Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 98. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 416  —  98. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um skattamál í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.

     1.      Hverjar urðu endanlegar tekjur ríkis og sveitarfélaga í formi tekjuskatts og útsvars erlendra starfsmanna sem unnu við Kárahnjúkavirkjun árið 2003?
    Opinber gjöld voru lögð á 827 erlenda starfsmenn við Kárahnjúkavirkjun. Álagning 2004 vegna tekna 2003 í formi tekjuskatts og útsvars var liðlega 266 millj. kr. Heildarálagning tekjuskatts var tæplega 150 millj. kr. og sérstaks tekjuskatts um 5 millj. kr. Heildarskattur til ríkisins var því 155 millj. kr. en útsvar til sveitarfélaganna var 111 millj. kr. Skiptist það þannig að um 30 millj. kr. runnu til Fljótsdalshrepps og 82 millj. kr. runnu til Norður-Héraðs. Fjárhæðir þessar miðast við stöðuna eins og hún var í álagningarkerfi ríkisskattstjóra 19. október 2004.

     2.      Hvernig skiptust þessar tekjur niður á mánuði, hve margir voru greiðendur hverju sinni og til hvaða sveitarfélaga runnu útsvarstekjurnar, sundurliðað eftir mánuðum?
    Við álagningu er dregin frá heildarstaðgreiðsla á staðgreiðsluári samkvæmt innsendum sundurliðunum launagreiðenda en ekki sundurliðað eftir mánuðum. Þessar upplýsingar liggja því ekki fyrir.

     3.      Hvert runnu útsvör, ef einhver voru, erlendra starfsmanna sem lengur eða skemur unnu við Kárahnjúkavirkjun en voru á svonefndri utangarðsskrá?
    Erlendir starfsmenn hérlendis bera hér ýmist fulla og ótakmarkaða skattskyldu skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, eða takmarkaða skattskyldu skv. 1. tölul. 3. gr. sömu laga. Ræðst það af því hversu löng dvöl þeirra er hér á landi. Skattskyldan ræðst ekki af því hvernig skráningu á svokallaða utangarðsskrá var háttað. Engin þörf er þess vegna fyrir upplýsingar um hvaða einstaklingar voru skráðir á utangarðsskrá við álagningu opinberra gjalda. Upplýsingar þessar liggja því ekki fyrir.

     4.      Hvernig gekk innheimta skatttekna af þeim erlendu starfsmönnum á vegum starfsmannaleiga aðal- eða undirverktaka sem dvöldu hér um skamman tíma og hurfu svo aftur úr landi innan ársins, t.d. margra sem unnu við uppsetningu vinnubúða?
    Eins og fram kemur í svari við 3. lið bera erlendir starfsmenn sem ráðast til starfa hér á landi ýmist fulla eða takmarkaða skattskyldu eftir dvalartíma. Þá eru ótaldir erlendir starfsmenn sem sendir eru tilfallandi hingað á vegum erlendra aðila án þess að verða nokkurn tíma skattskyldir hér. Dæmi eru um að réttur til skattlagningar færist yfir til þeirra ríkja sem gerðir hafa verið tvísköttunarsamningar við, t.d. þegar maður dvelur 183 daga eða skemur hér á landi og fær laun fyrir vinnu í þágu aðila sem er heimilisfastur í hinu erlenda samningsríki án þess að hafa hér á landi fasta atvinnustöð sem gjaldfærir greiðslurnar. Ljóst er að sá hópur sem hér er spurt um tekur vafalaust yfir öll þessi tilvik.
    Launagreiðendum ber skylda til að halda eftir staðgreiðslu af launum starfsmanna sinna og skila henni mánaðarlega til tollstjórans í Reykjavík og sýslumanna eftir því sem við á. Ef launagreiðandi sinnir ekki afdrætti opinberra gjalda skal innheimtumaður gera fjárnám hjá honum fyrir þeim afdrætti er hann átti að gera skil á, enda ber launagreiðandi skv. 2. mgr. 115. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þess fjár. Einnig bera þeir sem hafa í þjónustu sinni erlenda ríkisborgara eða ríkisfangslausa menn, er fengið hafa landvistar- eða dvalarleyfi hér á landi um tiltekinn tíma, ábyrgð á skattgreiðslum þeirra, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 116. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.
    Samkvæmt upplýsingum úr innheimtukerfi ríkisins eru eftirstöðvar skatta þeirra fyrirtækja sem starfað hafa við Kárahnjúkavirkjun ekki umfram það sem venjulegt getur talist og staðgreiðsla berst reglulega.

     5.      Hve margir erlendir starfsmenn, sem unnu lengur eða skemur við byggingu Kárahnjúkavirkjunar á síðasta ári, skiluðu skattframtali hér á landi vegna tekna ársins, sbr. 90. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt?
    Samkvæmt upplýsingum frá Skattstofu Austurlands var 8. nóvember sl. búið að skila 171 framtali vegna erlendra starfsmanna sem unnu við Kárahnjúkavirkjun á árinu 2003, og fer þeim fjölgandi.
    Alls voru lögð opinber gjöld á 827 erlenda starfsmenn eins og fyrr segir. Þegar álagningin byggðist ekki á innsendu framtali var hún byggð á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá 2003.

     6.      Hafa verkkaupi, aðalverktaki eða eftir atvikum aðrir hlutaðeigandi uppfyllt staðgreiðsluskyldu sína að fullu, sbr. ákvarðandi bréf ríkisskattstjóra frá 27. ágúst 2003, og einnig þegar í hlut á vinnuafl á vegum undirverktaka eða erlendra starfsmannaleigufyrirtækja?
    Leitað var til embættis ríkisskattstjóra en honum er óheimilt að upplýsa um skattskil einstakra gjaldenda. Með hliðsjón af því um hve fáa aðila er að ræða í því tilviki sem spurt er um er ekki unnt að veita umbeðnar upplýsingar.

     7.      Eru ennþá óútkljáð mál tengd Kárahnjúkavirkjun sem varða skattskyldu, skil á staðgreiðslu, skattheimtu og skattaframkvæmd almennt og, ef svo er, hvar eru þau deilumál á vegi stödd?
    Nokkur mál er varða skattskyldu og staðgreiðslu eru óútkljáð en samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra er ekki hægt að upplýsa um stöðu einstakra mála.

     8.      Er ráðuneytið enn þeirrar skoðunar að engin sérstök álitamál eða vandamál hafi komið upp, né séu líkleg til þess, í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar, sbr. svar við fyrirspurn á þingskjali 821 á 130. löggjafarþingi?
    Að mati ráðuneytisins eru engin sérstök álitamál eða vandamál uppi í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar umfram það sem upp kann að koma vegna framkvæmda af þessari stærðargráðu.