Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:02:12 (3112)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:02]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gagnrýni skattalækkanirnar almennt. Varðandi tímasetninguna þá er, einmitt vegna þess að við teljum þær vera þensluvaldandi, betra að fá þær undir lok tímabilsins. Ég var hins vegar fyrst og fremst að vekja athygli á því að hugsanlega væri samhengi á milli þess að árið 2007 er kosningaár og tímasetninga á úrbótum varðandi barnabætur og skattalækkana.

Staðreyndin er sú að þegar Framsóknarflokkurinn komst til valda í stjórn með Sjálfstæðisflokknum voru barnabætur að verðgildi krónunnar í dag 6,5 milljarðar kr. Núna eru þær 5,4 milljarðar kr. Þær eru 1,1 milljarði lægri nú en þegar Framsóknarflokkurinn komst til valda. Samt minnist ég þess að Framsóknarflokkurinn hafi lofað og prísað öllum stundum að hann hafi gert stórkostlega hluti á því sviði.