Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 183. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 610  —  183. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um veðurþjónustu.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Einar Sveinbjörnsson, formann nefndar sem var falið að semja frumvarp þetta, og Sigrúnu Ágústsdóttur frá umhverfisráðuneyti.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Siglingastofnun Íslands, Landsvirkjun, Vegagerðinni, Bændasamtökum Íslands, Veðurstofu Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, ríkislögreglustjóra og Ríkisendurskoðun.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 130. löggjafarþingi en varð þá ekki útrætt og er nú lagt fram að nýju með smávægilegum breytingum.
    Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um veðurþjónustu. Tilgangur frumvarpsins er að skilgreina betur en gert er í gildandi lögum hlutverk ríkisins í rekstri veðurþjónustu og draga skýrari línur milli grunnþjónustu, sem Veðurstofu Íslands er skylt að sinna og greiða skal úr ríkissjóði, og sérþjónustu, sem veitt er samkvæmt ósk kaupanda og rekin er á markaðslegum forsendum.
    Nefndin telur ástæðu til að taka tillit til nokkurra athugasemda sem fram komu í umsögnum sem bárust nefndinni. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Við 3. gr. eru lagðar til nokkrar breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að á eftir orðunum „nokkurra daga“ í 2. tölul. komi „eða skemur“, enda eðlilegt að spárnar sem þar um ræðir geti náð til styttri tíma en nokkurra daga. Í öðru lagi er lagt til að hugtakinu „tölvuspár“ í 8. tölul. verði breytt í „tölvureiknuð spágögn“ og að skilgreiningunni verði breytt í „rafrænt reiknaðar spár á ýmsum veðurþáttum sem settar eru fram á myndrænu eða stafrænu formi“, þar sem nefndin telur að skilgreiningin eins og hún er nú sett fram í frumvarpinu takmarkist ekki við spár og sé því of víðtæk. Þá má benda á að í 3. tölul. 3. gr. er talað um tölvureiknuð spágögn og því fer betur á að gætt sé samræmis og að það hugtak sé skilgreint. Í þriðja lagi er lagt til að í stað „þ.e.“ í 9. tölul. komi „þ.m.t.“ enda er þar ekki um tæmandi talningu að ræða. Í fjórða lagi er lagt til að í stað orðanna „ofanflóð, hafísútbreiðsla“ í 10. tölul. komi „m.a. ofanflóð, hafís, snjóalög“. Af sömu ástæðu og nefnd var hér að framan er bætt við orðunum „m.a.“ enda ekki um tæmandi talningu að ræða. Þá er orðinu „hafísútbreiðsla“ breytt í „hafís“ þar sem síðarnefnda orðið er almennara og í samræmi við 3. tölul. 3. gr. laga nr. 30/1985, um Veðurstofu Íslands (sem falla mun brott), en þar er talað um hafís.
     2.      Við 5. gr. er lagt til að í stað orðanna „að auki“ í 3. málsl. 1. mgr. komi „að afla gagna fyrir grunnþjónustu og“. Orðunum „að auki“ er ofaukið þar sem ekki er fjallað um markmið með rekstri grunnkerfa Veðurstofu Íslands fyrr í greininni. Þá þykir rétt að nefna að eitt af markmiðunum sé að afla gagna fyrir grunnþjónustu.
     3.      Við 6. gr. er lagt til að b-liður hefjist á orðunum „miðla rauntímagögnum og“, sbr. 4. tölul. 3. gr. frumvarpsins en þar kemur fram að miðlun rauntímagagna teljist til grunnþjónustu og þykir rétt að hnykkja á því í 6. gr.
     4.      Við 9. gr. er annars vegar lagt til að viðvörunum verði einnig komið tafarlaust á framfæri við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og hins vegar þá miðla sem um getur í 8. gr. auk staðbundinna miðla sem þegar er getið í greininni. Viðbótin er færð inn þar sem betur fer á því að samræmis sé gætt milli 8. og 9. gr. Nefndin bendir á að í 2. gr. laga um almannavarnir, nr. 94/1962, er kveðið á um skyldu opinberra aðila, einstaklinga og stofnana til að aðstoða almannavarnir við að rækja lögbundið hlutverk sitt. Því telur nefndin nauðsynlegt að í nýjum heildarlögum um veðurþjónustu sé skýrt kveðið á um skyldu Veðurstofu Íslands til að koma viðvörunum sínum um yfirvofandi hættu af völdum veðurs og veðurtengdra þátta tafarlaust á framfæri við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sem gegnir öryggis- og samhæfingarhlutverki samkvæmt almannavarnalögum.
     5.      Lagðar eru til breytingar á orðalagi og uppsetningu 1. mgr. 10. gr., er fjallar um sérþjónustu, með það að markmiði að greina betur sérþjónustuna frá grunnþjónustunni, enda mikilvægt að skilin séu skýr.
     6.      Við 12. gr. er lagt til að í stað orðanna „og tölvuspáa“ komi „þar á meðal tölvureiknaðra spágagna“ til samræmis við breytingartillögu nefndarinnar við 8. tölul. 3. gr. en þau eru líka veðurgögn og því er „þar á meðal“ sett inn í staðinn fyrir „og“.
    Í umsögn ríkislögreglustjóra kemur fram að með vísan til 4., sbr. 11. tölul. 1. mgr. 3. gr. telji hann að gerð sérspáa fyrir almannavarnir og viðvaranir til almannavarna falli undir ákvæðið um grunnþjónustu og því skuli ekki greiða sérstaklega fyrir þá þjónustu. Nefndin telur rétt að taka fram, svo það sé engum vafa undirorpið, að slík atriði eru hluti af öryggisþjónustu og þar með grunnþjónustunni.
    Í umsögn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands var lagt til að siglingum yrði bætt við c-lið 6. gr. frumvarpsins þar sem þýðing grunnþjónustunnar fyrir siglingar væri álíka mikilvæg og fyrir flugumferð. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að í c-lið sé getið sérstaklega flugveðurþjónustu, ekki síst vegna víðtæks hlutverks Íslands í samningum við Alþjóðaflugmálastjórnina. Með hliðsjón af því virðist hafa verið talin sérstök ástæða til að hafa sérstakan lið fyrir flugvelli og flugumferð í 6. gr. Enda er það mat nefndarinnar að siglingar falli undir aðra liði greinarinnar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Steinunn K. Pétursdóttir sat fund nefndarinnar og er hún samþykk áliti þessu.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. des. 2004.Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.Gunnar Birgisson.


Kjartan Ólafsson.


Kolbrún Halldórsdóttir.Mörður Árnason.


Valdimar L. Friðriksson.