Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 163. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1593  —  163. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á áfengislögum, nr. 75/1998.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Elísabetu Ólafsdóttur frá Lýðheilsustöð og Ingimund Einarsson og Egil Stephensen frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Umsagnir bárust um málið frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Sýslumannafélagi Íslands, Nemendafélagi Fjölbrautaskóla Vesturlands, Samtökum ferðaþjónustunnar, Iðnnemasambandi Íslands, Lýðheilsustöð, Vímulausri æsku, foreldrahúsi, Verslunarráði Íslands, Landssambandi lögreglumanna og Reykjavíkurborg.
    Með frumvarpinu er lagt til að aldursmörk til kaupa og neyslu á léttvíni og bjór verði lækkuð úr 20 árum í 18 ár. Þeir sem eru yngri en 20 ára mega þó eftir sem áður ekki kaupa né neyta áfengis sem hefur meiri vínandastyrkleika en 22%.
    Á undanförnum áratugum hafa réttindi og skyldur ungs fólks verið samræmd að miklu leyti þannig að þau miðist við 18 ára aldur. Þannig má nefna að rétturinn til að ganga í hjónaband hefur miðast við 18 ár frá árinu 1972, lögræði hefur miðast við 18 ár frá árinu 1979, kosningarréttur hefur miðast við 18 ára frá árinu 1984 og sjálfræðisaldur var færður úr 16 árum í 18 ár árið 1998. Nefndin lítur svo á að í ljósi framangreindra breytinga í þjóðfélaginu varðandi réttindi og skyldur 18 ára einstaklinga skjóti það skökku við að þessir einstaklingar geti ekki tekið ákvörðun um kaup og neyslu léttvíns og bjórs.
    Nefndin bendir á að til að frumvarpið nái tilgangi sínum þarf einnig að breyta ákvæði 28. gr. laganna á þann veg að hægt verði að gera upptækt sterkt áfengi, þ.e. áfengi sem er yfir 22% að vínandastyrkleika, sem er í vörslu 18 og 19 ára ungmenna.
    Samhliða frumvarpi þessu er flutt frumvarp sem miðar að því að auka framlag til Forvarnasjóðs úr 1% af áfengisgjaldi í 2% (164. mál). Allnokkur umræða fór fram um tengsl málanna í nefndinni, en ekki fékkst samhljóða niðurstaða um seinna málið meðal nefndarmanna. Í tengslum við þá breytingu að lækka áfengiskaupaaldur á léttvíni og bjór úr 20 árum í 18 ár beinir nefndin því hins vegar til stjórnvalda hvort tilefni sé til að kanna hvernig þeim fjármunum sem veittir eru til forvarna er varið og hvort þörf sé á að auka fjárveitingar til þeirra.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Í stað orðsins „Þó“ í 2. efnismálsl. 1. gr. komi: Þá.
     2.      2. gr. orðist svo:
             C-liður 3. mgr. 28. gr. laganna orðast svo: áfengi sem ungmenni yngri en 18 ára hafa undir höndum og áfengi sem hefur meiri vínandastyrkleika en 22% og ungmenni yngri en 20 ára hafa undir höndum.

    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu með þeim fyrirvara að nauðsynlegt sé að auka fjárveitingar til forvarna eins og lagt var til í 164. máli.

Alþingi, 6. maí 2004.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Jónína Bjartmarz.



Birgir Ármannsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.


Sigurjón Þórðarson.



Sigurður Kári Kristjánsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.