Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 10:04:05 (3372)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:04]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er verið að ganga til atkvæða um gagnmerkt frumvarp um skattalækkanir og skattkerfisbreytingar sem í raun má segja að séu framhald þeirra skipulagsbreytinga í efnahags- og fjármálum sem hafa átt sér stað á undanförnum rúmum áratug. Í frumvarpi þessu felast veigamiklar umbætur sem gagnast munu almenningi öllum, sérstaklega venjulegu vinnandi fólki, ellilífeyrisþegum og eldri borgurum sem ekki þurfa lengur að greiða eignarskatt af íbúðum sínum og barnafólki með lágar tekjur eða millitekjur.

Þetta er mikið framfaramál sem hér er í gangi og það er gæfuspor sem þingið er að stíga núna sem mun endast mörg ár fram undan.