Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 17:45:50 (5423)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:45]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tek eftir að hv. þingmaður er sömu skoðunar og meiri hluti nefndarinnar og ýmsir ráðgjafar sem við leituðum til að ekki sé ráð að setja lög um kvóta núna, ekki ráð að gefa ráðherranum þá heimild. Það var m.a. ráðherrann sjálfur sem taldi að það væri ekki rétt þannig að það verður ekki gert þótt mér hefði fundist það koma til greina eins og fleirum.

Ég var hins vegar að segja að ég tel að Skotvís, samband skotveiðimanna, eigi að íhuga hvort það eigi að taka upp einhvers konar viðmiðunarreglur um kvóta í veiðiferð til að gefa mönnum hugmynd um hvað teljist siðlegt og tækt í þeim efnum. En ég geri mér grein fyrir því að það verða aldrei allir sem fara eftir því og auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess. En það gæti gerst. Það hefur gerst t.d. í laxveiðum að þar hafa menn komið sér upp ákveðnum reglum, siðareglum má segja þó þær séu auðvitað ekki kallaðar það eða skráðar, sem hafa leitt til mikilla breytinga á laxveiðinni og gert hana að miklu meiri íþrótt en hún var.

Svo um sölubannið, þannig að það sé alveg skýrt, þá er það ekki meining okkar að það sé viðbótaraðgerð heldur að það sé aðgerð í sjálfu sér. Ef tveir hv. þingmenn skilja það öðruvísi og eru bæði reyndir menn innan þings og utan þá er sjálfsagt fyrir okkur að fara yfir það í nefndinni og ég beini því til formanns nefndarinnar, hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, að lesa þennan texta og bera hann undir lagakrókamenn og athuga hvort það þarf að breyta honum aftur. En það er alveg skýrt frá okkar hálfu að við lítum á sölubann sem sérstaka sjálfstæða aðgerð sem megi beita einni saman þó að auðvitað komi til greina að beita henni með öðrum. Betra væri þó að beita henni einni saman vegna þess að þá fengjum við meiri reynslu af henni. Ég tek undir það með hv. þingmanni.