Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 308. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 336  —  308. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um lagaákvæði um heimilisofbeldi.

Flm.: Ágúst Ólafur Ágústsson, Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson,
Bryndís Hlöðversdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Katrín Júlíusdóttir,
Björgvin G. Sigurðsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Lúðvík Bergvinsson,
Jón Gunnarsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að undirbúa í samráði við refsiréttarnefnd framlagningu lagafrumvarps sem hafi það að markmiði að í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, verði tekið skýrt á brotum er flokkast undir heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi verði skilgreint í hegningarlögum þannig að þau nái yfir slík brot með heildstæðum og fullnægjandi hætti að teknu tilliti til eðlis og afleiðinga ofbeldisins.
    Ráðherra leggi frumvarpið fram eigi síðar en 1. apríl 2005.

Greinargerð.


    Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns á Alþingi 2. nóvember s.l., þskj. 261 í 209. máli, kom fram að í íslenskri löggjöf er ekki að finna ákvæði sem skilgreinir heimilisofbeldi. Þar er ekki heldur að finna upplýsingar um hvenær beri að flokka háttsemi með þeim hætti. Vegna þessa er hugtakið heimilisofbeldi ekki notað í gögnum lögreglu, ákæruvalds eða dómstóla sem formleg skilgreining á broti samkvæmt svari ráðherrans. Þar kom einnig fram að þetta leiðir til þess að hvorki eru til fullnægjandi gögn um fjölda tilkynninga til lögreglu um heimilisofbeldi né upplýsingar um lyktir þeirra mála hjá hinu opinbera.
    Þetta svar dómsmálaráðherra rennir stoðum undir þá skoðun að viðurkenna verði heimilisofbeldi í lögum, m.a. til að unnt sé að skilja umfang vandamálsins og athuga hvernig málum lyktar hjá lögreglu, ríkissaksóknara og fyrir dómstólum.
    Réttarstaðan að því er varðar heimilisofbeldi er sérstök þar sem það er ekki nefnt í hegningarlögum og það hvergi skilgreint. Segja má að heimilisofbeldi sé týndur brotaflokkur í kerfinu. Núgildandi ákvæði almennra hegningarlaga eru því ófullnægjandi að þessu leyti.
    Sá sem verður fyrir heimilisofbeldi þarf oftast að þola ofbeldi af öllu tagi, andlegt, líkamlegt og kynferðislegt, og markar það að nokkru leyti sérstöðu þessara brota. Þörf er á lagaákvæði sem nær heildstætt yfir þessi brot þar sem núgildandi ákvæði ná ekki að öllu leyti yfir eðli, umfang og raunverulegar afleiðingar heimilisofbeldis. Flutningsmenn vilja því að löggjafinn beiti sér fyrir því að sett verði lagaákvæði sem taki á heimilisofbeldi með heildstæðum og fullnægjandi hætti. Flutningsmenn telja að með slíku ákvæði væri komið til móts við þá þekkingu sem nú liggur fyrir um heimilisofbeldi. Sömuleiðis væri með því komið til móts við athugasemdir frá 23. maí 2004 frá nefnd Sameinuðu þjóðanna sem starfar samkvæmt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, þess efnis að Ísland ætti að taka upp löggjöf um heimilisofbeldi.

Núgildandi lög ófullnægjandi.
    Heimilisofbeldi felst samkvæmt skilgreiningu Samtaka um kvennaathvarf í því að einn fjölskyldumeðlimur kúgar annan í skjóli friðhelgi heimilisins og í skjóli tilfinningalegrar, félagslegrar og fjárhagslegrar bindingar. Sá sem ofbeldinu beitir getur verið maki, fyrrverandi maki, foreldri, barn eða aðrir tengdir þolandanum fjölskylduböndum samkvæmt þessari skilgreiningu.
    Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að heimilisofbeldi gegn maka er í eðli sínu kynbundið. Liggja þarf fyrir skilningur á því hvað heimilisofbeldi er til þess að unnt sé að taka með skilvirkum hætti á því. Þó er ljóst að heimilisofbeldi getur birst í mörgum myndum og gerendur geta verið ólíkir, jafnvel uppkomin börn aldraðra foreldra.
    Í heimilisofbeldismálum sem koma fyrir dómstóla er einna helst dæmt eftir ákvæðum 217. og 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þar sem mælt er fyrir um refsingar fyrir líkamsmeiðingar. Til heimilisofbeldis getur þó talist verknaður af ólíkum toga. Hér getur verið um að ræða hótanir, nauðung, frelsissvipting, einangrun, kúgun, líkamsmeiðingar, innbrot, ærumeiðingar, kynferðisbrot, nauðgun o.fl. Ólík ákvæði almennra hegningarlaga geta því tekið til þessara brota án þess að þau nái að öllu leyti yfir verknaðinn. Má þar nefna t.d. 191., 193., 194., 196., 205., 225., 226., 231., 232. og 233. gr. laganna.
    Eins og fyrr segir er fyrst og fremst 217. gr. og 218. gr. almennra hegningarlaga beitt í málum er varða heimilisofbeldi. Áhöld eru hins vegar um það hvort þessi ákvæði ein og sér nægi til að taka á því. Þessum greinum virðist helst ætlað að taka á ofbeldisbrotum karlmanna gagnvart öðrum körlum, helst brotum sem eiga sér stað utan dyra og þar sem aðilar eru ekki kunnugir. Það á síður við ofbeldi sem konur og börn verða fyrir sem á sér iðulega stað innan veggja heimilisins og getur falist í langvarandi niðurlægingu og þá jafnvel án sjáanlegra áverka.
    Í dómaframkvæmd er refsing vegna brota á 217. gr. og 218. gr. almennra hegningarlaga miðuð við þá aðferð sem beitt er og áverka sem þolanda hlýtur, svo sem beinbrot. Ákvæðin gera almenna kröfu um heilsutjón af valdbeitingunni. Jónatan Þórmundsson prófessor segir í bók sinni Afbrot og refsiábyrgð I frá 1999 að þrátt fyrir að 217. gr. sé á mörkunum að vera tjónsbrot (tilteknar afleiðingar áskildar fyrir refsinæmi) og samhverft brot (verknaður refsinæmur án tillits til afleiðinga) þá séu líkamsmeiðingar samkvæmt greininni hugsaðar sem tjónsbrot. Áherslan á beina líkamlega áverka og aðferðina við verknaðinn á hins vegar ekki eins vel við þegar kemur að heimilisofbeldi.
    Refsing skv. 217. gr. almennra hegningarlaga annars vegar og 218. gr. hins vegar er mjög mismunandi. Skv. 217. gr. getur fangelsidómur verið allt að 1 ári en skv. 218. gr. getur dómur orðið allt að 16 ára fangelsi. Eftir því sem líkamlegir áverkar eru meiri eða aðferð hættulegri eru meiri líkur á að háttsemin eigi við 218. gr. Hins vegar getur verið um að ræða mjög alvarlegt heimilisofbeldi án mikilla líkamlegra afleiðinga og án hættulegra aðferða og þá getur refsingin verið talsvert minni samkvæmt núgildandi lagaákvæðum.
    Þegar dæmt er fyrir heimilisofbeldi á ekki að skipta öllu máli hvort þolandinn hlýtur marbletti eða beinbrot. Líkamlegir áverkar þolanda eru ekki endilega rétt mælistika á alvarleika þessara brota. Aðferð gerandans við heimilisofbeldi á ekki heldur að skipta höfuðmáli við mat á alvarleika brotsins.
    Líta má á heimilisofbeldi sem brot gegn friðhelgi þolandans. Þolandi er ekki óhultur á eigin heimili og þarf að lifa í stöðugum ótta við að verða fyrir ofbeldi af hálfu maka eða foreldris. Þolandi býr þá í fjötrum ofbeldis og andlegrar kúgunar. Þá er vandamálið yfirleitt falið utanaðkomandi einstaklingum því að gerandi og þolandi eru tengdir tilfinningaböndum og skömmin af athæfinu leiðir til þess að erfitt er að brjótast undan okinu.

Áhugaverð nálgun Svía.
    Í þessu sambandi er rétt að geta þess að Svíar hafa tekið þessi mál mjög til skoðunar og skilgreint sérstakt „kvinnofridsbrot“ sem mætti þýða sem brot gegn friðhelgi kvenna. Í sænskum hegningarlögum („brottsbalken“) er að finna ákvæði um ofbeldi manns gagnvart maka eða öðrum nákomnum en þar er m.a. fjallað um brot gegn heilsu og lífi, brot gegn friðhelgi og kynferðisbrot en allt eru þetta brot sem þolendur heimilisofbeldis geta orðið fyrir. Sömuleiðis er litið til þess hvort verknaðurinn sé liður í endurtekinni vanvirðingu á friðhelgi manneskjunnar og skaði sjálfsmynd hennar alvarlega.
    Svíar hafa farið þá leið að nálgast heimilisofbeldi sem hluta af því vandamáli sem ofbeldi gegn konum er almennt og virðist sem yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn konum hafi verið höfð til hliðsjónar. Leitast er við að vinna gegn og taka á líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi sem konur verða fyrir sakir kynferðis síns. Undirliggjandi forsenda þess að þetta varð hluti af sænskum hegningarlögum er áhersla á alvarleika þeirra brota sem beinast gegn maka.

Heimilisofbeldi er mannréttindabrot.
    Heimilisofbeldi er meðal algengustu mannréttindabrota í heiminum og það á sér því miður stað í öllum samfélögum. Heimilisofbeldi var fyrst skilgreint sem mannréttindabrot á alþjóðavettvangi á mannréttindaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 1993. Á ráðstefnunni voru ríkisstjórnir hvattar til að grípa til aðgerða til að reyna að sporna við ofbeldi gegn konum og tekið fram að ekki megi réttlæta ofbeldið með vísan til siða, menningar og trúar.
    Íslensku hegningarlögin eru að meginuppistöðu frá árinu 1940, frá tíma þegar engar konur voru á þingi og mörg ákvæði þeirra bera þess merki. Flutningsmenn telja að æskilegt sé að endurskoða ákveðna kafla hegningarlaganna með það að markmiði að lögin nái betur yfir brot sem konur og börn verða aðallega fyrir. Slíkt hefur bæði verið gert í Svíþjóð og Noregi. Flutningsmenn telja einnig að tryggja eigi meðferð fyrir gerendur heimilisofbeldis en það gaf góða raun hérlendis á sínum tíma.

Löggjafinn bregðist við aukinni þekkingu á heimilisofbeldi.
    Heimilisofbeldi má ekki líðast í skjóli friðhelgi heimilis og einkalífs og er mikilvægt að lögreglan átti sig á því. Löggjafinn þarf að nota öll möguleg úrræði til að ná utan um þessi brot. Hann þarf sömuleiðis að fylgja eftir þeirri stórauknu þekkingu sem nú liggur fyrir um þann raunveruleika sem þolendur heimilisofbeldis búa við. Ekki fyrir alls löngu eða árið 1991 leit Rannsóknarlögregla ríkisins svo á að vandamál samfara heimilisofbeldi væru ekki refsiréttarlegs eðlis heldur fremur „félagslegs eðlis“. Hugtök eins og „stormasöm sambúð“ heyrast enn þegar átt er við heimilisofbeldi, sbr. nýlegan dóm Héraðsdóms Reykjaness nr. S-923/2004. Enn vottar fyrir afar forneskjulegum viðhorfum hjá dómstólum landsins þegar þolandi heimilisofbeldis er jafnvel sagður eiga sök á ofbeldinu sjálfur.
    Flutningsmenn vona að með nýju hegningarlagaákvæði um heimilisofbeldi verði íslenskt réttarkerfi betur í stakk búið að taka á þessum brotum en það hefur verið fram að þessu.
    Það er afar brýnt að skoða vandlega með hvaða hætti unnt er að skilgreina heimilisofbeldi þannig að lögregla, dómstólar og fagaðilar geti með ákveðnum hætti tekið á þessu broti. Það skiptir miklu að skilgreining brota sé nákvæm og skýr hætti, enda er skýrleiki refsiheimilda forsenda þess að þeim verði beitt. Flutningsmenn telja því rétt að refsiréttarnefnd komi að því að semja frumvarp til laga þar sem gæta þarf vel að skýrleika refsiheimilda. Dómsmálaráðherra leggi síðan fram lagafrumvarp á Alþingi eigi síðar en 1. apríl 2005.