Húsnæðismál

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 12:33:00 (1000)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:33]

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég brosti út í annað þegar hv. þm. Birkir J. Jónsson sagði í upphafi ræðu sinnar að hér væri verið að uppfylla eitt stærsta kosningamál síðari ára. Mér varð þá strax hugsað til barnakorta Framsóknarflokksins, sem enn hafa ekki orðið að veruleika og voru barmmerki þeirra í kosningabaráttunni fram að því að 90% lánin komu til umræðu.

En varðandi yfirlýsinguna um að verið væri að uppfylla eitt stærsta kosningamál síðari ára þá vil ég koma inn á úr hvaða jarðvegi þetta kosningamál er sprottið og umræðan um það. Hækkun á lánshlutfalli og lækkun á vöxtum hefur sprottið af mikilli stöðnun í húsnæðislánakerfinu og það var þrýstingur frá neytendunum sjálfum, neytendum þessara lána, sem bjuggu við háa vexti, verðbætur ofan á vextina, lágt lánshlutfall af íbúðunum og það að íbúðir höfðu farið það ört hækkandi að fólk átti erfitt með að leggja fram útborgun á móti láni Íbúðalánasjóðs. Við skulum halda því til haga að staðan var ekki beysin. Þess vegna fagna ég því frumvarpi sem hér er fram komið. Ég tel að með því séu stigin mörg framfaraspor.

Eins og ég sagði hafa orðið miklar breytingar á húsnæðislánamarkaði. Ég nefni sem dæmi að tveggja herbergja íbúð hefur frá árinu 1997 hækkað um hátt í 100% til dagsins í dag. Íbúðir hafa hækkað það mikið í verði að grípa þarf til róttækra aðgerða eins og gert er í þessu frumvarpi að mörgu leyti.

Ég vil einnig fjalla aðeins um innkomu bankanna. Ég tel að innkoma bankanna á þennan markað hafi ýtt við Íbúðalánasjóði, ýtt við ríkiströllinu og því að þetta frumvarp sé fram komið núna, fyrr heldur en ég bjóst við. Ég verð að viðurkenna það. Ég tel innkomu bankanna á þennan markað mjög góða. Samkeppnin um neytendur er af hinu góða. Neytendur eru mjög mismunandi, með mismunandi efnahag og með mismunandi þarfir.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi áðan eða talaði eins og við þyrftum að verja Íbúðalánasjóð sérstaklega. Ég tel okkur ekki vera í þeirri stöðu. Ég sé Íbúðalánasjóð ekki sem Tuma þumal í samkeppni við bankana um húsnæðislánin. Ég tel að sjóðurinn standi ágætlega og maður hefur heyrt það þaðan. Ég tel að hann hafi líka mikilvægan tilgang. En þegar samkeppnin um hin almennu húsnæðislán er orðin svo mikil sem raun ber vitni þá eigum við auðvitað að spyrja okkur um tilganginn. Við eigum líka að kafa vel í hver markmið Íbúðalánasjóðs eiga að vera umfram almennar lánveitingar. Í þessu sambandi vil ég aðallega nefna þrennt sem ég tel að eigi að vera markmið Íbúðalánasjóðs umfram almennar lánveitingar. Hér hefur verið nefndur jafn aðgangur allra landsmanna að lánum, góðum húsnæðislánum sem bankarnir veita ekki en Íbúðalánasjóður vissulega gerir. Í öðru lagi má benda á aðgengi félagasamtaka og sveitarfélaga að lánsfé til uppbyggingar leiguíbúða. Í þriðja lagi, og ekki síst, ber sjóðnum að veita ákveðna aðstoð til hinna efnaminni til húsnæðiskaupa.

Ég vil velta því aðeins upp hvort við náum þessum markmiðum með frumvarpinu. Varðandi fyrsta markmiðið, þ.e. jafnan aðgang allra landsmanna að sæmilegum lánum til húsnæðiskaupa, þá tel ég að frumvarpið nái því. Bankarnir miða ekki inn á landsbyggðina heldur sækja þeir á höfuðborgarsvæðið og má eiginlega segja að þeir miði á millitekjur og hærri tekjur á höfuðborgarsvæðinu, að það sé markhópur þeirra.

Varðandi betra aðgengi félaga og samtaka að lánsfé til uppbyggingar á leiguíbúðum þá tel ég þetta frumvarp ekki ná því markmiði. Lengi vel var samkomulag um að hreyfa ekki við vöxtum á þeim lánum, að mig minnir til ársins 1998, þegar þeir vextir voru 1%. En þegar félagslega íbúðalánakerfið var lagt niður hækkuðu þeir vextir upp í 4,9%. Afleiðingarnar höfum við séð í því að uppbyggingin á leiguíbúðum, t.d. á vegum stúdentafélaganna, hefur snarminnkað. Hún hefur líka minnkað á vegum sveitarfélaga og verðið hefur hækkað. Það er alvarlegast.

Hina litlu uppbyggingu sjáum við auðvitað af biðlistunum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór ágætlega yfir áðan. Það eru biðlistar eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík og biðlistar eftir stúdentaíbúðum, svo að tvö dæmi séu tekin. En það sem er alvarlegast er hækkunin á verðinu. Hún er bein afleiðing hækkunar á vöxtum Íbúðalánasjóðs til félaga sem byggja upp leiguíbúðir.

Hv. þm. Birkir J. Jónsson kom inn á að einstaka sveitarfélög hefðu staðið sig illa í uppbyggingu á félagslegu húsnæði og þar tel ég að sami vandi sé á ferðinni. Við vitum öll, eftir umræðuna undanfarna daga, hvernig sveitarfélögin standa fjárhagslega. Þegar þau hafa ekki aðgang að betri lánum en þetta þá er augljóst að þau sem hafa minna umleikis sækja síður um lánin.

Varðandi uppbyggingu á leiguíbúðum þá tel ég að við verðum — mér finnst allt of lítið um það rætt í tengslum við húsnæðismálin á Íslandi — að sjá til að hér verði til eitthvað sem heiti raunverulegur valkostur í húsnæðismálum, þ.e. að það verði raunverulegur valkostur að leigja. Það á t.d. við um ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og vill síður binda sig, sér fyrir sér að fara í nám síðar meir o.s.frv. Í dag býr það við gríðarlegt óöryggi á leigumarkaði, óöryggi varðandi tímalengd leigusamninga og óöryggi varðandi verð. Leigan er há og ég tel að Íbúðalánasjóður gæti komið betur að uppbyggingu leiguíbúða, að því að búa til þann valkost, ekki síst fyrir ungt fólk, til þess að fara út í langtímaleigu, búa til leigukost fyrir þá sem vilja fara í langtímaleigu.

Þriðja markmiðið sem ég tel að eigi að vera markmið Íbúðalánasjóðs umfram almennar lánveitingar er aðstoð til hinna efnaminni við húsnæðiskaup. Ég tel að í frumvarpinu séu ákveðnir annmarkar að því leyti og þættir sem við verðum að skoða mun betur. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom inn á stimpilgjaldið áðan en þarna er í raun verið að rýra kjör eða möguleika þeirra sem uppfylla skilyrði til viðbótarlána vegna þess að nú er stimpilgjald lagt að fullu á 90% lánin. Þetta tel ég að við þurfum að skoða.

Í allri umræðunni um húsnæðismálin tel ég að almennt verði að endurskoða tilveru stimpilgjaldsins. Ég hefði helst viljað sjá að það yrði lagt niður. Þessa umræðu verðum við auðvitað að taka samhliða þeim breytingum sem hafa orðið. Ég heyri að um málið er töluverður samhljómur í salnum. Ég heyrði það hjá hv. þm. Böðvari Jónssyni áðan. Þetta er ósanngjarn skattur og ég hvet þingheim og félagsmálanefnd til að taka frumvarp Margrétar Frímannsdóttur um afnám stimpilgjalda á húsnæðiskaup til meðferðar og umfjöllunar samhliða þessu frumvarpi.

Ég tek einnig undir með þeim sem hafa talað um að ganga beri lengra varðandi 13 millj. kr. hámarkið. Ég tel að 13 millj. kr. hámarkið gangi gegn þriðja markmiðinu sem ég nefndi áðan, þ.e. aðstoð til hinna efnaminni við húsnæðiskaup. Efnaminna fólk með stórar fjölskyldur þarf meira en 13 millj. kr. hámarkið. Ég tel að þetta verði að vera hærra og verði að vera í takt við raunveruleikann á húsnæðismarkaðnum. Ég vona sannarlega að nefndin ræði þetta betur.

Í tengslum við hámarkið hefur verið rætt um samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs. Auðvitað er það ákveðinn faktor. Ég er ekki ein af þeim sem vilja að ríkisstofnanir séu í samkeppni við fyrirtæki á almennum markaði en engu að síður tel ég að um Íbúðalánasjóð gildi önnur lögmál vegna þeirra mikilvægu þátta og markmiða sem hann á að standa fyrir og stefna að, vegna þessa þríþætta tilgangs hans sem ég fór yfir áðan. Ég tel að Íbúðalánasjóður sé mikilvægur. Engu að síður fagna ég þeim fjölbreyttu lánamöguleikum sem í boði eru í dag. Ég tel að þetta verði einungis til góðs fyrir flesta. Hins vegar verður að skoða hámarkið og prósentuhlutfallið til handa félögum og samtökum sem byggja upp leiguíbúðir. Ég tel að þá vexti verði að lækka aftur. Sömuleiðis tel ég að ræða þurfi alvarlega um stimpilgjaldið og tilverurétt þess í þessari umræðu.

(Forseti (BÁ): Forseti vill að gefnu tilefni minna háttvirta þingmenn á að vísa með réttum hætti hver til annars í ræðustól.)