Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 17:42:23 (5537)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:42]

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit fullvel að Jafnréttisstofa er starfandi í landinu. Ég veit það manna best. Ég er að tala um að gefa henni virkari heimildir og ég var að tala um að það væri hugsanlegt að færa hana undir Samkeppniseftirlitið.

Ég orðaði aldrei nokkuð í þá veru að hæstv. ráðherra væri kvenfjandsamlegur. En e.t.v. hef ég hitt á veikan streng. (Gripið fram í.) Ég orðaði það aldrei. Kjarni jafnréttismála, hæstv. ráðherra, er samþætting á öllum sviðum. Það hefði hæstv. ráðherra átt að hafa í huga þegar hún lagðist í þennan víking, þ.e. að samþætta þessa löggjöf jafnréttissjónarmiðum.

Ef það er klisja að segja að stofnunin sé pólitískt háð þá verður svo bara að vera. En lýðræðishugsun mín byggir á mörgum fleiri þáttum. Einn þeirra þátta er að ríkisvaldið sé ekki með puttana í öllum sköpuðum hlutum. Ég vil sjá þrískiptingu ríkisvaldsins. Ég vil sjá veg Alþingis og dómstóla jafnmikinn og framkvæmdarvaldsins. Ég er satt best að segja orðinn hundleiður á yfirgangi ráðherra og framkvæmdarvaldsins gegn Alþingi og dómstólum.