Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 29. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 29  —  29. mál.
Tillaga til þingsályktunarum rekstur skólaskips.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson,


Þuríður Backman, Kristinn H. Gunnarsson, Björgvin G. Sigurðsson,
Jón Bjarnason, Magnús Þór Hafsteinsson.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að stuðla að því að aftur verði boðið upp á fræðsluferðir fyrir grunnskólanema um fiskveiðar, vinnulag til sjós, fiskifræði og líffræði sjávarins, með sama eða svipuðu sniði og gert var um borð í rannsóknarskipinu Dröfn RE í samstarfi við Hafrannsóknastofnunina.

Greinargerð.


    Rannsóknarskipið Dröfn er í eigu Hafrannsóknastofnunarinnar og hefur undanfarin ár verið notað að hluta sem skólaskip og rekstur þess styrktur af sjávarútvegsráðuneyti. Nemendum 10. bekkjar var boðið að taka þátt í verkefni þar sem þeir kynntust sjávarútvegi og vinnu um borð í fiskiskipum. Fiskifræðingur var með í för til að fræða nemendur um sjávarlífverur sem veiddust. Einnig var fræðsla um veiðarfæri. Hver ferð tók um þrjá tíma og komust 15 nemendur með í hverja ferð. Á þessu ári var ekki veitt fé til þessarar fræðslu handa grunnskólanemum og í fyrsta skipti í mörg ár féll hún niður.
    Nú er fyrirsjáanlegt að þetta verkefni leggist af vegna fjárskorts og flutningsmenn telja afar mikilvægt að aftur verði boðið upp á fræðsluferðir með svipuðu sniði í samstarfi við Hafrannsóknastofnunina til að nemendur eigi kost á að kynnast verklagi við fiskveiðar og lífríki sjávar.
    Á undanförnum árum hafa hátt í 2.000 skólanemar farið í þessar ferðir ásamt kennurum. Margir kennarar hafa bent á nauðsyn þess að þessi fræðsla verði hafin að nýju sem fyrst og fylgir hér lýsing eins þeirra á ferð til fróðleiks:
    „Ég hef farið á hverju ári síðustu 4 eða 5 ár og þetta er bæði mjög fróðlegt og vel skipulagt verkefni sem krakkarnir hafa ótrúlega gaman af. Meira að segja mestu pempíur (á bæði við stelpur og stráka) voru komin á kaf í aðgerð þegar við vorum búin að draga inn trollið. Skipulagið var eins og hér segir:
     1.      Skipstjóri tók á móti hópnum.
     2.      Yfirstýrimaður og fiskifræðingur kynntir fyrir hópnum.
     3.      Yfirstýrimaður fór yfir björgunarbúnað skipsins, gúmmíbáta og bjargbelti o.fl.
     4.      Fiskifræðingur skýrði út hvað ætti að gera í ferðinni, kynnti Hafró, sýndi myndband.
     5.      Veiðarfæri kynnt (ýmiss konar).
     6.      Sýnt hvernig taka á sjósýni og lesa á sjótanka, einnig var háfi dýpt í sjóinn.
     7.      Tækjakostur í brú sýndur og farið yfir hvernig tækin eru notuð.
     8.      Fiskitrolli kastað og farið yfir nokkra hluti þess og sýnt hvernig það virkar.
     9.      Sýnt hvernig fiskur er mældur sem kemur í trollið, aldursgreindur, hvar heilinn í honum er o.fl.
     10.      Fræðst um það svæði sem verið er á (ekki mörg börn sem vita hvað Kollafjörður heitir og að Engey er við hlið Viðeyjar).
     11.      Haldið heim.
    Við erum þjóð sem fáum mestar tekjur af fiskveiðum og okkur ber skylda til að kynna þessa atvinnugrein fyrir æsku landsins. Mér þótti miður að heyra í vor að líklega yrðu ekki fleiri ferðir farnar þar sem þetta er eina leiðin fyrir mjög marga krakka til að komast í tæri við sjómennsku.“