Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 2  —  2. mál.




Þjóðhagsáætlun



fyrir árið 2005.

(Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



Inngangur


    Í þessari þjóðhagsáætlun er fjallað um helstu atriði í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eins og þau voru sett fram í stefnuyfirlýsingu hennar. Áhersla er lögð á eftirfarandi atriði:
    *    Tryggja jafnvægi og stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar.
    *    Viðhalda jafnvægi í fjármálum ríkisins og halda áfram umbótum í ríkisrekstri.
    *    Nýta aukið svigrúm ríkissjóðs til að tryggja aukinn kaupmátt þjóðarinnar með markvissum aðgerðum í skattamálum.
    *    Að tryggja undirstöður byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu, menntunar og menningar.
    Þjóðhagsáætlunin dregur fram helstu þættina í efnahagsstefnunni, markmið og leiðir. Ríkisstjórnin hefur einsett sér að standa vörð um stöðugleikann í efnahagslífinu og gæta þess að kaupmáttur almennings haldi áfram að vaxa. Áhersla er lögð á áframhaldandi stuðning við heilbrigðismál og fræðslumál svo og aðstoð við þá sem höllum fæti standa.
    Umfjölluninni er skipt í fjóra hluta
    *    Stöðugleiki efnahagslífsins og er þar litið til hagvaxtar, verðbólgu, kaupmáttar og atvinnuástands.
    *     Fjármál hins opinbera, tekjur, útgjöld og skuldir.
    *     Peninga- og fjármálastjórn.
    * Alþjóðlegt efnahagsumhverfi.
    Allar tölur og spár um íslenska hagkerfið eru fengnar frá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, nema annað sé tekið fram.

Stöðugleiki


    Ríkisstjórnin hefur einsett sér að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu. Það hefur tekist með ágætum á síðustu árum og flest sem bendir til að honum verði ekki raskað.

Hagvöxtur
    Útlit er fyrir góðan hagvöxt á næstu árum. Eðlilegt er að gera ráð fyrir að nokkuð dragi úr hagvexti í lok stóriðjuframkvæmda þeirra sem nú standa yfir. Þrátt fyrir það er ekki útlit fyrir samdrátt á næstu árum og er útlit fyrir að hagvöxturinn verði að meðaltali 2 1/ 2% á ári árin 2007 til 2010. Það verður að teljast mjög gott enda hefur hagvöxtur hér á landi verið að jafnaði 2,8% á ári síðustu tvo áratugina þannig að fráleitt er að tala um að líkur séu á samdrætti í efnahagslífinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Til samanburðar má einnig geta þess að gert er ráð fyrir að hagvöxtur í ESB verði að meðaltali tæplega 1 3/ 4% á árabilinu 2003 til 2006 og 2 1/ 2% á árabilinu 2007 til 2010.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Verðbólga
    Þrátt fyrir stóriðjuframkvæmdir og aukin umsvif á flestum öðrum sviðum efnahagslífsins er allt útlit fyrir að verðbólgu verði haldið í skefjum með samhæfðum aðgerðum í peningamálum og fjármálum hins opinbera.
    Ætla má að verðbólguþrýstingurinn verði mestur á næsta ári en svo dragi jafnt og þétt úr honum. Spár gera ráð fyrir að árleg verðbólga verði að meðaltali rúm 3% frá 2005 til ársins 2010. Gangi spárnar eftir er ljóst að stöðugleiki mun áfram ríkja í efnahagsmálum.

Kaupmáttur launa
    Lífskjör þjóðarinnar hafa batnað umtalsvert á síðustu árum. Gangi áætlanir eftir má ætla að kaupmáttur aukist enn frekar á næstu árum. Ætla má að kaupmáttarvísitalan vaxi um 1 3/ 4% á næsta ári og að meðaltalsaukning á árunum 2007 til 2010 verði ríflega 1/ 2% á ári.


Skattalækkanir og sveiflujöfnun


Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að aukið svigrúm ríkissjóðs verði notað til að tryggja kaupmátt þjóðarinnar með því að lækka skatta á kjörtímabilinu. Boðaðar skattalækkanir eru almennt hagstjórnarmarkmið en ekki hugsaðar sem tæki til sveiflujöfnunar enda væri það óráðlegt. Það er stefna stjórnvalda að skattkerfið sé einfalt og réttlátt og vel til þess fallið að afla fjár til sameiginlegra verkefna þjóðarinnar. Hvað varðar sveiflujöfnun hefur ríkisstjórnin þegar ákveðið að gripið verði til annarra aðgerða, svo sem frestun framkvæmda og aðhalds í ríkisrekstri.








Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Allt stefnir því í að kaupmáttur launa haldi áfram að aukast og eru fá dæmi um svo löng samfelld skeið kaupmáttaraukningar. Forsenda þess að svo megi verða eru hóflegir og skynsamlegir kaupsamningar og lítil verðbólga. Einnig munu fyrirhugaðar skattalækkanir styðja enn frekar undir kaupmátt ráðstöfunartekna almennings.

Atvinnuástand
    Stjórnvöld leggja mikla áherslu á að stuðla að nægri atvinnu fyrir alla. Slíkt verður best tryggt með almennum aðgerðum sem efla atvinnulífið, frekar en sértækum aðgerðum. Gert er ráð fyrir að aukin umsvif leiði til atvinnusköpunar á næstu árum.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Samkvæmt spám má ætla að atvinnuleysið verði að meðaltali um 3 1/ 3% á árunum 2007 til 2010. Til samanburðar má nefna að atvinnuleysi í evru-löndum mælist nú um 8,8%, og í Bandaríkjunum er atvinnuleysið um 6%. Hingað til höfum við ekki borið okkur saman við aðrar þjóðir hvað atvinnuleysi og atvinnuþátttöku varðar og það er stefna stjórnvalda að tryggja næga atvinnu fyrir vinnufúsar hendur.

Fjármál hins opinbera


Tekjur hins opinbera
    Sem fyrr er stefnt að því að samneyslan aukist ekki umfram 2% á ári á næstu árum. Auknum umsvifum í efnahagslífinu fylgja hærri tekjur ríkissjóðs og þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að tekjur ríkisins dragist saman árin 2007 og 2008 ætti afkoman að vera vel innan ásættanlegra marka. Lækkun skatta á einstaklinga þýðir að skatttekjur sem hlutfall af landsframleiðslu lækka jafnt og þétt á næstu árum. Gert er ráð fyrir að þetta hlutfall verði komið niður í 27% af vergri landsframleiðslu árið 2008.

Útgjöld hins opinbera
    Það er ljóst að haga verður útgjöldum hins opinbera þannig að stöðugleikanum verði ekki raskað en þó þannig að ekki verði gengið á nauðsynlega þjónustu og velferð einstaklinga. Þess vegna er stefnt að því að auka enn útgjöld til heilbrigðis- og fræðslumála og almannatrygginga og velferðarmála. Dregið verður úr útgjöldum til samgöngumála og frestað verður framkvæmdum uppá tvo milljarða árið 2005 og 2006. Útgjöld til heilbrigðismála verða um 3% af VLF, og útgjöld til fræðslumála um 8 1/ 3% af VLF árið 2005. Þegar við berum okkur saman við nágrannalöndin og lönd OECD er ljóst að við erum meðal þeirra þjóða sem verja hvað mestu til þessara málaflokka. Samkvæmt nýjustu tölum OECD eru Íslendingar í 4. sæti þegar litið er til útgjalda til menntamála sem hlutfalls af VLF. Einungis Kóreumenn, Bandaríkjamenn og Danir verja hlutfallslega meira fé til þessa málaflokks. Þegar litið er til fjárframlaga til grunn- og framhaldsskólastigið eru Íslendingar efstir á listanum.
    Eins og fyrr segir er það ætlun ríkisstjórnarinnar að nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir bitni ekki á heilbrigðis-, mennta- eða almannatryggingakerfinu.
    Á meðfylgjandi myndum má sjá hlutfall útgjalda til heilbrigðismála og fræðslumála af heildarútgjöldum ríkissjóðs samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Eins og sjá má er gert ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðismála muni aukast hlutfallslega á næstu þremur árum. Rétt er að hafa í huga að á sama tíma er um raunaukningu að ræða og gert er ráð fyrir að auka framlög til heilbrigðismála um tæpa tvo milljarða króna árið 2006 og aftur um tæpa tvo milljarða árið 2007 á föstu verðlagi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ríkisstjórnin mun eftir sem áður leggja áherslu á menntamál og þar með mannauð í landinu. Gert er ráð fyrir að framlög til menntamála aukist ríflega á næstu árum eða um tæpan milljarð árið 2006 og annað eins árið 2007, mælt á föstu verðlagi.

Skuldir hins opinbera
    Vel hefur tekist til með að koma skuldastöðu ríkissjóðs í skikkanlegt horf. Áætlanir gera ráð fyrir að svo verði áfram og að hlutfall hreinna skulda af vergri landsframleiðslu haldist á bilinu 14,8% til 18%.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ætla má að heppilegt sé að skuldastaðan sé á þessu bili og stendur ríkissjóður hér á landi mjög vel miðað við margar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við, svo sem í Evrópu. Þessar áætlanir eru varfærnar og ekki er gert ráð fyrir sölu Landsímans í þessum tölum. Salan gæti skilað umtalsverðum tekjum og samsvarandi lækkun skulda ríkissjóðs. Vaxtakostnaður ríkisins gæti þannig lækkað umtalsvert og afkoma ríkissjóðs því orðið enn betri en hér er sýnt.

Peninga- og fjármálastjórn


    Allt frá því að Seðlabanka Íslands var veitt aukið sjálfstæði og peningastefnan flutt að fullu til bankans með verðbólgumarkmið að leiðarljósi hefur honum, í samvinnu við aðra aðila í efnahagslífinu, tekist vel að hafa hemil á verðbólgunni. Bankinn hefur boðað að stýrivextir verði hækkaðir ef merki séu um að verðlag sé að hækka umfram yfirlýst verðbólgumarkmið. Slíkt er eðlilegt í ljósi þess efnahagsumhverfis og hagstjórnar sem við búum við. Stjórnvöldum er ljóst að miklu skiptir að samræma þarf peningastefnu Seðlabankans annars vegar og fjármálastjórn hins opinbera hins vegar þannig að peningastjórnin og fjármálastjórnin létti undir hvor með annarri í stað þess að toga sitt í hvora áttina. Eins og lýst var hér að framan mun ríkið fresta framkvæmdum og beita öðrum aðhaldsaðgerðum til að létta undir með peningastefnu Seðlabankans á næstu misserum og árum.

Gengisþróun og viðskipti við útlönd
    Eins og við mátti búast hafa stóriðjuframkvæmdir þær sem nú setja svo mjög mark sitt á efnahagslífið haft í för með sér aukinn viðskiptahalla við útlönd. Ekki er ástæða til að hafa of miklar áhyggjur enda búum við nú við fljótandi gengi sem aðlagar sig að aðstæðum á hverjum tíma. Það sýndi sig þegar gengið var sett á flot árið 2001 að viðskiptahalli, sem margir höfðu lýst áhyggjum útaf, hvarf á skömmum tíma.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Samkvæmt þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn nái hámarki árið 2006 en svo dragi snögglega úr honum á árunum 2007 til 2010.

Alþjóðlegt efnahagsumhverfi

Samkeppnishæfi Íslands
    Það segir nokkra sögu að samkeppnishæfi Íslands í samanburði við aðrar þjóðir hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum. Viðskiptaháskólinn í Lausanne, IMD, tekur árlega saman lista yfir samkeppnishæfustu þjóðir heims. Samkvæmt nýjustu úttekt skólans er Ísland í 5. sæti þegar litið er til þjóða með undir 20 milljónir íbúa. Í fyrra vorum við í 9. sæti á sama lista. Við mat á samkeppnishæfi er lagt mat á hve vel stjórnvöldum í hverju landi hefur tekist að skapa og viðhalda góðu viðskiptaumhverfi. Það er því gleðiefni að Ísland skuli vera jafnt hátt á þessum lista og raun ber vitni. Sú staðreynd að samkeppnishæfnin eykst hlutfallslega við aðrar þjóðir ber vott um að stjórnvöld eru á réttri leið.

Lánshæfni
    Alþjóðleg matsfyrirtæki hafa athugað lánshæfni íslenska ríkisins nokkuð reglulega á síðustu árum. Þegar litið er til mats á skuldbindingum ríkissjóðs, hvort sem er til langs eða skamms tíma, sést að þetta mat hefur farið stig hækkandi síðustu árin. Í meðfylgjandi töflu má sjá þróunina í mati Moody's á skuldbindingum ríkissjóðs til langs tíma í erlendri mynt.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Skuldbindingar ríkissjóðs hafa þannig fengið hæstu mögulegu einkunn og segir það mikið um þann árangur sem náðst hefur í hagstjórn á síðustu árum.

Horfur í heimsbúskapnum
    Að venju er erfitt er að spá nokkru fyrir um framvindu í heimsbúskapnum á næstu misserum og árum. Mikil óvissa ríkir um þróun alþjóðastjórnmála, baráttu við hryðjuverk og verð á olíu.
    Þrátt fyrir nokkuð misvísandi hagvísa virðist bandaríska hagkerfið vera á uppleið. Helstu veikleikarnir bandaríska hagkerfisins eru lítill sparnaður almennings og mikill viðskiptahalli, auk þess sem vinnumarkaðurinn hefur verið seinn að taka við sér þannig að minna hefur dregið úr atvinnuleysi en búast mætti við í kjölfar aukins hagvaxtar, neyslu almennings og fjárfestinga. Gengi bandaríkjadals hefur haldist tiltölulega lágt miðað við aðra helstu gjaldmiðla heimsins.
    Enn erfiðara er að spá í væntanlega hagþróun í Evrópu. Ef litið er til evrusvæðisins virðist sem sum hagkerfi séu að rétta úr kútnum eftir langt stöðnunarskeið, svo sem í Frakklandi. Einnig má ætla að þau lönd sem nýverið hafa gengið í sambandið muni vaxa hraðar en þau sem fyrir eru. Á móti kemur að merki um efnahagsbata í stórum hagkerfum eins og Þýskalandi og Ítalíu hefur ekki orðið jafn skjótur og vonast var til. Aukinn útflutningur eru nánast einu batamerkin sem sjást í Þýskalandi, stærsta hagkerfi álfunnar. Svo virðist sem ekki sé við tiltölulega hátt gengi evrunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum að sakast hve hægt þessi hagkerfi rétta úr kútnum. Miklu frekar virðist því um að kenna hve löngu tímabærar umbætur á innviðum hagkerfanna hefur gengið hægt eftir, svo sem á vinnumarkaði og markaði með þjónustu.
    Þegar litið er til Asíu ber náttúrulega hæst mikinn og langvarandi hagvöxt í Kína. Nokkur merki eru þó um að kínverska hagkerfið sé að ofhitna og eitthvað verði undan að láta og er þá aðallega litið til fastgengisstefnunnar. Japanska hagkerfið virðist vera að ná sér upp úr löngum öldudal. Þá eru fleiri lönd í þessum heimshluta sem virðast vera að taka við sér og má þar sérstaklega nefna Indland en Indverjar hafa búið við mikinn hagvöxt undanfarin ár og þrátt fyrir að mörg ljón séu í veginum virðist fátt geta komið í veg fyrir að þetta fjölmennasta lýðræðisríki heims eigi eftir að láta meira að sér kveða á flestum sviðum.