Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 273. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 477  —  273. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur um barnabætur.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hyggur ráðherra á hækkun barnabóta?
     2.      Er fyrirhugað að afnema tekju- og eignatengingu barnabóta að hluta eða í heild?


    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segir að markmið á kjörtímabilinu sé m.a. að auka beinan stuðning við barnafjölskyldur með hækkun barnabóta og frítekjumarks þeirra, auk þess sem markmiðið sé að draga áfram úr tekjutengingu barnabóta. Í samræmi við það lagði ríkisstjórnin nýverið fram á Alþingi frumvarp til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og er í því gert ráð fyrir umfangsmiklum breytingum á barnabótakerfinu sem komi til framkvæmda í tveimur áföngum, þ.e. á árunum 2006 og 2007. Í frumvarpinu er auk þess gerð tillaga um almenna 3% hækkun á viðmiðunarfjárhæðum laganna, m.a. viðmiðunarfjárhæðum barnabóta, sem komi til framkvæmda við álagningu á árinu 2005.
    Samkvæmt tillögu frumvarpsins má skipta breytingum barnabótakerfisins í fernt og eiga þær að koma til framkvæmda í tveimur áföngum á árunum 2006 og 2007. Í fyrsta lagi er lagt til að ótekjutengdar barnabætur hækki um samtals 50% til viðbótar þeim 3% sem gert er ráð fyrir að fjárhæðir þeirra hækki á árinu 2005. Þar af hækki bæturnar um 25% frá ársbyrjun 2006. Í öðru lagi er gerð tillaga um 10% hækkun tekjutengdra barnabóta til viðbótar þeim 3% sem áður voru nefnd, og að sú hækkun komi til framkvæmda í ársbyrjun 2006. Í þriðja lagi er lagt til að viðmiðunarmörk tekna vegna tekjutengdra barnabóta hækki samtals um 50%, auk áðurnefndra 3% árið 2005. Þar af hækki viðmiðunarfjárhæðirnar um 25% frá ársbyrjun 2006. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að skerðingarhlutföll tekna við ákvörðun barnabóta lækki úr 3% með einu barni, 7% með tveimur börnum og 9% með þremur börnum eða fleiri, í 2%, 6% og 8% í sömu röð og að sú lækkun komi til framkvæmda á árinu 2007. Áætlaður kostnaður ríkissjóðs af þessum breytingum er talinn verða um 2,4 milljarðar kr. þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda. Þar af eru áætluð áhrif á útgjöld ársins 2006 um 1,2 milljarðar kr.
    Ahygli fyrirspyrjanda skal vakin á því að með lögum nr. 166/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, var eignatenging barnabóta afnumin.