Skipun nýs hæstaréttardómara

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 16:00:09 (290)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[16:00]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir að hefja þessa umræðu um skipan í embætti hæstaréttardómara. Umræða um þetta efni hefur verið mikil að undanförnu og hefur fléttast inn í hana skipan í önnur lykilembætti í þjóðfélaginu. Á undanförnum missirum hafa ráðherrar ítrekað verið sakaðir um að misbeita pólitísku valdi sínu við stöðuveitingar. Því hafa þeir fyrir sitt leyti vísað harðlega á bug. Höfum við enn eitt dæmið um slíkt.

Þótt sjálfsagt sé að ræða einstakar stöðuveitingar, enda eru ráðherrar ábyrgir gagnvart Alþingi, tel ég brýnt að þessi umræða einskorðist ekki við einhverjar tilteknar stöðuveitingar heldur verði horft til framtíðar og leitað leiða til að skapa meiri sátt um stöðuveitingar, sérstaklega í embætti hæstaréttardómara. Þetta er mjög brýnt.

Á einum þætti vil ég einkum vekja athygli, þeirri togstreitu sem mér virðist fara vaxandi á milli löggjafans annars vegar og dómstóla annars vegar. Þessi togstreita er í sjálfu sér ekki óeðlileg. Ég hef mínar skoðanir á henni en ætla ekki að tíunda þær hér. Dómstólar skipta sífellt meira máli fyrir framvinduna í þjóðfélaginu, hvernig þeir túlka reglur og lög. Þetta er ekki einskorðað við Ísland, heldur getum við einnig horft til Evrópu í þessu sambandi.

Þetta þýðir að hlutverk dómstólanna er að verða stöðugt pólitískara í víðum skilningi þess hugtaks. Það þýðir svo aftur að mikilvægt er fyrir okkur að finna leiðir til að hafa skýrari línur á milli framkvæmdarvaldsins, löggjafans og dómstólanna. Það gerum við ekki með því að hafa skipunarvaldið á hendi eins manns, pólitísks ráðherra. Það er brýnt að við finnum nýjar leiðir út úr því öngstræti sem við erum í nú um stundir.