Húsnæðismál

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 12:30:42 (999)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:30]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom svo sem ekki margt nýtt fram í andsvari hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Mér gefst því færi á að bregðast frekar við fyrra andsvari hennar. Hv. þm. gerði athugasemdir við samanburð minn á barnabótum og vaxtabótum og þeim lækkunum á greiðslum heimilanna af húsnæðislánum sem þessi kerfisbreyting vissulega hefur valdið.

Hv. þm. kemur með samanburð um að ríkisstjórnarflokkarnir skuldi barnafólki í landinu marga milljarða frá árinu 1995. Ég hef oft kallað eftir því úr ræðustól hvaða forsendur liggja að baki slíkum útreikningum. Ég hef aldrei fengið það uppgefið. (JóhS: Ég sendi hv. þm. það, þær liggja fyrir.) Ég þakka fyrir það ef ég fæ upplýsingar (JóhS: Það eru upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu.) um það. Það hefði verið gott að heyra hv. þm. fagna því að ríkisstjórnarflokkarnir ætli sér að hækka barnabætur um allt að 3 milljarða kr. á kjörtímabilinu, (JóhS: Eftir að hafa tekið af því 9 milljarða.) 3 milljarða sem munu koma tekjulágu barnafólki í landinu mest til góða.

En fyrir hverju er hv. þm. að berjast hvað mest? Fyrir hverju er Samfylkingin að berjast í skattamálum? Jú, það á að lækka skattprósentuna. Það á að afnema stimpilgjaldið. Það á að lækka virðisaukaskatt, jafnvel afnema hann. Það á að hækka skattleysismörk. Ég hef ekki heyrt í neinu máli, sem mælt hefur verið fyrir á Alþingi, að Samfylkingin sé á móti skattalækkunum í viðkomandi málaflokkum. Nei. Samfylkingin lofar öllum skattalækkunum. Ef við mundum leggja þetta saman þá hlyti það að nema tugum milljarða kr. Mér finnst hart til þess að vita hvernig hv. þingmenn tala um barnabótakerfið sem kemur láglaunafólki og barnafólki hvað mest til góða á meðan þeir einbeita sér að því að tala um að við eigum að lækka alla skatta í þjóðfélaginu og tala með óábyrgum hætti í þeim efnum.