Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 302. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 690  —  302. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um hlunnindatekjur og ríkisjarðir.

     1.      Hverjar eru hlunnindatekjur á ríkisjörðum og hverjir njóta þeirra?
    Í 2. gr. jarðalaga, nr. 81/2004, eru hlunnindi skilgreind sem hvers konar auðlindir, nytjar aðrar en grasnytjar, lífræn og ólífræn efni og efnasambönd, villt dýr, plöntur, annað lífríki og önnur nýtanleg réttindi sem fylgja jörð.
    Í 11. gr. ábúðarlaga, nr. 80/2004, er ákvæði um að undanskilin í leiguliðaafnotum séu vatns- og jarðhitaréttindi, þ.m.t. jarðhiti, námur, byggingarefni, svo sem sand- og malarnámur og önnur jarðefni sem ekki geta talist til venjulegra leiguliðaafnota af jörð, einnig land til nauðsynlegra bygginga svo að eigandi geti hagnýtt þessi efni. Ábúandi á þó rétt á vatni til áveitu og heimilisrafstöðvar og til upphitunar á mannvirkjum jarðar, þ.m.t. gróðurhúsum til eigin atvinnurekstrar. Enn fremur hefur ábúandi rétt til sölu rafmagns inn á viðkomandi dreifikerfi, allt að 2 MW. Þá á ábúandi rétt á byggingarefni til búsþarfa. Jarðareigandi og ábúandi geta samið um víðtækari afnot af réttindum.
    Leitað var til landbúnaðarráðuneytisins og þar kom fram að þegar ríkisjörðum er ráðstafað til ábúenda þá fylgja önnur hlunnindi jarðarinnar með í leigu jarðarinnar. Núverandi reglur landbúnaðarráðuneytisins kveða á um að við ákvörðun árlegs afgjalds fyrir ríkisjörð skuli m.a. miða við þá matsliði í fasteignaskrá sem eru í eigu ríkisins á jörðinni. Ef einhver hlunnindi eru tíunduð í fasteignamatinu er því innheimt af þeim hlunnindum sem þar eru tilgreind í upphafi ábúðar.
    Eðli málsins samkvæmt er það mjög breytilegt eftir jörðum hvaða möguleikar eru til að nýta hlunnindi, en það er einnig misjafnt hve mikla vinnu hinir einstöku ábúendur leggja í nýtingu hlunnindanna. Í sumum tilvikum krefst nýting hlunninda mikillar útsjónarsemi, en tiltölulega auðvelt er að gera sér mat úr öðrum.

     2.      Hvernig skiptast tekjurnar milli helstu hlunnindaflokka, hvernig milli skattumdæma og hvernig milli tegunda embætta?
    Vegna þessa liðar fyrirspurnarinnar var leitað til embættis ríkisskattstjóra sem fór yfir öll tiltæk gögn í vörslu embættisins en taldi á grundvelli þeirra sér ekki mögulegt að veita umbeðnar upplýsingar.