Lífeyrissjóður sjómanna

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 11:10:48 (3406)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Lífeyrissjóður sjómanna.

376. mál
[11:10]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég var með fyrirvara við samþykkt þessa frumvarps og skrifaði þannig undir nefndarálitið. Fyrirvarinn laut að vanefndum ríkisvaldsins gagnvart Lífeyrissjóði sjómanna frá fyrri tíð, frá því fyrir rúmum 20 árum. Ég hef hins vegar sannfærst um að þessi lagabreyting hefur engar breytingar í för með sér gagnvart kröfum sjómanna í framtíðinni á hendur ríkisvaldinu enda höfðu bæði stjórnir Lífeyrissjóðs sjómanna og Landssambands lífeyrissjóða óskað eftir þessum lagabreytingum. Eftir stendur að við vildum halda ákveðnum baktryggingum inni í lögum varðandi iðgjöld. Þær áttu að hvíla í heimildum til lögveða í skipum. Um það var flutt áðan breytingartillaga, við önnur lög reyndar, grunnlög sem gilda um alla lífeyrissjóði í landinu. Sú tillaga var felld en það veldur því að við getum ekki greitt atkvæði með þessu frumvarpi, við getum ekki stutt það eins og við höfðum haft í hyggju að gera og munum sitja hjá.