Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 63. máls.
131 löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 63  —  63. mál.
Tillaga til þingsályktunarum úttekt vegna GATS-samningsins og breytinga á honum.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,


Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að ríkisstjórnin beiti sér fyrir:
     a.      að gerð verði úttekt á efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum áhrifum sem og umhverfisáhrifum GATS-samningsins á Íslandi, bæði miðað við núverandi stöðu og hugsanlegar afleiðingar samningsins til langs tíma. Hluti af þeirri rannsókn verði greining á lagalegri stöðu GATS-samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar gagnvart innlendum lögum og reglugerðum. Jafnframt verði kannað með hvaða hætti megi taka til endurskoðunar þær skuldbindingar sem Ísland hefur þegar undirgengist;
     b.      að fulltrúar Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar beiti sér fyrir að samningaviðræður Íslands og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar verði opnaðar fyrir almenningi, bæði hvað varðar upplýsingar og þátttöku. Leitað verði m.a. til verkalýðsfélaga og annarra hagsmunasamtaka, auk fulltrúa sveitarfélaga og stofnana eftir því sem við á;
     c.      að í yfirstandandi samningsferli Íslands og annarra aðila Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar vegna GATS-samningsins verði engar heimildir veittar fyrir markaðsvæðingu velferðar- og grunnþjónustu samfélagsins. Ekki verði fleiri þjónustugeirar felldir undir GATS- samninginn án undangenginnar könnunar á efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum áhrifum sem og umhverfisáhrifum samningsins á íslenskt þjóðfélag og ekki fyrr en hlutdeild samtaka launafólks og annarra fulltrúa almennings í samningaviðræðunum hefur verið tryggð;
     d.      að fulltrúar Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar beiti sér fyrir því að ákvæði 3. mgr. I. gr. GATS-samningsins verði skýrð á þann veg að engum vafa sé undirorpið að samningurinn nái ekki til almannaþjónustu og þjónustu á vegum hins opinbera. Lagt er til að c-liður 3. mgr. I. gr. verði felldur úr gildi og að fulltrúar Íslands beiti sér fyrir því á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar;
     e.      að fulltrúar Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar beiti sér fyrir því að þjónusta hins opinbera sem og þjónusta í almannaþágu verði í raun og veru undanskilin ákvæðum GATS-samningsins. Litið verði á rekstrareiningar á vegum hins opinbera sem heildstæðar í skilningi GATS. Þannig verði ekki hægt að færa þær í hlutum undir markaðsskuldbindingar GATS-samningsins;
     f.      að fulltrúar Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar beiti sér fyrir því að orðalagi XXI. gr. verði breytt þannig að sett verði inn málsgrein sem heimili ríkisstjórnum að fella brott þegar undirritaðar skuldbindingar í skuldbindingaskrá eða draga úr þeim að því tilskildu að það sé gert í þeim tilgangi að bæta almannaþjónustu eða þjónustu á vegum hins opinbera, án þess að hætta sé á að þær ákvarðanir kalli á skaðabætur samkvæmt reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Svo tryggja megi óskoraðan rétt ríkisstjórna til að setja lög og reglur og framfylgja þeim án hættu á lögsókn beiti ríkisstjórnin sér fyrir því að 4. mgr. VI. gr. (reglur á heimamarkaði) í GATS-samningnum verði endurskoðuð þannig að skýrt komi fram að umhverfisþættir og félagslegir þættir hafi forgang gagnvart „frjálsum viðskiptum“;
     g.      að fulltrúar Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar beiti sér fyrir því að farvegur deilumála innan stofnunarinnar verði opnaður almenningi, bæði hvað varðar upplýsingar og þátttöku. Ríkisstjórnin vinni að því að dómstóll Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar leiti í auknum mæli til stofnana Sameinuðu þjóðanna til samráðs við úrlausn deilumála og að tekið verði tillit til samfélags- og umhverfissjónarmiða. Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni samþykki að meginsamþykktir Sameinuðu þjóðanna hafi forgang á viðskiptareglur;
     h.      að kröfur um lágmarksréttindi verkafólks eins og þær hafa verið settar fram á vettvangi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar verði felldar inn í GATS-samninginn og aðra samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eftir því sem við á.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var flutt á 130. löggjafarþingi en varð þá eigi útrædd. Hún er því endurflutt óbreytt.
    Ekki eru menn á eitt sáttir um þann farveg sem beina eigi alþjóðavæðingunni í og einnig er deilt um líkleg áhrif markaðsvæðingar sem sett hefur svip á alþjóðavæðinguna til þessa. Um hitt deilir enginn að alþjóðavæðingin hefur mikil samfélagsleg áhrif og þess vegna er mjög mikilvægt að opin og lýðræðisleg umræða fari fram um hana, ekki síst um Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO), sem er ætlað að verkstýra þessu ferli, og samninga hennar. Sérstaklega er ástæða til að taka til skoðunar GATS-samninginn (General Agreement on Trade in Services) og áhrif hans.
    GATS-samningurinn hefur færst æ meira í sviðsljósið síðastliðin 2–3 ár í kjölfar þess að verkalýðsfélög, sjálfstæðir rannsóknaraðilar, háskólar, rannsóknarnefndir þjóðþinga sem og frjálsir félagahópar og samtök, hafa tekið hann til skoðunar.
    Gagnrýni á samninginn hefur ekki síst beinst að áhrifum hans á stjórnunarhætti hvers þjóðríkis sem er aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, sjálfstæði og sjálfræði innlendra stjórnvalda og þær almennu breytingar á félagslegu og efnahagslegu umhverfi sem af samningnum hljótast. Nauðsynlegt er að hafa í huga að þær skuldbindingar sem ríki gera undir GATS- samningnum eru nánast óafturkræfar og því geta einstaka ríkisstjórnir bundið hendur komandi kynslóða með þvílíkum hætti að vart finnast sambærileg dæmi í öðrum alþjóðlegum viðskiptasamningum.
    Það er því eðlileg krafa í lýðræðisþjóðfélagi að áhrif almennings á gerðir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og samninga hennar verði aukin frá því sem nú er. Í stað þess að loka á upplýsingar og umræðu eins og Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur verið sökuð um að gera, ber þvert á móti að leita allra ráða til að örva umræðuna. Greið leið að úrskurðarkerfi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og dómstól er einnig mjög mikilvæg.
    GATS-samningurinn tekur yfir afar víðtækt svið og á undanförnum missirum hafa fjárfestingarsamningar og réttur fjárfestingarfyrirtækja verið í brennidepli. Einnig hefur verið rætt um landbúnaðarmál þótt þau heyri ekki undir samninginn sem slíkan en þau hafa tengst GATS-samningsferlinu óbeint því að samningar á ýmsum sviðum sem heyra undir Alþjóðaviðskiptastofnunina, svo sem um landbúnaðarmál, eru gerðir með hliðsjón hver af öðrum. Í öllum þessum viðræðum er mikilvægt að veita fátækum ríkjum þriðja heimsins stuðning gagnvart óbilgjörnum kröfum stórfyrirtækja og vel stæðra ríkja í þeirra garð. Í þessari þingsályktunartillögu er sjónum fyrst og fremst beint að þáttum sem snerta grunngerð samningsins og snúa að samfélagsþjónustunni. Að sjálfsögðu skipta fleiri þættir miklu máli. Hvað landbúnaðarmál snertir er mikilvægt að Íslendingar afsali sér ekki rétti sínum til að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu og standa vörð um íslenskt byggðamynstur.
    Krafan um að lágmarksréttindi verkafólks verði viðurkennd og felld inn í GATS-samninginn er mikilvæg, enda óeðlilegt að stunduð séu viðskipti við ríki þar sem t.d. réttur verkafólks til að bindast samtökum og tjá sig er ekki virtur. En sem áður segir er hér fyrst og fremst staðnæmst við áhrif GATS-samningsins á almannaþjónustu og þjónustu hins opinbera. Því er d- liður þingsályktunartillögunnar sérstaklega tekinn til skoðunar hér á eftir.

Skilgreining á almannaþjónustu.
    Í b-lið 3. mgr. I. gr. GATS-samningsins er skýrt hvaða þjónusta er talin falla undir hann. Þar segir: „„þjónusta“ á við þjónustu á öllum sviðum nema þjónustu sem opinber yfirvöld veita“.
    Á ensku, sem er eina tungumálið sem samningurinn hefur lagalegt gildi á, segir svo: „„services“ includes any service in any sector except services supplied in the exercice of governmental authority.“
    Í c-lið 3. mgr. I. gr., sem hér er lagt til að verði felldur niður, er þessi afdráttarlausa grein skilyrt með eftirfarandi hætti: „„þjónusta sem opinber yfirvöld veita“ er þjónusta sem hvorki er veitt á viðskiptalegum grunni né í samkeppni við einn eða fleiri þjónustuveitendur.“
    Á ensku hljómar það svo: „„a service supplied in the exercice of governmental authority“ means any service which is supplied neither on a commercial basis, nor in competition with one or more service suppliers.“
    Til að menn átti sig á hversu víðtækur GATS-samningurinn er og hvaða stjórnvöld það eru innan lands sem verða að taka tillit til ákvæða hans í ákvörðunum og framkvæmdum er rétt að láta 3. mgr. I. gr. fylgja í íslenskri þýðingu og upphaflegri útgáfu:

    „3. Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
                  a)      „ráðstafanir aðila“ eru ráðstafanir gerðar af:
             i)          ríkisstjórn, svæðis- og sveitarstjórnum og stofnunum; og
             ii)      óopinberum stofnunum í umboði ríkisstjórnar, svæðis- eða sveitarstjórna eða stofnana.
        Hver aðili skal gera þær ráðstafanir sem eðlilegar teljast og hann hefur tök á að beita til að tryggja að svæðis- og sveitarstjórnir og stofnanir svo og óopinberar stofnanir á yfirráðasvæði hans virði skyldur og skuldbindingar samningsins.
              b)      „þjónusta“ á við þjónustu á öllum sviðum nema þjónustu sem opinber yfirvöld veita.
              c)      „þjónusta sem opinber yfirvöld veita“ er þjónusta sem hvorki er veitt á viðskiptalegum grunni né í samkeppni við einn eða fleiri þjónustuveitendur.“

    Á ensku er 3. mgr. I. gr. svohljóðandi í heild:
    „3. For the purposes of this Agreement:
                  (a)      „measures by Members“ means measures taken by:
             (i)      central, regional or local governments and authorities; and
             (ii)      non-governmental bodies in the exercise of powers delegated by central, regional or local governments or authorities;
        In fulfilling its obligations and commitments under the Agreement, each Member shall take such reasonable measures as may be available to it to ensure their observance by regional and local governments and authorities and non-governmental bodies within its territory;
              (b)      „services“ includes any service in any sector except services supplied in the exercise of governmental authority;
              (c)      „a service supplied in the exercise of governmental authority“ means any service which is supplied neither on a commercial basis, nor in competition with one or more service suppliers.“

Ástæður þess að breyta þarf samningstextanum.
    Sem áður segir er í þessari greinargerð sérstaklega staðnæmst við þann þátt þingsályktunartillögunnar sem lýtur að opinberri starfsemi og reynt að varpa ljósi á hvers vegna mikilvægt er að skerpa samningstexta og fella tiltekinn lið brott. Skal nú nánar vikið að c-lið 3. mgr. I. gr. samningstextans.
     1.      Núverandi orðalag 3. mgr. I. gr. GATS-samningsins, sem birt er hér að framan, ógnar mjög tilvist almannaþjónustu í þeim 146 ríkjum sem eiga aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Túlkun greinarinnar er óljós og enginn einn skilningur við lýði á henni, eins og m.a. utanríkisráðuneytið hefur viðurkennt í svari við fyrirspurn frá BSRB. Hins vegar má vera ljóst að með víðri túlkun á greininni fellur flest opinber þjónusta undir GATS- samninginn. Því má t.d. halda fram að sala á aðgangi að sundlaugum sveitarfélaga sem og rekstur ljósabekkja sömu aðila, sé rekstur á „viðskiptalegum grundvelli“ (e. „commercial basis“). Þá hafa menn spurt hvort ekki megi halda því fram að fyrst til eru skólar sem reknir eru að hluta eða öllu leyti af einkaaðilum sé hið opinbera (með almenna skólakerfinu) að veita þjónustu sem er í samkeppni við einn eða fleiri þjónustuveitendur og ættu skólarnir því að falla að fullu undir ákvæði GATS-samningsins. Afleiðingin gæti orðið sú (hafi viðkomandi þjónustugeirar verið felldir undir GATS og séu ekki nægilegir fyrirvarar settir) að í engu mætti mismuna í stuðningi við einkaaðila annars vegar og opinbera aðila hins vegar. Við þessar aðstæður þyrfti ríkið að reka allar sínar þjónustustofnanir sem um einkarekstur væri að ræða með tilheyrandi arðsemiskröfum og þjónustugjöldum af almenningi ellegar að ríkið væri knúið til að veita einkaaðilum sem hasla sér óáreittir völl á sömu sviðum alla sömu styrki og aðstöðu og þeim stofnunum sem nú veita opinbera þjónustu. Afleiðingin yrði augljóslega umbreytt þjóðfélag. Þau gildi sem velferðarsamfélagið hefur lagt mest upp úr mundu eiga undir högg að sækja og sá grunnur veikjast sem núverandi lýðræðisþjóðfélag byggist á.
     2.      Ef forráðamenn Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar væru sjálfum sér samkvæmir mætti ætla að c-liður 3. mgr. I. gr. í samningnum væri óþarfur. Þannig hefur margsinnis verið fullyrt af þeirra hálfu að opinber þjónusta sé sérstaklega undanskilin ákvæðum GATS-samningsins – að því er á þeim má skilja, án frekari skilyrða þar að lútandi. Því þurfi gagnrýnendur ekki að hafa áhyggjur af opinberri þjónustu. Ef þessi er raunin ætti efni tillögunnar að finna samhljóm með því sem forusta Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur ítrekað lýst yfir á opinberum vettvangi um leið og efasemdum um ágang GATS- samningins varðandi almannaþjónustu væri eytt.
     3.      Þriðja ástæðan fyrir brottfalli c-liðar 3. mgr. I. gr. er ágreiningur um merkingu hans. Jafnvel innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er deilt um merkinguna. Í svari utanríkisráðuneytisins við spurningu frá BSRB, um hvaða merkingu ráðuneytið leggur í ofangreind ákvæði, segir:
             „Ekki er full samstaða um túlkun allra þeirra hugtaka sem er að finna í GATS frekar en í ýmsum öðrum alþjóðlegum samningum. Íslensk stjórnvöld fylgjast með þróun umræðunnar og þeim niðurstöðum sem aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar kunna að komast að varðandi túlkun hugtaka. Erfitt er að svara spurningum um túlkun hugtaka af því tagi sem nefnd eru í bréfi BSRB með tæmandi hætti.
             Skilgreiningar þessar hafa ekki verið til sérstakrar umfjöllunar í þjónustuviðskiptaráði Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ekki er hægt að staðfesta að öll aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar túlki 3. mgr. I. gr. með nákvæmlega sama hætti.
             Þeir aðilar sem komið hafa að samningum fyrir Íslands hönd, þar sem hugtök þessi hafa verið til umfjöllunar, hafa almennt ekki rekist á vandamál í samskiptum við erlenda gagnaðila á þessu sviði. Óformlegt samkomulag er um það að aðildarríkin geti skilgreint þessi hugtök með þeim hætti sem fellur að venjum þeirra (þ.e. hvað teljist venjubundin opinber þjónusta) svo fremi sem það stangist ekki á við verulega viðskiptalega hagsmuni annarra samningsaðila. Þannig hafa samningamenn Íslands ekki orðið varir við annað en að almennt sé viðurkennt að starfsemi t.d. sjúkra- og menntastofnana hérlendis sé þjónusta í þágu almennings sem veitt er af opinberum aðila en ekki í viðskiptalegum tilgangi. (Til að auðvelda skýrari svör væri gagnlegt að BSRB kæmi með dæmi um vandamál tengd túlkun þessara hugtaka.)“
             Hér er um að ræða eitt áhrifamesta ákvæðið í þessum alþjóðlega skuldbindandi samningi. Ekki er hægt með góðu móti að ganga út úr samningnum. Þá má nefna að erlend fyrirtæki geta lagt fram kærur til eigin stjórnvalda, telji þau það þjóna hagsmunum sínum, sem koma þeim síðan á framfæri innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Náist ekki samkomulag um bætur eða breytingar endar málið fyrir sérlegum dómstóli Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, en úrskurði hans verður ekki áfrýjað. Reynslan sýnir að sérstakir dómarar sem skipaðir eru við dóminn eru yfirleitt sérfræðingar í alþjóðlegum viðskiptarétti og hafa niðurstöðurnar jafnan borið merki mjög þröngs sjónarhorns þar sem fylgt er stífum túlkunum á ákvæðum samningsins. Það er því með öllu óviðunandi að aðilar að samningnum geti ekki gengið að því vísu sem þeir hafa skrifað upp á. Þessi óvissa er enn til staðar.
             Þessu til staðfestingar má bera svar utanríkisráðuneytisins hér að framan saman við svar sama aðila við annarri spurningu sem BSRB lagði fyrir ráðuneytið við sama tækifæri. Hér má sjá enn eitt dæmi um mótsagnakennda afstöðu íslenskra stjórnvalda. Spurningin varðaði það hvort ráðuneytið teldi að hlutafélagavæðing ríkisfyrirtækja færði þau fremur undir GATS-samninginn með hliðsjón af c-lið 3. mgr. I. gr. Hluti af svari utanríkisráðuneytisins við þessari spurningu var eftirfarandi: „Ef fyrirtæki í eigu opinberra aðila starfar á samkeppnismarkaði eiga skuldbindingar GATS við eftir því sem við á, burtséð frá því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur verið hlutafélagavætt.“
             Mál er að allri óvissu verði eytt, enda virðast allir, forráðamenn Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og helstu gagnrýnendur hennar, sammála um að c-liður 3. mgr. I. gr. valdi eingöngu óvissu og togstreitu. Æskilegur skilningur sé sá sem fram komi í a- og b-lið 3. mgr. en c-lið sé ofaukið.
     4.      Í fjórða lagi má benda á að ýmis aðildarríki hafa með ákveðnum hætti reynt að komast undan þeirri óvissu sem c-liður 3. mgr. I. gr. veldur. Þannig lagði ríkisstjórn Hollands fram tillögu sl. vor um að eignarhald hins opinbera á vatnsveitum héldist óskorað. Þó má draga vægi slíkrar lagasetningar í efa þegar kemur að því að meta hvort hún hafi forgang fram yfir ákvæði GATS. Er vísað í þessu tilliti til skýringartexta frá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (e. Guidelines for the scheduling of specific commitments under GATS – adopted 23. mars 2001) en þar er beinlínis bannað að vísa beint til laga í skuldbindingaskrám einstakra landa. Skrifa verður viðeigandi lagaákvæði beint inn í skuldbindingaskrána. Í textanum segir: „To the extent that domestic law of general application contain measures which constitude limitations, and if the Member wishes to maintain them, the commitment should describe the measures concisely. According to the agreed scheduling procedures, schedules should not contain general references to laws and regulations as it is understood that such references would not have legal implications under the GATS“.
             Þá hafa ákveðin ríki/aðilar skrifað inn í skuldbindingaskrár sínar ákveðin skilyrði með þetta takmark fyrir augum. Evrópusambandið felldi þannig inn í sitt samkomulag við Alþjóðaviðskiptastofnunina svokallaðar láréttar skuldbindingar (Horizontal Commitments) við inngöngu. Hér er fyrst og fremst um að ræða að Evrópusambandið áskilur sér rétt til að viðhalda einokun í þeim geirum þar sem veitt er almenningsþjónusta. Kröfur hafa verið gerðar um að ESB felli niður þessi skilyrði og sýnir það e.t.v. betur en margt annað hvaða hug fyrirtæki hafa á að sækja inn á opinber þjónustusvið. Skilyrði Evrópusambandsins nú er svohljóðandi: „In all EC Member States services considered as public utilities at a national or local level may be subject to public monopolies or to exclusive rights granted to private operators.“
             Nánari skýring fylgir: „Public utilities exist in sectors such as related scientific and technical consulting services, R&D services on social sciences and humanities, technical testing and analysis services, environmental services, health services, transport services and services auxiliary to all modes of transport. Exclusive rights on such services are often granted to private operators, for instance operators with concessions from public authorities, subject to specific service obligations.
             Given that public utilities often also exist at the sub-central level, detailed and exhaustive sector-specific scheduling is not practical.“
             Lagt er til að efnislega sömu skilyrði verði fest í samninga Íslands vegna GATS – svo fremi sem það er unnt.

    Það sem hefur e.t.v. valdið því að enn hefur ekki verið látið á það reyna hvernig túlka eigi c-lið 3. mgr. I. gr. er sú staðreynd að menn hafa fundið leið í kringum vandamálið, ef svo má að orði komast. Þær leiðir hafa gengið undir ýmsum nöfnum eins og „private-public-partnership“, einkaframkvæmd almannaþjónustu eða aðrar tegundir framsalsrekstrar. Sjúkrahús sem hið opinbera hefur reist og rekið í almannaþágu kann að vera dæmi um rekstur hins opinbera sem er undanskilinn GATS-samningnum, ef taka á forráðamenn Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á orðinu. En sjúkrahús er samsett af mörgum rekstrarþáttum og því er t.d. hægt að bjóða út ræstingar eða rannsóknir til einkaaðila, jafnvel þó svo ríkið borgi áfram brúsann. Ræstingar og rannsóknir falla hins vegar undir þjónustu sem þegar hefur verið felld inn í skuldbindingaskrár og því undir GATS-samninginn. Þannig er í raun hægt að færa alla starfsemi opinbers sjúkrahús undir GATS-samninginn án þess að nokkurn tíma verði látið á það reyna hvort „heilsugæsluþjónusta á vegum hins opinbera“ fellur undir GATS.
    Hvað þá almennu athugasemd varðar, að ríki ráði því sjálf hvaða geira þjónustu þær felli sérstaklega undir samninginn og því sé óþarft að fella brott margívitnaðan c-lið 3. mgr. I. gr. samningsins, þá er nauðsynlegt að hafa eftirfarandi í huga:
    Í fyrsta lagi ganga flest ákvæði GATS í gildi við undirskrift samningins, þ.m.t. 3. mgr. I. gr.
    Í öðru lagi er það staðreynd, eins og sést best á þeim kröfugerðarskiptum sem nú standa yfir sem liður í stöðugu útvíkkunarferli GATS-samningsins, að það er síaukinn þrýstingur á allar þjóðir að opna þann markað, sem hið opinbera hefur verið látið sjá um, fyrir óheftri erlendri samkeppni. Er þar ekkert undanskilið, nema ef vera skyldi varnarmál, flugumsjón að hluta og hluti af kjarnorkuiðnaði. Evrópusambandið hefur meira að segja reist þá kröfu á hendur viðskiptalöndum sínum, fyrir hönd evrópskra fyrirtækja, að fá að keppa um drykkjarvatn á markaði.
    Einnig mætti nefna kröfugerðir um opnun menntageirans, félagslega geirans, orkugeirans og heilbrigðisgeirans. Það er inn á þessi svið sem stórfyrirtækin vilja komast og til eru þeir sem segja að ef við eigum að ná fram markmiðum okkar á erlendum mörkuðum, þá sé opnun þessara markaða fyrst og fremst sú skiptimynt sem við höfum (að frátöldum fiskimiðunum). Sú skiptimynt yrði hins vegar reidd fram á kostnað velferðarsamfélagsins.