Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1747, 130. löggjafarþing 751. mál: einkaleyfi (evrópski einkaleyfasamningurinn o.fl.).
Lög nr. 53 1. júní 2004.

Lög um breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum (evrópski einkaleyfasamningurinn o.fl.).


1. gr.

     Á eftir 4. mgr. 2. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
     Þá eru skilyrði 1. mgr. ekki því til fyrirstöðu að veitt verði einkaleyfi fyrir þekktu efni eða efnablöndum til tiltekinnar notkunar við aðferðir þær sem nefndar eru í 3. mgr. 1. gr. svo framarlega sem slík notkun er ekki þekkt.

2. gr.

     Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, sem orðast svo:
     Einkaleyfastofan ákvarðar umsóknardag umsóknar þegar:
 1. telja má af umsóknargögnum að umsóknin sé um einkaleyfi,
 2. af umsóknargögnum má ráða hver umsækjandi sé og hvar unnt sé að hafa samband við hann og
 3. a.m.k. eitt eftirtalinna atriða er í umsóknargögnum:
  1. lýsing uppfinningar,
  2. teikningar eða
  3. tilvísun til fyrri umsóknar.

     Ef skilyrði 1. mgr. fyrir ákvörðun umsóknardags eru ekki uppfyllt skulu einkaleyfayfirvöld gefa umsækjanda tveggja mánaða frest til að bæta þar úr. Bæti umsækjandi úr þeim ágöllum innan frestsins miðast umsóknardagur við þann dag þegar lagfæringar bárust Einkaleyfastofunni. Ef ekki er bætt úr ágöllum innan frestsins er litið svo á að umsókn hafi ekki verið lögð inn.
     Í reglugerð, sem iðnaðarráðherra skal setja, er kveðið nánar á um ákvörðun umsóknardags.

3. gr.

     Í stað orðsins „einkaleyfisbréf“ í 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: einkaleyfisskjal.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „30 mánaða“ í 1. mgr. kemur: 31 mánaðar.
 2. 2. mgr. fellur brott.


5. gr.

     Á eftir 40. gr. laganna koma tvær nýjar greinar sem orðast svo:
     
     a. (40. gr. a.)
     Einkaleyfishafi getur óskað eftir því við Einkaleyfastofuna að hún takmarki verndarsvið einkaleyfis með breytingum á einkaleyfiskröfum og, ef þurfa þykir, breytingu á lýsingu einkaleyfis.
     Ef einkaleyfi er andlag fullnustugerðar, veðsetningar eða dómsmáls skv. 52. eða 53. gr. er ekki unnt að leggja inn beiðni skv. 1. mgr.
     Fyrir beiðni um takmörkun skv. 1. mgr. skal einkaleyfishafi greiða tilskilið gjald.
     
     b. (40. gr. b.)
     Uppfylli beiðni skv. 40. gr. a ekki þar tilgreind skilyrði, eða takmörkunin fellur undir tilvik 2.–4. tölul. 1. mgr. 52. gr. um ógildingu, skal einkaleyfishafa gefinn kostur á að tjá sig um málið eða bæta úr ágöllum. Ef einkaleyfishafi hvorki tjáir sig um málið né gerir nauðsynlegar ráðstafanir eða telji Einkaleyfastofan, að fengnu svari einkaleyfishafa, enn eitthvað mæla á móti því að beiðnin verði samþykkt, og hafi einkaleyfishafi fengið tækifæri til að tjá sig um það atriði, skal beiðninni hafnað.
     Telji Einkaleyfastofan ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja beiðni einkaleyfishafa skv. 40. gr. a skal einkaleyfið takmarkað í samræmi við beiðnina. Einkaleyfastofan skal birta tilkynningu um ákvörðunina og útbúa nýtt einkaleyfisskjal að því tilskildu að einkaleyfishafi hafi greitt tilskilið gjald fyrir endurútgáfu. Frá þeim tíma skal einkaleyfið í breyttri mynd vera aðgengilegt almenningi.
     Takmörkun einkaleyfis skv. 2. mgr. hefur áhrif frá birtingu tilkynningar um breytinguna.
     Einkaleyfishafa er skylt að upplýsa dómara í ógildingarmáli um framlagða beiðni um takmörkun á einkaleyfi.
     Einkaleyfishafi getur skotið til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar ákvörðun Einkaleyfastofunnar um að hafna beiðni um takmörkun einkaleyfis.

6. gr.

     Í stað orðanna „með dómi ef“ í 1. mgr. 52. gr. laganna kemur: í heild eða að hluta með dómi ef.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 54. gr. laganna:
 1. Á eftir orðunum „skulu þau lýsa einkaleyfið niður fallið“ kemur: í heild.
 2. Við bætist nýr málsliður sem orðast svo: Niðurfelling einkaleyfisins hefur áhrif frá birtingu tilkynningar.


8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 72. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „einkaleyfisumsækjandi“ í 1. mgr. kemur: eða einkaleyfishafi.
 2. 2. mgr. fellur brott.
 3. 3. mgr., er verður 2. mgr., orðast svo:
 4.      Ákvæði 1. mgr. eiga við um forgangsrétt skv. 1. mgr. 6. gr. ef beiðni um endurveitingu er lögð fram innan tveggja mánaða frá lokum frests skv. 1. mgr. 6. gr. Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um frest til málshöfðunar skv. 3. mgr. 25. gr.
 5. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
 6.      Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga við um yfirfærslu alþjóðlegrar einkaleyfisumsóknar skv. 31. gr. Ákvæðin eiga einnig við um slíkar umsóknir þegar umsækjandi hefur glatað rétti af þeirri ástæðu að frestir hafa ekki verið virtir gagnvart viðtökuyfirvöldum, yfirvöldum sem framkvæma alþjóðlega nýnæmisrannsókn eða forathugun á einkaleyfishæfi eða Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO).


9. gr.

     Á eftir X. kafla laganna kemur nýr kafli, X. kafli a, Evrópsk einkaleyfi, með átján nýjum greinum, og breytist greinatala samkvæmt því:
     
     a. (75. gr.)
     Evrópskt einkaleyfi merkir einkaleyfi sem veitt er af Evrópsku einkaleyfastofunni (EPO) í samræmi við evrópska einkaleyfasamninginn (EPC) frá 5. október 1973. Evrópsk einkaleyfisumsókn merkir umsókn í samræmi við ákvæði evrópska einkaleyfasamningsins.
     Evrópskt einkaleyfi getur tekið til Íslands.
     Umsókn um evrópskt einkaleyfi skal lögð inn hjá Evrópsku einkaleyfastofunni eða Einkaleyfastofunni sem tekur við umsóknum hér á landi. Einkaleyfastofan framsendir umsóknina til Evrópsku einkaleyfastofunnar í samræmi við nánari reglur sem iðnaðarráðherra setur í reglugerð. Hlutunarumsókn fyrir evrópskt einkaleyfi skv. 76. gr. evrópska einkaleyfasamningsins verður þó einungis lögð inn hjá Evrópsku einkaleyfastofunni.
     Ákvæði þessa kafla gilda um evrópsk einkaleyfi og evrópskar einkaleyfisumsóknir sem taka til Íslands.
     
     b. (76. gr.)
     Evrópskt einkaleyfi telst veitt þegar Evrópska einkaleyfastofan birtir tilkynningu um veitinguna. Evrópskt einkaleyfi, sem öðlast hefur gildi hér á landi, hefur sömu áhrif og einkaleyfi sem veitt er af Einkaleyfastofunni og gilda um það sömu reglur nema kveðið sé á um annað í lögum þessum.
     
     c. (77. gr.)
     Evrópskt einkaleyfi öðlast aðeins gildi hér á landi ef umsækjandi, innan tilskilins frests samkvæmt reglugerð frá þeim degi sem Evrópska einkaleyfastofan hefur birt tilkynningu um veitingu einkaleyfis eða tekið ákvörðun um að staðfesta einkaleyfið í breyttri útgáfu, uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
 1. leggur inn hjá Einkaleyfastofunni íslenska þýðingu á einkaleyfiskröfum ásamt íslenskri eða enskri þýðingu á öðrum hlutum einkaleyfisins hafi evrópskt einkaleyfi verið veitt eða staðfest í breyttri útgáfu á þýsku eða frönsku,
 2. greiðir Einkaleyfastofunni tilskilið gjald fyrir útgáfu.

     Einkaleyfisgögn, hvort sem þau liggja fyrir í rafrænu formi eða á pappír, eru öllum aðgengileg. Gögnin verða þó aldrei aðgengileg fyrr en Evrópska einkaleyfastofan hefur birt einkaleyfisumsóknina.
     Þegar gögn skv. 1. mgr. hafa verið afhent, gjald greitt og Evrópska einkaleyfastofan hefur birt tilkynningu um veitingu einkaleyfis, eða ákvörðun sína um að staðfesta evrópska einkaleyfið í breyttri útgáfu, skal Einkaleyfastofan birta auglýsingu þess efnis. Eintak af einkaleyfinu skal þegar að því loknu vera fáanlegt hjá Einkaleyfastofunni.
     
     d. (78. gr.)
     Ákvæði 1. mgr. 72. gr. um endurveitingu réttinda eiga einnig við um fresti varðandi þýðingar og greiðslu gjalda skv. 1. mgr. 77. gr.
     Einkaleyfastofan skal birta auglýsingu ef orðið er við beiðni um endurveitingu réttinda.
     Hafi einhver í góðri trú byrjað að hagnýta uppfinningu hér á landi í atvinnuskyni, eða gert verulegar ráðstafanir til þess eftir að liðinn er frestur skv. 1. mgr. 77. gr. en áður en auglýsing um endurveitingu er birt, eiga ákvæði 2. og 3. mgr. 74. gr. við um rétt til hagnýtingar.
     
     e. (79. gr.)
     Ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 52. gr. um ógildingu eiga einnig við um evrópskt einkaleyfi svo framarlega sem verndarsvið einkaleyfis hefur verið rýmkað eftir að einkaleyfið var veitt skv. 76. gr.
     
     f. (80. gr.)
     Ákvörðun Evrópsku einkaleyfastofunnar um að takmarka, fella niður eða ógilda evrópskt einkaleyfi hefur sömu áhrif á evrópska einkaleyfið hér á landi. Einkaleyfastofan skal birta auglýsingu þess efnis.
     
     g. (81. gr.)
     Árgjald af evrópsku einkaleyfi skal greiða til Einkaleyfastofunnar fyrir hvert gjaldár sem byrjar að líða eftir að Evrópska einkaleyfastofan hefur birt tilkynningu um ákvörðun sína um að veita evrópskt einkaleyfi.
     Sé árgjald ekki greitt skv. 1. mgr., sbr. 41. gr., fellur einkaleyfið úr gildi. Árgjald fyrir fyrsta gjaldár eftir veitingu fellur þó ekki í gjalddaga fyrr en fjórum mánuðum eftir að einkaleyfið var veitt.
     
     h. (82. gr.)
     Frá því að Evrópska einkaleyfastofan ákvarðar umsóknardag hefur umsókn áhrif hér á landi eins og um landsbundna umsókn væri að ræða. Hafi umsækjandi krafist forgangsréttar í samræmi við evrópska einkaleyfasamninginn gildir sá forgangsréttur einnig hér á landi.
     Evrópsk einkaleyfisumsókn, sem birt hefur verið skv. 93. gr. evrópska einkaleyfasamningsins, telst þekkt, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 2. gr., og er lögð að jöfnu við umsóknir sem birtar eru skv. 22. gr. Það sama gildir um alþjóðlega einkaleyfisumsókn skv. 3. mgr. 153. gr. evrópska einkaleyfasamningsins ef Evrópska einkaleyfastofan leggur birtingu hennar að jöfnu við birtingu skv. 93. gr. evrópska einkaleyfasamningsins.
     
     i. (83. gr.)
     Ef umsækjandi afhendir Einkaleyfastofunni íslenska þýðingu á umsóknarkröfum eins og þær voru birtar af hálfu Evrópsku einkaleyfastofunnar skal þýðingin gerð aðgengileg almenningi. Einkaleyfastofan skal birta tilkynningu þess efnis í ELS-tíðindum.
     Eftir að slík tilkynning hefur verið birt og umsókn hefur leitt til veitingar evrópsks einkaleyfis hér á landi er unnt að beita ákvæðum er varða brot á einkaleyfisrétti. Í slíkum tilvikum nær einkaleyfisverndin þó aðeins til þess sem fram kemur bæði í umsóknarkröfum, eins og þær voru birtar, og kröfum einkaleyfis eins og það var veitt eða því breytt. Ákvæði 57. gr. eiga ekki við í framangreindum tilvikum heldur er aðeins skylt að greiða bætur fyrir tjón skv. 2. mgr. 58. gr.
     
     j. (84. gr.)
     Hafi umsækjandi dregið til baka evrópska einkaleyfisumsókn eða tilnefningu Íslands í slíkri umsókn, eða líta ber svo á samkvæmt evrópska einkaleyfasamningnum, og hafi umsókn ekki verið tekin til frekari meðferðar skv. 121. gr. evrópska einkaleyfasamningsins, hefur það sömu áhrif og þegar umsóknin er dregin til baka hér á landi.
     Höfnun evrópskrar einkaleyfisumsóknar hefur sömu áhrif og höfnun umsóknar hér á landi.
     
     k. (85. gr.)
     Samræmist þýðingar skv. 77. og 83. gr. ekki textanum á því tungumáli sem notað var við málsmeðferð hjá Evrópsku einkaleyfastofunni tekur einkaleyfisverndin aðeins til þess sem tilgreint er í báðum textunum.
     Í ógildingarmálum skal texti á tungumáli málsmeðferðar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni ráða.
     
     l. (86. gr.)
     Afhendi einkaleyfishafi eða umsækjandi Einkaleyfastofunni leiðrétta þýðingu á einkaleyfi skv. 77. gr. og greiði tilskilið gjald fyrir útgáfu leiðréttrar þýðingar skal sú þýðing koma í stað þeirrar sem áður var afhent. Þegar leiðrétting hefur verið afhent og gjald greitt birtir Einkaleyfastofan auglýsingu þess efnis svo framarlega sem upphaflega þýðingin er aðgengileg. Þegar auglýsing hefur verið birt skal eintak af leiðréttu þýðingunni vera aðgengilegt almenningi og fáanlegt hjá Einkaleyfastofunni.
     Afhendi umsækjandi leiðrétta þýðingu á umsókn skv. 83. gr. birtir Einkaleyfastofan auglýsingu þess efnis og hefur hina leiðréttu þýðingu aðgengilega almenningi. Eftir birtingu auglýsingar kemur hin leiðrétta þýðing í stað hinnar upphaflegu.
     Sá sem hefur í góðri trú notað uppfinninguna í atvinnuskyni hér á landi, eða hefur gert verulegar ráðstafanir til þess þegar hin leiðrétta þýðing hlýtur gildi, og notkunin braut ekki á rétti umsækjanda eða einkaleyfishafa samkvæmt fyrri þýðingu, hefur rétt til hagnýtingar í samræmi við 2. og 3. mgr. 74. gr.
     
     m. (87. gr.)
     Ákvörðun Evrópsku einkaleyfastofunnar um að endurveita einkaleyfishafa eða umsækjanda réttindi, sem hann hefur glatað þar eð hann virti ekki tilskilinn frest, gildir einnig hér á landi.
     Sá sem í góðri trú byrjar að hagnýta uppfinningu í atvinnuskyni hér á landi, eða hefur gert verulegar ráðstafanir til þess eftir að réttindamissir hefur átt sér stað en áður en Evrópska einkaleyfastofan hefur endurveitt réttindin og birt tilkynningu þess efnis, hefur rétt til hagnýtingar í samræmi við 2. og 3. mgr. 74. gr.
     
     n. (87. gr. a.)
     Sá sem í góðri trú byrjar að hagnýta uppfinningu, sem lýst er í birtri evrópskri einkaleyfisumsókn eða einkaleyfi, í atvinnuskyni hér á landi, eða hefur gert verulegar ráðstafanir til þess eftir að ákvörðun áfrýjunarnefndar Evrópsku einkaleyfastofunnar liggur fyrir en áður en úrskurður æðri áfrýjunarnefndar Evrópsku einkaleyfastofunnar skv. 112. gr. a í evrópska einkaleyfasamningnum er birtur, hefur rétt skv. 2. og 3. mgr. 74. gr.
     
     o. (88. gr.)
     Teljist evrópsk einkaleyfisumsókn, sem lögð hefur verið inn hjá einkaleyfayfirvöldum aðildarríkis, dregin til baka vegna þess að hún var ekki framsend Evrópsku einkaleyfastofunni innan tilskilins frests skal Einkaleyfastofan, ef umsækjandi krefst þess, líta svo á að henni hafi verið breytt í landsbundna umsókn hér á landi svo framarlega sem:
 1. krafan er sett fram við einkaleyfayfirvöld, þar sem umsóknin var lögð inn, innan þriggja mánaða eftir að umsækjanda var tilkynnt að hún teldist dregin til baka,
 2. krafan berst Einkaleyfastofunni innan tuttugu mánaða frá umsóknardegi eða, ef forgangsréttar er krafist, frá forgangsréttardegi og
 3. umsækjandi greiðir, innan frests sem ákveðinn er af iðnaðarráðherra, umsóknargjald og afhendir íslenska þýðingu af umsókninni í samræmi við ákvæði reglugerðar.

     Ef umsókn uppfyllir formkröfur Evrópsku einkaleyfastofunnar skal hún tekin gild að því leyti.
     
     p. (89. gr.)
     Ákvæði 9., breyttrar 60. og 131. gr. evrópska einkaleyfasamningsins, svo og ákvæði bókunar með samningnum um lögsögu og um viðurkenningu dómsúrskurða varðandi rétt til að fá veitt evrópskt einkaleyfi (bókun um viðurkenningu), skulu hafa lagagildi hér á landi. Ákvæðin skulu fylgja lögunum og teljast hluti þeirra.
     
     q. (89. gr. a.)
     Ákvæði laga þessara er lúta að varðveislu líffræðilegs efnis eiga ekki við um evrópskt einkaleyfi.
     
     r. (90. gr.)
     Iðnaðarráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd þessa kafla.

10. gr.

     Við lögin bætast tvö ný fylgiskjöl, svohljóðandi:

     
     a. (I.)
ÁKVÆÐI 9., 60. OG 131. GR. EVRÓPSKA EINKALEYFASAMNINGSINS
     

9. gr.

Ábyrgð.
     Um samningsbundna ábyrgð Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar skulu þau lög gilda sem við eiga um hlutaðeigandi samning.
     Um ábyrgð stofnunarinnar utan samninga vegna tjóns sem hún veldur eða starfsmenn Evrópsku einkaleyfastofunnar í starfi sínu gilda ákvæði laga sambandslýðveldisins Þýskalands. Ef útibúið í Haag eða undirskrifstofa eða starfsmenn þar valda tjóni gilda ákvæði laga þess samningsríkis þar sem útibúið eða undirskrifstofan hefur aðsetur.
     Kveða skal á um persónulega ábyrgð starfsmanna Evrópsku einkaleyfastofunnar gagnvart stofnuninni í starfsreglum þeirra eða ráðningarskilmálum.
     Þeir dómstólar, sem fara með lögsögu til að leysa úr deilum skv. 1. og 2. mgr., eru:
 1. að því er varðar deilur skv. 1. mgr., valdbærir dómstólar í sambandslýðveldinu Þýskalandi nema kveðið sé á um dómstóla annars ríkis í samningi milli aðilanna;
 2. að því er varðar deilur skv. 2. mgr., annaðhvort valdbærir dómstólar í sambandslýðveldinu Þýskalandi eða valdbærir dómstólar í ríkinu þar sem útibúið eða undirskrifstofan hefur aðsetur.


60. gr.

Réttur til evrópsks einkaleyfis.
     Rétt til evrópsks einkaleyfis á uppfinningamaðurinn eða sá sem hefur öðlast rétt hans. Ef uppfinningamaðurinn er launþegi ákvarðast rétturinn til evrópsks einkaleyfis af lögum ríkisins þar sem launþeginn starfar aðallega en ef ekki er unnt að ákvarða í hvaða ríki launþeginn starfar aðallega skal beita lögum ríkisins þar sem atvinnurekandinn hefur starfsstöð sem launþeginn tengist.
     Hafi tveir eða fleiri einstaklingar komið fram með uppfinningu, óháðir hvor eða hver öðrum, skal sá eiga rétt til evrópsks einkaleyfis sem fyrst sækir um hann, að því gefnu að fyrsta umsókn hafi verið birt.
     Í máli hjá Evrópsku einkaleyfastofunni skal litið svo á að umsækjanda sé heimilt að fara með réttinn til evrópsks einkaleyfis.

131. gr.

Samstarf um framkvæmd og löggjöf.
     Sé eigi kveðið á um annað í samningi þessum eða landslögum skulu Evrópska einkaleyfastofan og dómstólar eða yfirvöld í samningsríkjunum aðstoða hvert annað, þegar um er beðið, með upplýsingaskiptum eða með því að heimila skoðun gagna. Skilyrði, sem sett eru í 128. gr., gilda ekki um skoðunina þegar Evrópska einkaleyfastofan heimilar dómstólum, embættum saksóknara eða aðalhugverkastofum að skoða gögn.
     Þegar dómstólar eða önnur valdbær yfirvöld í samningsríkjunum taka við bréflegum beiðnum um skýrslutöku frá Evrópsku einkaleyfastofunni skulu þau leita nauðsynlegra upplýsinga eða gera aðrar lagalegar ráðstafanir fyrir Evrópsku einkaleyfastofuna að svo miklu leyti sem þau fara með lögsögu.

     
     b. (II.)
BÓKUN UM LÖGSÖGU OG UM VIÐURKENNINGU DÓMSÚRSKURÐA VARÐANDI RÉTT TIL AÐ FÁ VEITT EVRÓPSKT EINKALEYFI (BÓKUN UM VIÐURKENNINGU)
I. KAFLI
Lögsaga.

1. gr.

     Dómstólar samningsríkja skulu, í samræmi við 2.–6. gr., hafa lögsögu til að skera úr um kröfur gegn umsækjanda þar sem tilkall er gert til réttar til að fá veitt evrópskt einkaleyfi gagnvart einu eða fleirum þeirra samningsríkja sem tilnefnd eru í umsókninni.
     Í bókun þessari nær hugtakið dómstólar yfir þau yfirvöld sem að landslögum í samningsríki hafa lögsögu til að skera úr um kröfur þær er um getur í 1. mgr. Hverju samningsríki ber að tilkynna Evrópsku einkaleyfastofunni hver þau yfirvöld eru sem slík lögsaga er veitt og ber Evrópsku einkaleyfastofunni að veita öðrum samningsríkjum upplýsingar þar um.
     Í bókun þessari á hugtakið samningsríki við hvert það samningsríki sem ekki hefur beitt 167. gr. samningsins til að útiloka að bókunin eigi við.

2. gr.

     Nú hefur umsækjandi um evrópskt einkaleyfi aðsetur eða aðalstarfsstöð í einu samningsríkjanna og skal þá, með fyrirvara um 4. og 5. gr., mál gegn honum rekið fyrir dómstólum þess samningsríkis.

3. gr.

     Nú hefur umsækjandi um evrópskt einkaleyfi aðsetur eða aðalstarfsstöð utan samningsríkjanna, en aðilinn, sem gerir tilkall til réttar til að fá veitt evrópskt einkaleyfi, hefur aðsetur eða aðalstarfsstöð í einu samningsríkjanna, og skulu þá, með fyrirvara um 4. og 5. gr., dómstólar þess ríkis einir hafa lögsögu.

4. gr.

     Nú er sótt um evrópskt einkaleyfi á grundvelli uppfinningar sem launþegi hefur gert og skulu þá, með fyrirvara um 5. gr., dómstólar þess samningsríkis, þar sem landslög ákvarða réttinn til evrópsks einkaleyfis skv. 2. málsl. 1. mgr. 60. gr. samningsins, ef þeim er til að dreifa, einir hafa lögsögu í dómsmálum milli launþegans og atvinnurekanda hans.

5. gr.

     Nú hafa málsaðilar í deilu um réttinn til að fá veitt evrópskt einkaleyfi gert með sér samning, annaðhvort skriflega eða munnlega með skriflegri staðfestingu, þess efnis að dómstóll eða dómstólar í tilteknu samningsríki eigi að skera úr þess háttar deilu og skal þá dómstóll eða dómstólar þess ríkis einir hafa lögsögu.
     Séu málsaðilar launþegi og atvinnurekandi hans gildir 1. mgr. þó því aðeins að slíkur samningur sé heimill að landslögum þeim sem gilda um starfssamninginn þeirra á milli.

6. gr.

     Í þeim málum sem hvorki falla undir ákvæði 2.–4. gr. né 1. mgr. 5. gr. hafa dómstólar sambandslýðveldisins Þýskalands einir lögsögu.

7. gr.

     Þegar kröfur þær sem um getur í 1. gr. eru bornar upp fyrir dómstól í samningsríki skal hann að eigin frumkvæði úrskurða hvort honum beri lögsaga skv. 2.–6. gr. eða ekki.

8. gr.

     Fari svo að mál sé höfðað á grundvelli sömu kröfu og milli sömu málsaðila fyrir dómstólum í fleiri en einu samningsríki ber dómstóli, þar sem málið er síðar upp borið, að eigin frumkvæði að afsala sér lögsögu til þess dómstóls þar sem það var borið upp fyrr.
     Fari svo að brigður séu bornar á lögsögu dómstólsins, þar sem málið var fyrr upp borið, ber dómstólnum, þar sem það var borið upp síðar, að fresta málsmeðferð þar til fyrri dómstóllinn kveður upp fullnaðarúrskurð.

II. KAFLI
Viðurkenning.

9. gr.

     Nú hefur verið kveðinn upp í einhverju samningsríki fullnaðarúrskurður um réttinn til að fá veitt evrópskt einkaleyfi gagnvart einu eða fleirum þeirra samningsríkja sem tilnefnd eru í umsókninni um evrópskt einkaleyfi og skal þá, með fyrirvara um 2. mgr. 11. gr., viðurkenna þann úrskurð án þess að til þurfi að koma nokkur sérstök málsmeðferð í öðrum samningsríkjum.
     Málskot er óheimilt um réttmæti úrskurðar, sem viðurkenna ber, og lögsögu dómstólsins sem kvað hann upp.

10. gr.

     1. mgr. 9. gr. á ekki við ef:
 1. umsækjandi um evrópskt einkaleyfi, sem hefur ekki haft uppi mótmæli gegn kröfu, sýnir fram á að málsskjalið, sem réttarhöldin voru hafin með, hafi ekki verið kynnt honum eins og vera ber og í tæka tíð fyrir hann til að hafa uppi varnir; eða
 2. umsækjandi sýnir fram á að úrskurðurinn fari í bága við annan úrskurð, kveðinn upp í samningsríki í máli milli sömu málsaðila, og hafi þau málaferli hafist fyrr en hin þar sem úrskurðurinn, sem ber að viðurkenna, var kveðinn upp.


11. gr.

     Í samskiptum samningsríkja skulu ákvæði bókunar þessarar ganga framar hverjum þeim ákvæðum annarra samninga um lögsögu eða viðurkenningu dómsniðurstaðna sem kunna að vera gagnstæð þeim.
     Bókun þessi skal engu breyta um framkvæmd nokkurra samninga milli samningsríkis og ríkis sem óbundið er af bókuninni.

11. gr.

     Ákvæði 1., 2., 3., 4., 6. og 8. gr. laga þessara öðlast þegar gildi. Ákvæði a–m-liðar og o–r-liðar 9. gr. og 10. gr. öðlast ekki gildi fyrr en evrópski einkaleyfasamningurinn hefur öðlast gildi hér á landi í samræmi við 169. gr. samningsins og ráðherra birtir auglýsingu um að samningurinn hafi öðlast gildi gagnvart Íslandi. Ákvæði 5. gr., 7. gr. og n-liðar 9. gr. öðlast ekki gildi fyrr en breytingar, sem gerðar voru á evrópska einkaleyfasamningnum árið 2000, hafa öðlast gildi og ráðherra birtir auglýsingu um að breytingarnar hafi öðlast gildi gagnvart Íslandi.
     Ef annað er ekki tiltekið í 3. mgr. gilda lög þessi um einkaleyfisumsóknir þar sem umsóknardagur hefur verið ákvarðaður fyrir gildistöku laga þessara, sem og einkaleyfi sem veitt voru fyrir gildistöku laga þessara.
     Ákvæði 4. gr. laga þessara tekur til alþjóðlegra einkaleyfisumsókna þar sem þrjátíu mánaða frestur til yfirfærslu, talið frá umsóknardegi eða forgangsréttardegi, rennur út við gildistöku laga þessara eða síðar enda hafi þær ekki verið yfirfærðar á þeim tíma.

Samþykkt á Alþingi 21. maí 2004.