litið. Í erindisbréfi skal enn fremur kveðið á um samskipti forstjóra og stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins.
                  Forstjóri ber ábyrgð á að Tryggingastofnun ríkisins starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf skv. 2. mgr. Forstjóri ber og ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.
     6.      Á eftir 9. gr. komi ný grein er verði 11. gr. og orðist svo:
                  Á eftir orðunum „um tekjutryggingu“ í 14. mgr. 17. gr. laganna kemur: og tekjutryggingarauka.
     7.      Við 16. gr. Greinin orðist svo:
                  35. gr. laganna orðast svo:
                  Nú er sjúkratryggðum brýn nauðsyn á viðurkenndri læknismeðferð erlendis á sjúkrahúsi vegna þess að ekki er unnt að veita honum nauðsynlega hjálp hér á landi og greiðir þá Tryggingastofnun ríkisins kostnað við meðferðina. Sama gildir um kostnað við dvöl, lyf og læknishjálp sem nauðsynleg er erlendis í tengslum við meðferðina.
                  Innan Tryggingastofnunar ríkisins skal skipa nefnd sem ákveður hvort fyrrgreind skilyrði eru fyrir hendi og hvar sjúkratryggður skuli njóta meðferðar erlendis. Í nefndina skal skipa fjóra sérgreinalækna og aðra fjóra til vara sem hafa góða yfirsýn yfir þá heilbrigðisþjónustu sem í boði er á Íslandi. Auk þess á fulltrúi Tryggingastofnunar ríkisins sæti í nefnd þessari og skal hann vera formaður hennar. Nú velur sjúkratryggður meðferð á öðrum og dýrari stað erlendis en nefndin hefur ákveðið og greiðir Tryggingastofnun ríkisins þá aðeins þann kostnað sem greiða hefði átt á þeim stað sem hún ákvað. 
                  Í stað úrræðis sem getið er um í 1. mgr. og með sömu skilyrðum og þar greinir er nefndinni heimilt að ákveða að sérgreinalæknar sem starfa erlendis veiti sjúklingi meðferð á sjúkrahúsi hér á landi og greiðir stofnunin þá launa- og ferðakostnað sérfræðingsins.
                  Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.
     8.      Við 23. gr. Við bætist nýr liður, a-liður, svohljóðandi: Í stað orðsins „tryggingaráði“ í síðari málslið 2. mgr. 1. tölul. kemur: Tryggingastofnun ríkisins.
     9.      Við 31. gr. Greinin orðist svo:
                  Lög þessi öðlast þegar gildi.
                  Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laganna skal stjórn Tryggingastofnunar ríkisins skipuð í fyrsta skipti 1. júlí 2004. Frá sama tíma fellur niður umboð tryggingaráðs sem nú situr. Ráðherra skal jafnframt setja núverandi forstjóra erindisbréf, sbr. 6. gr. laganna, ekki síðar en 1. júlí 2004.