Skipun nýs hæstaréttardómara

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 15:39:52 (283)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[15:39]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í fullkomnum heimi þyrfti engar reglur eða eftirlit vegna ákvarðana stjórnvalda. Þar þyrfti heldur engar sérstakar reglur vegna jafnréttis kynjanna. Í slíkum heimi værum við laus við ótta við að stjórnvöld byggðu ákvarðanir sínar á flokkshagsmunum og geðþótta eða að langvarandi valdaseta byrgði mönnum sýn um tilgang sinn og hlutverk. Þar dytti engum í hug að stjórnvöld hefðu sömu sýn á valdið og ríkið og Frakkakonungur forðum sem sagði: „Ríkið, það er ég.“ Nei, það væri margt öðruvísi í slíkum heimi en er hjá okkur. En við búum ekki í fullkomnum heimi. Löggjafinn hefur með setningu ýmissa laga reynt að koma í veg fyrir að misvitrir stjórnmálamenn valdi tjóni með geðþóttaákvörðunum.

Þessar staðreyndir koma upp í hugann þegar rætt er um þá ákvörðun Geirs H. Haardes, setts dómsmálaráðherra, að skipa Jón Steinar Gunnlaugsson í embætti hæstaréttardómara. Hæstv. ráðherra hefur í litlu reynt að rökstyðja ákvörðun sína. Hann hefur skýrt hana svo að hann hafi ákveðið eftir umhugsun að leggja megináherslu við skipun dómara í Hæstarétt á lögmannsþekkingu umsækjanda. Reyndar kynnti ráðherrann þessar áherslur sínar ekki fyrr en umsóknarfrestur um starfið var liðinn og eftir að Hæstiréttur hafði gefið umsögn sína um hæfni umsækjenda. Umboðsmaður Alþingis hefur sagt að það samrýmist ekki vönduðum stjórnsýsluháttum að upplýsingar um að sóst sé eftir ákveðinni sérfræðiþekkingu við skipun í starf kom ekki fram í auglýsingu um starfið. Ef það hefði legið fyrir áður en umsagnarfrestur rann út hefðu þeir sem töldu sig búa yfir slíkri þekkingu getað sótt um embættið. Með því hefði stjórnvaldið sinnt þeirri skyldu sinni að leitast við að velja þá hæfustu einstaklinga sem kostur er á til opinberra starfa. Þetta var ekki gert.

Hæstv. ráðherra hefur verið gagnrýndur fyrir að fara gegn umsögn Hæstaréttar. Ráðherra hefur haldið því fram að lögbundin umsögn Hæstaréttar þrengi ekki möguleika hans á að skipa hvern þann sem telst hæfur. Þessu er umboðsmaður Alþingis ósammála. Í áliti af sams konar tilefni sagði hann m.a., með leyfi forseta:

„... þær breytingar sem gerðar voru á skipan þessara mála með lögum nr. 15/1998, um dómstóla, hafi leitt til þess að umsögn Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjenda hafi“ — með lagabreytingunni — „fengið aukið vægi og það hafi verið liður í að styrkja sjálfstætt og óháð dómsvald í landinu.“

„Það verður að ætla, eins og áður sagði, að það hafi verið liður í að efla sjálfstæði dómstólanna, að fela Hæstarétti ... aukið verkefni við að veita umsögn um þá sem sækja um embætti hæstaréttardómara.“

Undir þetta sjónarmið hafa virtir lögspekingar tekið, t.d. fyrrum prófessor í lögum við Háskóla Íslands, Sigurður Líndal. Hann orðaði þetta svo í viðtali við Ríkisútvarpið að auðvitað finnist manni eðlilegt að dómsmálaráðherra virði álit Hæstaréttar ef hann á annað borð virðir sjálfstæði dómstólsins. Og Sigurður Líndal sagði, með leyfi forseta: „Og við skulum athuga það, að dómsvaldið á að vera sjálfstætt og ef framkvæmdarvaldshafi gengur yfir álit Hæstaréttar þá er hann raunverulega að ganga á rétt dómsvaldsins.“

Ekki þarf að fara mörgum orðum um álit kærunefndar jafnréttismála sem komst að þeirri niðurstöðu í sams konar máli í vor og hér er til umfjöllunar, að sú skipan hafi gengið gegn ákvæðum jafnréttislaga. Engin ástæða er til að ætla annað en að sama niðurstaða yrði nú ef málið kemur fyrir nefndina, a.m.k. ekki meðan röksemdafærsla ráðherra liggur ekki fyrir. Óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins sem gilda um veitingu opinberra starfa hafa annars vegar að markmiði að tryggja jafnræði þeirra sem kunna að vilja sækja um slík störf og hins vegar að hæfasti umsækjandinn verði valinn. Ákvörðun ráðherra að fara gegn mati réttarins á hæfni umsækjenda og leggja áherslu á einn þátt lögfræðiþekkingarinnar umfram annan án þess að það hafi legið fyrir þegar starfið var auglýst bendir til þess að sú ákvörðun ráðherra hafi verið byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum. Þegar um jafnstóra ákvörðun er að ræða og að skipa dómara við æðsta dómstól landsins hvílir sú almenna lagaskylda á dómsmálaráðherra að leggja til við forseta Íslands að sá umsækjandi sem telja varð hæfastan til að gegna embætti hæstaréttardómara yrði skipaður í það.

Í mínum huga hefur ráðherra með ákvörðunum sínum vegið að sjálfstæðu dómsvaldi í landinu. Hann hefur farið gegn grundvallarreglum stjórnsýslunnar auk þess sem hæstv. ráðherra fór gegn eina skilyrðinu sem tilgreint var sérstaklega í auglýsingu um starfið, þ.e. að jafnrétti kynjanna yrði leiðarljós við skipunina.

Virðulegi forseti. Að öllu þessu samanteknu virðist mér vera nokkuð ljóst að ákvörðun hæstv. ráðherra sé fyrst og fremst byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum og sú staðreynd gerir það að verkum að umrædd ákvörðun ráðherra er lítið annað en geðþóttaákvörðun.