Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 862. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1649  —  862. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Guðjóns A. Kristjánssonar um kuðungsígræðslur.

     1.      Hvað hafa margir farið í kuðungsígræðslu árlega sl. tíu ár, sundurliðað eftir aldri? Hve margir eru á biðlista eftir kuðungsígræðslu?
    Fyrsti Íslendingurinn fór í kuðungsígræðslu árið 1988. Síðan hafa 24 farið í aðgerð: fimm börn á aldrinum 0–18 ára, tíu á aldrinum 19–64 ára og tíu sem eru 65 ára eða eldri. Þrír af þessum einstaklingum hafa farið tvisvar í aðgerð, tveir vegna endurnýjunar á tækjum og einn vegna bættrar tækni sem var í boði.
    Fjórir bíða eftir aðgerð á þessu ári en biðtími eftir aðgerð er frá fjórum upp í sex mánuði.

     2.      Hver hefur verið árlegur heildarkostnaður ríkisins við kuðungsígræðslur á þessu tímabili? Hver er heildarkostnaðurinn við eina slíka aðgerð?
    Vegna breytinga á tölvukerfi hjá Tryggingastofnun ríkisins eru tölur ekki aðgengilegar nemar frá miðju ári 2001. Það ár var kostnaður stofnunarinnar 4.953.218 kr. Árið 2002 nam kostnaðurinn 15.080.652 kr. og árið 2003 var hann 24.824.662 kr. Tölur fyrir árið 2004 liggja ekki fyrir.
    Samningur er við Huddinge-sjúkrahúsið í Stokkhólmi um aðgerðir vegna kuðungsígræðslna. Meðalkostnaður við hverja aðgerð er um 4.200.000 kr. Í þeirri upphæð felst sjúkrakostnaður, kostnaður við ferðir og uppihald og hjálpartæki: bæði það sem er grætt í eyrað og það sem er utan við.

     3.      Hverjir eru helstu áhættuþættir kuðungsígræðslna og hafa þeir verið rannsakaðir sérstaklega hérlendis?
    Lítil áhætta er talin fylgja aðgerðum vegna kuðungsígræðslu. Helstu áhættuþættir eru þeir sömu og við aðrar skurðaðgerðir, þ.e.
     *      sýkingar í skurðsár,
     *      ýmis áhætta sem fylgir svæfingu.
    Sjaldgæfari áhættuþættir eru:
     *      truflun á starfsemi bragðtaugar (corda tympany) getur orðið við þessa aðgerð eins og við miðeyrnaaðgerðir,
     *      tímabundinn veikleiki í andlitstauginni sem oftast gengur til baka á nokkrum dögum eftir aðgerð,
     *      miklar blæðingar við aðgerðina hafa ekki verið vandamál.
    Áhættuþættir hafa ekki verið rannsakaðir hérlendis enda of fáir einstaklingar sem fara í aðgerð til þess að rannsókn gæti gefið marktæka niðurstöðu. Heyrnar- og talmeinastöðin kallar árlega í eftirlit alla þá sem farið hafa í kuðungsígræðslu til þess að fara yfir tækjabúnað og annað sem tengist notkun þessa sérhæfða búnaðar. Fyrsta árið eftir aðgerð er eftirlitið mun tíðara. Stöðin hefur þannig góðar upplýsingar um það hvernig þeim vegnar sem farið hafa í kuðungsígræðslu. Samkvæmt upplýsingum frá Heyrnar- og talmeinastöðinni hafa ekki komið fram neinar alvarlegar síðbúnar aukaverkanir við reglubundið eftirlit.

     4.      Hverjir hafa yfirumsjón með kuðungsígræðslum hérlendis?
    Heyrnar- og talmeinastöðin í samvinnu við Landspítala – háskólasjúkrahús hefur yfirumsjón með kuðungsígræðslum hér á landi.

     5.      Hverjar eru framtíðaráætlanir stjórnvalda um kuðungsígræðslur?
    Kuðungsígræðsla er úrræði sem nýtist fáum einstaklingum en slík aðgerð er ekki framkvæmd nema viðkomandi uppfylli ákveðin heyrnarfræðileg viðmið. Aðgerðir eru því ekki margar á ári. Í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa verið gerðar rannsóknir sem benda til þess að kuðungsígræðsla sé þjóðhagslega hagkvæm, hvort sem um er að ræða ígræðslu hjá börnum eða fullorðnum. Fullorðinn einstaklingur getur með þessari aðgerð, viðeigandi tækjabúnaði og þjálfun öðlast ákveðna heyrn (gerviheyrn) sem nýtist í mannlegum samskiptum. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem oft er um að ræða fólk sem ekki kann táknmál og getur ekki nýtt sér það til samskipta. Börn sem missa heyrn eða fæðast án heyrnar fá með kuðungsígræðslu möguleika á að verða virkir þátttakendur í samfélagi heyrandi og heyrnarlausra. Hérlendis hefur stefnan verið að ráðleggja öllum heyrnarlausum börnum að læra táknmál óháð því hvort þau fari í kuðungsígræðslu eða ekki.
    Fyrirkomulag vegna kuðungsígræðslna hér á landi er í föstum skorðum og yfirumsjónin er sem fyrr segir í höndum Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar í samstarfi við Landspítala – háskólasjúkrahús. Engin áform eru af hálfu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um breytingar á núverandi fyrirkomulagi.