Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 285. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 401  —  285. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um meðferð aflaheimilda.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Eru brögð að því að Fiskistofa færi aflaheimildir milli óskyldra aðila án þess að löglegur og númeraður reikningur fylgi varðandi þau viðskipti sem um ræðir hverju sinni? Í hvaða mæli er það gert?
     2.      Hvers konar verðmyndun liggur á bak við slík viðskipti milli óskyldra aðila?
     3.      Er heimilt samkvæmt gildandi bókhalds- og skattalögum að óskyldir aðilar ákvarði verð á aflaheimildum í sumum tilfellum?
     4.      Sé um að ræða færslur aflaheimilda milli óskyldra aðila án verðlagningar, samrýmast þá slík viðskipti gildandi bókhalds- og skattalögum?


    Samkvæmt lögum annast Fiskistofa flutning aflaheimilda milli skipa. Vegna framangreindrar fyrirspurnar óskaði ráðuneytið þess vegna eftir því við Fiskistofu að Fiskistofa gerði grein fyrir því hvaða upplýsingar þyrftu að liggja fyrir áður en Fiskistofa staðfesti flutning aflaheimilda milli skipa. Fylgir hér á eftir greinargerð Fiskistofu um það efni. Er greinargerð Fiskistofu tæmandi en samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum er það ekki á verksviði Fiskistofu að líta til þeirra sérstöku atriða sem tilgreind eru í fyrirspurninni.

Aflamark.
    Um flutning aflamarks og krókaaflamarks á milli skipa gilda ákvæði 12. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, og ákvæði 10. gr. reglugerðar nr. 669/2004, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2004/2005. Eftirfarandi upplýsingar þurfa að liggja fyrir áður en flutningur er staðfestur:
          Nöfn og skipaskrárnúmer þeirra skipa sem aflamarkið óskast flutt á milli.
          Upplýsingar um magn aflamarks og verð aflamarks, nema þegar aflamark óskast flutt á milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila.
          Staðfesting Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur um fiskverð til viðmiðunar hlutaskipta milli útgerðar og áhafnar þess skips sem aflamark óskast flutt til. Sé skip það sem aflamarkið óskast flutt til minna en 12 brúttórúmlestir skal liggja fyrir staðfesting Verðlagsstofu um að gildissvið laga nr. 13/1998 nái ekki yfir viðkomandi skip og staðfesting á samningi milli útgerðar og áhafnar sé ónauðsynleg.
          Undirskrift þinglýsts eiganda og útgerðaraðila þess skips sem flutt er frá.
          Undirskrift útgerðaraðila skips sem flutt er til.

Aflahlutdeild.
    Um flutning aflahlutdeilda og krókaaflahlutdeilda á milli skipa gilda ákvæði 11. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, og ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 669/2004, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2004/2005. Einnig gilda lög nr. 75/1997, um samningsveð. Eftirfarandi upplýsingar þurfa að liggja fyrir áður en flutningur er staðfestur:
          Nöfn og skipaskrárnúmer þeirra skipa sem aflahlutdeildin óskast flutt á milli.
          Upplýsingar um magn aflahlutdeildar.
          Nýtt þinglýsingarvottorð, ekki eldra en 30 daga, varðandi það skip sem flutt er frá.
          Skriflegt samþykki allra þeirra aðila sem áttu þinglýst samningsveð í skipinu 1. janúar 1991.
          Skriflegt samþykki allra þeirra aðila sem eiga þinglýsta kvöð á skipinu þess efnis að framsal aflahlutdeilda frá skipinu sé óheimilt án samþykkis þeirra.
          Þinglýst samþykki þeirra aðila sem eiga þinglýst samningsveð í skipinu frá og með 1. janúar 1998.
          Undirskrift þinglýsts eiganda þess skips sem flutt er frá.

Eyðublöð.
    Fiskistofa hefur útbúið eyðublöð sem nota skal við flutning aflaheimilda á milli skipa.