Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 382. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 662  —  382. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar um eldvarnaeftirlit.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu oft hafa stofnanir sem sinna eldvarnaeftirliti lagt á dagsektir til að þvinga fram úrbætur í brunavörnum? Hversu oft hafa þær fengið álagðar dagsektir greiddar og hversu háar dagsektir innheimtust árið 2003 og það sem af er þessu ári?

    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur fengið frá Brunamálastofnun höfðu dagsektir fram til ársins 2003 verið samþykktar fjórum sinnum í sveitarstjórnum, sem fara með framkvæmd eldvarnaeftirlitsins, þar af tvisvar árið 2002. Frá ársbyrjun 2003 til desember 2004 hafa dagsektir verið samþykktar í tíu tilvikum. Dagsektir eru úrræði til að þvinga fram úrbætur og hafi úrbætur verið gerðar áður en til innheimtu dagsekta er gripið falla þær niður enda markmiðinu náð. Í áðurnefndum tilvikum háttar svo til að úrbætur hafa verið gerðar eða frestur, sem gefinn hefur verið, er ekki liðinn. Því hefur ekki komið til innheimtuaðgerða af hálfu hlutaðeigandi sveitarfélaga til þessa.