131. löggjafarþing — 118. fundur,  27. apr. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[00:06]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér láðist að geta þess áðan að ég hef rætt við ýmsa sérfræðinga í Náttúrufræðistofnun um þær breytingartillögur sem ég flutti og frumvarpið sem við ræðum hér um. Þar sem það eru einkasamtöl get ég ekki vísað til neinna einstakra þeirra en ég get fullvissað hv. þingmann um að á Náttúrufræðistofnun fyrirfinnast þeir sérfræðingar sem eru sammála mér um að nauðsynlegt sé að friða ákveðin lindarsvæði og eru sammála mér um að ótrúlegt sé hversu hart er gengið er fram af ýmsum við veiðar á villtum fuglum.

Menn hafa þar ýmsir miklar og þungar og ríkar áhyggjur af því hvernig fuglaveiðar hér á landi hafa verið auglýstar. á netinu, bæði erlendis og hér á landi. Þar er enginn munur gerður á tegundum. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, var þar flaggað með straumandarsteggi. Ég hygg að okkur þyki flestum nokkuð mikið um þegar veiðimaðurinn hefur, eins og ég sagði áðan, meira en 20 dauða rauðhöfða í kringum sig og meira en 20 grænhöfða.

Þetta eru ekki veiðar sem Íslendingar stunduðu með slíkri grimmd áður. Skipulagning þessara veiða og sá mikli þrýstingur og þær miklu auglýsingar sem hafðar eru í frammi til þess að fá menn á þær veiðarnar eru með ólíkindum.

Við vitum að þeir sem hafa byssuleyfi erlendis hafa leyfi til að koma til Íslands og skjóta fugla. Þeir þurfa að vísu að hafa með sér leiðsögumann en við vitum líka að það hefur sést til þeirra. Við vitum að stóra-toppönd, húsönd og aðrir slíkir fuglar hafa legið særðir eftir þegar farið hefur verið yfir svæði af slíkum mönnum.