Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 15:41:03 (3179)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:41]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var einmitt að koma inn á það hvernig allar þessar skerðingar á bótum plús háir skattar á það sem er umfram frítekjumarkið draga úr vilja manna til að bæta stöðu sína og hreinlega gera hana ómögulega, vegna þess að menn þurfa að bæta stöðu sína svo mikið áður en þeir fara að sjá eitthvað sjálfir. Þetta hafa menn nefnt fátæktargildru og ASÍ og fleiri hafa uppgötvað þetta, þó að hv. þingmaður hafi ekki uppgötvað það, ég ætla ekki að gera ráð fyrir að hann þekki ekki slík dæmi. En þetta er það sem menn hafa nefnt. Fólk segir: Það borgar sig ekki að taka meiri ábyrgð á sig. Það borgar sig ekki að taka á sig önnur störf eða fara í nám, vegna þess að það fer allt í skatta eða lækkun bóta. Þetta er það sem fólk segir.

Varðandi eignarskattinn vildi ég bara fá það fram sem nú hefur komið fram að hv. þingmaður styður það að leggja niður eignarskatt.