Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 18:48:20 (5555)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði satt að segja átt von á að í lok þessarar umræðu mundi ráðherra sýna þinginu og þeim þingmönnum sem hér eru þann sóma að svara þeim spurningum sem út af standa og fram hafa verið bornar til hæstv. ráðherra á þessum degi. En þar sem hæstv. ráðherra situr sem fastast er ég knúin aftur til umræðu um þetta mál. Ég ítreka þær fyrirspurnir sem ég hafði lagt fyrir hæstv. ráðherra.

Í fyrsta lagi hefur ráðherrann ekki svarað því er ég kallaði eftir þeim forsendum sem lægju að baki skipulagsbreytingunum og þeim breytingum sem er hér verið að gera á samkeppnislögum. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort fyrir lægi rannsókn eða stjórnsýsluúttekt byggð á faglegu mati, að nauðsynlegt væri að grípa til þeirrar skipulagsbreytingar sem hér er verið að gera. Ég kallaði eftir því við hæstv. ráðherra hvort leitað hefði verið samráðs við samkeppnisráð eða forstöðumenn og forstjóra stofnunarinnar um þessar breytingar og heyra álit þeirra á því hvort þeir teldu að með þessari breytingu yrði allt samkeppniseftirlit skilvirkara og betra en það hefði verið hingað til. Ég spyr ráðherrann um það aftur, var leitað til þessara aðila um umsögn þeirra um þetta frumvarp? Lá fyrir einhvers konar úttekt á því, byggð á faglegu mati að það væri nauðsynlegt að fara í þessar breytingar? Þetta er nauðsynlegt að fá fram í þessari umræðu og mundi auðvelda okkur starfið í efnahags- og viðskiptanefnd ef við fengjum svör hjá hæstv. ráðherra.

Ég vil líka segja að það er ákaflega skynsamleg tillaga sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, þ.e. að leggja þetta frumvarp til hliðar, vísa því frá og setja þá nauðsynlegu peninga sem þarf inn í Samkeppnisstofnun til að hún geti sinnt eftirliti sínu. Það er raunverulega hið eina sem þarf, aukinn mannskap, aukna peninga. Skipulagsbreytingum þurfum við ekki á að halda og við höfum margsýnt fram á að þær skipulagsbreytingar sem verið er að fara í munu einungis veikja stofnunina og draga úr sjálfstæði hennar.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra, í fyrsta lagi spurningar sem ég spurði hana í dag út af þeim fjármunum og fjárvöntun sem er hjá Samkeppnisstofnun: Hvers vegna er sú þarfagreining sem ráðherrann hefur þó upplýst þingið um ekki lögð fram sem fylgiskjal með þessu frumvarpi? Er hún leyndarmál? Mun efnahags- og viðskiptanefnd fá fram þá þarfagreiningu sem unnin var í samráði við Samkeppnisstofnun? Ég held að í þeirri þarfagreiningu komi fram að nauðsynlegt sé að fá fleiri sérhæfða aðila á samkeppnissviði inn í stofnunina en hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir í tillögum sínum. 40 millj. kr. ber á milli þess sem forstjórinn telur að þurfi inn í stofnunina til að þeir geti sinnt sínum verkefnum, þ.e. 100 milljónir, en ráðherrann er hér að tala um 60 milljónir. Við þurfum að glöggva okkur á þessu í efnahags- og viðskiptanefnd þannig að ég spyr hæstv. ráðherra um það.

Ég bæti því við að ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi kynnt sér það að í nýjustu ársskýrslu Samkeppnisstofnunar færir forstjóri stofnunarinnar glögg rök fyrir því að auka þurfi fjármuni inn í stofnunina.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvaða rök búi að baki því að álitið er nauðsynlegt að forstöðumenn eða forstjóri Samkeppnisstofnunar beri allar meiri háttar ákvarðanir undir stjórnina áður en þeim er hrundið í framkvæmd til samþykktar eða synjunar. Hver eru rökin á bak við að talið er nauðsynlegt að hafa þennan hátt á? Þetta er eitt af stærstu atriðunum í þessu frumvarpi. Við þurfum að átta okkur á því hvaða rök liggja að baki og það hlýtur að vera krafa okkar, virðulegi forseti, að ráðherrann geti upplýst þingið um af hverju hún telur nauðsynlegt að forstöðumenn Samkeppnisstofnunar beri allar meiri háttar ákvarðanir undir stjórnina.

Er ástæðan eitthvað í fortíðinni? Hefur stofnunin að mati ráðherra farið offari í ákvörðunum sínum og aðgerðum í samkeppnismálum? Eða hver eru rökin fyrir því? Ég get ekki fundið nein skynsamleg svör við því í þessu frumvarpi eða greinargerð, en ráðherrann hlýtur að hafa velt þessu fyrir sér. Ég óska eftir svari við því sem mundi greiða fyrir þessari umræðu, sem lýkur sennilega fljótlega, þannig að hægt sé að taka til við að ræða neytendaþáttinn í þessu máli.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Vakir það fyrir ráðherranum, við þær breytingar sem hér er verið að gera, að búa í haginn til að hægt sé að skipta um forstjóra hjá þessari stofnun? Það væri mjög gott ef hæstv. ráðherra gæti upplýst hvort það vaki fyrir henni að skipta um forstjóra og það sé verið að búa í haginn fyrir það með þeim breytingum sem hér eru lagðar til.

Hér segir um 44. gr. þessa frumvarps:

„Því er lagt til að lögin öðlist gildi á þeim degi“ — þ.e. 1. júlí 2005 — „og jafnframt að starfsemi Samkeppnisstofnunar verði lögð niður.“

Þá spyr ég: Getum við átt von á að það ákvæði sé til að búa í haginn fyrir að skipta um forstjóra? Það væri mjög gott ef ég fengi skýr svör við því.

Hér segir í ákvæði til bráðabirgða:

„Öllum starfsmönnum Samkeppnisstofnunar verða boðin störf hjá þeim stofnunum sem verkefni stofnunarinnar færast til, þ.e. annaðhvort hjá Samkeppniseftirlitinu eða Neytendastofu.“

Þarna stendur „boðin störf“, þarna stendur ekki „boðin sambærileg störf“. Það stendur „boðin störf“ og þess vegna svarar ákvæðið ekki spurningunni um hvort í myndinni sé að skipta um forstjóra eða ekki. Það er verið að tala um að öllum starfsmönnum verði boðin störf en ekki sambærileg störf. Þess vegna kallar þetta fram þessa spurningu.

Ég held að það sé mikilvægt að fá svör við þessum spurningum, virðulegi forseti, og læt máli mínu lokið í von um að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hana.