Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 19:04:49 (6159)


131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[19:04]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög erfitt að verða vitni að því að þegar ræða á rót vandans fara framsóknarmenn alltaf í þau spor að rótera peningum fram og aftur og búa til einhverja sjóði, t.d. jöfnunarsjóð sem tveir menn skilja. Ég hefði talið miklu vænlegra fyrir Framsóknarflokkinn ef hann áttaði sig á því að laga þarf atvinnumálin á landsbyggðinni en ekki að stækka sjóði. Það er löngu orðið tímabært að núverandi ríkisstjórn fari að átta sig á því.

Auðvitað þarf að minnka hlut hins opinbera en það er ekki þar með sagt að skiptingin á milli ríkis og sveitarfélaga — ég og við í Frjálslynda flokknum teljum miklu eðlilegra að sú kaka sem verður hjá sveitarfélögunum verði mun stærri. Ég vona að hæstv. félagsmálaráðherra sé okkur sammála hvað það varðar.