Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað

Mánudaginn 18. október 2004, kl. 17:03:42 (577)


131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[17:03]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að segja að ég kann betur að meta tóninn í því frumvarpi sem hæstv. dómsmálaráðherra mælir fyrir nú en því síðasta sem við ræddum hér. Ég held að þarna sé verið að stíga skref sem er ekki bara eðlilegt og sjálfsagt, heldur nauðsynlegt og geti orðið mjög til bóta fyrir borgara landsins og ekki síst fyrir þá sem vinna að lögfræði eða þurfa að kynna sér þau gögn sem hér eiga í hlut. Ég tel því að frumvarpið sé af hinu góða og mjög æskilegt.

Mér sýnist líka að til undirbúnings hafi verið vandað og menn velt fyrir sér hugsanlegum álitaefnum sem upp kynnu að koma því auðvitað er birting laga og stjórnvaldserinda vandmeðfarin og þarf að gæta þess að horft sé til allra þeirra sjónarmiða sem þarf að taka tillit til og virðist það allt saman hafa verið skoðað ofan í kjölinn í þessari vinnu.

Ég held að flestir sem vinna að lögfræði séu sammála um að það hafi orðið algjör bylting í þessum efnum þegar fólk fór að fá aðgang eða möguleika á því að ná sér í rafræn gögn, hvort sem um er að ræða lög eða dóma Hæstaréttar, úrskurði umboðsmanns o.s.frv. Auðvitað er það orðið miklu aðgengilegra og auðveldara, bæði fyrir lögfræðinga sem þurfa að fjalla um einstök mál og borgarana að nálgast þessi gögn. Það hlýtur að vera tilgangurinn með birtingu slíkra gagna að þau séu aðgengileg. Ég álít að með því að fá þau yfir á rafrænt form séu miklu meiri líkur á að aðgangur sé góður og greiður en þegar svo var ekki.

Ég vil sérstaklega nefna að auk þess að það er ánægjulegt að lagt sé til að heimilað verði gefa Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað eingöngu út á rafrænu formi að ákveðnum skilyrðum fullnægðum, þá er líka fjallað um birtingu á EES-reglum og öðrum þjóðréttarreglum sem leiða þarf í landsrétt, að það verði gert skilvirkara en nú er. Ég held að þar sé mikið verk að vinna og þurfi að laga verulega það ástand sem nú er. Í sjálfu sér sé ég ekki hætturnar í því að heimilað verði að birta þjóðréttarreglur á erlendu máli að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ég held að það hljóti að vera betra að hafa slíkar reglur a.m.k. aðgengilegar á erlendu máli en að hafa þær jafnóaðgengilegar og þær eru í dag. Ég vil t.d. nefna af því að ég hef reynslu af því sjálf nýverið að leita að ákveðnum gögnum frá Evrópuráðinu að það er ekki fyrir hvern sem er að fara inn á heimasíðu Evrópuráðsins og finna þar einhverjar tilteknar samþykktir, jafnvel þó að maður sé vanur að leita að slíkum gögnum á netinu. Það er mikill frumskógur og að mörgu leyti mjög óaðgengilegt a.m.k. fyrir þá sem ekki eru vanir að gera slíka hluti.

Ég held því að það sé af hinu góða að heimildir stjórnvalda hér á landi til þess að koma þessum upplýsingum á framfæri við almenning séu auknar. Jafnvel þótt það kosti í einhverjum tilvikum að gera þurfi það á erlendri tungu er það þó skárra en að fólk sé tiltölulega ómeðvitað um reglurnar í mörgum tilvikum.

Ég vil líka velta því upp í þessu samhengi, þó að það sé ekki að því er mér skilst á málasviði hæstv. dómsmálaráðherra, hvaða reglur séu viðhafðar um hvaða samningar eða sáttmálar eða skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur, íslenska ríkið, eru þýddar. Mér finnst í raun og veru alveg með eindæmum hve lítið af þeim samþykktum sem koma frá Evrópuráðinu eru þýddar á íslenska tungu. Ég veit ekki hvaða vinnureglur gilda hjá þýðingardeild utanríkisráðuneytisins í þeim efnum, en mér finnst að þarna þurfi að gera einhverja bragarbót á, það þurfi í miklu ríkari mæli að þýða þessar reglur þó að það þurfi að sjálfsögðu að vera einhverjar hömlur á því en að helstu samþykktir t.d. Evrópuráðsins, sem Ísland hefur tekist á hendur að fullgilda eða við höfum samþykkt með þátttöku okkar í Evrópuráðinu, séu þýddar á íslenska tungu. Mér finnst allt of mikið um að svo sé ekki.

Ég þekki ekki nákvæmlega vinnulagið þarna en ég hef rekið mig á að það er ansi mikið af slíkum samþykktum sem mundu jafnvel teljast til grundvallarsamþykkta sem ekki hafa verið þýddar, og ég tel að það sé miður. Þó að ég beini því kannski ekki til dómsmálaráðherra, ég held að það eigi heima hjá hæstv. utanríkisráðherra, vildi ég draga það fram í umræðunni hér.