Húsnæðismál

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 11:39:43 (988)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[11:39]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því síðasta sem fram kom í máli hv. þm. varðandi veðmörkin og að auka eigi heimildir til þess að veita veðleyfi til þess að skuldbreyta öðrum lánum. Það væri ágætt að fá það fram í umræðunni á eftir hvort hæstv. ráðherra hafi eitthvað skoðað það mál nánar, sem ég tel mjög mikilvægt að verði gengið í.

Ég lýsi vonbrigðum mínum með það sem hv. þm. nefnir varðandi forgang í skattalækkunum. Að lækka stimpilgjöldin mundi gagnast öllum íbúðarkaupendum. Ef þau yrðu felld niður mundi það spara venjulegum íbúðarkaupanda um 200–300 þús. kr. Það mundi gagnast atvinnulífinu, ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum, og það mundi gagnast t.d. landsbyggðinni sem hv. þm. ber fyrir brjósti mjög vel.

En hv. þm. vill frekar lækka tekjuskattinn með þeim hætti sem ríkisstjórnin stefnir að sem skilar sér í vasa þeirra sem mest hafa fyrir. Það hefur verið sýnt fram á það með margvíslegum hætti og ég lýsi vonbrigðum mínum með þá forgangsröðun sem hv. þm. setur fram um þennan þátt málsins.

Varðandi hámarksfjárhæðina þá var svar hv. þm. nokkuð óljóst og loðið um að það ætti að hækka hana, passa yrði upp á að ganga ekki of langt í því efni þar sem þetta væri ríkisstofnun, væntanlega til þess að bankarnir hefðu meira svigrúm. En það er alveg ljóst, af því að hv. þm. nefndi landsbyggðina í þessu sambandi og mikilvægi hlutverks Íbúðalánasjóðs fyrir landsbyggðina, að ef ekki verður gengið lengra í þessu efni, að hækka hámarksfjárhæðina, getur það gengið að Íbúðalánasjóði dauðum vegna þess að það er auðvitað það sem bankarnir vilja. Hlutverk Íbúðalánasjóðs er það mikilvægt á húsnæðismarkaðnum að við verðum að standa dyggan vörð um að hann geti með eðlilegum hætti gegnt hlutverki sínu. Liður í því er að ganga nú þegar lengra í að hækka hámarksfjárhæðina en hæstv. ráðherra áformar.