Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 10:28:36 (3385)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:28]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnarflokkarnir hafa gerst sekir um að leggja fram fyrir þjóðina mjög villandi útreikninga varðandi eignarskattinn í þeirri viðleitni sinni að reyna að sýna fram á að eignarskattslækkunin nýtist best tekjulágum hópum. Þetta er alrangt og útreikningarnir voru þannig unnir að þegar skipt var niður í tekjuhópa var einungis miðað við launatekjur en fjármagnstekjur voru ekki settar inn í þá útreikninga. Stærsti hlutinn af þeim sem greiða eignarskatt og eru með háan eignarskatt eru líka með um 80–90% af tekjum sínum í fjármagnstekjum en ekki launatekjum. Það er mjög erfitt að horfa fram á að þjóðin hafi verið blekkt með þessum hætti.

Þegar fjármagnstekjurnar eru teknar inn kemur í ljós að um helmingur allrar eignarskattslækkunarinnar við niðurfellingu eignarskattsins liggur hjá efsta fjórðungi framteljenda, hvort sem litið er til einhleypra eða hjóna. Tillaga okkar við 3. umr. mun miða að því að þeir sem eru með lágar tekjur njóti fyrst og fremst góðs af þessari eignarskattslækkun. Ég greiði ekki atkvæði.