Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 14:27:04 (5466)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:27]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum sem snúa að skipulagi þeirra stofnana sem sjá um framkvæmd samkeppnisreglna og neytendamála. Hér er um að ræða frumvarp til samkeppnislaga sem er 590. mál þingsins á þskj. 883 og frumvarp til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins sem er 591. mál þingsins á þskj. 884.

Í þessum tveimur frumvörpum eru gerðar tillögur að breytingum á skipulagi þeirra stofnana sem sjá um framkvæmd samkeppnisreglna og neytendamála, en það varð niðurstaða nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis að nauðsynlegt væri að efla eftirlit með samkeppnishömlum á markaði. Taldi nefndin að þetta yrði best gert með því að gera störf samkeppnisyfirvalda skilvirkari og veita meira fjármagn til þerra með því að þau verkefni sem lúta að óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins yrðu ekki unnin í sömu stofnun og þau verkefni sem snúa sérstaklega að samkeppnismálum.

Hæstv. forseti. Ég mun fyrst fjalla um frumvarp til samkeppnislaga og því næst um frumvarp til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Frumvarp til samkeppnislaga sem er 590. mál þingsins á þskj. 883 var samið með hliðsjón af niðurstöðum nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis en breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þó ekki að öllu leyti í samræmi við tillögur nefndarinnar. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar sem nauðsynlegt er að gera vegna innleiðingar tveggja reglugerða Evrópusambandsins, þ.e. annars vegar er um að ræða reglugerð nr. 1/2003, um framkvæmd samkeppnisreglna, og hins vegar samrunareglugerð nr. 139/2004, um eftirlit með samfylkingum.

Í frumvarpinu eru ekki gerðar tillögur um heildarendurskoðun samkeppnislaga. Breytingarnar sem lagðar eru til snerta flest ákvæði samkeppnislaga auk þess sem lagt er til að þrír kaflar laganna verði felldir brott og settir í sérstök lög. Því var talið eðlilegt að leggja fram frumvarp til nýrra laga í stað þess að leggja til breytingar við gildandi lög.

Segja má að frumvarp til samkeppnislaga sé þríþætt. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á skipulagi samkeppnisyfirvalda sem miða að því að einfalda stjórnsýslu á sviði samkeppnismála. Nú eru liðin 11 ár frá gildistöku samkeppnislaga og hefur það sýnt sig að samkeppnisyfirvöld geta ekki við óbreyttar aðstæður sinnt nauðsynlegum verkefnum. Því er nauðsynlegt að gera breytingar á starfsemi og skipulagi þeirra annars vegar með því að að færa verkefni frá samkeppnisyfirvöldum og hins vegar með því að breyta skipulagi og þar með verklagi samkeppnisyfirvalda.

Tillögur um breytingar sem lúta að skipulagi og stjórnsýslu samkeppnisyfirvalda miða að því að einfalda stjórnsýsluna á sviði samkeppnismála. Nú annast samkeppnisráð, Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd samkeppnismála daglega stjórnsýslu á því sviði sem samkeppnislögin taka til. Gegnir samkeppnisráð lykilhlutverki í stjórnsýslu samkeppnismála, en það er aðalúrskurðaraðilinn á neðra stjórnsýslustigi. Samkeppnisstofnun undirbýr mál sem lögð eru fyrir samkeppnisráð og ráðgjafarnefndir þess og annast dagleg störf ráðsins. Ákvarðanir samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar sæta kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þykir þetta fyrirkomulag óþarflega flókið.

Lagt er til að sett verði á fót ný stofnun, Samkeppniseftirlitið, en henni er ætlað að taka við þeim verkefnum Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs er snúa að samkeppnismálum. Þá er lagt til að samkeppnisráð verði lagt niður en að Samkeppniseftirlitinu verði skipuð þriggja manna stjórn sem að nokkru leyti er ætlað að yfirtaka þau verkefni er nú heyra undir samkeppnisráð. Stjórninni er ætlað að móta áherslur í starfi Samkeppniseftirlitsins og fylgjast með starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Þá er lagt til að áður en stofnunin tekur meiri háttar ákvarðanir skuli þær bornar undir stjórnina til samþykktar eða synjunar.

Þar sem sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins gagnvart viðskiptaráðherra er mikilvægt er lagt til að forstjóri þess verði ráðinn af stjórn stofnunarinnar og að hann beri ábyrgð gagnvart henni.

Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að lögfestar verði heimildir samkeppnisyfirvöldum til handa til þess að krefjast þess að fyrirtæki sem brotið hafa gegn ákvæðum samkeppnislaga breyti skipulagi sínu. Er þetta lagt til í samræmi við niðurstöðu meiri hluta nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis. Ákvæði gildandi samkeppnislaga eru ekki talin veita samkeppnisyfirvöldum nægilega skýrar heimildir til að krefjast skipulagsbreytinga en mikilvægt þykir að í samkeppnislögum sé skýr heimild til handa Samkeppniseftirlitinu til að krefjast þess að fyrirtæki breyti skipulagi sínu. Tillagan er í samræmi við breytingar sem nýlega voru gerðar á samkeppnisreglum Evrópusambandsins, sbr. reglugerð nr. 1/2003, og norskum samkeppnislögum og í samræmi við heimildir sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur að því er varðar brot á 53. og 54. gr. EES-samningsins. Sambærilegar heimildir er einnig að finna í fleiri löndum, m.a. Bretlandi, Írlandi og Bandaríkjunum, auk þess sem fyrir liggja tillögur um slíka löggjöf í Þýskalandi. Þá er tillagan einnig í samræmi við þær heimildir sem Samkeppnisstofnun hefur nú þegar skv. 14. gr. samkeppnislaga og hefur iðulega beitt til að krefjast skipulagsbreytinga hjá opinberum stofnunum sem stunda samkeppnisrekstur.

Lagt er til að Samkeppniseftirlitið geti beitt úrræðum bæði til breytingar á atferli og skipulagi í hlutfalli við það brot sem framið hefur verið og nauðsynlegt telst til að stöðva það í reynd. Þó er gert ráð fyrir að einungis verði heimilt að beita úrræðum til breytingar á skipulagi ef fullreynt þykir að ekki sé fyrir hendi jafnárangursríkt úrræði til breytingar á atferli eða þar sem jafnárangursríkt úrræði til breytingar á atferli væri meira íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi aðila en úrræði til breytingar á skipulagi. Jafnframt þessari breytingu er lagt til að c-liður 1. mgr. núgildandi 17. gr. samkeppnislaga falli brott, en þar er kveðið á um að samkeppnisráð geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni.

Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér breytingar sem nauðsynlegt er að gera vegna innleiðingar á tveimur reglugerðum Evrópusambandsins sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Í fyrsta lagi er um að ræða reglugerð nr. 1/2003, um framkvæmd samkeppnisreglna, sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans. Í öðru lagi er um að ræða breytingar sem nauðsynlegt er að gera vegna innleiðingar reglugerðar nr. 139/2004, um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja (samrunareglugerðina). Innleiðing gerðanna hefur í för með sér efnislegar breytingar á bókun 4 við samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sem nauðsynlegt er talið að lögfesta. Breytingarnar sem lagðar eru til vegna innleiðingar þessara gerða snúa einungis að ákvæðum í VII. kafla frumvarpsins, um framkvæmd samkeppnisreglna o.fl., samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Frumvarp vegna innleiðingar reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1/2003 var lagt fram á 130. löggjafarþingi en varð ekki útrætt og hafa ákvæði þess frumvarps verið felld inn í það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu með nokkrum breytingum.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið umfjöllun minni um frumvarp til samkeppnislaga. Miðað við það sem hér hefur komið fram, hæstv. forseti, þá skilst mér að einhver misskilningur hafi orðið í sambandi við hvaða frumvörp óskað var eftir að yrðu rædd saman og hvaða frumvarp yrði rætt sérstaklega. Það er því kannski rétt að ég láti hér staðar numið og taki þá framsögu þess máls sem ég ætlaði nú að mæla fyrir með frumvarpi um Neytendastofu sem ég mun mæla fyrir á eftir.

Ég vil að síðustu segja að í því frumvarpi sem ég hef nú mælt fyrir eru gerðar tillögur að breytingum á skipulagi þeirrar stofnunar sem sér um framkvæmd samkeppnisreglna og verði það óbreytt að lögum mun það hafa í för með sér öflugra eftirlit með samkeppnishömlum á markaði og gera störf samkeppnisyfirvalda skilvirkari en nú er. Fjárframlög til samkeppniseftirlits munu aukast um 60 millj. kr. og hægt verður að fjölga sérfræðingum stofnunarinnar um sjö, þ.e. úr tíu í sautján.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp en ég mælist til þess að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.