Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:18:02 (3125)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:18]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það má skilja orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar svo að nú í uppsveiflunni sem við sjáum fram á að standi næstu ár þá sé skynsamlegt að hækka skatta, væntanlega til að draga úr einkaneyslu. Það sem vegur hins vegar svolítið á móti sjónarmiðum hv. þingmanns er að hann virðist jafnframt telja skynsamlegt að auka verulega útgjöld innan samneyslunnar, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Einhvern veginn virðist manni að það yrði síst til að draga úr þensluáhrifum, ekki hefur hann tekið undir með orðum greiningardeilda banka eða Seðlabanka um að þörf sé á harðari aðhaldsaðgerðum hjá hinu opinbera.

Varðandi tengslin milli skattheimtu og velferðarþjónustu er nauðsynlegt að fram komi að á sama hátt og velferðarþjónusta og samfélagsþjónusta getur skipt verulegu máli fyrir atvinnulífið þá er traust og öflugt atvinnulíf og verðmætasköpun í samfélaginu nauðsynlegur grunnur þess að yfir höfuð sé hægt að halda uppi einhverri samfélagsþjónustu.