Húsnæðismál

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 12:24:07 (996)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:24]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þingmaður mjög hugrakkur áðan þegar hann var að berja sér á brjóst út af barnabótunum. Þar er hv. þingmaður kominn út á hálan ís. Veit hv. þingmaður ekki að frá 1995–2004 eru barnabætur samtals 10 milljörðum lægri en þær hefðu verið ef árleg útgjöld hefðu verið hin sömu og árið 1995 allt tímabilið? (Gripið fram í.) Á hverju ári hafa þær lækkað um 1 milljarð. Hv. þingmaður þyrfti að standa að því að hækka barnabæturnar um 1 milljarð á næsta ári til þess að raungildið sé það sama og árið 1995. Ótekjutengdar barnabætur, svo að ég rifji það upp fyrir hv. þingmann, voru 56% af heildarfjárhæðinni en eru komnar niður í 19% nú. Hv. þingmaður skyldi því vara sig á að ræða mikið um barnabætur.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi að hér sé um að ræða eitt af stærri kosningaloforðum síðari ára þá verður hann að taka með í reikninginn að þetta breytir litlu núna nema hámarksfjárhæðin fylgi þeirri þróun sem er á markaðnum. Annars skiptir þetta afskaplega litlu fyrir íbúðakaupendur.

Ef við erum að tala um 11,5 millj. og svo 13 millj. um áramótin þá er í mesta lagi hægt að fá svona sæmilega þriggja herbergja íbúð fyrir þá fjárhæð. Fjárhæðin þyrfti að fara strax í 16 millj. til þess að vera samkeppnishæf við það sem er að gerast á markaðnum þannig að hægt væri að kaupa 18 millj. kr. íbúð sem væri þá sæmileg fjögurra herbergja íbúð. Annars skilar þetta litlu fyrir fólk.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því að við þurfum að fara hærra varðandi hámarksfjárhæðina þegar í stað ef Íbúðalánasjóður á að vera samkeppnishæfur við bankana og ef þetta á að skila einhverju fyrir íbúðarkaupendur. Ég held að við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd og við skulum reyna að sammælast um að það verði niðurstaðan. Við förum strax í 16 millj. kr. heildarfjárhæð á 90% lánum.