Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 298. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 532  —  298. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um stóriðju og mengun.

     1.      Hversu mikið var heildarútstreymi brennisteinsdíoxíðs (SO2) af mannavöldum 2002:
                  a.      á öllu landinu,
                  b.      á svæðinu frá Grundartanga til Straumsvíkur?

    Árið 2002 var heildarútstreymi brennisteinstvíoxíðs á landinu öllu tæplega 10 þús. tonn. Ekki liggur fyrir nákvæm skipting milli landsvæða en áætla má að á svæðinu frá Grundartanga til Straumsvíkur að báðum meðtöldum hafi útstreymi brennisteinsdíoxíðs verið nálægt 6 þús. tonnum árið 2002.

     2.      Hyggst ráðherra veita heimild fyrir því að rafskautaverksmiðja verði reist á Katanesi og að járnblendiverksmiðjan á Grundartanga verði stækkuð?
    Skipulagsstofnun hefur metið umhverfisáhrif vegna starfsemi rafskautaverksmiðju á Katanesi í samræmi við lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og fallist á framkvæmdina þar sem verksmiðjan muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem stofnunin setur. Úrskurður stofnunarinnar hefur verið kærður til umhverfisráðherra og er sem stendur til meðferðar í ráðuneytinu. Framkvæmdin er einnig starfsleyfisskyld samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Starfsleyfisveitandi er Umhverfisstofnun og verður starfsleyfi ekki veitt fyrr en niðurstaða er fengin í mati á umhverfisáhrifum þar sem taka verður tillit til niðurstöðu úr matinu. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar er kæranlegt til umhverfisráðherra. Bæði mat á umhverfisáhrifum og starfsleyfi verksmiðjunnar eru þannig í stjórnskipulegu ferli og ótímabært að fjalla frekar um málið á þessu stigi.
    Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga hefur starfsleyfi til reksturs fjögurra ofna með framleiðslugetu sem nemur 190 þús. tonnum. Núna eru reknir þrír ofnar með framleiðslugetu sem nemur 120 þús. tonnum. Stækkun sem nemur mismuninum er ekki matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem starfsleyfið var gefið út fyrir gildistöku eldri laga um mat á umhverfisáhrifum sem var 1. maí 1994. Stækkun Járnblendiverksmiðjunnar umfram 190 þús. tonna ársframleiðslu kallar hins vegar á að sú framkvæmd verði tilkynnt til Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sem þá tæki ákvörðun um hvort meta ætti framkvæmdirnar eða ekki. Auk þess þarf að breyta starfsleyfi.
    Rétt er að benda á að þynningarsvæði sem ákveðið var vegna reksturs stóriðju í Hvalfirði rúmar rekstur rafskautaverksmiðju á Katanesi sem nemur 340 þús. tonnum, afköstum álversins að allt að 300 þús. tonnum á ári og stækkun Járnblendiverksmiðjunnar í 190 þús. tonn.

     3.      Hver verður árleg heildarlosun brennisteinsdíoxíðs af mannavöldum á landinu öllu með álveri í Reyðarfirði, stækkun álversins í Straumsvík í 460.000 tonn á ári, stækkun álversins á Grundartanga í 300.000 tonn á ári, 340.000 tonna rafskautaverksmiðju á Katanesi og stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga í 190.000 tonn á ári verði hún heimiluð?

    Ef gert er ráð fyrir 322.000 tonna álveri í Reyðarfirði, 460.000 tonna álveri í Straumsvík, 300.000 tonna álveri á Grundartanga, 340.000 tonna rafskautaverksmiðju á Katanesi og 190.000 tonna járnblendiverksmiðju á Grundartanga yrði árlegt heildarútstreymi brennisteinstvíoxíðs á landinu öllu að líkindum um 22 þús. tonn. Þá er miðað við óbreytt brennisteinsinnihald rafskauta frá því sem nú er og ekki gert ráð fyrir frekari hreinsun á afgasi verksmiðjanna en er nú. Útstreymi er annars vegar háð magni brennisteins í eldsneyti og rafskautum og hins vegar mengunarvarnabúnaði. Útstreymi gæti því hugsanlega breyst ef annað hvort hreinsun afgass ykist, eða brennisteinsinnihald eldsneytis og/eða rafskauta breyttist á næstu árum.

     4.      Miðað við að stækkanir stóriðjuveranna þriggja á Grundartanga og í Straumsvík gangi eftir og rafskautaverksmiðja verði reist á Katanesi, hversu mikil verður þá heildarlosunin á svæðinu af:
                  a.      brennisteinsdíoxíði (SO2),
                  b.      flúor,
                  c.      þrávirkum efnum,
                  d.      ryki,
                  e.      koldíoxíði (CO2) og öðrum gróðurhúsalofttegundum,
                  f.      öðrum mengandi efnum?

    Árlegt útstreymi loftmengunarefna á svæðinu frá Grundartanga til Straumsvíkur verði stóriðjuverin þrjú stækkuð eins og fyrirspyrjandi gerir ráð fyrir og 360.000 tonna rafskautaverksmiðja reist á Katanesi gæti orðið:
     a.      Um 13 þús. tonn af brennisteinstvíoxíði.
     b.      Um 400 tonn af flúor og ólífrænum flúorsamböndum.
     c.      Útstreymi þrávirkra efna liggur ekki fyrir á þessari stundu. Stefnt er að því að útstreymisbókhald fyrir þrávirk lífræn efni og þungmálma verði tilbúið fyrri hluta næsta árs.
     d.      Útstreymi á ryki frá verksmiðjunum þremur yrði um 1.000 tonn miðað við að útstreymi á hvert framleitt tonn yrði svipað því sem er í dag. Heildarútstreymi ryks á svæðinu liggur ekki fyrir á þessari stundu.
     e.      Útstreymi gróðurhúsalofttegunda yrði um 3,0 milljón tonn CO 2-ígildi, þar af væri útstreymi koltvíoxíðs um 2,6 millj. tonn.
     f.      Þessi úttekt nær til þeirra loftmengunarefna sem til eru upplýsingar um.

     5.      Hver yrði áætluð heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju með tilkomu framangreinds verksmiðjureksturs og hvernig félli hún að „íslenska ákvæðinu“ og öðrum skuldbindingum Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni? Óskað er sundurliðunar eftir verksmiðjum.

    Ef gert er ráð fyrir að framangreind stækkun stóriðjuvera verði öll að veruleika yrði áætlað heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 5,4 millj. tonna CO 2-ígilda. Þar af væri útstreymi frá stóriðjuverunum um 2,6 millj. tonna, sbr. eftirfarandi töflu.


Útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju (þús. tonn CO2-ígildi)



Verksmiðja

CO2

PFC

GHL
Losun, sem gæti fallið undir „íslenska ákvæðið“
Alcan (460.000 tonn) 690 92 782 553
Norðurál (300.000 tonn) 450 66 516 450
Fjarðaál (322.000 tonn) 486 71 557 486
Járnblendi (190.000 tonn) 665 - 665 462
Rafskautaverksmiðja (320.000 tonn) 125 - 125 -
Samtals 2.416 230 2.645 1.951

    Í fyrrgreindum útreikningum er reiknað með að allar verksmiðjur séu komnar í fullan rekstur miðað við þær forsendur sem gefnar eru upp í fyrirspurninni. Hins vegar hefur ekki verið ákveðið að ráðast í allar þær stækkanir sem gefið hefur verið leyfi fyrir og ljóst að ekki mun hafa komið til þeirra allra þegar fyrsta skuldbindingartímabil Kýótó-bókunarinnar hefst árið 2008. Það fer eftir tímasetningum framkvæmda hvernig þær falla að skuldbindingum Íslands, þ.m.t. „íslenska ákvæðinu“, þar sem Kýótó-bókunin nær til tímabilsins 2008–2012 og ekki hefur verið gengið frá tölulegum skuldbindingum á síðari stigum.
    Samkvæmt nýlegum útreikningum iðnaðarráðuneytisins mun aukning í árlegri losun koltvísýrings síðan 1990 frá nýrri stóriðju nema um 1.183 þús. tonnum, sé tillit tekið til aukningar sem orðið hefur á stóriðju og þeirri stóriðju sem samið hefur verið um (Fjarðaál og Norðurál) fram yfir fyrsta skuldbindingartímabil Kýótó-bókunarinnar 2008–2012. Aukningin er svohljóðandi, eftir fyrirtækjum, í þúsundum tonna koltvíoxíðs:

Núverandi og fyrirsjáanleg framleiðsla 2008–2012 (þús. tonn) Aukning frá 1990 fram til 2008–2012
(þús. tonn)
Aukning árlegrar losunar
(þús. tonn CO2)
ALCAN 175 87 130
Járnblendiverksmiðjan 115 52 175
Norðurál 260 260 392
Fjarðaál 322 322 486
Samtals 872 721 1.183
Losunarheimild samkvæmt íslenska ákvæðinu
1.600
Mismunur til ráðstöfunar 417

    Samkvæmt þessu vantar um 417 þús. tonn upp á að íslenska ákvæðið sé fullnýtt við byrjun skuldbindingartímabilsins. Hugsanlegt er að farið verði í aðrar framkvæmdir sem gætu fallið undir íslenska ákvæðið á skuldbindingartímabilinu, sem myndi þýða meira útstreymi en samkvæmt fyrrgreindum útreikningum. Ef heildarútstreymi frá stóriðju sem fellur undir íslenska ákvæðið yrði meira en sem svarar til þeirra heimilda sem þar er að finna, eða 1.600 þús. tonna CO 2, yrðu einstök fyrirtæki sem færu fram úr heimildum sínum að kaupa kvóta eða stuðla að bindingu kolefnis sem svaraði umframlosun fyrirtækisins.
    Hvað almennar skuldbindingar Íslands varðar, þá fellur losun PFC frá álverum innan þeirra. Í stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar frá 2002 segir að tryggt verði að fyrirtæki í áliðnaði geri fullnægjandi ráðstafanir til þess að halda útstreymi flúorkolefna frá framleiðslunni í lágmarki. Samkvæmt spám er gert ráð fyrir að losun PFC frá álverum rúmist innan almennra losunarheimilda Íslands á fyrsta skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar. Losun frá rafskautaverksmiðju á Katanesi félli ekki undir íslenska ákvæðið, þar sem hún nær ekki þeim stærðarmörkum sem þar eru sett og hún mundi ekki nýta endurnýjanlega orku sem meginorkugjafa. Ekki hefur verið gert ráð fyrir losun frá henni í spám og er óvíst hvort útstreymi frá verksmiðjunni rúmaðist innan almennra losunarheimilda Íslands. Nauðsynlegt er að skoða með hvaða hætti hægt væri að mæta því, svo sem með kaupum á losunarheimildum, eða bindingu kolefnis til mótvægis við útstreymi.