Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 18:01:22 (321)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[18:01]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég vil sem fyrri flutningsmaður þessa máls þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið um málið og þátttöku fulltrúa allra stjórnmálaflokka í henni.

Ég vil fyrst segja í sambandi við það sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi með nefndarvísun að mér þótti rétt að leggja það til að málið færi til efnahags- og viðskiptanefndar í ljósi þess að forræði fyrir eignarhaldi á Símanum er nú hjá fjármálaráðherra og þau lög sem þetta frumvarp er til breytinga á eiga þá í rauninni þar heima. En ég tók það einmitt sérstaklega fram að ég óskaði eftir því að efnahags- og viðskiptanefnd mundi senda málið til umsagnar hjá samgöngunefnd og það finnst mér að sama skapi sjálfsagt.

Ég tel að ég hafi ekki miklu við orðaskipti þeirra hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar og Guðmundar Hallvarðssonar að bæta hvað varðar samlíkingar sem sá síðarnefndi tók og mér finnast kannski ekki eiga beint erindi inn í þetta, um Viðtækjaverslun ríkisins eða Bifreiðaskoðun ríkisins, sem voru börn síns tíma og þeirra aðstæðna sem voru uppi þegar þessi fyrirbæri urðu til á skömmtunar- og krepputímum og síðan var því fyrirkomulagi viðhaldið. Það er nú gaman að því þegar sjálfstæðismenn eru að hneykslast á þessum gömlu, liðnu tímum og það liggur svona í orðunum án þess að það sé sagt berum orðum að það hafi verið einhverjir skammsýnir og vondir menn sem hafi komið þessu kerfi á og viðhaldið því. En staðreyndin er sú að lengst af þess tíma sem einokunar- og skömmtunarfyrirkomulagið var við lýði á Íslandi var Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn. Síðan breyttust tímarnir og menn hafa breytt því fyrirkomulagi og mörgu öðru sem eðlilegt er.

Mér finnst í raun ósambærilegu saman að jafna undirstöðuþjónustu af því tagi sem fjarskipti eru, ekki síst í nútímanum, og vegna þess að þau lúta að svo miklu leyti, a.m.k. enn um sinn, lögmálum náttúrulegrar einokunar vegna þess að undirstöðunetið, grunnnetið sem við tölum hér oft um, er til staðar og verður kjölfestan í þeim flutningum enn um árabil. Um það eru flestir tæknilegir sérfræðingar sammála. Það eru að vísu að koma möguleikar, þráðlaus sambönd og ýmislegt sem getur á afmörkuðum sviðum og í vissum mæli keppt við sjálft grunnnetið en það er meginæðarnar sem þetta blóð streymir um og mun verða svo um alllangan tíma. Þetta þykist ég geta fullyrt af því að ég hef kannað þessi mál dálítið og setið í tveimur starfshópum á vegum Norðurlandaráðs sem hafa einmitt verið að reyna að kortleggja þessa þróun. Þar hafa iðulega komið upp spurningar af þessu tagi: Eru áhyggjur manna af grunnnetinu, ljósleiðurum og koparþráðunum ekki óþarfar? Eru ekki bara handan við hornið hérna gervihnattasambönd og þráðlaus sambönd sem leysa þetta af hólmi? Svar sérfræðinganna er nei. Þetta kemur svona til viðbótar og til hliðar og á afmörkuðum sviðum en leysir ekki í fyrirsjáanlegri framtíð af hólmi sjálfa þjóðvegina, meginæðarnar sem gagnaflutningarnir fara um, sem eru hin afkastamiklu kerfi ljósleiðara, örbylgjusambanda og kopar- eða fíberglaslagna inn í hús. Þetta t.d. staðfestu helstu sérfræðingar Ericsson og Nokia við þann starfshóp sem ég tók í seinna tilvikinu þátt í á vegum Norðurlandaráðs og ég hef ekki hitt aðra færari sérfræðinga til að ráðgast um þetta við. Þess vegna er það mat mitt og niðurstaða að enn um nokkuð langt árabil verði fyrirtæki eins og Síminn í algerri lykilstöðu og við verðum að horfast í augu við það og taka á málinu í samræmi við það.

Það er svo með hið ágæta fyrirtæki Símann, Landssíma Íslands hf., áður Póst og síma, að mjög margt gott er um það fyrirtæki að segja. Ég gæti þess jafnan að halda því til haga að þar var vel að verki staðið og við Íslendingar eigum því mikið að þakka hversu myndarlega og vel var staðið að uppbyggingu og rekstri á vegum þess fyrirtækis í gegnum tíðina. Það var ekki lélegur árangur sem við getum sagt t.d. að hafi blasað við okkur um 1990 eða á tíunda áratug síðustu aldar að við vorum nánast í fremstu röð á öllum sviðum fjarskipta hvað varðaði þjónustu og innleiðingu nýrrar tækni og við bjuggum við einhver hagstæðustu verð sem í boði voru a.m.k. í Evrópu, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur réttilega bent á.

En mér hefur fundist á köflum á síðustu árum að stjórnendur fyrirtækisins væru að verða of uppteknir af því að þeir væru orðnir hlutafélag og þetta væri að færast meira yfir í það að vera spurning um rekstur sem skilaði arði, að vísu enn þá til ríkisins sem eiganda, en áherslurnar á hinar samfélagslegu skyldur og ábyrgð á að um væri að ræða almenningsþjónustufyrirtæki væru víkjandi. Þetta hef ég gagnrýnt Símann fyrir og ég tel mig hafa nokkuð til míns máls í því.

Ég skil viðhorf hinna nýju stjórnenda sem telja að þeir eigi að horfa fyrst og fremst til þess að þarna sé búið að búa til hlutafélag sem sé á leiðinni inn á markaðinn og eigi að einkavæða og þeir eigi að fara að færa rekstur þess yfir í það horf. En það er spurning um pólitík, það er spurning um hvernig menn nálgast hlutina og hvernig menn skilgreina þá.

Tökum þar sem dæmi spurninguna um hvað mikið Síminn leggur á sig til þess að breiða út möguleikana á háhraðatengingum hvað varðar gagnaflutninga. Þar hafa menn búið sér til ákveðnar viðmiðanir, það er rétt, þær eru býsna metnaðarfullar, 90% hafi aðgang að slíkum tengingum í dag. En hv. þm. Birkir Jón Jónsson spurði: Er það nóg? Hvað með hin tíu prósentin?

Síðan koma einkafyrirtæki og þau finna lausnir eins og þráðlaus sambönd í þorpum, sem Síminn hefur talið of lítil til að koma upp ADSL-þjónustu. En þá spyr ég á móti: Gat ekki Síminn gert þetta? Hefði það ekki alveg eins legið við að Síminn notaði aðstöðu sína og tækni og færi þá út í svona lausnir? Það tel ég að væri vel hugsanlegt. Eða að Síminn væri opnari fyrir því að eiga samstarf við einkaaðila um slíkar lausnir? Síminn er áfram í lykilstöðu vegna þess að þó svo að framsækin fyrirtæki eins og fyrirtækið Skerpa á Vestfjörðum, sem allt í einu fer að leysa þessi vandamál Vestfirðinga í þorpum sem hafa verið of lítil fyrir Símann til að hann teldi það svara kostnaði að bjóða þar úrlausn, leysa það á mjög praktískan hátt. En fyrirtækið er áfram háð því að semja við Símann um tengingu inn á þeirra kerfi. Síminn á möstur, hann á hús á stöðunum sem væri praktískt að nota til að koma þessu upp.

Sama má segja um þær lausnir sem fyrirtækið eMax eða Þekking er að bjóða annars staðar í landinu. Ég ber mikla virðingu fyrir og dáist að þeim útsjónarsömu og kláru mönnum sem eru þarna að bjóða þessa þjónustu. En munum eftir því að hún er innan þessa ramma, að þeir verða síðan að semja við Símann um afnot af hans kerfi. Ég held að þarna hefðu menn getað verið framsæknari þó að margt sé vel um það sem menn hafa þarna sagt.

Um GSM-símann, þ.e. aðra kynslóð farsíma sem enn er ekki búið að byggja upp á Íslandi og er enn allt of götótt, þar er einfaldlega spurning um hvað ræður. Það viðhorf að tryggja öllum landsmönnum og öllum byggðum þessa þjónustu eða að horfa bara til þess hvar er notkunin nákvæmlega nógu mikil til þess að viðkomandi sendir skil í arði. Þarna er skurðpunkturinn.

Þá erum við komin að kjarna málsins. Hvort ræður áherslunum í uppbyggingunni og fjárfestingunum inn í framtíðina, spurningin um þjónustu, um jafnræði eða arð? Þetta er nákvæmlega svona. Sendir sem kostar 2–3 milljónir fyrir GSM og er hægt að smella upp jafnvel í húsnæði sem Síminn á og rekur til að hafa örbylgjusambönd í, þar sem rafmagn er til staðar, þar sem vegur liggur upp á fjallið, er ekki keyptur og settur niður af því að of fáir íbúar eru á bak við. Þó að það sé öryggissjónarmið, þarna séu fiskimið, það séu þarna fjallvegir og þarna sé ferðaþjónusta sem er að verða úr leik af því að hún hefur ekki GSM-sambönd, þá er svarið því miður þetta: Nei, það er of lítil notkun á þessu svæði til að það svari kostnaði að kaupa og setja niður sendi.

Þarna erum við komin að þessum skurðpunkti. Síðan er það það sem fram undan er. Við erum hér með í höndunum frumvarp sem auðvitað hefði verið gott að ræða í tengslum við þetta mál, frumvarp til laga um þriðju kynslóð farsíma. Út á hvað gengur það? Þar er verið að burðast við að skilgreina forsendur til þess að úthluta mönnum leyfum til að byggja upp þá starfsemi. Og hver er viðmiðunin? Að 60% íbúa á viðkomandi svæðum geti notið þjónustunnar. Nú er skaði að hafa ekki hv. þm. Birki Jón Jónsson í salnum og spyrja hann: Ef 10% eru of mikið sem standa út af, hvað þá með 40%?

En þetta verður þannig, ef það frumvarp nær fram, í höndum einkaaðila sem eiga að sjá um uppbyggingu þriðju kynslóðar farsíma, sem væntanlega verður sú sem ryður hinum fyrri úr vegi þegar þar að kemur, að þá gætu allt að 40% íbúa á viðkomandi svæðum orðið utan þjónustu en samt teldist aðilinn hafa fullnægt þjónustukröfum sínum.

Þetta er þá framtíðin sem er verið að draga upp fyrir okkur eða hvað ef enginn aðili er með aðrar skyldur og aðra stöðu en þá sem þessir einkaaðilar hafa samkvæmt skilgreiningum um að það nægi þeim að dekka tiltekið lágmarkshlutfall íbúa? Að vísu ber að taka fram að hér er ekki bara verið að tala um landið sem eitt heldur eftir svæðum og það er til bóta. En samt er það þannig, ef við tökum t.d. Norður- og Austurland eða Norðausturkjördæmið, að í grófum dráttum ná menn þeim viðmiðunum með því að bjóða upp á þjónustuna á Akureyri og kannski bæta svo Húsavík, Dalvíkurbyggð og Héraði við.

Með öðrum orðum, ef þetta verður niðurstaðan dettur allt strjálbýlið á Íslandi eins og það leggur sig niður um netið, möskvarnir eru svo gisnir. Er það eitthvað sem við getum sætt okkur við? Ég segi nei. Ég skrifa ekki upp á það. Ég mun berjast til hinstu stundar fyrir því að við viðhöldum því hugarfari í þessum efnum að ein þjóð búi í landinu og að við ætlum henni allri, eftir því sem tæknin gerir það mögulegt, að sitja við sama borð. Það er gríðarlega mikilvægt til þess að við fáum ekki hérna upp og aftan að okkur læðist sú stéttaskipting sem margir telja núna að geti orðið sú alvarlegasta á þessari nýbyrjuðu öld, þ.e. spurningin um hverjir hafa aðgang að þessum undirstöðuþáttum upplýsingasamfélagsins og hverjir ekki. Það snýst um tækni, um að búnaðurinn sé til staðar, en það snýst líka um verð. Það er líka hægt að útiloka menn á grundvelli þess að verðleggja þjónustuna svo mismunandi að þeir sem standa þar lakast að vígi séu ekki samkeppnisfærir. Það gildir sérstaklega um atvinnulífið. Það er ekki bara nóg að tæknilega séu möguleikarnir til staðar. Verðlagningunni verður að vera þannig háttað að menn standi nokkurn veginn jafnfætis í þeim efnum einnig og svo auðvitað hvað varðar í sjálfu sér þekkingu og aðgang að því að nota umrædda tækni.

Einkavæðing Símans er og hefur verið frá byrjun eitt mesta reginklúður sem hæstv. ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna hefur farið í í þeim efnum og er þá mikið sagt. Þarna er því miður á ferðinni aðferðafræðin að skjóta fyrst og spyrja svo. Menn gefa sér fyrst þá niðurstöðu að einkavæða Símann, fara svo að velta því fyrir sér hvaða afleiðingar það hefur og hvernig stoppað verði í götin. Það er einhver mesta fjallabaksleið í þessum efnum sem ég hef nokkurn tíma heyrt talað um, að selja Símann fyrst en fara svo að nota einhvern hluta af söluandvirðinu til að stoppa svona í mestu götin eins og þau eru í augnablikinu og láta síðan framtíðina í þessum efnum bara ráðast.

Sú hugmynd að undanskilja grunnnetið og reka það í sjálfstæðu fyrirtæki er vissulega freistandi og hún hefur mikla kosti en hún hefur líka galla rétt eins og fyrirkomulagið í raforkukerfinu hefur líka mikla galla. Menn eru að búa til lagskipt kerfi með eftirlitskostnaði og ýmsum slíkum þáttum. Það er miklu einfaldara að slá því á frest, helst hætta alveg við það, að selja Símann og beita honum og nota afl hans til að tryggja þetta jafnræði, halda uppbyggingunni áfram, halda okkur áfram í fremstu röð hvað varðar tækni og möguleika á þessu sviði, og það er hægt án þess að útiloka samkeppni. Þvert á móti, það greiðir götu samkeppninnar á grundvelli reikisamninganna og þess aðgangs sem öðrum aðilum er tryggður að netinu. Þá er það í allra þágu að netið dekki allt landið og farsímafyrirtæki, sem vilja keppa t.d. við Símann eða vera í samkeppni við hann um gagnaflutninga og annað slíkt, hafi aðgang að öllum landsmönnum jafnframt. Það er vænlegasta leiðin.

Ég skil ekki hvers vegna í ósköpunum menn þurfa að hverfa frá því sem í raun og veru hefur gengið ágætlega í þessum efnum. Það var minnt á þrengsli og þrönga hugmyndafræði og gamaldags viðhorf og guð má vita hvað við Vinstri grænir höfum fengið á okkur frá ýmsum, ákaflega málefnalega eða hitt þó heldur, af því að við flytjum þetta mál. Ég held hinu gagnstæða fram. Þrengslin eru hin blinda trú á nýfrjálshyggjuna að halda að markaðslausnir leysi allan vanda og líka á þessum sviðum. Geta menn ekki lært eitthvað af mestu óförum einkavæðingarinnar þar sem menn hafa lent úti í því feni að einkavæða t.d. veitur og þjónustustarfsemi sem lýtur lögmálum náttúrulegrar einokunar. Rafmagnsveitur, vatnsveitur, járnbrautir og annað því um líkt. Hvernig er útkoman á því dæmi? Hún er skelfileg og menn eru að fara til baka og leysa til sín slík mannvirki af því að það hefur gefist illa að fara þessa markaðsleið á þeim sviðum. En það þýðir ekki að menn geti ekki áfram notað það fyrirkomulag að margir sjái um að selja útvarpstæki. Þessu tvennu mega menn ekki blanda saman. Horfum bara raunsætt á hvað gagnast okkur best í þessum efnum og ég fullyrði: Þeim mun strjálbýlli og fámennari sem lönd eru, þeim mun betur hefur það gefist að líta á þetta sem almannaþjónustu og byggja hana þannig upp. Það hefur skilað jafnstrjálbýlum og fámennum löndum og Íslandi, Grænlandi og Færeyjum fyrirtaksniðurstöðum í þessum efnum og er þá einhver ástæða til að hverfa frá því? Ég held ekki.