Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 14:43:41 (8339)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:43]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri fróðlegt að frétta af því, kannski kemur fram í síðari ræðu hv. þingmanns, hvort hann hafi reynt að beita sér fyrir því að þetta ákvæði væri gert skýrara þannig að hægt væri að framfylgja því eða hvort hann hafi raunverulega haft þá afstöðu að þetta ætti ekki heima í lögunum og ætti að taka það út eins og stendur til að gera. Ég er sammála hv. þingmanni að auðvitað þurfa lagafyrirmæli að vera skýr og það þarf að vera hægt að fara eftir þeim. Kannski er ástæðan sú sem hv. þingmaður nefndi að þau hafi ekki verið nógu skýr, en margir hafa sett það fram í ræðum um þetta efni að það að þetta hefur staðið í lögum hafi haft aðhaldsáhrif á markaðinn. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það en mér finnst full ástæða til að líta líka þannig til lagaákvæða og ég býst við að margir geri það, bæði í persónulegum framgangi og rekstri fyrirtækja, að hafa í huga hvaða lög eru í gildi og brjóta þannig ekki gegn þeim. (Gripið fram í.) Þeim lögum sem eru í gildi.

Hæstv. forseti. Síðan varðandi ásakanir um lögbrot. Þær koma oft til umræðu á hv. Alþingi. Ég hef ekki orðið var við að hv. þingmaður brygðist við með þeim hætti eins og hann gerði núna. Menn hafa rætt hér tímunum saman um brottkast á fiski, umgengni við auðlindir sjávar sem væri brot á þeim lögum sem væru í gildi. Hitt og þetta kemur til umræðu á hv. Alþingi, t.d. var verið að tala um útgerðarmenn. Hér var talað um tryggingafélögin. Ekki var nefnt sérstakt tryggingafélag eða neitt slíkt. Ég tel að við höfum fullan rétt og reyndar þá skyldu að ræða um málin eftir þekkingu okkar og ef við höfum reynslu af einhverju að koma því þá til skila hér. Ég tek það ekki til baka (Forseti hringir.) að samráð hafi verið um verðlag á tryggingum og uppskiptingu markaðar á vegum tryggingafélaga.