Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 209. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 261  —  209. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ágústs Ólafs Ágústssonar um heimilisofbeldi.

    Ráðuneytið leitaði eftir upplýsingum hjá embætti ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara vegna fyrirspurnarinnar og byggjast svör ráðuneytisins að meginstefnu á þeim upplýsingum er bárust í framhaldi af því.

     1.      Hvernig er skráningu heimilisofbeldis háttað hjá lögregluembættum?
    Í löggjöf hér á landi er ekki að finna ákvæði sem skilgreinir brot sem heimilisofbeldi eða hvenær beri að flokka háttsemi með þeim hætti. Af þessu leiðir að hugtakið heimilisofbeldi er ekki notað í gögnum lögreglu, ákæruvalds eða dómstóla sem formleg skilgreining á broti. Til heimilisofbeldis gætu einkum talist líkamsmeiðingar, sbr. 217. og 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, húsbrot, ofsóknir og hótanir, sbr. 231., 232. og 233. gr., og nauðgun, sbr. 194. gr., en einnig ýmis nauðungar- og frelsissviptingarbrot, sbr. 195., 225. og 226. gr. laganna. Það er ekki vandalaust að skilgreina hugtakið heimilisofbeldi enda geta ofbeldisverk innan veggja heimilanna verið margvísleg. Má í því sambandi nefna átök milli skyldra eða tengdra annars vegar og hins vegar á milli þeirra og gestkomandi, eða jafnvel ókunnugra, og oft tengt gleðskap af einhverju tagi. Með sama hætti geta átök eða ofbeldisverk milli skyldra eða tengdra átt sér stað utan heimilis sem skipt getur máli þegar litið er til þeirrar merkingar sem lögð er í þetta hugtak.
    Upplýsingar um það sem fyrirspyrjandi kallar heimilisofbeldi eru samkvæmt því sem hér er lýst ekki tiltækar með formlegum eða heildstæðum hætti hjá lögreglu, ákæruvaldi eða í dómasöfnum. Málaskrá ákæruvalds tekur við upplýsingum úr málaskrá lögreglu og er þar skírskotað til refsiákvæði laga sem háttsemi er talin varða við en ekki til brotaheitis eða brotaflokks. Hins vegar er sérstakur verkefnaflokkur tengdur dagbók og málaskrá lögreglu til að halda utan um útköll varðandi heimilisófrið sem hægt er að skrá miðað við eftirfarandi forsendur:
          Heimilisófriður, ölvun.
          Heimilisófriður, ofbeldi.
          Heimilisófriður, annað.
    Þessi skráning gefur ágætis upplýsingar fyrir lögreglu þegar hún fer í útköll, svo sem um fyrri afskipti, en gefur ekki nægilega heildstæðar upplýsingar til að byggja á tölfræðilega samantekt um heimilisofbeldi. Þó svo að tekin væru saman yfirlit yfir heimilisofbeldi, samanber ofangreinda skráningu, þá gæfi niðurstaðan ekki rétta mynd af stöðu þessara mála. Í nýrri málaskrá lögreglu og ákæruvalds, sem fljótlega verður tekin í notkun, skapast nýir möguleikar til úrvinnslu upplýsinga um ofbeldi þar sem aðilaskrá er mun ítarlegi en í núverandi kerfum, og gildir þá einu hvort mál er kært eða ekki. Þá verður með nokkuð aðgengilegum hætti unnt að taka út upplýsingar um heimilisofbeldi þar sem byggt er á tengslum aðila út frá tilteknum öðrum skilgreiningum. Eftir sem áður eru gögn lögreglu langt í frá að vera tæmandi upplýsingar um svonefnt heimilisofbeldi, þar sem einungis er hægt að byggja á málum sem tilkynnt eru til lögreglu, eða að öðru leyti eru færð í skrár lögreglu.

     2.      Hversu margar tilkynningar um heimilisofbeldi fengu einstök lögregluembætti á ári sl. tíu ár?
    Til að átta sig á fjölda málanna, eins og spurt er sl. 10 ár, er ekki önnur leið en að skoða öll mál sem sættu rannsókn á þessu tímabili. Áður þyrfti að liggja fyrir hvaða skilgreiningu miða ætti við varðandi heimilisofbeldi, en það kemur ekki fram hjá fyrirspyrjanda. Þá er rétt að vekja athygli á því að úrvinnsla svo langt aftur í tímann mundi jafnframt kalla á mjög mikla vinnu.

     3.      Hverjar voru lyktir þessara mála hjá lögreglu, ríkissaksóknara og dómstólum?
    Eins og fram kemur í svörum við 1. og 2. lið liggur ekki fyrir skilgreining á því hvaða upplýsingum nákvæmlega er óskað eftir. Af þeirri ástæðu er ekki unnt að svara þessu.