Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 997. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1799  —  997. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.    Minni hluti landbúnaðarnefndar vill taka fram að það er rangt sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið, þar sem sagt er að markmið þess sé að eyða réttaróvissu um að gildandi búvörulög, nr. 99/1993, tryggi ekki nægjanlega heimildir mjólkurframleiðenda og afurðastöðva til samráðs, samruna og verðtilfærslna og því séu þær aðgerðir undanskildar gildissviði samkeppnislaga.
    Enginn réttaróvissa hefur ríkt á þessu sviði. Þar sem búvörulög undanþiggja ekki sérstaklega tiltekna háttsemi frá samkeppnislögum gilda almennar reglur samkeppnislaga. Um þetta var vilji löggjafans skýr. Þar sem undanþágum búvörulaga sleppir gilda ákvæði samkeppnislaga. Á þessu hefur aldrei leikið neinn vafi.

Tilgangur frumvarpsins.
    Í athugasemdum við frumvarpið er búvörulögum lýst þannig að markmið þeirra sé m.a. að vernda byggðastefnu og tryggja að landbúnaðarvörur, sérstaklega ferskar mjólkurafurðir, verði í boði á viðráðanlegu verði fyrir alla landsmenn. Það frumvarp sem hér er til meðferðar gerir ráð fyrir í fyrsta lagi að heimila afurðastöðvum í mjólkuriðnaði að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða án afskipta verðlagsnefndar. Í öðru lagi að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga skuli afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf um verðlagningu mjólkurafurða.

Efni frumvarpanna.
    Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar er tengt öðru frumvarpi um breytingar á búvörulögum í framhaldi af samningi ríkisstjórnarinnar og Bændasamtaka Íslands um starfsskilyrði í mjólkuriðnaði. Niðurstaða þessara frumvarpa, verði þau að lögum, munu að mati minni hlutans þýða verulega hækkun á verði mjólkurvara til neytenda. Frumvörpin gera ráð fyrir að verðlagsnefnd sé nánast tekin úr sambandi, hvað varðar aðhald hennar á verðlagningu mjólkurafurða, og greininni sjálfri falið sjálfdæmi á þessu sviði.

Stefna ríkisstjórnarinnar.
    Mjólkuriðnaðurinn nýtur mikillar verndar. Um einokunarstarfsemi er að ræða sem innflutningur veitir lítið aðhald. Það vekur talsverða furðu að ríkisstjórnin skuli ætla að heimila mjólkuriðnaðinum að stunda verðsamráð og uppskiptingu markaða. Þetta eru talin alvarlegustu brot gegn frjálsum markaði, eðlilegri verðmyndun og samkeppnislögum. Með lögfestingu frumvarpanna verða lögverndaðar aðgerðir í mjólkuriðnaði sem taldar eru einhverjar þær alvarlegustu gegn eðlilegri og frjálsri verðmyndun og samkeppni. Það er því ljóst að ríkisstjórnin hefur ákveðið að færa aukinn kostnað yfir á neytendur og láta þá greiða fyrir hækkunina sem verður á verði mjólkurafurða vegna þessara breytinga. Spurningin sem vaknar er að sjálfsögðu sú hvort með þessu sé stigið fyrsta skrefið af mörgum til að taka heilu atvinnugreinarnar undan samkeppnislögum og heimila þeim sérstakar aðferðir til að ákvarða verð á framleiðsluvörum sínum. Hví skyldu kjöt- og grænmetisframleiðendur ekki njóta sömu kjara? Minni hlutinn telur afar varhugavert að ríkisstjórnin skuli feta sig inn á þessa slóð. Þessi aðferð er aðeins afturhvarf til fortíðar. Í reynd er verið að heimila „Öskjuhlíðarfundi“ án nokkurs opinbers eftirlits.

Hvers vegna þarf einokunarstarfsemi á aukinni vernd að halda?
    Með aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að verðlagsnefnd hefur umræða um landbúnað breyst mjög til batnaðar. Nú á að taka hana nánast úr sambandi og segja má að ríkisstjórnin setji í uppnám vinnu undanfarinna ára sem hefur haft það að markmiði að gefa verðlagningu á mjólkuvörum frjálsa og afnema opinbera verðlagningu. Með þessum frumvörpum er aftengd aðkoma neytenda og verkalýðshrefingar að verðákvörðunum í grein sem hefur einokunaraðstöðu og nýtur mikilla ríkisstyrkja. Slík ákvörðun er til þess fallin að skapa tortryggni milli þessara aðila.

Hvaða hagsmuni er verið að vernda?
    Því miður kemur lítið fram um það, hvorki í athugasemdum við frumvarpið né í framsöguræðu landbúnaðarráðherra, hvaða hagsmuni er verið að vernda. Þó segir í athugasemdum að tryggt sé „að þeir aðilar sem stunda smásöluverslun eigi kost á að kaupa þessar mikilvægu neysluvörur á sambærilegu verði og þar með verði komið í veg fyrir að stórar verslanakeðjur geti keypt umræddar vörur á mun hagstæðara verði en keppinautarnir í krafti stærðar sinnar“. Af þessari tilvitnun verður ráðið að tilgangur frumvarpsins sé sá að koma í veg fyrir að þrýstingur geti myndast á afurðastöðvar vegna samkeppni þeirra á milli um að selja tilteknum aðilum mjólkurvörur á lægra verði en öðrum. Aðferðin við að sporna gegn þessu er að heimila verðsamráð og skiptingu markaða. Þetta verður að telja afar óeðlilegt og nánast aðför að neytendum. Ef stórar verslanakeðjur misnota markaðsráðandi stöðu sína þannig að einokunarfyrirtæki stafar ógn af er rétt að taka það fram að misnotkun á markaðsráðandi stöðu er óheimil og varðar við samkeppnislög. Það er því hlutverk samkeppnisyfirvalda að taka á slíkum brotum. Það getur varla verið markmið laganna að koma í veg fyrir að þeir sem gera stórinnkaup fái magnafslátt vegna þessa; það er eðli markaðarins. Minni hlutinn hafnar því að leiðin til að taka á þessari stöðu sé sú að hverfa aftur til hafta- og verndarstefnu. Það er í hrópandi ósamræmi við þróun síðustu ára í landbúnaði.

Framtíðin.
    Um nokkurt skeið hefur stefnan verið sú að afnema opinbera verðlagningu á mjólkurvörum, en gefa greininni aðlögunartíma til að hagræða og að þeim tíma loknum fái greinin aðhald frá innflutningi mjólkurafurða. Flest bendir til að á endanum muni niðurstaða samningaviðræðna á alþjóðavettvangi (WTO) verða sú að heimilaður verði aukinn innflutningur landbúnaðarafurða. Það er mikilvægt að undirbúa greinina vel fyrir þær breytingar. Í frumvörpunum er varla að sjá nokkra framtíðarsýn hvað þetta varðar. Hér er staða afurðastöðvanna fyrst og fremst styrkt á kostnað neytenda og framleiðenda. Sagan greinir mýmörg dæmi þess að fyrirtæki sem starfa undir verndarvæng ríkisisins í einokunaraðstöðu, án nokkurs aðhalds frá markaðnum eða opinberum aðilum, geta sjaldnast fótað sig þegar rekstrarumhverfið breytist. Það er engin framtíðarsýn í þessu frumvarpi. Þess í stað er ákveðið að hverfa til fortíðar með hefðbundinni hafta- og verndarstefnu þessara flokka. Með lögfestingu þessara reglna er komið í veg fyrir að fulltrúar neytenda eða samkeppnisyfirvöld geti haft nokkurt eftirlit með atvinnugreininni. Minni hlutinn telur því lögfestingu þessara reglna afturhvarf til fortíðar fyrir landbúnaðinn, neytendur og framleiðendur. Minni hlutinn hafnar alfarið þeirri aðferðafræði sem hér á að lögfesta og telur hana hættulega, bæði greininni og neytendum.

Alþingi, 26. maí 2004.Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Ásgeir Friðgeirsson.