Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 17:27:36 (5533)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:27]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þekki hv. þingmann það vel að ég veit að hún talar gegn betri vitund þegar hún telur að Samtök atvinnulífsins og Sigurður Kári Kristjánsson séu allt í einu farin að breyta um skoðun og telja sig vera að efla samkeppnisyfirvöld. Þar talar hv. þingmaður gegn betri vitund vegna þess að hún veit vel að það er verið að veikja Samkeppnisstofnun og draga úr sjálfstæði stofnunarinnar með þeim leiðum sem fara á með þessu frumvarpi.

Ég spyr hvort það hafi virkilega verið samþykkt í þingflokki framsóknarmanna að draga úr hæfisskilyrðum frá því sem er í frumvarpinu núna, að það sé í lagi að þeir sem sitja í stjórn stofnunarinnar eigi hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi, þeir séu samt gjaldgengir í stjórnina. Hv. þingmaður svaraði því ekki hvort hún teldi eðlilegt að bera þyrfti allar meiri háttar ákvarðanir undir stjórn stofnunarinnar.