Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 131. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 359  —  131. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um álag á Samkeppnisstofnun.

     1.      Hve mörg mál hafa beðið úrlausnar hjá Samkeppnisstofnun árlega sl. fimm ár og hver hefur meðalbiðtími eftir afgreiðslu verið á þessum árum?
    Á síðustu árum hafa að jafnaði verið til úrlausnar hjá samkeppnissviði Samkeppnisstofnunar 40–70 mál á hverjum tíma. Í upphafi þessa árs voru um 70 mál til meðferðar en nú í byrjun nóvember biðu rúmlega 80 mál úrlausnar á samkeppnissviði.
    Hjá markaðsmálasviði Samkeppnisstofnunar hafa að jafnaði verið 35–55 mál til úrlausnar á hverjum tíma. Í upphafi þessa árs voru um 55 mál til meðferðar en í byrjun nóvember voru það tæplega 40 mál sem biðu úrlausnar.
    Skýrt skal tekið fram að mál þau sem Samkeppnisstofnun fæst við eru misjafnlega umfangsmikil. Úrlausn þeirra mála sem berast getur tekið allt frá nokkrum dögum til nokkurra ára.
    Umfangsmestu mál sem Samkeppnisstofnun fæst við og mál sem eru stefnumarkandi tekur samkeppnisráð til umfjöllunar og ákvörðunar. Einföld mál og mál sem auðvelt er að finna fordæmi fyrir í ákvörðunum samkeppnisyfirvalda, þ.e. samkeppnisráðs og/eða Samkeppnisstofnunar, eru hins vegar að öllu jöfnu afgreidd af Samkeppnisstofnun. Meðferðartími mála sem koma til úrskurðar hjá samkeppnisráði er jafnaðarlega mun lengri en þeirra mála sem Samkeppnisstofnun afgreiðir. Miðað við reynslu sl. 10 ára eru ákvarðanir og álit samkeppnisráðs minna en 20% af þeim samkeppnismálum sem samkeppnisyfirvöld afgreiða á ári hverju. Af málum markaðsmálasviðs eru það um 10% sem eru afgreidd af samkeppnisráði.
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda mála sem afgreidd hafa verið hjá Samkeppnisstofnun sl. fimm ár og mál þar af sem hafa komið til úrskurðar samkeppnisráðs. Tölur fyrir árið 2004 eru áætlaðar fyrir mál alls en tölur um ákvarðanir samkeppnisráðs eru rauntölur miðað við 1. nóvember.

Mál afgreidd hjá Samkeppnisstofnun.

Samkeppnissvið Markaðsmálasvið
Ár Mál alls Samkeppnisráð Mál alls Samkeppnisráð
2000 169 34 145 12
2001 146 36 173 8
2002 144 29 152 13
2003 150 25 158 21
2004 140 14 150 7

    Til að leggja mat á meðalmálsmeðferðartíma eða meðalafgreiðslutíma á síðustu fimm árum hefur í eftirfarandi yfirliti verið höfð hliðsjón af þeim málum sem samkeppnisráð hefur tekið til afgreiðslu. Málsmeðferðartími í þessu samhengi miðast annars vegar við tímann frá dagsetningu erinda sem borist hafa samkeppnisyfirvöldum eða upphaf málsmeðferðar, þ.e. þegar um er að ræða mál sem tekin eru til skoðunar að frumkvæði samkeppnisyfirvalda, og hins vegar við dagsetningu ákvörðunar eða álits samkeppnisráðs. Lengd málsmeðferðartíma í framangreindum skilningi getur mótast af nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi felst í honum sá tími sem gagnaöflun tekur. Í öðru lagi taka málsaðilar mislangan tíma til að koma að andmælum og öðrum sjónarmiðum. Í þriðja lagi mótast málsmeðferðartími af því hvað úrvinnsla samkeppnisyfirvalda stendur lengi. Í fjórða lagi getur málsmeðferð dregist á langinn vegna þess að málsaðilar leita til áfrýjunarnefndar eða dómstóla um úrlausnarefni sem tengjast málsmeðferðinni, svo sem um aðgang að gögnum. Að síðustu getur annríki samkeppnisyfirvalda við tiltekin mál valdið drætti á lausn annarra mála. Þá hefur það áhrif á hraða málsmeðferðar að úrlausnartími samrunamála er lögbundinn. Þetta skipti sérstaklega máli fyrir gildistöku breytinga á samrunaákvæði samkeppnislaga í lok ársins 2000 en fyrir þann tíma höfðu samkeppnisyfirvöld aðeins tvo mánuði til að grípa til íhlutunar væri þess þörf. Allt framanritað ber að hafa í huga þegar eftirfarandi er metið.
    Eftirfarandi tafla sýnir meðaltal þess tíma sem mál hafa tekið frá því að erindi bárust samkeppnisyfirvöldum (eða mál var tekið til meðferðar) þangað til þau voru afgreidd hjá samkeppnisráði. Í fyrsta dálki er sýnd meðallengd málsmeðferðar allra mála fyrir hvert ár, í öðrum dálki meðallengd málsmeðferðar þeirra fimm mála sem skemmstan tíma tók að ljúka á hverju ári og í aftasta dálki meðallengd málsmeðferðar þeirra fimm mála sem lengstan tíma tóku á hverju ári.

Meðallengd málsmeðferðar samkeppnismála.


Ár Allar ákvarðanir, dagar Fimm skemmstu, dagar Fimm lengstu, dagar
2000 320 52 684
2001 336 78 715
2002 292 45 565
2003 258 82 534
20041) 545 193 1.009
1) Á árinu voru teknar ákvarðanir í tveimur mjög umfangsmikilum samkeppnismálum og tók meðferð þeirra alllangan tíma, annars vegar rannsókn á samkeppnishindrandi samstarfi á íslenska vátryggingamarkaðnum og hins vegar rannsókn á ólögmætu samráði olíufélaganna.


Meðallengd meðferðar markaðsmála.


Ár Allar ákvarðanir, dagar Fimm skemmstu, dagar Fimm lengstu, dagar
2000 203 114 296
2001 208 121 300
2002 200 18 431
2003 480 213 769
2004 324 244 416


     2.      Hvaða áhrif hefur það haft að Samkeppnisstofnun tók upp formlega forgangsröðun mála árið 2003?

    Hinn 29. janúar 2003 samþykkti samkeppnisráð að forgangsraða málum á samkeppnissviði á tilteknum mikilvægum samkeppnismörkuðum. Þetta var gert með hliðsjón af því að Samkeppnisstofnun var þá með allnokkur umfangsmikil mál á umræddum mörkuðum til meðferðar og gat illa annað fleiri málum. Þessi forgangsröðun var í gildi til 1. apríl á þessu ári. Forgangsröðunin leiddi til þess að málsmeðferð 24 nýrra erinda var frestað þar til eftir 1. apríl sl. og hlé var gert á málsmeðferð um 15 mála til sama dags. Af þeim sökum gátu liðið allt að 14 mánuðir án þess að erindi væru tekin til efnislegrar skoðunar hjá Samkeppnisstofnun.

     3.      Hve mörg mál hefur Samkeppnisstofnun tekið upp að eigin frumkvæði árlega sl. fimm ár og í hve mörgum málum á þessum tíma sem varða samkeppnishindranir hefur stofnunin talið sig hafa þurft að hafa frumkvæði að rannsókn?

    Umfangsmestu málin sem stofnunin hefur tekið til rannsóknar, t.d. svokölluð grænmetismál, tryggingamál og olíumál, hafa verið rannsökuð að frumkvæði Samkeppnisstofnunar. Þá eru öll samrunamál sem tekin eru til ítarlegrar rannsóknar tekin upp að frumkvæði Samkeppnisstofnunar. Markaðsmálasvið tekur að jafnaði upp mun fleiri mál að eigin frumkvæði en samkeppnissvið enda eru þau mun umfangsminni í allri meðferð.
    Ekki liggur fyrir hversu oft Samkeppnisstofnun hefði þurft að hafa frumkvæði að rannsókn sem varðar samkeppnishindranir á sl. fimm árum. Mat Samkeppnisstofnunar er að hún hefði þurft aukið bolmagn til að eiga frumkvæði til rannsókna.

Mál tekin upp að eigin frumkvæði Samkeppnisstofnunar.


Ár Samkeppnissvið Markaðsmálasvið
2000 3 42
2001 9 66
2002 4 42
2003 0 40
2004 4 15


     4.      Hve mikið fé telur Samkeppnisstofnun sig þurfa annars vegar til að geta með eðlilegum hætti afgreitt þau mál sem henni berast og hins vegar til að geta haft frumkvæði að rannsókn á málum sem varða alvarlegar samkeppnishindranir?

    Í framhaldi af starfi nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi er nú í ráðuneytinu unnið að gerð frumvarpa sem m.a. fela í sér stóraukin framlög til samkeppniseftirlits. Þannig verður allt starf sem varðar eftirlit með samkeppnishindrunum eflt og framkvæmd annarra þátta sem heyra undir samkeppnislög gerð skilvirkari. Þarfagreining varðandi endurskipulagningu stofnunarinnar var unnin í samvinnu við starfsmenn hennar.

     5.      Hver er skoðun ráðherra á þeirri hugmynd að eftirlitsskyldir aðilar greiði að hluta eða öllu leyti kostnaðinn við samkeppniseftirlitið eða tiltekna þætti þess?
    Samkvæmt lögum er eftirlitsskyldum aðilum gert að greiða kostnað sem hlýst af eftirliti, t.d. Fjármálaeftirlitsins og Póst- og fjarskiptastofnunar. Þeirri hugmynd hefur af og til verið varpað fram að eftirlitsskyldir aðilar greiði kostnað við samkeppniseftirlit með sama hætti. Erfitt hefur verið talið að hrinda slíkri innheimtu í framkvæmd af sanngirni vegna þess hve víðtækt gildissvið samkeppnislaganna er, þar sem þau ná til flestra þátta viðskipta- og atvinnulífsins. Öðru máli gegnir um hinar fyrrnefndu stofnanir þar sem þeir sem eftirlitið nær til eru tiltölulega fáir og vel afmarkaðir.