Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 17:30:05 (5535)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:30]

Atli Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Í frumvarpi til samkeppnislaga sem hér er til umræðu í dag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars, er markmiði og gildissviði laganna lýst í I. kafla. Það á að efla virka samkeppni í viðskiptum og vinna að hagkvæmni o.s.frv. og því er síðan lýst til hvers lögin taka en skilmerkilega undanþegið að lögin taki ekki til launa og annarra starfskjara. Það er enn fremur samhliða þessu frumvarpi mælt fyrir um sérstaka Neytendastofu sem er allrar athygli vert ef hún virkar.

Hæstv. viðskiptaráðherra sér ástæðu til að láta semja ítarlegt fjörutíu og fjögurra greina frumvarp með tuttugu og þriggja blaðsíðna greinargerð um samkeppnismál en undanskilur þar reyndar algjörlega mál sem snúa að samkeppnisstöðu kynjanna. Ég spyr: Af hverju er þetta frumvarp lagt fram? Það hefur komið fram að á því sé engin brýn þörf, núgildandi samkeppnislög eru ekki sá dragbítur á virkri samkeppni og eftirliti með henni heldur fjársvelti. Það vita allir sem koma nálægt þessu máli og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði því verulega góð skil í ræðu sinni hér á undan. Samkeppnisstofnun hefur þrátt fyrir fjársveltið afrekað ótrúlega mikið með faglegum og óháðum vinnubrögðum. Ég segi það hér og það er mín eindregna skoðun að Samkeppnisstofnun þarf að vera algjörlega óháð flokkspólitískum afskiptum eða ríkisstjórnarafskiptum og það gildir einu hvort sú ríkisstjórn sem hér er við völd nú á í hlut eða aðrar.

Ég bendi á að umboðsmaður Alþingis nýtur slíkrar stöðu. Hann sækir vald sitt til Alþingis ef svo má að orði komast. Sama gildir um Ríkisendurskoðun. Þessar stofnanir sinna eftirliti með hinu opinbera, með stjórnsýslu og öðru slíku, og með opinberum rekstri. Þó er allt lagaumhverfi opinbers reksturs með þeim hætti að það má fremur treysta honum heldur en einkarekstrinum. Það sem ég er að segja hér er að það verður að tryggja Samkeppnisstofnun, Samkeppniseftirliti, eins og það mun heita, sömu starfsskilyrði og Ríkisendurskoðun og umboðsmanni Alþingis við eftirlit með einkarekstri. Það eru í raun sterkari rök fyrir og meiri þörf á óháðum aðila sem sinnir slíku eftirliti en eftirliti með ríkinu. Nær væri að slíta öll tengsl Samkeppniseftirlits við framkvæmdarvaldið og tengja það fremur Alþingi og auka virðingu þess og auka það sem er grundvöllur lýðræðisins, þ.e. hið þrískipta ríkisvald, láta ekki framkvæmdarvaldið vera með puttana í eftirlitsstarfinu.

Ég segi að þetta frumvarp sé bakslag í þessum efnum. Það er afturhvarf að mínu viti frá því sem ég vil nefna gegnsætt eða gagnsætt lýðræði. Það er mælt fyrir slakara eftirliti með ríkisfyrirtækjum sem verða einkavædd heldur en nú er með þeim. Nefni ég þar Símann.

Ég hygg að hæstv. viðskiptaráðherra hefði fremur átt að huga að — það er mun brýnna — virkum stjórnvaldsaðgerðum og lögum til að tryggja samkeppnisstöðu kynjanna. Hæstv. viðskiptaráðherra veit fullkomlega að kynbundinn launamunur er talinn vera á bilinu 14–18% þegar borin eru saman laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Hún veit að kerfisbundinn launamunur hefur verið viðvarandi um árabil og engin teikn á lofti eru um breytingar. Hún veit líka að með kynbundnum launamun er brotið gegn jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og það er gert á hverjum degi. Það er líka brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, og þessi mismunun sem er svo brýnt að taka á leiðir til annars misréttis og hindrar þátttöku kvenna á jafnréttisgrundvelli í stjórnmála-, efnahags-, félags- og menningarlífi.

Er ekki þörf á virku eftirliti sem beinist gegn stjórnarskrárbrotum? Átti ekki að huga að því þegar Samkeppniseftirlitið var sett á stofn og Neytendastofa að hugsa nú pínulítið um þann þátt og samþætta?

Hæstv. viðskiptaráðherra veit einnig að heildaratvinnutekjur kvenna eru að jafnaði 60% af atvinnutekjum karla — það er að vísu minni munur hjá opinberum starfsmönnum — og 20% af forstöðumönnum ráðuneyta eru konur. Þetta er allt undanskilið. Allir þessir mikilvægu grunnþættir í samfélaginu eru undanskildir í þessu samkeppnisfrumvarpi. Það er hugsað þröngt og hugsað um viðskiptalífið og að koma til móts við kröfur Samtaka atvinnulífsins og annarra í þessum efnum. Það er engin þörf á lagabreytingum og sá sem hér stendur vill fremur sjá lög þróast áfram fyrir atbeina dómstóla eða með öðrum hætti en sífellt að vera að krukka í löggjöf. Það gerir framkvæmd löggjafar ómarkvissa.

Það hefur ekkert eða lítið sem ekkert þokast í þjóðfélaginu til að jafna samkeppnisstöðu kynjanna á valdatíma ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Í stað þess að huga að þessum brýnu úrlausnarefnum, að bæta samkeppnisstöðu kynjanna, leggst hæstv. viðskiptaráðherra í víking til að gera Samkeppnisstofnun pólitískt háðari ríkisstjórnum á hverjum tíma.

Misjafnt hafast karlar og konur að á þessum alþjóðlega baráttudegi kvenna 8. mars. Ég vil vekja athygli á yfirlýsingu sem Noeleen Heyzer, framkvæmdastjóri UNIFEM, þróunarsjóðs kvenna hjá Sameinuðu þjóðunum, sendi frá sér í dag. Þar segir hún m.a. að víða sé unnið að lögfestingu réttinda kvenna til efnahagslegs öryggis hvað varðar mikilvæga málaflokka eins og eignar- og erfðarétt, mannsæmandi atvinnu og aðgang að lánum og mörkuðum. Hví er ekki hugað að þessu? Ég beini því til hæstv. viðskiptaráðherra að sýna pólitískan vilja og styrk og leggjast fremur í víking við að semja lög og beita sér fyrir virkum stjórnvaldsúrræðum til að jafna samkeppnisstöðu kynjanna. Jafnframt beini ég því til hæstv. ráðherra að draga þetta frumvarp til samkeppnislaga til baka eða fara sér afar hægt í þeim efnum og veita í stað þess verulega aukið fé til Samkeppnisstofnunar og byggja á núverandi grunni.

Það var á það bent hér fyrr í umræðunni að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði dregið að ræða þetta eða haft þetta frumvarp hjá sér til meðhöndlunar í nokkra mánuði, frá desember til dagsins í dag. Ég skil mætavel að menn vilji gaumgæfa þetta líka mjög vel. En ég vil benda á í því sambandi líka að það er mitt áhyggjuefni að starfsmenn Samkeppnisstofnunar eru í gíslingu. Þeir vita ekkert hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Það er ekki góð framkoma. Þeir hefðu þurft að fá að vita nákvæmlega um hvað þetta snerist, hvaða starfsmenn fengju störf áfram, hverjum ætti að segja upp og hverjum ekki, hvar þeim yrði skipað til húsa o.s.frv. Það er eðlileg framkoma við starfsmenn sem hafa unnið af kappi í þessum samkeppnisverkefnum sem eru afar erfið en jafnframt brýn.

Enn og aftur þetta: Það er brýnasta verkefni samtímans að leggjast á eitt til að jafna samkeppnisstöðu kynjanna og ég get fullkomlega séð fyrir mér stofnun, þess vegna innan Samkeppniseftirlits, eins og Neytendastofu, sem sinnir því hlutverki. Hér hefur verið útbýtt í dag frumvarpi sem gæti verið hæstv. ráðherra til leiðbeiningar um að setja á stofn jafnréttisstofu til hliðar við Neytendastofu.

Gerum eitthvað raunhæft. Leggjum fé til Samkeppnisstofnunar í dag og byggjum á þeim grunni sem þar er og hefur reynst nokkuð haldbær. Ég held að helstu agnúar hafi slípast af því starfi.